23.8.2012 | 19:57
Óttinn sem heldur stjórninni saman
Gaman er nú að fylgjast með undanslættinum og málefnabrasinu sem einkennir tilvist minni stjórnarflokksins. Flokkurinn hvarfast um einn mann sem sefur eins og tröllið undir brúnni í ævintýrinu. Ýmis mál má ekki ræða, sérstaklega ekki neitt sem viðkemur sameinaðri Evrópu. Hann er á móti ýmsu allt eftir því hvað klukkan er og hvaða dagur og hver er hægra- eða vinstramegin við ríkisstjórnina. Nú er hann hægra megin og talar í ríkisfjármálum eins og frjálslyndur íhaldsmaður. Það er allt í lagi þangað til núna að búið er að gefa út opinbera tilskipun um að svart sé hvítt.
Vinstri grænir halda því nú fram að þeir / þau séu ekki á leið með Ísland inn í ESB, en eru það samt virka daga frá kl. 08:00 17:00 skv. hinni opinberu stimpilklukku í pólítikinni. Svo eru þeir spurðir, svona til að gá hvort rökfræðin hjá sjálfu höfuðvígi hins rétta og sanna flæði undan hallanum eins og lækurinn í hlíðinni ... hvað sé þá summan af 3 + 2. Svarið er spurning eða véfrétt sem snýst um væntanlegar kosningar. Þær þarf að vinna svo hægt sé að klára að innleiða draum væntanlegs landsstjóra félaga Stalíns frá fjórða áratug síðustu aldar.
Bankaræðið í Evrópu virðist ekki valda hinum prúðlyndu heimspekingum á vinstri vængnum (ef það merkir þá eitthvað lengur) neinum sérstökum áhyggjum. Þenslan á peningamagni í umferð er efni í alvöru kreppu og stöðvun heimshagkerfisins sem enginn -að fáeinum hagfræðingum undanskildum virðist gera sér grein fyrir eða þorir að segja frá. Búið er að koma á skipulagi í rekstri heilu ríkjaheildanna sem byggist á opinberri lánaþenslu og peningaprentun, hallarekstri og framlengingum, okurvöxtum og óhjákvæmilegu jökulhlaupi sem stöðugt hækkar í eftir því sem aðgerðum til að skakka leikinn er frestað. Og enginn borgar neitt ....nema almenningur. Hann á að hreinsa upp skuldirnar.
Bankaeigendur og félagar þeirra á þjóðþingunum og í ríkisstjórnum um víða veröld raða í sig tertunum. Enda ekki seinna vænna, því á morgun verður bara étið tros. Úti. En það er auðvitað allt í lagi, því syndafallið kemur eftir þeirra daga og almenningur má þeirra vegna éta það sem úti frýs, tros eða hvað annað sem fellur til. Matarbirðgir í stærstu verslunum þróaðra ríkja duga til þriggja daga.
Inn í þennan undraheim hafa margir íslenskir stjórnmálamenn svarið þess dýran eið að leiða okkur, með góðu eða illu. En það er ekki þetta sem heldur saman ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur.
Það er Sjálfstæðisflokkurinn sem heldur stjórninni saman. Svo rækilega að öllu er ruslað á mitt borðið og dúknum svift upp á hornunum svo allramálaráðherrann geti stokkið með hann í fanginu af altaninu út í garð þegar veislunni er lokið. Það sést þá ekki hvað þeir átu eða drukku.
Óttinn við Sjálfstæðisflokkinn er límið sem stjórnin lafir á. Þeir vita að um leið og hann kemst til valda verður tekið til við að vinda ofan af jarðmiðjukenningum íslenskra félagshyggjumanna og hins marxíska kenniaðals sem nú predikar úr turninum vestanvert í Vatnsmýrinni dag hvern.
Um bloggið
Guðmundur Kjartansson
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (2.2.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar