26.5.2011 | 09:55
Lögformleg stofnun Skuldarasamtaka Íslands og uppgjör við fallna banka.
Undirritaður hvatti til þess í viðtalsþætti á Útvarpi Sögu í janúar sl. að gengið yrði til formlegrar stofnunar Skuldarasamtaka Íslands. Tilgangur slíkra samtaka almennings væri að setjast að samningaborðinu gegnt fulltrúum bankakerfisins þar sem tekist yrði á um vísitöluránið og forsendubrestinn sem varð í Íslandshruninu. Ég hafði bent á þessa staðreynd alveg frá því í október 2008 að til stæði að láta íslenskan almenning borga veisluna.
Staðfesting þessa lá fyrir í nóvember 2010 með yfirlýsingum stjórnvalda um að ekki yrði gengið lengra í að aðstoða heimilin í landinu en Sigurðarnefndin lagði til. Tillögur nefndarinnar sem Sigurður Snævarr hagfræðingur var fenginn til að stýra eru ekki pappírsins virði þegar litið er til kröfuréttarlegra sjónarmiða þeirra fjárskuldbindinga sem lagðar hafa verið á íslenskan almenning að honum forspurðum og án beinna lagaheimilda. Íslenska embættismannakerfið og bankarnir láta alveg eins og að 6. október 2008 hafi verið fremur venjulegur dagur í lífi landsmana. Ekkert óvenjulegt hafi gerst.
Samtök þessi myndu svo í framhaldinu setja allsherjarumboð í hendur nokkurra lögmanna. Með slíkt umboð í farteskinu gætu þeir fulltrúar sest að samningaborðinu með umboð frá c.a 100-130.000 einstaklingum sem settu sínar kröfur fram með afgerandi hætti. Að viðlögðu endanlegu greiðslufalli og eftirfarandi ófriði ef ekki næðist saman.
Bankarnir standa í stórfelldum lögbrotum á degi hverjum og þeir eru í beinni uppreisn gegn æðsta dómsstigi landsins: Hæstarétti. Þeir mis- og rangtúlka dóma hans til þess að komast hjá að gera það sem fyrir þá er lagt sem er að fara að almennum lögum í landinu. Þeim er og gert að hætta ránsmennskunni sem einkennt hefur reiknikúnstir þeirra árum saman.Þessu ætla þeir að óhlýðnast og gera ráð fyrir að komast upp með það.
Nái bankarnir að innheimta kröfusöfn föllnu bankanna að fullu erum við að tala um ávöxtun núverandi kröfuhafa upp á um 1650% mv. yfirtöku á 6% í upphafi. Sé það rétt sem haldið er fram að nokkrir nafngreindir útrásarvíkingar eigi þessi kröfusöfn, þ.m.t. hugsanlega fyrrum stjórnendur bankannna, þá er þar komin ástæða til harkalegra uppgjörs en menn hafa áður látið sér tiil hugar koma.
Að ríkisstjórnin skuli hafa afhent erlendum veðmálabröskurum tvo af bönkunum án tiltakanlegrar reifunar á opinberum vettvangi bendir til þess að henni hafi verið sýnd myndin af skrattanum þannig að hún lét hræðast til þessa afleiks.
Almenningur í landinu á þá ekki nema eitt úrræði eftir frammi fyrir slíkri uppgjöf og svikum við málstað hans.
Gleymið því ekki að ríkið, það eruð þið.
Um bloggið
Guðmundur Kjartansson
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (27.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar