Orwell og Umráðataka.

Íslendingar hafa flestir mikla skömm á gullgerðarfólki og gullgröfurum ... svona a.m.k. séu þeir aðkomumenn.

Nú ber það til í sveit Þjóðskáldsins sem dýrast kvað að þar eru væntanlegir til aðgerða menn sem hafa það að atvinnu og kannski athvarfi að leita að verðmætum á landi sem aðrir eiga.

Maður hefði haldið að stjórnarskráin íslenska væri þá haldreipið sem lengst og best dygði sem brjóstvörn gegn ásælni af slíkum toga, en svo er ekki.

Kemur þá til skjalanna hreint Orwellskt hugtak: „Umráðataka“

Svo lágt hefur þá virðing alþingis íslendinga verið lögð að hugtak eins og þetta skuli tekið upp í lög þar sem það er notað til að skilgreina ástand sem skapast við þær aðstæður að bóndinn eða annar „eigandi“ landspildu gerir athugasemdir og hefur uppi andstöðu við áform annarra um að gera sig heimakomna á eign hans.

Við þessar aðstæður reynist 72. Grein íslensku stjórnarskrárinnar haldlaus:

  1. gr. [Eignarrétturinn er friðhelgur. Engan má skylda til að láta af hendi eign sína nema almenningsþörf krefji. Þarf til þess lagafyrirmæli og komi fullt verð fyrir.
    Með lögum má takmarka rétt erlendra aðila til að eiga fasteignaréttindi eða hlut í atvinnufyrirtæki hér á landi. (l. 33 – 1944; Stjórnarskrá)

Við skoðun á hugtakinu „Umráðataka“ á Google kemur upp langur listi af málum gegn einstaklingum sem eiga fasteignir á Íslandi. Amk. 20 fyrstu krækjurnar bera það með sér að þar er Landsnet málshefjandi. Og vinnur alltaf.

Fáir taka til varna á fræðilegum forsendum gegn þessari sjálfsafgreiðslu á opinberri valdbeitingu til að koma áfram einhverju sem ótiltekinn hópur forsjárhyggjuliðs telur vera þjóðinni fyrir bestu. Þannig er 72. Grein Stjórnarskrárinnar gerð dauð og ómerk.

Stjórnlagaþingið sáluga reyndi að festa þetta afnám einstaklingsbundinna eignarréttinda í drögum að nýrri stjórnarskrá. Söngvararnir þar vissu ekki að þetta var löngu afgert með þeim hætti sem hér er lýst.

Heimild einhverra stimpilhafa í kansellíinu suður í Reykjavík til handa vildarmönnum sínum er brot á meðalhófsreglu stjórnsýslulaganna, stjórnarskránni og meginreglum ýmissa annrra ákvæða í íslenskum lögum, m.a. skattalögum.

Leyfið til rasksins í eignarlöndum er bundið ýmsum skilyrðum, en það er ekki fremst þeirra atriða sem þarf að skilgreina. Allir landsetarnir, þetta fólk jarðarinnar sem situr uppi með þessa marxisku innrás á eigur sínar á það allt sameiginlegt að vera þremur afborgunum frá nauðungarsölu á eigum sínum. Þar er ávallt gerðarbeiðandi ríkið, sveitarfélagið eða aðrir sem teljast lögveðsréttarhafar og njóta sérstakrar velvildar löggjafans.

Allur atvinnurekstur sem tengist hefðbundinni landnýtingu svo sem akuryrkja og kvikfjárrækt er stýrt í þrot af stofnunum ríkisins, sem hvetur menn til dáða út um annað munnvikið en hótar svo yfirvaldinu fullmektugu út um hitt ef menn ekki makka með hugmyndum um miðstýringu og áætlanabúskap.

Hinn „friðhelgi“ eignarréttur er hér svona „medium rare“ í ofninum hjá ráðuneytinu, amk hvað varðar almannaheill eins og hún er skilgreind í núgildandi stjórnarskrá 72. gr.

Fáum við hin kannski eins og eina Spesíu þegar sjóðurinn sem Umráðatakan nær til er fundinn?

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Um bloggið

Guðmundur Kjartansson

Höfundur

Guðmundur Kjartansson
Guðmundur Kjartansson
Fæddur í Reykjavík, uppalinn í Borgarfirði. Hef lengst af starfað við verslun og viðskipti, landbúnað og ferðamál. Stúd. MR. Nám við H.í. og síðar í Bandaríkjunum. Lauk þaðan BA í Busin. Adm. Finance og síðar MBA af stjórnunarsviði. Endurmenntun og fjöldi námskeiða HÍ og HR. Hef ritað talsvert í blöð, m.a. um skatta- og tollamál, landbúnað ofl. Á blog.is síðan í feb. 2011. Meðlimur í Fél. Viðskiptafræðinga og Hagfræðinga frá 2000.
Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • ...9794_3856_n

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (28.3.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband