17.11.2012 | 17:55
"Tryggt skal" ......
Áður en ég fer lengra með uppskurðinn á drögum að nýrri stjórnarskrá skal tekið fram að ég tók þátt í kosningum til stjórnlagaþings. Kaus 13 konur og 12 karla og var, eins og þeir segja í Getraununum, með sjö "rétta". Ég batt miklar vonir við þennan álitlega hóp sem hlaut kosningu. Vonbrigðin með það sem kom út úr vinnu þeirra eru alger, á flestum sviðum.
Endurtekinn lestur stjórnarskrárdraganna leiðir ekki neina huggun af sér. Dellan flæðir yfir öll borð. Við könnun kemur og í ljós að mjög margir sem sögðu "já" við þessu plaggi höfðu ekki lesið stakt orð í því áður en þeir gáfu því jáyrði sitt. Það er hressileg bíræfni af pokaprestum ríkisstjórnarinnar að láta sér detta það til hugar að þjóðin í heild sætti sig á endanum við það að rúmur þriðjungur kosningabærra manna í landinu setji oss nýja stjórnarskrá.
Hin ráðherraskipaða endurskoðunarnefnd hafði takmarkað umboð til efnislegra breytinga. Að sögn máttu þær aðeins gerast á "lagatæknilegum" grunni. Nefndin gat því ekki þurrkað út verstu Hálsaskógarákvæðin, eins og 8. greinina sem hér fylgir á eftir, en nefndin gerði annað, hreint asnastrik, sem er efnisleg breyting á 34. greinini um auðlindirnar. Þar setur nefndin landeigendum stólinn fyrir dyrnar með þeim hætti að ekki verður undan vikist að veita nokkra mótspyrnu. En skoðum aðeins mannréttindakaflann.
Eftir hraklega útreið einstaklinga í glímu sinni við hið altumlykjanri ríkisvald, töldu ýmsir sig eiga von í að hið nýkosna stjórnlagaráð myndi hnykkja með eftirminnilegum hætti á þeim takmörkunum sem ríkinu eru settar í óþrjótandi viðleitni þess til þess að eyða öllum einstaklingsbundnum rétti í nafni óskilgreindra félagslegra hagsmuna.
Svo varð hins vegar ekki. En við fengum í staðinn ónýtt plagg, fullt af allskyns fyrirheitum og loforðum um eitthvað sem enginn veit hvað er eða hvernig á að framkvæma. En, hvað með það, annað hefði verið stílbrot.
Það er vissulega vandaverk að tjá tilfinninguna; skynjunina á þvi sem er heimskulegt og sjálfhverft, en er ætlað til notkunar á æðstu stigum mannlegs samfélags, þar sem krafist er virðingar fyrir hinu andlega handverki.
Samning stjórnlaga er vandaverk af vídd ókunnri oss óbreyttum mönnum hins daglega amsturs. Það sést á andlegri afurð þess hóps sem saman kom í þessu göfuga nafni á tima sem liðinn er í aldanna rás og kemur ekki aftur.
Dæmi úr drögum stjórnlagaráðsins:
----------------------------------------------------------------------------------------------------
8. gr. Mannleg reisn.
Öllum skal tryggður réttur til að lifa með reisn. Margbreytileiki mannlífsins skal virtur í hvívetna.
----------------------------------------------------------------------------------------------------
Fábrotnum sveitamanni eins og þeim sem hér mælir verður orða vant yfir þeirri andagift sem hér svífur yfir vötnum.
HVER ætlar að tryggja reisnina? Á hvaða verði? Hvað er "líf með reisn"? Hvað er "réttur" í stjórnskipulegum skilningi? Nútíminn kostar fé. Hver, eða hverjir ætla að leggja fram fjármuni til þess að tryggja að væntanlegur framkvæmandi téðs fyrirheits um meintan "rétt" geti uppfyllt þetta ákvæði stjórnarskrár?
Hvenær er þessi grein brotin? Hver eru viðurlög við því að allir geti ekki lifað "með reisn"? Hvert er viðmiðið? Hæna í hvern pott? Læri í ofninn á sunnudögum? Friður fyrir ágangi stofnana ríkisins? Munnsöfnuður?
Hvert er stjórnlagaráðið að fara með yfirlýsingum um margbreytileika mannlífsins? Í hverju er hann fólginn?
Er hér verið að vísa í þekkta jaðarhópa? Er það málið .... en stjórnlagaráðið brestur kjark til þess að segja að allir sem séu á einvhern hátt öðruvísi en allir hinir eigi að fá að vera í friði?
Er þetta þá ákvæði hinna "öðruðu og jöðruðu"?
Haldbær skýring óskast og þá með hvaða hætti þetta fyrirheit fellur að gildandi lögum og fræðikerfi íslenskrar lögfræði og júristísks þankagangs yfirleitt.
Stórt er spurt, en rómantíkerarnir í stjórnlagaráðinu verða að hafa í huga að kallaðir verði til menn sem hafa vit á réttarheimspeki til þess að segja okkur sem berumst með hinum hversdagslega sjávargangi hvað bjó þeim í huga þegar þau létu þessar djúpu hugsanir frá sér.
Um bloggið
Guðmundur Kjartansson
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (2.2.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar