17.5.2011 | 00:16
Seðlaprentun og lánastarfsemi: Afskriftir eða þrot.
Kreditvæðingin mikla hófst um 1970. Síðan þá hefur nánast öll þensla í vestrænum hagkerfum verið framkölluð með útlánaþenslu, vaxtalækkun, lengingu lánstíma og stærstu fyrirtækjasamsteypur veraldar gerðu fjámálastarfsemi að sínu aðal viðfangsefni.
Öllu var hrært saman; viðskiptabönkum, fjárfestingabönkum, vogunarsjóðum, tryggingafyrirtækjum og annarri fjármálastarfsemi sem lýtur að öðrum þáttum hagkerfisins en framleiðslu. Með því er átt við að tekið sé hráefni og búin til úr því fullunnin vara. Það er raunhagkerfið sem peningar áttu í upphafi að vera traust ávísun á.
Verslun með peninga, seðla og annan pappír er orðin að risavaxinni atvinnugrein sem er vaxandi þáttur í efnahagsstarfsemi heimsins. Engu er líkara en allir ætli að auðgast á að versla með peninga. Sömu aðilum þykir gott að gleyma því að peningar eru ávísun á efnisleg verðmæti sem framleidd eru með mannafli og véltækni. Tekist hefur, illu heilli að rjíúfa orsakasambandið þarna á milli. Með heimssögulegum afleiðingum.
Seðlabanki Bandaríkjanna er orðinn stærsti framleiðandi þessarar vöru. Stórfelld seðlaprentun og neikvæðir raunstýrivextir bankans eiga að efla atvinnulíf í landinu og í stærstu viðskiptalöndum Bandaríkjanna, væntanlega með auknum innflutningi frá þeim.
Áhættan sem bankinn tekur er geigvænleg, vægt til orða tekið. Í fyrsta lagi er hið mikla seðlamagn ávísun á verðbólgu síðar og versnandi kjör í erlendum viðskiptum. Í öðru lagi stafar efnahagskerfinu hætta af Þeirri háttsemi erlendra viðskiptamanna að stinga dollaraseðlum í koddann. Þeir ættu að hugsa sinn gang. Stjórn seðlabanka Bandaríkjanna hefur vitað árum saman að meira en 30% af dollaramagni í umferð er í notkun utan Bandaríkjanna og að hann hefur enga stjórn á þeim fjármunum; hverjir höndla með þá og hvenær þeir gætu birst í bandaríska hagkerfinu fyrirvaralaust og með ófyrirsjáanlegum afleiðingum. Tilvist pappírspeninga byggist alfarið á trausti. Þegar það þverr er fjandinn laus og rúmlega það.
Margt bendir til þess að tímabil hagvaxtar drifnum áfram af einkaneyslu, fjármagnaðri með lánum sé að ljúka, eða að því sé þegar lokið. Þó er til ein leið út úr þeim vanda og hundruðir bandarískra banka geta nú farið þessa leið með dyggum stuðningi seðlabankans: Afskriftir!
Svo er að sjá sem að þær hundruðir milljarða dollara sem búnir hafa verið til úr engu á liðnum árum hafi verið notaðir til þess að skola út ruslinu ónýtum skuldaviðurkenningum frá milljónum einstaklinga og fyrrirtækja. Það gæti verið að það sé þá þjóðhagslega ódýrara að henda gömlu spilunum, gefa upp á nýtt og endurtaka leikinn við næsta hrun.
Er þetta þá svarið fyrir íslendinga? Íslensku bankarnir eru fullir upp í rjáfur af rusli sem Þeir ýmist bjuggu til fyrir hrunið eða með verðtryggingarsveiflunni eftir það. Kannski þetta sé svarið; að láta þessa fjármuni gossa, gefa upp á nýtt og skapa sér nýjan rekstrargrundvöll með viðskiptavinum sem nú er verið að gera upp einn af öðrum og dæma til langrar fjarveru frá þátttöku í hagkerfinu.
Svo er auðvitað annað ráð sem ekki dugir síður: Hækka laun og innlánsvexti; auka ráðstöfunartekjur og hvetja fólk til kerfisbundins sparnaðar, þannig að af þeim sparnaði væri raunverulegur ágóði. Hverfa frá lánadrifinni neyslu sem leyst yrði af hólmi með eiginfjármyndun hjá almenningi í stað skuldasöfnunar og vaxtaánauðar. Bankarnir gætu þá notað innlánasöfn til útlána til fjárfestinga í arðbærum rekstri frekar en að vera sjálfir að vasast í óskyldum rekstri út og suður.
Hversu mikið sem menn bollaleggja um að koma hagkerfinu af stað, þá byggist sú þróun og væntanlegur hagvöxtur á einkaneyslu öllu öðru fremur. Þessu virðast flestir gleyma í loftkenndum ræðuhöldum um hvað þurfi að gerast svo hjól atvinnulífsins fari að snúast af alvöru.
Um bloggið
Guðmundur Kjartansson
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (27.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Góð grein Guðmundur, það er hætt við að hagkerfið sé statt inni í bólu sem var inni í stóru bólunni sem sprakk. Að reyna að keyra hagvöxt á lánsdrifinni einkaneyslu er að pissa í skóinn,fjárfesting til framleiðslu verðmæta er eina leiðin til að mynda hagvöxt sem byggjandi er á.
Sveinn Úlfarsson (IP-tala skráð) 17.5.2011 kl. 11:39
""og hvetja fólk til kerfisbundins sparnaðar, þannig að af þeim sparnaði væri raunverulegur ágóði. ""
Það er ekki hægt að spara íslenskar krónur til að ná fram hagvexti. Hagkerfið er nú þegar með meira en þrjár landsframleiðslur í sparnaði. Að hækka þann stabba eykur bara á vandann og þjónar engum tilgangi. Það sem þarf að gera er að fá þá sem sitj á þessum sparnaði öllum til að eyða honum.
Eina raunhæfa leiðin út úr vandanum er afskriftir með samningum eða gjaldþrotum.
En annars góð greining á vandanum
Guðmundur Jónsson, 17.5.2011 kl. 21:50