27.10.2011 | 01:21
Stórsvigrúm, pólitík og bankastarfsemi
Hasarinn í kring um íslensku bankana ætlar engan endi að taka. Vonandi gerist það ekki fyrr en þeir hósta upp hluta af októberfengnum og deila með fátækum lýðnum. En það ku skorta þessa nýju tegund af rúmum sem allir vilja en enginn fær: Svigrúm.
En svona af því að nú eru allir að tala um íslensku bankana er rétt að benda á eitt atriði sem ekki kemst að í öllum látunum: Hvort eru þeir viðskiptabankar eða fjárfestingabankar? Hvað EIGA þeir að vera, sé litið til hagsmuna þeirra sem leggja þeim til féð? Hver leggur þeim til féð sem þeir eru að lána, m.a. í fallítt fyrirtæki sem þeir eiga sjálfir? Samkeppniseftirlitið hefur lúmskan grun um að bankarnir eigi mun fleiri fyrirtæki en þeir hafa sagt frá. Vér erum svo aldeilis hlessa!
Í afreglunarreiðinni sem hófst í Bandaríkjunum upp úr 1980 var skilunum milli þessara tveggja tegunda banka nánast eytt. Á Íslandi hurfu öll mörk með og eftir einkavæðingu bankanna upp úr 2000. Þegar blaðran sprakk lenti slitran í fangi almennings og þá var ríki frændinn svo góðgjarn og rausnarlegur að tryggja allar innstæður í bönkunum. Svo kom verðtryggingin og þá vitum við til hvers björgunin var gerð. Maturinn á eyðieyjunni var sýndarfæða. Elsku fáið ykkur, það er nóg til frammi, sagði landshöfðingjafrúin.
En hver er annars munurinn á þessum stofnunum? Hvað eiga stjórnendur áhættusækinna fjárfestingabanka með það að geta seilst í fjárhirslur viðskiptabankanna og lánað út sparifé í allskyns verkefni sem geta reynst áhættusamari en nokkur vill viðurkenna? Og það sem verra er, eigendur fjár á almennum sparifjárreikningum vita oftast ekkert hvað er verið að kokka með sjóði þeirra. Íslendingar hafa nú nokkrum sinnum fengið yfir sig úr eins og einni skolpfötu eftir áhættusæknina og velferðarbras bankanna sem geyma sjóði þeirra. Landsbanki Íslands, sem flestir hafa litið á sem viðskiptabanka var í raun gjaldþrota haustið 1985 eftir refa- og laxaveisluna miklu þar sem nánast öllu eigin fé bankans var sólundað í atvinnurekstur og ævintýri sem döguðu uppi í gjaldþrotum víða um land.
Útvegsbanki Íslands var lagður inn í hinn nýja banka sem í dag heitir Íslandsbanki, eftir nokkra kollhnísa, nafna- og kennitöluskipti, eftir að hann var tæmdur í lánastarfsemi til útgerðarfyrirtækja.
Verslunarbankinn var settur á hausinn eftir að nánast allt eigið fé bankans var lánað til að stofna sjónvarpsstöð. Verslunarbankinn var menningarbanki. Viðskiptavinirnir vissu bara ekki af þvi.
Ríkið axlaði ábyrgðina á þessum óförum og milljarðar af skattfé, blóðpeningum sem teknir eru af vinnandi fólki að viðlagðri aðför að lögum, voru settir í baukana hjá þessum gömlu og nýjum bönkum svo þeir gætu haldið áfram að varðveita sparifé viðskiptavina sinna.
Viðskiptabankar þurfa að ávaxta það fé sem þeim er trúað fyrir. Þeirra viðfangsefni eru skv. þeim skilgreiningum sem finnast í viðteknum heimildum, minni í sniðum og áhættu en það sem fjárfestingabankar fást almennt við. Þeir fást við almenna greiðslumiðlun, innanlands og utan, innheimtuþjónustu, greiðsluþjónustu osfrv. Þeir geta dreift áhættu sinni með minni og fleiri lánasamningum, t.d. til húsnæðiskaupa, bílakaupa eða almennra neytendalána. Viðfangsefnin eru auðvitað miklu fleiri, en þessi dæmi ættu að gefa dálitla hugmynd um hvert viðfangssvið viðskiptabankanna eru talin eiga að vera. Stærri viðskiptabankar eru þekktir fyrir að fjárfesta í arðvænlegum atvinnurekstri og nota til þess eignarhaldsfélög eða aðrar leiðir sem tengja þá ekki beint við sýnilega áhættu.
Viðfangsefni fjárfestingabankanna ná yfir svið atvinnulífsins skv. skilgreiningunni og undir það fellur t.d. skuldabréfaútboð, sala á skuldaviðurkenningum og allskyns rekstrarfjáröflun, stærri verkefni þar sem sótt er beint inn á fyrirtækjamarkaði og til stærri fjáreigenda sem þurfa snögga ávöxtun. Þeirra starfsemi er eðli sínu samkvæmt áhættusöm og á þess vegna ekki heima með venjubundinni viðskiptabankastarfsemi, sparisjóðarekstri eða öðru slíku.
Fræðileg úttekt og greining á eðli og umfangi bankarekstrar er efni í sérstaka grein -margar greinar, en bankastarfsemi greinist í miklu fleiri svið en þessi tvö sem hér eru nefnd. Nauðsyn er á að taka fræðilega umræðu um hver á að gera hvað í þeirri framtíð sem nú blasir við þar sem búið er að eyðileggja flesta gjaldmiðla, rústa viðteknu verðmætamati, verðskyni og því sem verst er alþjóðleg fjármálaviðskipti eru rúin öllu trausti.
Stjórnmálamenn, burtséð frá góðum vilja og öllu því geta ekki leyst þann vanda sem þeir eru að fást við. Afleiðingin er miklu alvarlegri veruleiki en bankakreppan, en það er hrun sjálfs stjórnmálaferlisins. Það sem bíður er einhverskonar blanda af sósíalisma og einræði. Frekar en orðið er. Nútíma stjórnmálamenning er algerlega ófær um að eyða einum eyri af sínu pólitíska kapítali í að takast á við veruleikann og lýsa því sem við blasir.
Sá veruleiki er að skera þarf niður umsvif ríkisins í flestum vestrænum ríkjum um c.a. 30%. Vestrænir sósíalistar og félagshyggjumiðstöðvarnar í háskólunum fá flog við tilhugsunina. Öll þeirra pólitíska tilvist hefur byggst á loforðum um eyðslu fjár í almannaþágu og þeir hafa komist upp með það áratugum saman án þess að segja frá því hver borgar.
Þeirra bíður kannski það sem forsetafrúin sagði af öðru tilefni sem er að þeir munu verða að hætta að læra og fara að vinna.
Um bloggið
Guðmundur Kjartansson
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (2.2.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Hvort eru þeir viðskiptabankar eða fjárfestingabankar?
Meirihluti viðskipta þeirra hefur hingað til verið með afleiðuskuldabréf, tengd við verðbólgu, gengi erlendra gjaldmiðla, launavísitölu, fasteignaverð, með föstum og breytilegum vöxtum og allt þar á milli. Stærstan hluta þessara pappíra eignuðust þeir á hrakvirði (junk bonds) og viðskiptaáætlun þeirra byggir að stóru leyti á hagnaði sem verður hvergi til nema á bókum vegna endurmats þeirra á hærra virði. (Alveg eins og útrásarvíkingarnir bjuggu til froðu.)
Þetta eru eiginlega frekar vogunarsjóðir heldur en fjárfestingarbankar.
Stærsta afleiðan er um leið stærsta einstaka áhættuskuldbinding íslensks fjármálafyrirtækis fyrr og síðar, en það er 300 milljarða myntkörfulán Landsbankans frá skilanefnd gamla bankans, sem er tengt við endurheimtuvirði tiltekinna lánasafna bankans í því skyni að hámarka endurheimtur skilanefndarinnar upp í IceSave kröfuna.Guðmundur Ásgeirsson, 27.10.2011 kl. 03:11