7.1.2013 | 23:56
Stjórnlagamóðan og fræðasamfélagið.
Það var fræðandi og jafnvel skemmtilegt að hlusta á sunnudagsspjall Ævars Kjartanssonar við prófessor Svan Kristjánsson í ríkisútvarpinu sl. sunnudag, 6. janúar.
Merkileg er sú viðleitni margra fræðimanna; þessi sókn eftir endanlegum sannleika og einhverju sem á slæmri íslensku gæti kallast absólút eða afgerandi og endanlegt form sannleika og kenninga um margt í mannlegu samfélagi. Það er sérkennilegt að jafn menntaðir menn eins og margir þeir sem um svo flókin mál sem hálögfræðileg álitaefni fjalla á opinberum vettvangi skuli ganga jafn hart fram í eftirsókn eftir þessum fræðilega stóradómi sem má skilja af málflutningi þeirra.
Verra er þegar menn sem njóta trausts og tiltrúar fyrir rannsóknir og kennslu á einu afmörkuðu sviði taka sig til og fara að tjá sig um flókin álitamál á sviðum sem liggja utan þeirra eigin fræðasviðs. Hér er ekki endilega verið að saka Svan Kristjánsson um slíkt, en hann hirtir fræðasamfélagið í heild fyrir slaka frammistöðu í umræðum um stjórnarskrána. Sú staðhæfng hans er staðlaus. Vera má að umræðan hafi orðið minni en efni stóðu til en margt bendir til að flestir málsmetandi aðilar innan hinnar íslensku lögfræðiakademíu hafi fyrir kurteisis sakir leitt málefnið hjá sér m.a. vegna þess hversu kjánalegt og hæpið það er í umfangi sínu og eðli. Til efs er að stjórnarskrá sem hlaut stuðning rúmlega 30% kosningabærra manna í landinu geti náð tilgangi sínum. Verra er enn að stór hluti þeirra sem þátt tóku og sögðu "ja" höfðu lítið eða ekkert kynnt sér efni plaggsins.
Svanur Kristjánsson og fleiri eru nú í óða önn að reyna að sannfæra landslýð um það að ástæða þess að hortitturinn sem þjóðin situr uppi með í formi draga að nýrri stjórnarskrá muni ekki ná brautargengi, og að það stafi af því að fræðasamfélagið íslenska hafi á þessu afmarkaða sviði brugðist skyldum sínum. Ætla má að skyldur þessar felist í því að hjálpa stjórnlagasirkusnum að koma sinu prívat gildismati í grundvallarlög og að það sé þá hlutverk téðs fræðasamfélags að svæla grautnum eða kálinu í lýðinn.
Svo snýr Svanur sér að því að ræða um það sem honum virðist þykja kjarni málsins. Það er hvernig klíkuskapur, spilling og annað misjafnt ásamt afnámi sjálfs lýðræðisins og ekkert minna, hafi öðlast afgerandi birtingarmynd í formi herverndarsamningsins og inngöngu Íslands í NATO; atburðarás sem náði hámarki 1946; í óeirðunum 31. mars 1949 og 1951 þegar bandarískur her sté á íslenskt land í annað sinn. Þetta er semsagt kjarni málsins. Út af þessu á að setja landinu nýja stjórnarskrá - til þess að fyrirbyggja að annar eins gerningur geti náð fram að ganga við svipaðar aðstæður sem upp kunna að koma síðar. En söguspekingunum láist alveg að geta þeirra atburða sem urðu kveikjan að ingöngu Íslands í Atlantshafsbandalagið. Kannski að aldraðir ríksiborgarar Tékkóslóvakíu eða Póllands geti bætt úr þessum halla á sagnfræðinni hjá hinum íslensku sögumeglurum.
Hitinn í hamsinum snýst semsagt um að það varð þá eftir allt Vilhjálmur þór sem varð einhverskonar landstjóri kanans á íslandi og fulltrú Roosevelts í stað Brynjólfs Bjarnasonar sem var væntalegur landstjóri Stalíns í hinu gerska ævintýri sem þeir gráta enn að ekki skuli hafa orðið. Þetta er auðvitað rangt. En Svanur Kristjánsson og aðrir af hans pólitíska sauðahúsi hljóta í sínum fræðilegu kallturnum að sættast á þá skilgreiningu um þátttöku íslendinga í varnarsamstarfi vestrænna þjóða að þar HAFI þrátt fyrir allt verið unnið með lýðræðislegum hætti að þeim stefnum og straumum sem mestu réðu. Af þessum lýðræðislegu straumum sem birtust i kosningum og augljósum vilja yfirgnæfandi meirihluta kosningabærra manna í landinu hrökklaðist vinstri stjórnin sem mynduð var 1956 frá völdum. Vandi íslenskra stjórnmálamana þess tíma var ekki lýðræðishalli, heldur hvernig bæri að taka á ofbeldisfullum kommúnistum á alþingi og í akademíunni sem töldu sig hafa með höndum boðvald sannleikans hér í heimi. Íslenskri samfélagsgerð hefur af fáum fyrirbærum stafað jafn mkill háski og þessum hópi vonsvikinna, ofstækisfullra og öfundsjúkra menntamanna. Og þeir eru enn að.
Það er semsagt aðal tilefnið til að setja þjóðinni nýja stjórnarskrá - að Ísland gekk í NATO fyrir 60 árum síðan, gegn vilja hóps nokkurra menntamanna sem tilheyrðu róttækustu stefnum í hinum kommúniska heimi. Það þarf ekki að grafast lengi fyrir í málflutningi þeirra til þess að sjá að ósigurinn er þeim enn óbærilegur.
Sá sem hér ritar hefur af persónulegri sannfæringu mótmælt nokkrum efnisatriðum sem fram koma í drögum að nýrri stjórnarskrá. Hið stærsta og alvarlegasta sem þar er að finna er auðlindaákvæðið. Talsmenn þessa dæmalausa ákvæðis halda því fram að með því sé fullur sigur hafður i viðureigninni við svonefnda sægreifa og annan sjálftökuaðal sem gíni yfir öllum auðlindum til lands og sjávar. Fleira kemur til. Þótt enginn kannist við það - er þessi hópur sem aðhyllist ríkiseign og þjóðnýtingu líka að hugsa um vatnsréttindi. Þegar þar að kemur verður þessu auðlindaákvæði beitt með gagnályktun eða rökfræðilegri útilokun eins og gert var með þjóðlendulögin, þannig að þau gæði sem menn ekki geta fært skjallegar sannanir fyrir eignarhaldi á falla sjáfkrafa undir ríkið.
Búið er að vera að reyna að sölsa öll þessi réttindi undir ríkið alveg frá gildistöku vatnalaganna frá 1921. Í skýringargreinum frumvarpsins frá 2007 kemur fram að tilgangur breytinganna sem þá voru lagðar til var sá að viðurkenna í lagabókstaf sjálfa framkvæmd laganna eins og hún birtist í dómum, m.a. frá Hæstarétti. Þetta kölluðu sósíalistar á alþingi og víðar "einkavæðingu" vatnsréttinda í landinu. Þessa lygaflækju komust þeir upp með og frumvarpið var dregið tl baka, m.a. til þess að tryggja lengri lífdaga stjórnarinnar.
Stjórnlagaráðið hafði endaskipti á mannréttindakafla stjórnarskrárinnar, en skv. yfirlýsingum stjórnmálamanna, m.a. margra sem stóðu að því að rétta ráðinu sitt veikbyggða umboð, hafði stjórnlagaráðið enga heimild eða óskir um að skipta sér af þeim kafla.
Þá er það hrein fölsun, hrein ósannindi að fræðasamfélagið hafi brugðist í þessu máli. Svanur Kristjánsson getur haldið því fram eins og hann vill, en langt er síðan t.d. prófessor Sigðurður Líndal tók auðlindaákvæðið til verðugrar skoðunar og gagnrýni í Fréttablaðinu. Björg Thorarensen lagaprófessor hefur af mikilli yfirvegun og kurteisi tekið til máls um þessi álitaefni og mat hennar á frumvarpinu eða einstökum efnisþáttum þess eins og hún hefur fjallað um þá verður hreint ekki misskilið.
Við ítrekaðan lestur þessa frumvarps verður ekki komist að annarri niðurstöðu en að það sé ótækt sem stjórnarskrá. Mannréttindakaflinn er uppfullur af pólitísku gildismati og kjánalegum yfirlýsingum um alls kyns réttindi og óútskýrð fyrirheit um ríkisábyrgðir á öllu sem getur varðað afkomu og velferð almennings. Viljayfirlýsingar eiga sér engan stað í grundvallarlögum. Vettvangur fyrir slíkt eru t.d. samþykktir áhugamannafélaga, stjórnmálaflokka eða stofnana sem hafa einhverskonar sefnumörkun með höndum.
Alvarlegast er auðlindaákvæðið, sérstaklega eftir meðferð lögfræðinganefndarinnar á því en þar eru öll einstaklingsbundin eignarréttindi sett í tvísýnu með loðinni yfirlýsingu um að afnot af einkaeignum skuli bundin við eitthvað sem kallað er "hefðbundin afnot fasteignar". Þarna er verið að sníða mönnum stakk með hætti sem ríkisvaldið hefur ekkert með að gera. Menn sem aðhyllast ríkisieign á auðlindum og atvinnutækjum verða fyrr eða síðar að hætta að gráta kommúnistaávarpið og stíga inn í 21. öldina, jafnvel bara þá 20. og viðurkenna það sem margreyndir menn eins og t.d. Benjamín H. J. Eiríksson hagfræðingur höfðu um það að segja. Annars er hætt við að ekki verði hægt að halda úti glæsilegum fræðasetrum fyrir þá til að stunda sitt félagslega skipulagstrúboð - fyrir almannafé.
Spyrja má í heild og með víðtækari hætti að hversu miklu leyti stjórnarskrárdrögin standast skoðun með tilliti til innviða fræðikerfis íslenskrar lögfræði. Þar þegja menn þunnu hljóði og enginn virðist tilbúinn til að tjá sig með afgerandi hætti, þótt það sé etv. mikilvægasti þáttur þessa máls þegar fram í sækir. Þögnin um þetta atriði bendir til þess að fræðimenn á sviði íslenskrar lögfræði taki ekkert mark á þessu stjórnlagamáli, álíti það skaup.
Forseti Íslands hefur þrisvar sinnum, hið minnsta, krafist þess að stjórnskipulegri óvissu um embættið, valdsvið þess og fleira sé eytt. Það er all athyglisvert. Einkanlega þegar til þess er litið að meinta lögfæðilega óvissu um embættið og valdsvið þess bjó hann að mestu til sjálfur.
Hættan sem samfélagi frjálsra manna stafar af viðleitni sjálfmiðaðra fræðimanna sem aldrei hafa lifað raunverulegu lífi, ólikt því sem gildir um það fólk sem þeir telja sig umkomna til að véla um fyrir er sú að af brölti þeirra leiðir minna frelsi og fasískur hugsunarháttur í öllu sem viðkemur ríkisvaldinu. Allt er til fyrir hið heilaga vald, stofnanir ríkisins, allt frelsi er skilgreint neikvætt; það sem ekki er sérstaklega leyft er með gagnályktun bannað. Þetta er það sem koma skal. Af hverju? Af því að það er svo öruggt. Allt í nafni pólitískrar hjarðhugsunar, n.k. stjórnskipulegu Hálsaskógarheilkenni.
Verði auðlindaákvæðið að stjórnlögum, þarf að setja á stofn emætti kartöflukommisars sem þarf að ákveða skilreiningu á því hvað telst hefðbundin afnot fasteignar í tilviki nýrra garða. Viðkomandi kartöfuamtmaður mun þurfa matsnefnd kartöflugaffla .... einhver verður að skilgreina hversu djúpt má stinga svo ekki sé seilst í almannaeign.
Um bloggið
Guðmundur Kjartansson
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (2.2.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Ég taldi mig hafa hlutstað á þetta viðtal, en velti því fyrir mér hvort við höfum virkilega verið að hlusta á sama þáttinn?
Svanur hélt því fram að af 39 íslenkum vísindatímaritum stæðust 5 faglegar kröfur erlendis, þ.e. á sviði landbúnaðra,jarðfræði,læknisfræði,sagnfræði og hugvísinda en lögfræðin,viðskiftafræðin,hagfræðin svo dæmi séu tekin stæðust ekki þessar kröfur. Var þetta rangt hjá Svani?
Eins hélt Svanur því fram að í aðdraganda stjórnarskrársmíðarinnar 1944 hefði Sveinn Björnsson gengið fram fyrir skjöldu í að tryggja tvíveldið þe. að forsetinn hefði valdamótvægi gagnvart þinginu en þæði ekki völd sín frá því. 26. grein stjórnarskrárinnar þ.e. um málskotsréttinn hafi verið virk frá upphafi þvert ofan í það sem fræðasamélagið hefði talið lengst af, þar með talinn fræðimaðurinn Ólafur Ragnar árum áður enn hann varð forseti og sýndi fram á að málskotsrétturinn var virkur (sem betur fer að mínu mati). Var þetta rangt hjá Svani?
Enn fremur nefndi Svanur að þessir ágætu menn Sveinn Björnsson og Vilhjálmur Þór hefðu síðan ekki treyst þóðinni til að taka lýðræðislegar ákvarðanir varðandi hersetuna heldur staðið í baktjaldamakki við Bandaríkjastjórn. Er þetta rangt hjá Svani?
Ef þetta er rétt um vantraust stjórnmálamannanna á að þjóðin hefði getað tekið "réttar" ákvarðanir í varnarmálum á 5. áratugnum þá er það ótrúlega líkt ástand og í dag með bæði Icesave hvar forsetinn tók blessunarlega fram fyrir hendur besserwisseranna á þingi með því að virkja 26. greinina og gæti orðið varðandi inngöngu í ESB ef við (og forsetinn) höldum ekki vöku okkar.
Mér finnst þú vera farinn að tala nokkuð á móti eigin sannfæringu í þessum langa pistli.
Bjarni Gunnlaugur (IP-tala skráð) 8.1.2013 kl. 08:39