11.11.2011 | 09:03
Vegvísar í villtum heimi
Þegar heimurinn nær sér á strik eftir eyðilegginguna sem við höfum nú velt upp sl. tvö og hálft árið, kemur að því að taka verður ákvarðanir um framtíðarskipan fjölda mála. Valdabarátta stórveldanna heldur áfram og blöðrurnar sem blásnar verða upp munu halda áfram að springa hér eftir sem hingað til.
Eitt hið fyrsta og þýðingarmesta sem taka verður á eru alþjóðafjármál, fyrirkomulag gjaldmiðla, verðlagning þeirra og fjöldi. Nú liggur fyrir að sú alhæfing um fjölda ólíkra hagkerfa, sem felst í einum gjaldmiðli eins og Evrunni, gengur ekki. Grikkland er á útleið og fjöldi annarra gjaldþrota ríkja mun fylgja. Frelsi þessara ríkja og sjálfsákvörðunarréttur nær lika til þess að fá að halda áfram að sukka og stjórna með lausung. Það er frelsið og sjálfsákvörðunarrétturinn. Pólitísk sameining Evrópu eru risavaxin mistök, þau stærstu sem gerð hafa verið í alþjóðamálum sl. 200 árin ef undan er skilinn sofandaháttur vesturveldanna á uppgangstíma nasismans og fasismans.
Vesturveldin komu sér saman um skipulag gjaldmiðilsmála og alþjóðlegra viðskipta eftir seinna stríðið. Það samkomulag var kennt við Bretton Woods, borgina í New Hampshire þar sem leiðtogar landanna komu saman. Það samkomulag ásamt hinni leiftursnöggu viðreisn Vestur Þýskalands var vegvísirinn í villtum heimi á þeim tíma, 1947. Aðgerðirnar sem hinn snjalli fjármálaráðherra Vestur Þýskalands, Dr. Ludwig Erhard stóð fyrir komu hagkerfi landsins á hjólin svo að segja á einni nóttu. Erhard hafði líka kjark til þess að gera ráðstafanir sínar snöggt og án þess að eyða mörgum mánuðum í þras við hernámsliðið. Í stuttu máli lét Erhard fletja út skattkerfið og allar skattprósentur og gaf öll viðskipti frjáls. Skipt var um gjaldmiðil um leið og verðlagseftirlit og framleiðslustjórnun var afnumin. Kannski íslenskir stjórnmálamenn ættu að kynna sér þessa sögu. Þessum tíma hagvaxtar og glæstra sigra lauk 1971 þegar fljótandi gengi stærstu gjaldmiðlanna var tekið upp. Afnám okurlaganna í Bandaríkjunum 1980, þar sem sagt að að vaxtakrafa hærri 10% í venjulegum viðskiptum væri glæpur, tryggði það ástand okurs og svika sem nú hefur keyrt hagkerfi heimsins í þrot.
Fyrirkomulag alþjóðaviðskipta er stórmál sem hefur auðvitað stórskaðast af bramboltinu sem nú er í gangi. En ljóst er að miklar breytingar eru framundan á þeim vettvangi. Óvíst er um hvernig það landslag mun líta út, en víst er að það mun að miklu leyti mótast af viðureigninni við stærsta og fjölmennasta einræðisríki veraldarsögunnar. Fjöldi vestrænna ríkja gengur í dag bónarveg til Kína í þeim erindum að sníkja fé svo hægt verði að reka áfram gjaldþrota velferðarríki og fjármagna hallarekstur. Eru þau ríki tilbúin að greiða það verð sem upp verður sett? Gera menn sér grein fyrir því sem bíður kínverska hagkerfisins grípi menn ekki í taumana þar í landi án tafar? Halda menn að það geti gengið áfallalaust að halda uppi fölsku gengi árum og áratugum saman í algerum blóra við restina af heiminum? Gæti það verið að þessir 3.000 milljarðar dollara sem þeir hafa sankað að sér gætu orðið verðlausir á einni nóttu? Kínverjar eiga eftir að kynnast því sama og evrópumenn og aðrir á undan þeim sem er hvað hugtakið raungjaldmiðill þýðir í reynd.
Um bloggið
Guðmundur Kjartansson
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (2.2.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Góð grein og aldrei þessu vant, þegar fjallað er um efnahagsmál, á mannamáli. Takk fyrir þetta Guðmundur.
Svanur Gísli Þorkelsson, 11.11.2011 kl. 20:18