20.7.2017 | 23:58
Krónublús
Þetta er allt í góðu með krónuna, en BJ og aðrir sem tjá sig um íslensk lögeyrismál sleppa alveg að lýsa bakhliðinni á þessu máli.
Flestir íslenskir hagfræðingar og margir erlendir kollegar þeirra sem eitthvað hafa haft um þessi mál að segja sl. 70 árin hafa komist að eftirfarandi niðurstöðu: Við sitjum uppi með krónuna þangað til innlend hagstjórn hefur staðist sveiflur, fyrirsjáanlegar eða ekki - OG afstýrt óbærilegu atvinnuleysi, verðbólguholskeflum og fleiru slíku sem hefur drekkt öllu hér að meðaltali á 10 ára fresti.
Að öllu þessu frágengnu verða þessir gjaldmiðlaskiptamenn að segja þjóðinni OPINBERLEGA til hvaða ráðstafana þeir ætla að grípa með hagstjórnina hrunda til grunna - þegar gjaldeyrisvarasjóðurinn er uppurinn, greiðslujöfnuður við útlönd neikvæður til langframa, vöruskiptajöfnuður óhagstæður, óraunhæfir kjarasamningar sem enn og aftur hleypa öllu í bál og brand ... Lát oss heyra hvernig sá vandi verður leystur. Um það snýst þetta mál.
Krónan hefur því miður verið eina leiðin til þess að dreifa háskanum, oftast óréttlátlega - en almannahagur hefur verið metinn þannig að til lengri tíma litið væri betra að halda uppi atvinnustiginu og sætta sig við að minna kæmi til skiptanna. Svo kemur batinn, eins og þjóðin lifir núna. Þá á almenningur að njóta hans í gegn um kaupmáttaraukningu og lægri vexti.
Hlutverk fjármálaráðuneytis, alþingis og seðlabankans er að stýra þjóðhagsumhverfinu að svo miklu leyti sem það er hægt, þannig að hagkerfið standi af sér háskann. Við fáum að sjá það á komandi árum hvort eitthvað hafi breyst.
Það mætti t.d. byrja á að slaka aðeins á í yfirlýsingum um ferðamannaiðnaðinn í landinu og hætta að skapa neikvæðar væntingar um hann, vegna þess að fréttirnar af þessu rausi berast líka til erlendra eyrna.
Um bloggið
Guðmundur Kjartansson
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 4
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar