Hættur sem að steðja: Landlæg upplausn og hentistefna.

Það er hreint út sagt kostulegt að fylgjast með framkomu svokallaðra ráðamanna í fjölda mála. Þeir skipta um hatt alveg eftir veðri. Skoðun og stefna gærdagsins er hneyksli dagsins í dag. Það sem á tungu ríkisforsjársinna hét sjálfsögð mannréttindi í gær og kallaði á bótaflokka af almannafé sem útdeilt skyldi með lögum - heitir í aðlöguninni "að skera burt  fitu". Allt á mæli sama fólks.

Sömu aðilar eru alveg hoppandi yfir stjórnvaldsákvörðun Hæstaréttar um framkvæmd kosninga til stjórnlagaþings. Í byrjun sagði þessi söfnuður að virða bæri ákvarðanir Hæstaréttar. Svo komu undanbrögðin. Þessi hópur með sjálfan forsætisráðherrann fremstan í flokki hefur ákaft leitað leiða til þess að hunsa ákvörðun réttarins. Það er rökstutt með tómum útúrsnúningum þar sem því er m.a. haldið fram að niðurstaðan hafi eiginlega ekki verið Hæstaréttar heldur "hæstaréttar"....  Þegar dómurinn sinnir sínni skyldu og kveður uppúr í erfiðum málum í samræmi við viðteknar réttarheimildir eru menn þar sakaðir um pólitíska spillingu og fyrir að kunna ekki neitt í lögfræði. Dæmi eru til um þetta úr frægum málum. Nú á að skipa þrjá nýja dómara við réttinn. Fróðlegt verður að fylgjast með því hvernig pólitíkin smeygir sér inn í það mál. Þá verður auðvitað allt í himnalagi ef ráðstjórnarsinnar og aðgerðarsinnar fá þar inn fulltrúa sína sem væntanlega hafa þann júristíska þankagang að það sé hlutverk réttarins að snikka til lagasafnið, sérstaklega stjórnarskrána - allt svona eftir tíðarandanum.

Almenn umræða er öll eftir þessu. Engin ábyrgð. Dónaskapurinn og persónulegt aurkast gengur yfir allt og alla. Hér hefur nákvæmlega ekkert breyst síðan á dögum Uppkastsins að Sambandslagasamningi Íslands og Danmerkur sem lagt var fyrir þingið 1908.  Margir af öflugustu þingmönnum landsins lögðust gegn því af því að það var þeim illþolanlegt að það væri Hannes Hafstein sem myndi þá kannski njóta heiðurs og virðingar fyrir vel unnið verk.

Hér er ekki ráðrúm til að tiltaka alla þá vitleysu sem flæðir fram í opinni og ábyrgðarlausri umræðu á degi hverjum. Vilji menn ná árangri á hinum opinbera vettvangi og koma málum áfram, þá þurfa allir sem áhuga hafa á þjóðmálum að gera það upp við sig í eitt skiptið fyrir öll hvar þeir / þau / þær ætla að standa í hinu pólitíska litrófi.

Sú ákvörðun á með réttu að helgast af afstöðu manna til ríkisvaldsins; valddreifingar milli stofnana þess; lagasetningar, framkvæmdarvalds, stöðu dómstóla og embættis þjóðhöfðingja ef menn vilja vera svo rausnarlegir að hafa kóng. En aðal hættan sem almennir kjósendur átta sig ekki á fyrr en um seinan snýst m.a. um stjórnmálamenn sem sigla allan sinn feril undir fölsku flaggi. Þeir sitja nú margir í ríkisstjórn landsins.

Kommúnistar og sósíalistar hafa almennt svo mikla fyrirlitningu á venjulegu fólki að þeir sanka að sér völdum undir sinni alkunnu kenningu: "Vér einir vitum". Alltof margir standa í biðröðum við valdastofnanir og afhenda frelsi sitt í nafni óskilgreindra öryggishagsmuna; umhverfisverndar og jöfnuðar sem á vorum dögum er að gera flest öflugustu velferðarríki veraldar gjaldþrota. Þegar ósköpin dynja yfir kannast enginn við neitt og allir eru þá orðnir  "frjálslyndir sósíaldemókratar". Búnir að skipta um hatt.

Almenning í landinu vantar vegvísi sem hann getur notað til þess að ákvarða á kjördegi hverjum á að afhenda stjórnarvölinn. En hann er ekki fyrir hendi í þessu landi. Fyrir bragðið veður allt uppi í smákóngum sem kljúfa flokka eftir veðri og vindum og sitjandi þingmenn leyfa sér að gefa bindandi yfirlýsingar um allt mögulegt sem - ef skráð yrði í lög - færi beina leið til dómstóla þar sem það væri líklegast slegið út af borðinu. Það er von að menn vilji að Hæstiréttur felli dóma eftir kröfuspjöldum og því sem telst á hverjum tíma "sanngjarnt".

Núverandi ríkisstjórn komst til valda fyrir atbeina þingmeirihluta sem myndaðist vegna kröfu frá almenningi um breytt og siðfræðilega betra stjórnarfar. Ástandið í landinu bendir ekki til þess að betri tímar séu í vændum. Fólks- og fyrirtækjaflótti, sérstaklega atgervisflóttinn staðfesta það. Flóttinn brast ekki á af fullum þunga fyrr en menn áttuðu sig á því að tilvist þessarar ríkisstjórnar snerist alls ekki um að reisa efnahag landsins úr rústum á skömmum tíma, heldur um að koma hér á sósíalísku þjóðskipulagi. Hrokafullar yfirlýsingar, lagafumvörp og fleira sem hljóðar eins og það hafi verið samið að beiðni Gomulka eða Ulbrichts staðfesta það.

Að þessari "menningarbyltingu" standa blómálfarnir á vinstri vængnum sem tala og skrifa alla daga eins og þeir hafi rétt verið að koma út af aðalfundinum í Hálsaskógi. Amk. einn þeirra er kominn í prívat stríð við Bandaríkin eftir að hafa fengið yfir sig verðskulduð viðbrögð fyrir að hafa átt þátt í tilraun til þess að stofna lífi bandarískra borgara og hermanna í hættu, skv. skilgreiningu ríkisstjórnar þar í landi.

Í snakkinu sem forsetinn hafði uppi sem rökstuðning fyrir því að senda samninginn við breta og hollendinga í þjóðaratkvæðagreiðslu kom fram sú einstæða skoðun hans að þingið sem nú situr sé einhvern veginn umboðslaust vegna þess að það hafi ekki verið endurnýjað með kosningum frá síðustu tilskipun hans hátignar.

Rétt er að við þurfum alþingiskosningar. 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

2 identicon

Hæ,

gaman að lesa bloggið hjá þér. Skemmtilegar lýsingar ;)

sjáumst!

Ingibjörg Guðmundsdóttir (IP-tala skráð) 11.3.2011 kl. 13:13

Um bloggið

Guðmundur Kjartansson

Höfundur

Guðmundur Kjartansson
Guðmundur Kjartansson
Fæddur í Reykjavík, uppalinn í Borgarfirði. Hef lengst af starfað við verslun og viðskipti, landbúnað og ferðamál. Stúd. MR. Nám við H.í. og síðar í Bandaríkjunum. Lauk þaðan BA í Busin. Adm. Finance og síðar MBA af stjórnunarsviði. Endurmenntun og fjöldi námskeiða HÍ og HR. Hef ritað talsvert í blöð, m.a. um skatta- og tollamál, landbúnað ofl. Á blog.is síðan í feb. 2011. Meðlimur í Fél. Viðskiptafræðinga og Hagfræðinga frá 2000.
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • ...9794_3856_n

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (27.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband