Færsluflokkur: Bloggar
27.8.2012 | 23:42
Verðtryggingarkorn.
Menn takast á um verðtrygginguna af og til. Margir hvetja til afnáms hennar en aðrir telja það firru sem muni leiða til efnahagslegrar upplausnar, komi ekki eitthvað annað nothæft í stað hennar.
Nokkur atriði sem vantar í hina fræðilegu umræðu um vísitölutryggingu fjárskuldbindinga eru ásamt öðru:
a) hún er almennt séð fölsuð vegna þess að í beitingu hennar felst staðhæfing um einhverja fasta í mannlegri hegðan. Það er ótrúleg bíræfni að byggja heilt hagkerfi á slíkum forgjöfum og ályktunum. Reynslan er sú að þeir sem tóku gengistryggð lán fram til hrunsins í október 2008 nutu tvöfaldrar eignamyndunar á við þá sem tóku verðtryggð lán í íslenskum krónum. Hún endurspeglar ekki það sem hún á að mæla og er því fölsuð; b) við skuldum í einum gjaldmiðli en fáum launin greidd í öðrum, sá fyrri er verðtryggður, en hinn ekki. Þetta villir mönnum sýn; c) Ólafslögin áttu að gilda í stuttan tíma, samin og sett í örvinglan sem fylgir 100% verðbólgu. Nú er öll fræðileg umræða um aðra lausn fallin niður, allt kerfið er orðið háð þessari vítisvél; d) hún leiðir af sér ábyrgðarleysi í lánveitingum; e) notkun hennar á langtíma lánasamninga í íslenskum krónum kemur í veg fyrir eignamyndun allt þar til hinn upprunalegi lántaki er kominn á grafarbakkann; f) á tíma húsbréfakerfisins þýddi það að næsti eigandi, sá sem yfirtók lánin eftir 10-15 ár naut greiðslufyrirkomulagsins með þeim hætti að við þau tímamót fór höfuðstóllinn að lækka og hann naut hugsanlegrar eignamyndunar. Þetta gekk svo langt að jafnvel starfsmenn Íbúðalánasjóðs skrifuðu greinar í blöð þar sem þeir héldu því fram að þeir sem seldu íbúðirnar sínar innleystu hagnað við þessar aðstæður. Þetta sýnir að jafnvel þeir sem höfðu atvinnu af því að ræna fólk með þessu apparati skildu ekki neitt um afleiðingar þess; g) hleðsla verðbóta á höfuðstól leiðir af sér margvöxtunarfaktor sem er óþekkt fyrirbrigði, nema hjá okurlánurum. Við erum í raun að tala um að seinasta krónan af láni með 476 afborgunum hafi verið verðbætt svo oft að ekki er hægt að tjá það á tölulegu formi nema nota einhvern þriggja stafa veldisstuðul; h) undir verðtryggðu fyrirkomulagi geta fjármagnseigendur hent reiknivélunum sínum og flestar ekonometrískar greiningar verða að tómstundagamni, svona eins og að lesa símaskrána.
Margt annað mætti nefna en nauðsyn er á nýrri sýn á þessi mál. Mál er að ribbaldahættinum linni.
Það er samt sem áður rétt að heildarafnám verðtryggingar er óframkvæmanlegt eins og nú er ástatt og jafnvel afnám hennar á neytendalán er dæmt til að mistakast. Menn munu einfaldlega finna annað nafn á gerninginn eða bankarnir hreinlega leggja þau af.
Krónan var ónýt sem verðmælir í ársbyrjun 1979. Endanlega. Viðurkenning á því er fólgin í lögunum sjálfum sem innleiddu verðtrygginguna. Við losnum ekki við hana nema sem hluta af miklu, miklu víðtækari aðgerðum í efnahagsmálum á þjóðarvísu. Þar eru ríkisfjármálin undirrót alls ills, eins og flestir þekkja áreiðanlega. Verst er að þar er við pólitískt vandamál að etja fremur en eitthvað sem hægt er að tjá með flóknum stærðfræðilegum líkingum.
Stöðugt verðlag á peningum er skilyrði fyrir heilbrigðu efnahagslífi. Til þess að það geti náðst verðum við annaðhvort að taka upp aðra stefnu í gengismálum eða nýjan gjaldmiðil, aðskilnað viðskiptabankastarfsemi frá fjárfestingarbankastarfsemi, banna hinum fyrrnefndu að versla með annað en raungjaldmiðil eða þá að taka upp náið samstarf í efnahags- og gjaldmiðilsmálum við þjóðir sem hafa sýnt það að þær kunna fótum sínum forráð í efnahagsmálum. Við gætum jafnvel efnt til nk. "Bretton - Woods" fundar með þeim þjóðum sem við treystum í samstarfi. Þær eru t.d. kanadamenn, norðmenn, ástralir og svisslendingar.
Eins og er getum við ekki hallað okkur að Evrópu vegna félaglegra mistaka sem hún líður nú fyrir sem eru svo risavaxin að erfitt er að finna hliðstæður úr þekktri sögu, jafnvel þótt leitað sér langt aftur í tímann.
23.8.2012 | 19:57
Óttinn sem heldur stjórninni saman
Gaman er nú að fylgjast með undanslættinum og málefnabrasinu sem einkennir tilvist minni stjórnarflokksins. Flokkurinn hvarfast um einn mann sem sefur eins og tröllið undir brúnni í ævintýrinu. Ýmis mál má ekki ræða, sérstaklega ekki neitt sem viðkemur sameinaðri Evrópu. Hann er á móti ýmsu allt eftir því hvað klukkan er og hvaða dagur og hver er hægra- eða vinstramegin við ríkisstjórnina. Nú er hann hægra megin og talar í ríkisfjármálum eins og frjálslyndur íhaldsmaður. Það er allt í lagi þangað til núna að búið er að gefa út opinbera tilskipun um að svart sé hvítt.
Vinstri grænir halda því nú fram að þeir / þau séu ekki á leið með Ísland inn í ESB, en eru það samt virka daga frá kl. 08:00 17:00 skv. hinni opinberu stimpilklukku í pólítikinni. Svo eru þeir spurðir, svona til að gá hvort rökfræðin hjá sjálfu höfuðvígi hins rétta og sanna flæði undan hallanum eins og lækurinn í hlíðinni ... hvað sé þá summan af 3 + 2. Svarið er spurning eða véfrétt sem snýst um væntanlegar kosningar. Þær þarf að vinna svo hægt sé að klára að innleiða draum væntanlegs landsstjóra félaga Stalíns frá fjórða áratug síðustu aldar.
Bankaræðið í Evrópu virðist ekki valda hinum prúðlyndu heimspekingum á vinstri vængnum (ef það merkir þá eitthvað lengur) neinum sérstökum áhyggjum. Þenslan á peningamagni í umferð er efni í alvöru kreppu og stöðvun heimshagkerfisins sem enginn -að fáeinum hagfræðingum undanskildum virðist gera sér grein fyrir eða þorir að segja frá. Búið er að koma á skipulagi í rekstri heilu ríkjaheildanna sem byggist á opinberri lánaþenslu og peningaprentun, hallarekstri og framlengingum, okurvöxtum og óhjákvæmilegu jökulhlaupi sem stöðugt hækkar í eftir því sem aðgerðum til að skakka leikinn er frestað. Og enginn borgar neitt ....nema almenningur. Hann á að hreinsa upp skuldirnar.
Bankaeigendur og félagar þeirra á þjóðþingunum og í ríkisstjórnum um víða veröld raða í sig tertunum. Enda ekki seinna vænna, því á morgun verður bara étið tros. Úti. En það er auðvitað allt í lagi, því syndafallið kemur eftir þeirra daga og almenningur má þeirra vegna éta það sem úti frýs, tros eða hvað annað sem fellur til. Matarbirðgir í stærstu verslunum þróaðra ríkja duga til þriggja daga.
Inn í þennan undraheim hafa margir íslenskir stjórnmálamenn svarið þess dýran eið að leiða okkur, með góðu eða illu. En það er ekki þetta sem heldur saman ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur.
Það er Sjálfstæðisflokkurinn sem heldur stjórninni saman. Svo rækilega að öllu er ruslað á mitt borðið og dúknum svift upp á hornunum svo allramálaráðherrann geti stokkið með hann í fanginu af altaninu út í garð þegar veislunni er lokið. Það sést þá ekki hvað þeir átu eða drukku.
Óttinn við Sjálfstæðisflokkinn er límið sem stjórnin lafir á. Þeir vita að um leið og hann kemst til valda verður tekið til við að vinda ofan af jarðmiðjukenningum íslenskra félagshyggjumanna og hins marxíska kenniaðals sem nú predikar úr turninum vestanvert í Vatnsmýrinni dag hvern.
16.7.2012 | 23:20
Hver er "þriðja" leiðin?
Uppi er ljót staða víða í hinum fyrrum ríka og frjálsa heimi, sem nú lútir í gras fyrir ægivaldi fjölþjóðlegra fjármálastofnana og yfirþjóðlegra hervirkja sem sett hafa verið á laggirnar til að leysa af hólmi eldri valdastofnanir þjóðríkjanna, t.d. löggjafarþingin. Ísland er ekki undanskilið þessari þróun.
Þróunin heldur áfram og milljónir manna í fyrrum frjálsum ríkjum vita ekki lengur hvert þær eiga að snúa sér í von um réttlæti. Þetta er því miður rökrétt niðurstaða og niðurlag ástands sem ríkt hefur frá því hinir frjálsu og ríku gengust sósíalismanum á hönd .... sem þeir gerðu þó með því fororði að kapítalistadótið mætti nota til að draga fyrir sig vagninn.
En þetta dugði ekki til. Búið er að keyra fjárhag margra stórra ríkja í þrot með umframeyðslu og hallarekstri sem engan enda ætlar að taka. Skatthlutföll eru víða komin langt fram úr því sem samfélagsgerðin þolir. En brestirnir heyrast eins og úr skriðjökli sem er við að steypast í saltan sjóinn. Snakkaðallinn sem ábyrgðina ber verður þá á bak og burt, kominn á sólarströnd með allt sitt á þurru. Loforð um brauð og leiki sem aldrei þyrfti að borga.
Hagfræði og félagsvísindaakademían á Íslandi og víðar er enn að tala umþriðju leiðina ...væntanlega með tilvísan til þess að búið sé að reyna kapítalískt og sósíalískt þjóðskipulag og að hvorugt hafi reynst nógu vel. Tími sé kominn til að taka upp alveg nýtt stjórnskipulag.
Hvað skyldu þessir hópar sérfræðinga þá draga upp úr hatti sínum næst? Jú, það verður alveg nýtt nafn yfir blandað hagkerfi, þar sem kapítaliskt skipulag fær að halda velli í viðskiptaheiminum- eins og áður ... en þar sem svo óskaplega ólánlega hefur tekist til með ríkisfjármálin og svo margt annað í rekstri hinna þriggja arma ríkisvaldsins, veður talið nauðsynlegt að steypa þeim öllum saman í einn ketil. Það er kínverska módelið. Og miðstjórn Evrópusambandsins í Brussel. Og baróninn á Blesastöðum.
Hópar ofstækisfullra óróaseggja á báðum köntum hins pólitíska litrófs fara alltaf að tala um (menntað) einveldi þegar þeim þykir farast óhönduglega með ríkisforsjána. Afleiðingin er algert rof í tiltrú á alþingi, ekki bara þá sem þar sitja, heldur stofnunina sjálfa að auki. Þetta ástand er fyrsta skrefið í átt að einræði. Stjórnleysið er þegar fyrir hendi.
Fólk sem fyrirlítur alþingi og alþingismenn og talar um gagnsleysi þingsins ætti að gera sér grein fyrir því hvers það óskar sér.
Fyrir kemur að slíkar óskir rætist.
25.6.2012 | 21:05
Dansinn við djöfsa ....
Seðlaprentun leggur líkn með þraut í gjaldþrota heimi. Í bili.
Hin fögru fyrirheit um takmarkalausa félagshyggju: "Við munum eyða ...." Kapítalisminn var dýrið sem mátti draga velferðarvagninn og dugði ekki til.
Buið er að ljúga því upp í opið geðið á einum og hálfum milljarði manna á vesturlöndum að ríkisvaldið geti eytt peningum án þess að afla tekna með skattheimtu. Menn eru að svitna yfir tilhugsuninni um að halastjarna muni sigla hér öllu lífi í strand. Það er nær en þið haldið ... gjarna í næsta ráð - eða þinghúsi.
Vandræðin liggja víðar en í Evrópu og það merkilega er að það verður austur Evrópa sem mun rísa upp úr þessari öskustó eftir að ósköpin dynja yfir. Þar eru menn búnir að dansa nógu lengi við djöfulinn til að vita að loforð hans eru einskis virði.
25.4.2012 | 09:45
Áróður og ávísun á fátækt.
Þessi frétt í Mbl. í dag - um að þeim sem eru andvígir stóriðju fjölgi - ætti að vera blómálfunum í íslenskri pólitík einstök hvatning til að halda nú áróðrinum áfram, berjast gegn framförum og hagvexti og um leið velferð og batnandi lífskjörum samborgara sinna. Gott hjá þeim í ljósi gjaldeyrishaftanna og þeirrar staðreyndar að lífeyrissjóðirnir, sem fréttin fjallar að öðru leyti um, hafa ekki í mörg hús að venda með fé þessa sama fólks.
Svo verða þeir auðvitað að efna til námskeiða í kútmagaverkun, roðskógerð, strokkun og öðrum þjóðlegum dyggðum. Á einhverju verða menn að lifa í framtíðinni.
Ekki verður það af hagvexti eða framförum í atvinnulífi, fjármálum eða öðru sem hingað til hefur skilað okkur velferð.
Hagspekingar þessara kreddusöfnuða kveðjast, aðspurðir ætla að bæta hag hinna verst settu með því að gera upptækar eignir og tekjur þeirra sem meira eiga og geta. Beint úr kommúnistaávarpinu.
Jörðin er flöt..... að því er best verður séð.
Fleiri andvígir fjárfestingu í stóriðju | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
23.4.2012 | 15:01
Varnarsigur, en eftirmál fyrir ákærendur.
Landsdómur í sem allra stystu máli: Dómurinn er mikill varnarsigur fyrir Geir persónulega, pólitískt og lögfræðilega. Sakfellingin tekur til verklagsreglu sem innleidd var löngu fyrir hans tíma og er enn í fullu gildi.
Skoðið nýlegar afgreiðslur nokkurra stórmála. Kvótafrumvarp, stjórnarskrármál og umsóknin um aðild að ESB. Búið er að gefa fordæmi um vissar leikreglur í því sem á eftir fer. Þeim ber að sjálfsögðu að fylgja. Þá ber einnig að skoða yfirlýsingar einstakra ráðherra um Hæstarétt og gildissvið dóma hans í einstökum málum með hliðsjón af þessum dómi.
Dómarar í Landsdómi eiga heiður skilinn fyrir að hafa staðist þá pólitísku aðför sem fólgin er í ákvörðun meirihluta alþingis og fyrir að hafa náð þeirri einu niðurstöðu sem bjóðandi var. En nú þarf þingmeirihlutinn og ríkisstjórnin að búa sig undir að störf hennar og gerðir verði mæld á stikuna sem Landsdómur hefur nú lagt fyrir.
Geir bendir réttilega á fáránleika þess að primus motor þessa máls skuli sjálfur hafa verið kallaður til vitnis efitiir að hafa staðið fyrir því að ákæran var lögð fram og Landsdómur kallaður saman.
Það eitt og sér hefði átt að duga dómendum til þess að vísa málinu frá í heild sinni. Sá hagsmunaárekstur sem fólginn er í því að kalla ákæranda til sem vitni í dómsmáli af þessari stærðargráðu verður að skoðast í ljósi dómsniðurstöðu Mannréttindadómstóls Evrópu frá 1992, þar sem íslenska ríkið var sakfellt fyrir að keyra saman dómsvald og umboðsvald í héraði. En dómurinn hefur engu að síður skýrar lagaheimildir til þess að kalla fyrir hvern þann sem honum sýnist.
Ljóst er að tími dómsstigs þess sem myndar Landsdóm er liðið, löngu liðið. Fyrir liggur að fella lög um Landsdóm úr gildi í heild sinni og taka þá þætti sem hugsanlegt er að sækja þurfi menn til saka fyrir og fella þá inn í almenn hegningarlög og / eða lög um meðferð opinberra mála, en til þess að hægt sé að hrófla við lögum um Landsdóm þarf fyrst að breyta tveimur greinum stjórnarskrárinnar, þeirri 14. og þeirri 17.
5.4.2012 | 12:25
Virkjanaramminn og umhverfisfár.
Með hinni sérpólitísku innspýtingu ráðherra og hennar aðstoðarmannna í ráðuneytinu í rammaáætlun um virkjanir á Íslandi er skynug umræða um landnýtingu almennt séð hrakin enn lengra út á kant kreddunnar og trúarofstækisins. Formaður Sjálfstæðisflokksins gerði þetta vandamál að umræðuefni á nýlegum flokksráðsfundi. Hann sagði að þessi hópur fólks væri að taka þennan málaflokk í gíslingu.
Það sem rekur stefnuna áfram er að gamlir íslenskir marxistar og nokkrir ungir líka álíta umhverfisvernd álitlegt vopn í baráttunni við alheimskapítalismann og taumlausa gróðahyggju. Þessa skoðun ber að setja í samhengi við það mat þeirra að ríkið eigi að vera allt í öllu og eigi að deila út kjarabótum með eignatilfærslum. Sama fólk hafnar hagvexti sem leið til að koma á efnahagslegum umbótum. Dæmi nú hver fyrir sig. En kommúnsminn féll og foringjar hans af stalli, lifadi og látnir. Hugmyndafræðilegir afkomendur þeirra kvarta sáran undan því að vera kallaðir kommúnistar eða marxistar vegna skoðana sinna eins og þær birtast í afskiptum þeirra af þjóðfélagsmálum og embættisfærslum þeirra þegar þeir komast í valdastólana.
4.4.2012 | 09:45
OKUR.IS
Hún er skemmtilega óupplýst umræðan um okrið á landinu bláa. Bæði opinbert og einkavætt. Verðbólgan sem sífellt mælist hér langt umfram það sem gerist í öðrum löndum á sér skýringar í samfélagsgerðinni og mörgu fleiru. Það sem fyrst og fremst veldur er smæð markaðarins, einangrun og náttúruleg fákeppni á öllum sviðum.
Ekki var hún falleg reynslan sem ríksstjórnin hafði af einkavæðingu bankanna á sínum tíma. Íslensku stórbankarnir þrír, allir í eigu ríksins áttu að verða gáttin sem myndi opna á flæði erlends fjármagns, lækkun vaxta með varanlegum hætti og fullkomna samkeppni þegar erlendir fjármálamenn kæmu hér að borðinu til að njóta hins nýfrjálsa íslenska hagkerfis. En enginn hringdi .... fyrr en Björgólfur tók upp símann. Þá var það Halldór Ásgrímsson sem svaraði. Afleiðingarnar vörpuðu íslenskum verslunarháttum aftur til 1950. Höft og opinber yfirseta á öllum sviðum og nú er í landinu sérstakur alþýðuher sem marserar inn í fyrirtæki sem grunuð eru um að selja einn fisk fyrir hálft brauð.
Verslunin í landinu býr við samkeppnisaðstæður sem eru þannig að hún verðleggur sig eftir sínum hentugleikum. Öllum ytri breytingum er miskunnarlaust fleytt út á næsta mann.
Sama á við um opinbera þjónustu, hverju nafni sem nefnist. Allar breytingar á umhverfinu skila sér samdægurs á kassastrimilinn. Litla Gunna þarf að kaupa smáræði og sér ekkert athugavert, enda kerlingin orðin við aldur og illa læs á smátt letur úr bleksprautuprenturunum, þótt hún noti gleraugu.
Hin geigvænlega eignamyndun í versluninni í landinu sýnir að afkoma hennar hefur löngum verið langt um fram það sem í rekstrarhagfræði er kennt við jafnvægishagnað. Eitt einkennið er að margir af auðugustu kaupmönnum landsins hafa staðið í biðröð í 15 20 ár eftir því að fá að tapa fé á fjölmiðlasamsteypu sem var stofnuð þannig að tveir ungir ofurhugar sem nutu velvildar bankastjórnar gamla Verslunarbankans, báru út allt eigið fé hans á einum eftirmiðdegi. Þannig hófst það ævintýri.
Fjárhagur íslensks alþýðufólks er síðan ofurseldur stjórnlausri vítisvél sem er sérstakt gæludýr hagfræðiakademíunnar í landinu. Smyrjararnir í vélarrúmi verðtryggingarinnar sjá ekkert nema lygnan sjó, enda talið að ef þrælkuninni yrði aflétt, þá myndu Jón og Gunna leggjast í sukk og siglingar. Í staðinn fá þau hjón reikning frá ríkinu, Íbúðalánasjóði og viðskiptabanka sínum um hver mánaðamót þar sem þeim er tilkynnt að nauðsynlegt hafi verið að taka upp hluta eignar þeirra í litla húsinu. Tilkynningunni fylgir umvöndun um lúxusflakk á bílskrjóð þeirra hjóna og meintan drykkjuskap Jóns, sem hafi verið reynt að stemma stigu við með annars óforvarandi hækkun á benzíni og brennivíni sem ríkið álítur að þau hjón liggi í alla daga.
En þau eru auðvitað reglusamt og sparsamt fólk hjónin svo þau álita þetta neysluvandamál ekki koma sér við. En á meðan þau sofa sínum réttláta svefni læðast verðtryggingarpöddurnar fram í rökkrið og naga í sundur viðina sem bera uppi húsið.
Jón ku reyndar búinn að leysa allan sinn vanda þar eð hann hefur fundið upp aðferð til þess að vinna eldsneyti úr grasinu úr garðinum þeirra. Kostnaðarverð á lítra eru 66 krónur. Það er bara einn vandi: Olíumálaráðherrann, sem á frænda í stjórn félags sem flytur inn benzín, ætlar að leggja 300% toll á vélar til moltugerðar og eflaust sérstakan samkeppnisjöfnunarskatt á heimagert eldsneyti. Skatturinn nemur 200 krónum á lítra.
Þá er þess að geta að íslendingar hafa nú ákveðið að nota tækifærið og bjarga fjárhag sínum með þeim hætti að bora eftir olíu í norðurhöfum þegar meint hnattræn hlýnun af völdum brennslu jarðefnaeldsneytis hefur brætt ísinn af Norður Íshafinu og gert tempruð loftslagsbelti jarðar óbyggileg sökum hita og foksands.
Ef illa fer getum við sagt eins og Lási kokkur þegar togarinn sökk: "Guð minn góður! Skipið að sökkva og ég ekki búinn að vaska upp!"
7.3.2012 | 19:30
Ekkert fjör á Hverfisgötunni .....
Furðulegur bölmóðurinn sem nú bylur á hverju þaki í bænum. Landsdómur er að vinna sitt verk og sannleikurinn um hrunið er að koma fram í stórum blokkum á degi hverjum. Þessu eru allskyns álitsgjafar og nöldursnatar alveg æfir yfir. Landsdómur er semsagt ekki sá sirkus og húllumhæ sem vonast var eftir, fyrir utan óvæntan bónus (afsakið orðbragðið) sem er að nú flettast lygarnar af samfylkingarliðinu eins og ryðgað flatjárn. Búið var að ákveða hæðina á gálgunum fyrir fyrrum forystumenn Sjálfstæðisflokksins. Svo kann að fara að aftökusveitin þurfi að breyta þeirri smíð. Skemmtilegt sem sagt var á Útvarpi Sögu í dag að Davíð hefði ekki mætt með möppur eða minnisblöð. Hann þurfti þess ekki með vegna þess að hann laug aldrei neinu að neinum.
Það geta ofstækisfullir öfundar- og hatursmenn hans ekki sætt sig við.
29.2.2012 | 21:17
Uppgjörið
Það dregur til úrslitastundar. Hirðin í íslensku kansellí höllinni virðist ekki átta sig á því að mannfjöldinn ætlar ekki að sætta sig við fleiri hundsanir á dómum Hæstaréttar eða meiri sósíóökonomiskar predikanir frá föllnum prelátum og yfirstéttarsósíalistum.
Nú dregur að því að úrslit fáist í nokkur stór mál sem silfurskottustjórnin hefur ekki getað eða viljað leysa. Kannski vantar kjark. Byltingarforinginn Fraulein Hofmutig þarf á einhverskonar mannasiðanámskeið. Kæmi sér vel fyrir hana þegar Geir er kominn í Seðlabankann.
Hvað varðar úrlausn þeirra mála sem fjórir dómar Hæstaréttar taka til og hafa verið hunsaðir af aðilum sem telja sig eiga alls kostar við réttarríkið gildir eitt úrræði, úr því sem komið er:
Höfða þarf mál byggt á þeim forsendum sem dómurinn hefur þegar skorið úr um -en með lögformlegri áréttingu um fullnustu og viðurlög sem hingað til hefur vantað.
Gera þarf kröfu um aðfararhæfi þess dóms, svo hægt sé að framfylgja honum fyrir atbeina umboðsvalds, dugi ekki hefðbundnar áréttanir til. Það er svo sem fullreynt. Menn eiga að vita hvað það þýðir. Starfsmenn bankanna gætu fengið orlof í nokkra daga á meðan sviðið er sanerað.
170 þúsund íslendingar eða þar um bil bíða SKÝRRA yfirlýsinga um að þjófnaðarsögunni, eignaupptökunni og slagsíðunni sem er í íslenskum fjármálaviðskiptum sé lokið. Þetta mun ráða úrslitum komandi kosninga.
Heyr þá einhver?
Um bloggið
Guðmundur Kjartansson
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (2.2.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar