Réttarsniðganga og þjóðnýting eignarréttinda á Íslandi öllu.

Í fyrri færslu undirritaðs er tilraun forsætisráðherra og sporgöngufólks hennar til þess að sniðganga stjórnvaldsákvörðun Hæstaréttar í máli kærenda gagnvart framkvæmd kosninga til stjórnlagaþings gerð nokkur skil. Óþarft ætti að vera að nefna málefnið sérstaklega vegna þess að það skiptir ekki máli. Það eru fordæmin og formreglurnar sem eiga að ráða för. Lítum á fleiri dæmi um framgöngu byltingarráðsins sem ætlar að endurskrifa íslenska lagasafnið í einum grænum. 

Á þessari stundu liggur ekkert fyrir um það hvort löggjafinn ætlar að snúast á sveif með þessum handhafa framkæmdarvaldsins í viðleitninni til þess að sniðganga niðurstöðu Hæstaréttar í kærumáli vegna framkvæmdar kosninga til stjórnlagaþings. En víst er að hvernig sem þingið bregst við verður niðurstaðan fordæmisgefandi. 

Það virðist vera nokkurskonar þjóðaríþrótt nú orðið að setja óframkvæmanleg lög, eða ólög eins og það hét í fornu máli - eða að sniðganga gildandi lög og reglur - af því að málefnið er svo bráð sniðugt.

 Víkjum að grundvallaratriðum. 

 Skrumfrasinn "Auðlindir í þjóðareign" er eitt þessara ógreinanlegu fyrirheita sem alltaf njóta vinsælda og jafnvel kosningafylgis vegna þess að í inntaki þessa hugtaks felst fyrirheit, loforð um velsæld og "réttari" kúrs samanborið við það sem á undan er gengið - hvað sem það svo var: Jafnvel kjúkling í hvern pott og vindil upp í hvern rogginn karl. (sem vill)

Búið er að gera afturreka þjóðþrifamál sem er setning nýrra laga um réttindi til nýtingar vatnsfalla frá árinu 2007. Vatnalögin frá 1923 eru að ytra formi sósíalísk en að inntaki höll undir réttindi einkaréttarlegra sjónarmiða. Dómaframkvæmd laganna frá 1923 er almennt hliðholl sjónarmiðum einkaréttarins skv. þeim gögnum sem fyrir liggja frá Alþingi. Setning nýrra Vatnalaga var ekki annað en viðleitni til þess að færa í lagabókstaf það sem Hæstiréttur hafði skrifað í dómum sínum  alla 20. öldina. Allt í fullu samræmi við gildandi ákvæði stjórnarskrár.

Sameignarsinnar á Íslandi eru stöðugt að reyna að komast framhjá gildandi lögum og reglum í landinu, m.a. ákvæðum stjórnarskrár um friðhelgi eignarréttar. Svo mikið gengur á í viðleitni þeirra til samyrkjuvæðingar Íslands að þeir nenna ekki einu sinni að lesa 72. grein stjórnarskrárinnar eða orkulögin. Sú grein stjórnarskrárinnar hefur reynst stjórnlyndum þingmönnum betri en engin þegar taka hefur átt þinglesin réttindi eða eignir af fólki í nafni "almannahagsmuna".

Þá er þess að geta að í orkulögum frá 1977 er ákvæði sem áskilur ríkisvaldinu skilyrðislausan forkaupsrétt að öllum fasteignum, bújörðum og landspildum þar sem von er nokkurra jarðargæða sem þyrfti að bora eða grafa eftir.

Ríkið eignast tugi jarða á ári hverju. Með lögum um þjóðlendur eignaðist ríkið nánast allt hálendi Íslands. Ríkið á hundruðir bújarða nú þegar og óheimilt er að selja þær nema með sérstakri heimild á fjárlögum. Þegar þessar fasteignir eru seldar, eru ÖLL námuréttindi, hverju nafni sem nefnast undanskilin. Nýr landeigandi má ekki taka möl eða vatn nema rétt til heimilisbrúks. Þetta þýðir m.v. reynslu síðustu 120 ára að ríkið mun í kyrrþey eignast öll þessi réttindi -á landinu öllu vegna andvaraleysis þeirra sem sömdu lögin eða sniðugheita þeirra sem verma ráðherrastólana á hverjum tíma. Það mun aðeins taka um 100 - 150 ár m.v. núverandi stöðu.

Þessar staðreyndir sýna það svart á hvítu að allt tal um þjóðareign á auðlindum er tómt skrum og blaður í fólki sem ekki hefur eytt stundarkorni í að kynna sér raunverulega stöðu mála í réttarfarslegum skilningi eða lætur sem það viti ekki stöðu mála. Fyrir þingmenn og ráðherra er það heldur þunnur þrettándi. Allt stefnir í fulla ríkiseign á öllum landins gæðum.

Prófessor emeritus Sigurður Líndal segir m.a. í blaðagrein í Fréttablaðinu 31. janúar 2011 um þessi væntanlegu ákvæði í stjórnarskrá um þjóðareign á auðlindum:

 "Þessi orð "auðlindirnar verði þjóðareign" og önnur áþekk eru tískuorð stjórnmálaumræðunnar nú um stundir og er þar einkum átt við jarðhita, vatnsafl og nytjastofna á Íslandsmiðum. En um hvað er verið að tala; hvað merkir þetta orð "þjóðareign"?

Sigurður ræðir síðan í greininni hvernig ýmis jarðargæði lúta ákvæðum einkaréttarlegra lagasjónarmiða, jafnvel beinum eignarréttindum eða hefðuðum rétti til nýtingar, byggt t.d. á veiðireynslu og segir síðar í greininni:

"Merkingarlaus orð eða margræð einkenna mjög alla stjórnmálaumræðu á Íslandi og hafa lengi gert. Í skjóli merkingarleysisins þrífst óstjórn og spilling bæði í stjórnmálum og atvinnulífi - ekki síst í viðskiptum - og til hennar má rekja margvíslegan ófarnað." 

Síðar bætir Sigurður við:

"Þegar hugað er að orðum forsætisráðherra um þjóðareign á auðlindum sem virðist helzta baráttumál hennar, verður ekki annað ályktað en að fella eigi hina merkingarlausu orðræðu stjórnmálanna inn í ákvæði stjórnarskrárinnar og síðan fylgi ámóta yfirlýsingar eftir" S.L. 31.01.11 - (tilvitnun lýkur).

Á Íslandi eru um 7.000 lögbýli með skráð nöfn og í skýrslum Fasteignamats Ríkisins. Stundaður er búskapur á um 4.500 býlum í einhverri mynd. Af þeim eru um 900 mjólkurbú, um 2.200 fjárbú og sum þeirra eru blönduð bú. Restin er með ýmsum hætti í nytjum; laxveiði, jarðarbætur, skógrækt sem vel að merkja á nú að banna; ferðamennska og fleira sem leggur milljarðatugi í heild sinni til þjóðarbúsins.

 Þessi grein er skrifuð m.a. til þess að benda á hina eitruðu blöndu vanþekkingar og menntahroka sem einkennir málflutning margra stjórnmálamanna sem hafa tjáð sig opinberlega um stöðu eignarhalds og nýtingarréttar á landinu og vatnsföllum þess og þá skoðun þeirra að sérstaka  nauðsyn beri til þess að færa þessi réttindi undir ríkisvaldið eða boðvald því þóknanlegt.

Þá er það og tilgangur þessara skrifa að benda á afstöðu margra bænda eða samtaka þeirra í þá veru að þeir, eða samtök þeirra eigi að hafa einhverskonar boðvald yfir öllu lögskraðu jarðnæði í landinu. Til þess njóta þeir nú fulltingis ráðherra landbúnaðarmála.

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Valur Jensson

Já, það er stórfurðulegt, að sjálfur forsætisráðherrann gengur á undan með vondu fordæmi með því að sniðganga hæstaréttarúrskurð. Í nýlegum pistli birti ég frábærar röksemdir – einkum Þráins Eggertssonar prófessors – sem skjóta þessa Jóhönnu-stefnu alveg á bólakaf, en hún lætur alltaf sem ekkert hafi í skorizt og nýtur til þess "dyggrar" liðveizlu Fréttablaðsins og Rúv og situr sem fastast!

Hér er þessi stutti pistill, en magnað efnið þar: “Stjórnlagaráð” – hrakvalsþing!

Hef ekki tíma í umræðuna um þjóðlendumál að þessu sinni, verð jafnvel að geyma mér að lesa vel þessa grein þína, en ég er með efnismöppu um þau mál o.fl. á Moggabloggi mínu: Jarðeignamál kirkju og bænda; þjóðlendur.

Með góðri kveðju,

Jón Valur Jensson, 11.3.2011 kl. 23:50

2 Smámynd: Jón Valur Jensson

PS. Ertu frá Guðnabakka, Guðmundur?

Jón Valur Jensson, 12.3.2011 kl. 00:02

3 Smámynd: Jón Valur Jensson

Einmitt, mér datt reyndar Gilsbakki líka í hug, þú ert þá frændi Ásmundar biskups, geri ég ráð fyrir, og Ragnars Kjartanssonar myndhöggvara og Kjartans leikara, sonar hans, sem og Guðmundar Arnar, síra, sem var með mér í skóla, og hins mikla skólamanns Magnúsar Helgasonar, sem lofaður og prísaður var á sinni tíð, vide Þórberg m.m. Var Kjartan á Guðnabakka sjálfur af Gilsbakka-prestaættinni? (ég er ekki með ættfræðibækurnar uppi við hér).

Jón Valur Jensson, 12.3.2011 kl. 00:17

4 Smámynd: Kristinn Pétursson

Auðlindir þjóðarinnar - fiskimiðin og hálendið er þjóðareign þ.e. eign ríkisins.

Nýtingaréttur á auðlindum er allt annað mál - það á ekki að grauta þessu öllu í einn "velling".

Nýtingaréttur útgerða - er viðurkenndur - en mörg álitaefni eru lögfræðilega um hvernig skilgreina eigi þessi eignarréttindi.

Á móti er svo asnaleg deila um eignarhaldið á auðlindinni sjálfri.  Fiskimiðin hljóta að teljast ríkiseign - því ella gætu stjórnvöld tæplega úthlutað fiskveiðiréttindum - nema örugg væri að ríkissjóður eigi  auðlindina - eða hvað?

Það þarf því  að "súmmera" umræðuna:

  • Ríkissjóður á auðlindina
  • Útgerðarfyrirtæki eiga nýtingarrétt til fiskveiða - nú úthlutað til eins árs í senn - skv gildandi lögum
  • Skilgreiningu vantar á  hvar liggi  "landmæri"  á
  •  nýtingaréttar  til fiskveiða( takmarkaður afnotaréttur til fiskveiða skv lögum um fiskveiðistjórn)
  •  og - eignarhaldið á sjálfum fiskimiðunum - sem er eign ríkisins.

Þarna vantar einfaldlega lagaleg ítarlegri skilgreiningar t.d. hvaða merking er í  "sameign þjóðarinnar" í lögum um stjórn fiskveiða. 

Sumir lögmenn telja þetta "merkingarlaust ákvæði"....   

En ef svo er - er þá merkingin "sameign" í stigagangi í blokk - "merkingarlaus" sameign?  Varla.   

Ef ég  (eða þú) leigum í blokkinni , - hef  ég afnotarétt að stigaganginum -  þá  "á" ég  bar aðganginn að stigaganginum  í XX tilgangi - en ég (eða þú) eigum ekki stigaganginn??  Er það?

Eða má ég veðsetja stigaganginn  þó ég (þú) leigjum í blokkinni.....

Mismunurinn er frekar sá - að stigagangurinn er sameign - og blokkin er í einkaeigu - eigandinn leigir mér og þér...

En með auðlindina sjálfa gegnir örðu máli.  Hafið  tel ég að sé að öllum líkindum   þjóðlenda - eins og hálendið - en bújarðir eiga þar samt takmarkaðan eignarrétt í formi beitarréttar fyrir búpening  - en ríkið á hálendið..

eigum við ekki að reyna að  koma umræðunni "á aðeins hærra plan" eins og Nóbelskáldið sagði forðum daga....? 

Kristinn Pétursson, 12.3.2011 kl. 14:36

Um bloggið

Guðmundur Kjartansson

Höfundur

Guðmundur Kjartansson
Guðmundur Kjartansson
Fæddur í Reykjavík, uppalinn í Borgarfirði. Hef lengst af starfað við verslun og viðskipti, landbúnað og ferðamál. Stúd. MR. Nám við H.í. og síðar í Bandaríkjunum. Lauk þaðan BA í Busin. Adm. Finance og síðar MBA af stjórnunarsviði. Endurmenntun og fjöldi námskeiða HÍ og HR. Hef ritað talsvert í blöð, m.a. um skatta- og tollamál, landbúnað ofl. Á blog.is síðan í feb. 2011. Meðlimur í Fél. Viðskiptafræðinga og Hagfræðinga frá 2000.
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • ...9794_3856_n

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (27.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband