Verðtryggingarkorn.

Menn takast á um verðtrygginguna af og til. Margir hvetja til afnáms hennar en aðrir telja það firru sem muni leiða til efnahagslegrar upplausnar, komi ekki eitthvað annað nothæft í stað hennar. 

Nokkur atriði sem vantar í hina fræðilegu umræðu um vísitölutryggingu fjárskuldbindinga eru ásamt öðru:

a) hún er almennt séð fölsuð vegna þess að í beitingu hennar felst staðhæfing um einhverja fasta í mannlegri hegðan. Það er ótrúleg bíræfni að byggja heilt hagkerfi á slíkum forgjöfum og ályktunum. Reynslan er sú að þeir sem tóku gengistryggð lán fram til hrunsins í október 2008 nutu tvöfaldrar eignamyndunar á við þá sem tóku verðtryggð lán í íslenskum krónum. Hún endurspeglar ekki það sem hún á að mæla og er því fölsuð; b) við skuldum í einum gjaldmiðli en fáum launin greidd í öðrum, sá fyrri er verðtryggður, en hinn ekki. Þetta villir mönnum sýn; c) Ólafslögin áttu að gilda í stuttan tíma, samin og sett í örvinglan sem fylgir 100% verðbólgu. Nú er öll fræðileg umræða um aðra lausn fallin niður, allt kerfið er orðið háð þessari vítisvél; d) hún leiðir af sér ábyrgðarleysi í lánveitingum; e) notkun hennar á langtíma lánasamninga í íslenskum krónum kemur í veg fyrir eignamyndun allt þar til hinn upprunalegi lántaki er kominn á grafarbakkann; f) á tíma húsbréfakerfisins þýddi það að næsti eigandi, sá sem yfirtók lánin eftir 10-15 ár naut greiðslufyrirkomulagsins með þeim hætti að við þau tímamót fór höfuðstóllinn að lækka og hann naut hugsanlegrar eignamyndunar. Þetta gekk svo langt að jafnvel starfsmenn Íbúðalánasjóðs skrifuðu greinar í blöð þar sem þeir héldu því fram að þeir sem seldu íbúðirnar sínar  innleystu hagnað við þessar aðstæður. Þetta sýnir að jafnvel þeir sem höfðu atvinnu af því að ræna fólk með þessu apparati skildu ekki neitt um afleiðingar þess; g) hleðsla verðbóta á höfuðstól leiðir af sér margvöxtunarfaktor sem er óþekkt fyrirbrigði, nema hjá okurlánurum. Við erum í raun að tala um að seinasta krónan af láni með 476 afborgunum hafi verið verðbætt svo oft að ekki er hægt að tjá það á tölulegu formi nema nota einhvern þriggja stafa veldisstuðul; h) undir verðtryggðu fyrirkomulagi geta fjármagnseigendur hent reiknivélunum sínum og flestar ekonometrískar greiningar verða að tómstundagamni, svona eins og að lesa símaskrána.

Margt annað mætti nefna en nauðsyn er á nýrri sýn á þessi mál. Mál er að ribbaldahættinum linni.

Það er samt sem áður rétt að heildarafnám verðtryggingar er óframkvæmanlegt eins og nú er ástatt og jafnvel afnám hennar á neytendalán er dæmt til að mistakast. Menn munu einfaldlega finna annað nafn á gerninginn eða bankarnir hreinlega leggja þau af.

Krónan var ónýt sem verðmælir í ársbyrjun 1979. Endanlega. Viðurkenning á því er fólgin í lögunum sjálfum sem innleiddu verðtrygginguna. Við losnum ekki við hana nema sem hluta af miklu, miklu víðtækari aðgerðum í efnahagsmálum á þjóðarvísu. Þar eru ríkisfjármálin undirrót alls ills, eins og flestir þekkja áreiðanlega.  Verst er að þar er við pólitískt vandamál að etja fremur en eitthvað sem hægt er að tjá með flóknum stærðfræðilegum líkingum.

Stöðugt verðlag á peningum er skilyrði fyrir heilbrigðu efnahagslífi. Til þess að það geti náðst verðum við annaðhvort að taka upp aðra stefnu í gengismálum eða nýjan gjaldmiðil, aðskilnað viðskiptabankastarfsemi frá fjárfestingarbankastarfsemi, banna hinum fyrrnefndu að versla með annað en raungjaldmiðil eða þá að taka upp náið samstarf í efnahags- og gjaldmiðilsmálum við þjóðir sem hafa sýnt það að þær kunna fótum sínum forráð í efnahagsmálum.  Við gætum jafnvel efnt til nk. "Bretton - Woods" fundar með þeim þjóðum sem við treystum í samstarfi. Þær eru t.d. kanadamenn,  norðmenn, ástralir og svisslendingar.

Eins og er getum við ekki hallað okkur að Evrópu vegna félaglegra mistaka sem hún líður nú fyrir sem eru svo risavaxin að erfitt er að finna hliðstæður úr þekktri sögu, jafnvel þótt leitað sér langt aftur í tímann. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sammála mörgu í þessari samantekt um vandræðin af verðtryggingunni.

"Stöðugt verðlag á peningum er skilyrði fyrir heilbrigðu efnahagslífi"

Einmitt, verðbólga (óstöðugleiki verðlags) verður ekki nema einhverjir séu að "prenta" peninga. Ólafur Margeirsson bendir á í pistlum að þegar bankarnir láni út meira en þeir fá lánað inn, þá séu þeir farnir að búa til peninga.  Slíkt valdi gengisþurrð sem endi óhjákvæmilega með gengisfalli og verðbólgu.    Ólafur bendir einnig á að í hagsögu íslendinga síðustu c.a. 100 ár, þá hafi farið saman óhófleg útlán bankanna gengisþurð og gengisfall. 

Ef þetta er rétt hjá Ólafi þá er líklega gangurinn sá varðandi verðtrygginguna, að bankarnir lána peninga sem ekki eru til við það verður til hagbóla sem gengur út í hagkerfið þegar ríki, lífeyrissjóðir og aðrir fjárfestar kaupa sinn skerf í bólunni. Lántakar sem taka lán í sakleysi sínu lenda svo í því þegar bólan springur að A.allar óverðtrygðar eignir rýrna (mælt í erlendum gjaldeyri) þar með talinn krónan sjálf B. Verðtryggðu lánin hækka og C. Vextir haldast háir. Allt til þess að milda áhrif þess þegar bólan sprakk og fram fer eignaupptaka frá almenningi í gegn um A B og C.   Þeir sem taka þátt í að mynda bóluna og græða á henni a.m.k. í skamtíma hugsun, fá einskonar stuðpúða út úr verðtryggingunni þegar hún dreifir skaðanum út um hagkerfið. Þar með verður hún til þess að auka líkur á að næsta bóla myndist þegar ráðandi öfl í hagkerfinu missa  allan áhuga á að fyrirbyggja vitleysuna sem þeir þó gætu, með því einu að (skv. Ólafi M.) hemja útlán bankanna!

Bjarni Gunnlaugur (IP-tala skráð) 28.8.2012 kl. 09:08

2 identicon

Þegar menn ætla að drífa hagkerfið áfram með innistæðulausum útlánum þar sem meint verðmæti virðast verða til við útlánin en ekkert annað þá verða til fyrirbæri eins og Harpan, Vaðlaheiðagöng,verslunarmiðstöð hér og verslunarmiðstöð þar, háskólasjúkrahús,ofurskrifstofubyggingar hér og ofurskrifstofubyggningar þar..............

Virðist vera að bóluhagkerfið sé afskaplega fasteignasækið, enda benti ágætur maður á að nægjanlegt væri að telja byggingakranana til að spá fyrir um kreppu!!!!

Bjarni Gunnlaugur (IP-tala skráð) 28.8.2012 kl. 09:20

3 identicon

     Eignatilfærsla milli kynsloda. Danskur hagfrædingur taladi um "grasshopper generationen" eda engjusprettu kynslodina ( 68 kynslodin) .  Verdbætur og sidan 3-5 % vextir a sama tima eru lifeyrissjodir ad lofa 3 % raunvøxtum. Lifeyrissjodir eru ekki sjalfbærir og madur spyr hvort their sem lida mest fyrir verdtrygginguna (unga folkid) komi ekki ad tomum kofa thegar their fa greitt lifeyrir. 

Bjartur (IP-tala skráð) 28.8.2012 kl. 20:30

Um bloggið

Guðmundur Kjartansson

Höfundur

Guðmundur Kjartansson
Guðmundur Kjartansson
Fæddur í Reykjavík, uppalinn í Borgarfirði. Hef lengst af starfað við verslun og viðskipti, landbúnað og ferðamál. Stúd. MR. Nám við H.í. og síðar í Bandaríkjunum. Lauk þaðan BA í Busin. Adm. Finance og síðar MBA af stjórnunarsviði. Endurmenntun og fjöldi námskeiða HÍ og HR. Hef ritað talsvert í blöð, m.a. um skatta- og tollamál, landbúnað ofl. Á blog.is síðan í feb. 2011. Meðlimur í Fél. Viðskiptafræðinga og Hagfræðinga frá 2000.
Feb. 2025
S M Þ M F F L
            1
2 3 4 5 6 7 8
9 10 11 12 13 14 15
16 17 18 19 20 21 22
23 24 25 26 27 28  

Nýjustu myndir

  • ...9794_3856_n

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (2.2.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband