Eigna"tilfærsla" - Eignaupptaka?

Ágætur þáttur hjá Agli í dag, frekar málefnalegt og jafnvel fræðilegt margt sem fram kom. Umræðan um verðtrygginguna, skuldir heimilanna og fleira eru í sama farvegi og áður og það mun mikið þurfa að ganga á áður en fjármálafyrirtækin viðurkenna eitt eða neitt um sín mál.


En allt er nú fært til í gegn um gjaldmiðilinn og ýmsar ráðstafanir sem þarf á hverjum tíma. Verðmæti sem nemur mörgum árlegum þjóðarframleiðslum Íslands hafa verið flutt til með ýmsum hætti allan lýðveldistímann og þar áður með verðstýringu krúnunnar og opinberri einokun. Öll þessi langa og ljóta saga greinir skilmerkilega frá því hver það er sem borgar þegar illa fer. Það er almúgamaðurinn sem borgar. Einu gildir hvort hann dregur fram lífið af vinnu suður við Miðjarðahaf eða við Faxaflóann.


Í máli Vilhjálms Bjarnasonar  í Silfri Egils í dag 29. Janúar 2012 kom margt rétt og skýrt fram. Skiljanlegt er að fjármálastofnanir og fjáreigendur vilji fá sitt af fjalli óskert.  En nú varð fjárfellir og stórbændurnir ætla að draga sér fé í almenningnum að þeirri tölu sem þeir ráku á fjall. Þeir telja sig eiga sitthvað inni hjá kotbændunum og ætla að taka af þeim það fé sem upp á vantar vegna fellisins. Þessar eru afleiðingar þess sem gerðist á Íslandi og víðar 6. október 2008. Íslenskir bankamenn líta á þann dag sem fremur venjubundinn dag .... að því frátöldu að bankakerfið varð gjaldþrota.


Fellirinn stafar af manngerðum hamförum í fjármálakerfi heimsins, svikum, þjófnaði, fölsunum; sem allt er sprottið af einni af grunnstoðum mannlegrar eigindar; óseðjandi græðgi eftir efnislegum verðmætum, völdum og öllu því sem fá má af hvoru tveggja.


Í febrúar 1979 var innleitt nýtt  fyrirkomulag í fjárskipum banka og ríkis við almenning. Sett var upp til bráðabirgða kerfi sem fylgist með almennu verðlagi í landinu. Einstaklingar sem skulda fé fá reikning verði hækkun á markaðsvörum sem notaðar eru til þess að mæla og segja fyrir um breytingar á vísitölu. Verði hækkun gengur hún út í gegn um fjármálakerfið sem nemur prósentustigi skv. útreikningum. Samtímis rýrna laun og greiðslugeta skuldaranna um nákvæmlega sömu prósentu


Einfalt, ekki satt? Vísitölutryggingin var skammtímaráðstöfun sem menn gerðu sér grein fyrir að gæti ekki staðið til frambúðar, sennilegast vegna þess að hún myndi óáreitt gera almenning eignalausan á nokkrum árum. Stærsti einstaki þátturinn í fjármálum einstaklinga sem eru svo grátt leiknir í þessari svikamyllu er fjárfesting þeirra í fasteignum. Með innleiðingu Húsbréfakerfisins komst nál. 70% alls íbúðarhúsnæðis í landinu í eigu ríkisins í gegn um Íbúðalánasjóð. Og vel að merkja, hann á enn eftir að segja frá skiptum sínum við bankana á árinu 2004. Verðtryggð lán til 40 ára og því ævintýralega snjalla bragði að leggja alltaf hluta verðbótanna aftur við höfuðstól, tryggir það án afbrigða að lang flestir sem taka slík lán munu aldrei eignast eitt eða neitt.


Ráðherrar og aðrir sem hafa aðgang að fjármálakerfinu hafa stundað þá íþrótt af miklu kappi að færa eignir frá almenningi til ríkis og banka í gegn um ýmsar hátt skattlagðar vörur eins og bensín og brennivín. Hvort tveggja er inni í vísitölugrunninum. Verðhækkanir á þessum vörum, vegna hækkaðrar skattheimtu eða beinna verðbreytinga hafa þekkt jaðaráhrif á alla vísitölutryggða fjármálagerninga, þeim til hækkunar. Þannig eru milljarðar færðir úr vösum almennra skuldara til fjármagnseigenda með bellibrögðum á meðan lántakar sofa á sitt græna eyra. 

Breytingar á vísitölunni eru þessu til viðbótar taldar meira eða minna upp skáldaðar. Flestar faglegar rannsóknir á þessu fyrirbæri benda eindregið til þess að það sé „bólgið“, þ.e. að breytingar séu ofreiknaðar. Þetta minnir á þá aðferð svikulla kaupmanna frá fyrri tíð að sverfa nokkur grömm úr lóðum sem notuð voru á reizluna við afgreiðslu sekkjavöru.  Þetta kerfi var reynt í Bandaríkjunum upp úr 1970, en frá því var snarlega horfið þegar menn gerðu sér ljósar afleiðingarnar gagnvart milljónum manna sem yrðu rændir aleigu sinni vegna þess hve fyrirsjáanlega ónákvæmur og hlutdrægur allur útreikningur yrði


Forsvarsmenn fjárfesta, eigendur fjármálafyrirtækja, bankastjórnendur og  yfirstjórn Seðlabanka Íslands þurfa að svara með haldbærum rökum einni spurningu. Á henni veltur allt þetta ferli:


Af hverju eiga lántakar einir að bera alla áhættu af skiptum sínum við fjármagnseigendur? Menn geta sleppt allri fræðilegri umræðu eða pexi um það hvernig vísitalan er notuð til að skattleggja alla, skulduga og skuldlausa. Málið snýst um áhættu eins og gildir í öllum viðskiptum.

Hver á að bera áhættuna af viðskiptunum og af hverju?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Erlingur Alfreð Jónsson

Samlíkingin við fjárréttirnar er með því besta sem ég hef séð í þessari umræðu.

Erlingur Alfreð Jónsson, 29.1.2012 kl. 18:11

2 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Virkilega flottur pistill.  Sammála Erling um að samlíkingin er með því besta sem ég hef séð.

Marinó G. Njálsson, 29.1.2012 kl. 18:27

3 Smámynd: Guðmundur Jónsson

Takk fyrir þessa stórgóðu færslu.

Ég tek sérstaklega undir með að samlíkingin við féfellir á afréttum sé góð

Guðmundur Jónsson, 29.1.2012 kl. 19:31

4 Smámynd: Erla Magna Alexandersdóttir

Við vitum að við búum við Ríkisstjórn sem notar bankana og verðbólguna til að ná eignum af almenningi. Þetta ofbeldi lögleysunnar var einu sinni kennt við Sikiley serstaklega og foringjarnir eða Mafíosarnir gerðu vel við sitt fólk- hinir varnarlausu borguðu.

Erla Magna Alexandersdóttir, 29.1.2012 kl. 20:59

5 Smámynd: Sindri Karl Sigurðsson

Það segir sig sjálft: Sá sem tekur til sín vextina af láninu ber áhættuna. Annars þyrftu ekki vextir að koma til.

Það er ótrúlegt hve skollaeyrun á þeim, sem geta afnemið og breytt lögum, eru lokuð. Verðbætur í dag vegna hækkunar vísitölu í þessum mánuði eru ekki í bókum þeirra sem veittu lánin, það er ekkert að afskrifa. Það má alveg eins segja að verðbæturnar sem bætast á höfuðstólinn sé glaðningur eða lottóvinningur lánveitandans.

kv.

Sindri Karl Sigurðsson, 29.1.2012 kl. 22:15

6 Smámynd: Þórir Kjartansson

Frábær pistill Guðmundur.  Eitt helsta vopn þeirra verðtryggingarsinna er grýlan um lífeyrissjóðina sem þeir segja að geti alls ekki þrifist án hennar.  En ég hef oft velt því fyrir mér hvort ekki sé betra fyrir þann sem er að komast á lífeyrisaldurinn að eiga skuldlausa eign en fá þá örfáum krónum minna úr lífeyrissjóðnum sínum.  Verðtryggðu lánin fylgja mönnum nefninlega út yfir gröf og dauða.  Svo ætti að leggja af þessa söfnunarsjóði sem bjóða upp á alls konar hrossakaup og svínarí, eins og alls staðar þar sem miklir peningar eru.  Taka upp einn gegnumstreymissjóð fyrir alla landsmenn.  Þá sætu allir við sama borð. Ef vel gengur njóta lífeyrisþegar þess, ef ekki verða þeir að herða sultarólina eins og aðrir.

Þórir Kjartansson, 29.1.2012 kl. 23:40

7 identicon

Merkilegt að þegar Íslendingar fóru loks að spara með aðstoð verðtryggingarinnar og lífeyrissjóðirnir að vaxa,þá fóru þjóðarskuldirnar að vaxa og vaxa og vaxa þar til allt sprakk!                        Er óvarlegt að álykta að verðtryggingin og lífeyrissjóðirnir séu sitthvor hliðin á sömu (verðtryggðu) krónunni?

Held að stóri misskilningurinn hafi verið að horfa eingöngu á verðbólguna sem vandamál, hér á árum áður. Vandinn var þá eins og nú og alltaf a.m.k. eftir stríð, þjóðin eyðir meira en hún aflar og vill ekki horfast í augu við það.Verðbólgan var bara birtingarmynd vandans.

T.d. á áttunda áratugnum þá var þessi eyðsluþörf friðuð með prentun peninga, allir fengu bita,aftur og aftur,innistæðulaust að vísu og því þurfti síðan reglulega að fella gengið. Það merkilega var að þjóðarbúið safnaði ekki skuldum, má eiginlega segja að kerfið haf þrátt fyrir allt virkað.

 Síðan upphefst þetta furðulega tímabil sem vonandi lauk með Hruninu.  Tímabil gerfisparnaðar.  Verðbólgan að mestu hamin, þjóðarsáttin magnaða varð til þess að launaarmur verðbólgumaskínunnar hætti að virka,gott og vel. Áfram var samt eytt umfram efni, nú voru það lántökurnar sem tóku við. Á sama tíma byggðu lífeyrissjóðirnir upp sparnað. Séð utanfrá þá tók þessi þjóð sparnað lífeyrissjóðanna að láni. (Rétt eins og gjaldeyrisvarasjóðinn nú.) Þetta minnir pínulítið á manninn sem sagði stoltur að hann staðgreiddi alltaf fyrstu afborgun!

Bjarni Gunnlaugur (IP-tala skráð) 30.1.2012 kl. 10:18

8 Smámynd: Guðmundur Kjartansson

Takk fyrir frábærar viðtökur og fínar og málefnalegar athugasemdir.

Já, það er rangt gefið í þessu spili. Almenningur þarf hjálp, stuðning og það sem meira er um vert; réttlæti.

En, svona á meðan við skoðum næsta leik, vil ég hvetja ykkur til að fara inn á vef alþingis og inn á lagasafnið. Skoðið frumvarp til laga nr. 107 frá 2009 um greiðsluaðlögun einstaklinga og sértæka skuldaaðlögun lögaðila.

Þessi lög eru eins allt, allt of mörg sértæk lög: Byrjað er á fögrum fyrirheitum í fyrri hlutanum, en í seinni hlutanum er allri orkunni eytt í að bera til baka fyrirheitin í fyrri hlutanum og gefa hinum eilífu "hagsmunaaðlilum" lag til að halda sínum hlut í lendingunni.

Allt sem gert hefur verið - eða ekki í almennum skuldamálum er byggt meira eða minna á þessum lögum.

Í þeim er fjármagnseigendum selt sjálfdæmi um meðferð mála skjólstæðinga sinna. Þarna eru fingraför bankanna á bálknum og þessu þarf að breyta.

Við liggur að í þessum lögum sé dómstólum ýtt til hliðar og bankarnir fá dómstólavald í reynd. Það er nú sniðugt.

Hvaða skulda- og vísitöluþræll hefur eina til þrjár milljónir handbærar til þess að reka mál fyrir dómstólum í viðureign við kompaní sem hafa tugi sérmenntaðra lögmanna á sínum snærum? 

Leggjum niður hið auðmýkjandi gjafsóknarferli og stofnum opinberan málsvarnarsjóð þar sem fátæklingar geta rétt hlut sinn gagnvart makráðum embættismönnum og innlendum arftökum Hansakaupmanna.

Guðmundur Kjartansson, 30.1.2012 kl. 11:54

Um bloggið

Guðmundur Kjartansson

Höfundur

Guðmundur Kjartansson
Guðmundur Kjartansson
Fæddur í Reykjavík, uppalinn í Borgarfirði. Hef lengst af starfað við verslun og viðskipti, landbúnað og ferðamál. Stúd. MR. Nám við H.í. og síðar í Bandaríkjunum. Lauk þaðan BA í Busin. Adm. Finance og síðar MBA af stjórnunarsviði. Endurmenntun og fjöldi námskeiða HÍ og HR. Hef ritað talsvert í blöð, m.a. um skatta- og tollamál, landbúnað ofl. Á blog.is síðan í feb. 2011. Meðlimur í Fél. Viðskiptafræðinga og Hagfræðinga frá 2000.
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • ...9794_3856_n

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 14
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 14
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband