25.2.2011 | 00:52
Aðgerðaræði.
Jæja, þá hafið þið það: Stærstu stjórnvaldsákvarðanir í landinu eru nú teknar af aðgerðarsinnum sem ganga um bæinn með undirskriftalista. Til varnar "ákvörðun sinni" um ríkisstjórnarfrumvörp notar forsetinn lögskýringar sem ekki eru nokkrum manni bjóðandi. Hvar er það skráð eða hefðað í fræðikerfi íslenskrar lögfræði að það séu tveir löggjafar í landinu? Þennan þvætting þarf auðvitað að taka upp á öðrum vettvangi, en það er þannig í reynd að handhafar kosningaréttar framselja vald sitt með þátttöku EÐA með hjásetu í kosningum til alþingis. Það er inntak fulltrúalýðræðisins sem stór hópur fólks telur rétt að ganga framhjá eftir hentugleikum hverju sinni nú um stundir. Alþingi tekur ákvarðanir um löggjafarmál í fullu umboði meirihluta þjóðarinnar. Seinni röksemdin sem Ólafur Ragnar notar til réttlætingar á afskiptum og íhlutun í störf alþingis byggir á því að ekki hafi verið búið að endurnýja umboð þingsins með öðrum þingkosningum frá fyrri afskiptum hans af þessu dæmalausa máli -er jafn vitlaus og staðlaus og hin fyrri. Hann heldur því m.ö.o. fram að alþingi sem nú situr sé að einhverju leyti í andstöðu við þjóðina og njóti ekki umboðs hennar. Má þá minna forsetann og hans ráðgjafa á þá staðreynd að skipt var um ríkisstjórn án kosninga í janúar 2009. Hvernig gekk þá hjá honum að staðfesta lög sem borin voru undir hans hátign fram að kosningunum í apríl það ár?
Ég vona að menn rakni nú við og sjái út í hverskonar fen er búið að leiða okkur og krefjist endurskoðunar á nokkrum grundvallaratriðum í stjórnskipuninni. Undir það fellur sú krafa að enginn fái að gegna embætti forseta Íslands nema hann hafi hlotið amk. 51% greiddra atkvæða. Ég minni á að 62% kjósenda á Íslandi höfnuðu núverandi forseta í kosningunum 1996. Búið er að pólitísera forseetaembættið og leggja undir það völd sem það á ekki að hafa. Það kallar á breytingar á embættinu og lögum um kosningar til þess. Málskotsréttur forsetaembættisins kemur þá aðeins til álita að rof hafi orðið milli þings og þjóðar. Það er rétt, en munurinn er sá að þarna er ekki verið að tala um útþvæld þrasmál heldur samblástur innan arma ríkisvaldsins eða milli þeirra um einhverskonar ráðstafanir sem stappa nærri eða teljast fullgerð landráð. Frumvörp tll laga um eignarhald á fjölmiðlum og samningar um innstæðutryggingar við breska og hollenska ríkið falla engan veginn undir slíkar skilgreiningar. Rétt er að taka stjórnarskrána til endurskoðunar. Fyrsti liðurinn í þeirri endurskoðun er forsetaembættið.
Hægt er að sætta sig við embættisfærslur réttkjörins forseta sem hefur skv því fullan meirihluta kjósenda á bak við sig. Ísland hefur skv. þessari skilgreiningu ekki haft réttkjörinn forseta síðan 1980, þegar embættisferli þriðja forseta lýðveldisins lauk. Undirritaður spáði því í Morgunblaðsgreinum í aðdraganda kosninganna 1996 að ef Ólafur Ragnar Grímsson næði kosningu þá fengi þjóðin meira en sæist í malnum þvi hann gæti ekki hætt. Pólitískir samherjar hans stjórna nú landinu og fara sínu fram á öllum vígstöðvum. Níu ráðherrrar stjórnarinnar eru gamlir Alþýðubandalagsmenn, sumir gamlir Moskvukommar og þeir eru að leiða sín pólitísku menningargildi yfir okkur.
Það sem er næst á aðgerðalistanum er að koma fólki með "réttan" skilning á lögfræði í Hæstarétt. Þannig munu skapast nýjar dómvenjur og réttarheimildir: Óskalög Hæstaréttar þar sem í dómum verður tekið tillit til óska snjáldrara og bloggara og áhugafólks sem hratar seyru í Alþingishúsið og yfir kjörna fulltrúa sína. Þrjú sæti eru nú laus til umsóknar hjá þessari mikilvægustu stofnun lýðræðisins.
Um bloggið
Guðmundur Kjartansson
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (27.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar