Kveinstafir í bjargræði

Ísland malar gull dag hvern. Landburður af fiski (þeim sem má veiða), gæftir góðar til lands og sjávar sem aldrei fyrr. Vorið og sumarið með því allra besta; sprettutíð og væta jafnt skipt. Heyfengur í góðu meðallagi og bændur horfa fram á batnandi tíma með aukinni framleiðslu, lífrænni jafnt sem hefðbundinni og með afrakstri af þrotlausri vinnu vísindamanna er nú búið að þreskja hveiti, rúg, hafra og bygg á mestu góðbýlum landsins. Í öllum fjórðungum. Margt er ógert en framundan eru stór tækifæri.

Bjargræðið besta sem nú steðjar að íslendingum og mætt er með mikilli armæðu, aðallega á stærstu fjölmiðlum landsins birtist okkur í stórum hópi fólks sem hingað kemur með glampa í augum: Sjá Ísland! Ferðamenn.

Halda mætti að mikil vá og harðindi stafi af þessum straumi forvitinna ferðalanga sem hingað eru komnir fyrir atbeina framsýnna markaðsmanna og kvenna sem hafa unnið giftudrjúgt, óeigingjarnt og fórnfúst starf árum saman. Ísland er byrjað að trekkja. Hefst þá lesturinn.

Dag hvern á þessu vota sumri er útvarpað, sjónvarpað og þrykkt í blek miklum fregnum af þessari skelfilegu vá sem að oss steðjar. Heyrst hefur að hinir ætthreinu íslendingar hafi jafnvel þurft að standa í biðröð í kaupfélaginu bara til að ná í tveggja daga gamalt franskbrauð. "Alabatari! Fransí! Biskví!", hrópuðu strákarnir á Pollinum á franska duggara sem þar voru komnir að ná í vatn og vistir. Krakkarnir fengu kex og stöku karl kannski tár af hreinu Cognac. Þannig var því lýst í bókmenntum fyrri tíðar.

En, nú er öldin semsagt önnur. Þrátt fyrir að þessi fjöldi sem hingað leggur leið sína skilji eftir hátt í 300 milljarða króna í valútu láta menn sem óðir séu og allt stefnir í einhverskonar Albaníustatus undir þeirra ástsæla landsherra Enver Hoxha sem reyndar er nú genginn fyrir ætternisstapann fyrir all nokkru.

Kvartað er undan mannfjölda á eftirsóttustu ferðamannastöðum. Rifist er út af þeim í Landmannalaugum,  á Hveravöllum; á Þingvöllum; í Herðubreiðarlindum og víðar. 

Margar hugmyndir eru nú uppi um það hvernig stemma megi stigu við þessari vá. Eigendur sumra hinna eftirsóttu ferðamannastaða vilja nú heimta sérstakt gjald af þeim sem þangað koma. Fyrir hvað er verið að taka þetta gjald? Einfalda svarið er: Áhorf. Aðrir sem ekki eru svo lukkulegir að eiga eldfjall verða að láta sér nægja að innheimta gjald fyrir selda vöru eða þjónustu. Það er mikilsverrt atriði í ljósi þess sem hér fylgir.

Rætt er um það að láta ferðamennina borga einhverskonar gjald eða skatt áður en - eða um leið og þeir koma til landsins. Í ljósi þess að þessir sömu ferðamenn hafa þá þegar keypt flugmiða; leigt sér bíl sumir; keypt mat á uppsprengdu verði; leigt sér gistiaðstöðu auk fyrirsjánlegs kostnaðar á degi hverjun er niðurstaðan sú að gjaldtaka af þeirri tegund sem hefur verið rædd jafngildi einhverskonar pýramídasvindli.

Undirritaður sat fyrir nokkrum árum fyrirlestur á vegum félags hér á landi sem oft hefur verið sakað um að standa í þess háttar svindli. Fyrirlesturinn var mis athygslisverður eins og gengur, en ræðumaður sagði þó eitt sérlega markvert. Hann sagði að litmúsprófið á þess háttar snúist alltaf um það að greina hvort verið sé að selja raunverulega vöru. Með öðrum orðum að kaupandinn telji sig hafa fengið eitthvað fyrir sinn snúð, annað en fögur fyrirheit. Ljóst er að íslenska ríkið mun ekki inna af hendi neina þjónustu eða afhenda neinar vörur fyrir það fé sem safnast kann í gegn um einhverskonar gjaldtöku eins og nú er rætt um að setja á laggirnar. Þá er þess ógetið í þessu sambandi að gjald af þessu tagi verður fljótt að hefðbundinni skattheimtu þrátt fyrir fögur fyrirheit um að féð skuli markað blaðsýft vinstra og biti aftan hægra. Allt dregið í einn dilk og svo hefst prjónaskapurinn á haustþingi. Þá vantar peninga í nýjan spítala eða annað og málin ganga sinn vana gang við Austurvöllinn. Vegirnir frosnir og farfuglarnir farnir til suðlægra landa. Allir. Fjáraukalög. Lokafjárlög.

Þeir sem ætla að njóta ávaxtanna af áratuga markaðssetningu á Íslandi sem ferðamannalandi verða að gera svo vel að ná þeim ávöxtum til sín í frjálsum viðskiptum. Með sölu á mat: fatnaði; bensíni, bílaleigubílum, aðstoð, aðstöðu; kennslu; leiðsögn eða hverju sem er öðru en óljósri innheimtu með valdi án þess að eitthvað sé lagt í hönd viðsemjenda þeirra í staðinn. 

Tugþúsundir manna og kvenna um allt land leggja nú allt sitt i að innrétta gömul hús, laga land sitt og annað umhverfi. Taka oft til þess dýr lán og ryðja nýjar slóðir til að víkka út þann reynsluheim sem boðinn er þessum gistivinum okkar sem hafa margir nurlað saman peningum árum saman til þess að láta þennan draum um eyjuna bláu rætast. Þeir eru ekki bjánar. Þeir lesa blöðin og margir þeirra hlusta af athygli á það sem fram fer hér. Rekstraraðilar sem sinna þessum ferðamönnum greiða skatta sem má nota í títt umrædda uppbyggingu á innviðum þeim sem tengjast ferðamannaiðnaðinum.

Eftir hverju eru þessir farfuglar annars að sækjast hér? Undirritaður hefur haft atvinnu af því áratugum saman að aðstoða ferðafólk við allskonar aðstæður hér á landi. Hef spurt þá marga: "Af hverju eruð þið hér? Hvað viljið þið fá út úr ykkar dvöl?"  Margskonar svör koma. Við erum að tala um þjóðverja, rússa, tékka, frakka, spánverja, ítali, portúgali, dani, norðmenn, englendinga, bandaríkjamenn, kanadamenn, ástrali, kínverja, japani og fleiri. Eitt skín í gegn:

Persónulegur friður og dvöl sem er með einhverjum hætti mörkuð af einveru, jafnvel bara í stuttan tíma. Hjón sem koma af fjalli dæsa og segja: "Við keyrðum í þrjá daga og sáum ENGAN"

Ef íslendingar ætla að kosta nokkru til verndar þeirri ferðamennsku sem giftudrýgst er, þá er það þetta yfirlætislausa markmið sem bíður. Ekki skrum, skellir, hark eða brauk. Einfaldleiki og snyrtileg umgjörð. Íslensk með einhverjum hætti. En markmiðið þarf að vera alveg skýrt. Hvað ætla menn að selja?

Þeir sem ætla að þróa ferðamennsku utan Reykjavíkursvæðisins með því að byggja hótel með löngum göngum í heimavistarstíl fara villur vegar. Það mun ekki ganga. Betra er að reyna að byggja upp eitthvað sem er íslenskt og veitir ferðamönnum innsýn í líf okkar og sögu í gegn um aldirnar. Það er húsakosturinn.

Maturinn er annað. Þar er mikið verk fyrir höndum og það er í gangi í öllum sveitum landsins: Á síðustu ferðakaupstefnu sem haldin var í vetur var mér rétt krukka með sírópi sem eimað var úr trjásafa úr íslensku birki. Hreint afrek.  Unnið eftir mörg þúsund ára gömlum aðferðum sem frumbyggjar N-Ameríku beita enn í dag við að búa til sitt eigið síróp úr safa hlynsins. Nauðsynlegt er að hlúa að matvælaframleiðslu með þjóðlegu sniði í sveitum landsins. Til að það megi takast þarf að gerbreyta öllum reglum um slíka framleiðslu og stórauka rétt manna til heimaúrvinnslu úr öllum afurðum sem býlið gefur af sér. 

Byggja þarf upp fyrsta flokks veganet inn á hálendið með skýrt afmörkuðum hætti og setja þar upp miðstöðvar til þjónustu; eftirlits og björgunarstarfa. Vegakerfi upp á þúsundir kílómetra liggur nú þegar um  hálendið í allar áttir en það virðast menn ekki vilja viðurkenna. Undirritaður hefur þurft að miða út fólk á bílum fjarri öllu og öllum þar sem öll kennileiti eru óviss. Tjónið sem þjónstuaðilar á þessu sviði verða fyrir af hinum ónýtu og hættulegu vegum hlýtur að hlaupa á milljörðum. En umhverfisverndarsinnarnir í 101 Reykjavík mega ekki heyra það nefnt að nokkrum steini sé velt við og því heldur firringin áfram: Bilaður bíll við Fjórðungsöldu; rifin dekk og brotnar felgur - allt á tjá og tundri og 2000 manns í röð í bílum fyrir aftan og enginn kemst neitt vegna urðar og grjóts. Já og fyrir vitleysingum sem ekki er þverfótað fyrir hér við sjávarmál.

Stanslaust er klifað á nauðsyn á uppbyggingu. Það er eitt. Svo er býsnast yfir ofsagróða, skattsvikum og alls kyns hyskni; áburði sem allir aðilar í greininni þurfa að liggja undir. Hlaupið er með æsingi í fjölmiðla og látið að því liggja að þeir sem hafa tekjur af þjónustu við ferðamenn séu að hýrudraga restina af þjóðinni. 

Afsakið, en hvert fara þessir nálega 300 milljarðar í gjaldeyristekjum sem greinin leggur illa höldnu þjóðarbúinu til? Þeir fara beint í ríkiskassann í gegn um haftakerfið sem Seðlabankinn rekur af mikilli nákvæmni. Og tekjurnar sem rekstraraðilar fá í sinn kassa í gegn um posann eru ákvarðaðar af þessari sömu stofnun í gegn um miðstýrða ákvörðun á gengi íslensku krónunnar. Hvað vlja eignaupptökusinnar meira? Hollt er að minnast þess að þetta fyrirkomulag og afleiðing þess er nákvæmlega það sem konungur Danmerkur ætlaðist til með einokunartilskipuninni frá 1602.

Jú, ekki stendur á svarinu við þeirri spurningu um hvað eigi að gera: Skattleggja ferðaþjónustuna eins og aðrar atvinnugreinar. Ekki nema sanngjarnt segja frambjóðendur í kosningum sem í loforðaflaumi sínum komast í 250 milljónir á mínútuna og eru þó orðmargir sumir. 

Skattlagning umfram það sem nú er stenst ekki, sérstaklega hvað varðar virðisaukaskattinn, ma. vegna þess að ferðamannaiðnaðurinn er útflutningsatvinnuvegur að mestu. Innlendur rekstur, eins og veitingasala og þjónusta lýtur að sjálfsögðu almennum skattareglum en það á ekki við um mikilvægasta hluta þessarar starfsemi sem er sjáf ferðasalan og markaðssetnig á erlendri grundu.

Það sem fyrir liggur að gera þurfi er stórfelld uppbygging á innviðum sem tengjast þessari starfsemi: Vegir í byggð og í óbyggðum; langtíma stefnumörkun í þróun og markaðssetningu undir leiðsögn samtaka ferðaþjónustunnar og öflugustu fyrirtækja í þessum geira. Hlutverk ríkisins í þessum málum er að ryðja brautina; byggja vegi í eiginlegri og óeiginlegri merkingu og setja almennar leikreglur sem allir geta samið sig að. Skattheimta ekki undan skilin. 

Þeir sem hafa keypt sér eldfjöll verða að sæta almennum leikreglum og skapa sér tekjur með frjálsum viðskiptum. Gjaldheimta í formi aðgangssölu að einstökum náttúruvinjum með takmörkuðum hætti getur aðeins farið fram með handrukkun. Enda er hún ekkert annað.  

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Um bloggið

Guðmundur Kjartansson

Höfundur

Guðmundur Kjartansson
Guðmundur Kjartansson
Fæddur í Reykjavík, uppalinn í Borgarfirði. Hef lengst af starfað við verslun og viðskipti, landbúnað og ferðamál. Stúd. MR. Nám við H.í. og síðar í Bandaríkjunum. Lauk þaðan BA í Busin. Adm. Finance og síðar MBA af stjórnunarsviði. Endurmenntun og fjöldi námskeiða HÍ og HR. Hef ritað talsvert í blöð, m.a. um skatta- og tollamál, landbúnað ofl. Á blog.is síðan í feb. 2011. Meðlimur í Fél. Viðskiptafræðinga og Hagfræðinga frá 2000.
Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • ...9794_3856_n

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (28.3.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband