14.6.2018 | 18:43
Ránstæki og raunvextir
Talsverður hiti er nú að myndast í kring um hugsanlega neikvæða hagsveiflu í íslenska hagkerfinu. Deilt er um vísitöluna, verðtryggingu, vaxtastig og launahækkanir sem ýmsir áberandi hópar í samfélaginu hafa fengið eða tekið sér. Bent er á að þetta gerist á meðan ekki er hægt að greiða t.d. ljósmæðrum laun sem þær eru verðar.
Þá er uppi hávær krafa um að húsnæðisliðurinn verði tekinn út úr verðlagsgrunninum svo að sakleysingjar í veðsettum húsum þurfi ekki að sæta því að aleigu þeirra sé rænt í gegn um vístöluránstækið vegna hagsveiflna sem þeir bera etv. enga ábyrgð á.
Allt er þetta kunnuglegt. Íslendingar hafa kollsiglt eigin hag endurtekið ýmist í gegn um óraunhæfa kjarasamninga eða óráðsíu sem fjármálastofnanir eða ríkið hafa stutt, t.d. með offramboði á lánsfé .... til m.a. íbúðakaupa. Opinber afskipti af húsnæðismarkaðnum í landinu hafa leitt stórfelldar hörmungar yfir land og þjóð. Fyrst þegar húsbréfakerfið var innleitt, síðar með loforðum um 90% lán. (sem enginn fékk, en loforðin orsökuðu tuga prósenta hækkanir á húsnæðisverði t.d. vorið 2003)
Á árunum eftir hrunið greip Seðlabanki Íslands til þess ráðs að bjóða hópi íslendinga sérkjör á verði gjaldeyris sem þeir áttu á erlendum bankareikningum. Valkosturinn var tugthúsvist. Milljarðar sem fluttir voru til landsins í gegn um þessa gátt SÍ fóru víða og höfðu umtalsverð áhrif í hinu agnarsmáa hagkerfi Íslands. Alvarlegustu áhrifin birtust í víðtækum fjárfestingum þessara aðila í fasteignum, m.a. í og í kring um miðborg Reykjavíkur. Fermetraverð rauk upp úr öllu valdi. Rætt er um hækkun úr 250 þúsund krónum á fermetrann 2010 í 1.0 milljón á fermetrann á árunum 2015 - 16. Öllu venjulegu fólki og félögum var með þessu rutt út af markaðnum.
Byggingaraðilar - þeir sem áttu eitthvað af húsnæði í byggingu nutu framlegðar sem ekki hefur sést. Fyrr eða síðar. Nýtt afl kom til leiks á markaðnum litla. Fasteignafélög með milljarða í vösunum. Þegar raunvirði fjárfestinganna sem þessi félög lögðu í er metið til fulls sést að þau sættu sig við 50% kaupmáttarrýrnun amk. á þeim krónum sem þau fengu hjá SÍ í gegn um skiptagáttina.
Leiðréttingin á sveiflum eins og þeim sem hér er lýst kemur oftast í gegn um rýrnun gjaldmiðilsins í næstu niðursveiflu og verbólguholskeflu. Þessa er nú beðið og jafnvel vænst víða. En almenningur í landinu sat uppi með óstjórnlega hækkun og tilheyrandi aukna greiðslubyrði. Það er veruleikinn sem þjóðin situr uppi með.
Ráðherrar, þingmenn, fjármálamenn og aðrir sem oftast njóta trausts og tiltrúar almennings láta oft út úr sér vitleysur og staðlausa stafi um ýmsar greinar atvinnulífsins - sem í sjálfu sér skipta ekki öllu máli ... þangað til almenningur fer að haga sér eftir spádómunum sem felast í spekinni.
Reykvíkingar hafa nú nýlokið við að kjósa yfir sig einn aðal sökudólginn í þessum darraðardansi. Þeir taka greinilega fullt mark á spádómnnum sem Borgarlínan byggir á. Ein aðal forsenda Borgarlínunnar er að 30% samgangna í Reykjavík á árinu 2040 fari fram á reiðhjólum. Þessi draumkennda og óraunsæja hugsun eða óskhyggja hefur loðað við borgarmálin alveg síðan lofað var að Austurstræti skyldi lokað fyrir akandi umferð eftir borgarstjórnarkosningarnar 1974. Þróunin síðan hefur leitt til þess að atvinnulíf í miðborginni eins og það hafði þróast frá í upphafi 18. aldar - er horfið. Menn létu ljúga því að sér að Borgarlínan myndi kosta 70 milljarða. Kostnaðurinn verður nær 300 milljörðum þegar allt er um garð gengið. En það er léttvægt í meðförum borgarstjórnarinnar. Peningarnir eiga m.a. að koma fyrir sölu verðmætasta lands á Íslandi: Flugvallarstæðisins í Vatnsmýri.
Að frátöldum afskiptum Seðlabankans af málum sem höfðu áhrif á húsnæðismarkaðinn eins og að framan er lýst vega þyngst afglöp borgarstjórnarinnar í málum sem tengjast hækkunum á húsnæði í borginni með beinum hætti.
Það felst aðallega í eftirtöldu:
Á árunum 1994 - 2008 jókst veltuhraði á fasteignamarkaði úr c.a. 4.400 eignum á ári (94)í hámarkið sem varð á árinu 2006 þegar um 16.700 íbúðir skiptu um hendur. Hrunið 2008 stöðvaði þessa þróun og sneri henni við um tíma. Á árinu 2006 voru byggðar um 3.700 íbúðir í Reykjavík. Þessi byggingarhraði í prósentum er uþb. þreföld prósenta fólksfjölgunar.
Bankarnir eiga sinn þátt í þessari þenslu m.a. með inngöngu inn á húsnæðislánamarkaðinn í ársbyrjun 2004 og þá ber Íbúðalánasjóður verulega ábyrgð á hvellinum 2008 með sérkennilegum skuldabréfaviðskiptum sínum við bankana á þessum árum. Þar týndust stórkostlegar fjárhæðir sem enginn hefur enn axlað ábyrgð á.
Þrátt fyrir fjálglegar yfirlýsingar sjóðsins og stjónrmálamanna um hið "félagslega" hlutverk hans berast nú fréttir af því að hann hafi á sl. árum fjármagnað fasteignakaup leigufélgs sem er umsvifamikill þátttakandi í þeirri vogun sem nú er stunduð á þessum markaði. Ríkisstyrkt okur og einokun.
Frá árinu 2010 var séð að þjóðarbúið myndi rétta úr kútnum miklu hraðar en gert hafði verið ráð fyrir. Þessu olli stórkostleg aukning á fjölda ferðamanna auk bestu gæfta til lands og sjávar að öðru leyti.
Borgarstjórn Reykjavíkur sat á höndum sér allan þennan tíma frá hruninu 2008 þar til hún sá að ástandið gæti fellt hana í nýafstöðnum kosningum. Borgarstjórnin þráaðist við að gera þær ráðstafanir sem gera þurfti og átti til þess að tryggja fyrir sitt leyti nægjanlegt framboð á húsnæði og um leið til að gera sitt til að afstýra holskeflu hækkana.
Bæjarstjórnir fara með allt vald í skipulagsmálum og leyfi til verklegra framkvæmda innan sinna umdæma. Stjórn borgarinnar spyrnti við öllum hugmyndum um ný borgarhverfi og deiliskipulagningu byggingarsvæða vítt og breytt.
Okrið á húsnæði bæði í kaupum og leigu eru eins og nú stendur algerlega á ábyrgð þeirra sem stjórnuðu á þeim tíma sem Ísland reis úr rústunum. Ástandið á húsnæðismarkaðnum er því að mestu leyti opinberum embættismönnum og kjörnum fulltrúum að kenna.
Þetta þurfa menn að hafa í huga þegar rætt er um víðtækar breytingar á skipulagi stórra mála sem hafa áhrif á líf og afkomu alls þorra manna í landinu.
Vilji einhver mennta sig um þessi mál er af nægu efni að taka. Allt á netinu. Mjög ítarlegar skýrslur hafa verið teknar saman um íslenska hagstjórn og hagsmunamál síðastiðna áratugi. Ein þessar skýrslna var unnin af Seðlabanka Íslands að beiðni ríkisstjórnarinnar á árinu 1998. Þar eru reifuð all ítarlega helstu sjónarmið varðandi framtíðarskipan gjaldmiðilsmála okkar.
Niðurstöður skýrslunnar eru sláandi og gildi þeirra hefur lítið breyst. Þar eru raktar ýmsar þær leiðir sem tiltækar voru og eru varðandi framtíðarskipulag gjaldmiðilsmála, eins og áður segir. Vísast um það til skýrslunnar sjálfrar.
Almenningur í landinu hefur ítrekað þurft að axla byrðar upp á tugi eða hundruðir milljarða eftir ófarir í efnahgagsmálum. Þær byrðar hafa verið lagðar á okkur í gegn um verðtrygginguna og rýrnun gjaldmiðilsins. Þetta skipulag amk. varðandi verðtrygginguna er best nefnt sértæk bankaréttvísi. Í þeirri staðhæfingu felst árétting um ábyrgð á efnahagsþrengingum; hver á að bera hana og af hverju.
Þegar menn ræða um og krefjast einhliða afnáms verðtryggingar eða einhliða upptöku annars (erlends) gjaldmiðils verða þeir um leið að koma með trúverðugar hugmyndir um nýtt fyrirkomulag.
Það fyrirkomulag þarf að innihalda skýr fyrirheit og áþreifanleg áhöld fyrir yfirstjórn efnahagsmála í landinu. Áhöld sem gera yfirvöldum kleift að fást með árangursríkum hætti við þrengingar í efnahagsmálum.
Afleiðingar slíkra þrenginga hafa allt íslenska hagstjórnartímbilið einkennst m.m. af eftirfarandi:
Rýrnun verðgildis afurða - verðlækkanir á erlendum mörkuðum
Samdráttur í útflutningstekjum að raungildi verðlags á hverjum tíma
Verðbólga vegna ósamræmis í hagvexti og ýmsum beinum kostnaði við rekstur í landinu
Verðbólga vegna þenslu í eftirspurn eftir fjármagni, vörum og þjónustu eða slíku
Viðvarandi halli á vöruskiptum og eftirfarandi halli á greiðslujöfnuði við erlend ríki
Ófyrirséður háski t.d. náttúruhamfarir
Margt fleira kemur til, en látum þesaa upptalningu duga að sinni.
Spurningin sem talsmenn örlagaríkra skipulagsbreytinga í íslenska hagkerfinu þurfa að svara er hvaða aðferðum þeir vilja beita við einhverjar eða allar ofangreindra aðstæðna þegar þær skella á okkur í þeirri stöðu að við erum með í notkun gjáldmiðil sem önnur þjóð eða þjóðir hafa öll umráð yfir.
Svo að spurningunni að ofan sé að nokkru svarað skal bent á að oftast hefja menn upp miklar skammir á hagstjórnina í landinu frammi fyrir slíkum spurningum. Slíkt á oft rétt á sér en hagsmunirnir sem um er teflt eru stærri en sem nemur einni góðviðrisspá.
Eitt af frumskilyrðum fyrir inngöngu ríkja inn í ESB hagkerfið er greint í sn. Maastricht sáttmála. Þar er skilgreint hver helstu skilyrðin eru fyrir upptöku Evrunnar. Þar má m.a. greina lága verðbólgu og lágmarks hagvöxt í tiltekinn árafjölda áður en gengið sé í fjárhirslu sambandsins. Samheitið yfir þetta ástand er: "Stöðugleiki"
Evrópusambandið braut þessi meginskilyrði með stórfelldum afleiðingum, í tengslum við inngöngu fjölda ríkja inn í sambandið eftir 1998. Flest þessara ríkja sem um ræðir hafa ekki enn náð sér eftir hrunið 2008, m.a. vegna þess að þau voru engan veginn í stakk búin til að fást við slíkar aðstæður. Tryggingasjóðir voru tómir eða aðeins til málamynda. Svo mikið lá undir við inntöku þessara ríkja að sambandið sjálft vék til hliðar undirstöðuskilyrðum fyrir inngöngu nýrra ríkja. Íslendingar fengu að smakka á herlegheitunum: Skellur íslands var um 14 þúsund milljarðar króna. Tíföld þjóðarframleiðsla landsins á þeim tíma.
Hér á landi veigra menn sér við að klára þessa flóknu umræðu um m.a. gjaldmiðlamál þannig að eitthvað megi á henni byggja. Hverju er um að kenna?
Svarið við þessari spurningu fer eftir því hver mælir: Innflutningsverslunin, útflutningsverslunin, bankamenn, pólíkusar á atkvæðaveiðum eða ábyrgðarlausir og fákunnandi spekúlantar sem margir hverjir sitja á þingi eða í bæjarstjórnum.
Hættulegast við viðbrögð síðasttalda hópsins eru viðbrögð þeirra sem hann mynda við stöðu sem þeir stundum lenda í í umræðum og geta ekki skýrt eða afgreitt með endanlegum hætti þegar til koma jafn flókin viðfangsefni og hagfræðileg álitaefni eru. Viðbrögð margra sem lenda í þessum aðstæðum eru m.a. haftahugsun og valdboð. Ísland er reyndar sérlega gott dæmi um hvort tveggja. Tilhneigingin til að breiða yfir vanþekkingu með yfirgangi er þekkt.
Bandaríski hagfræðingurinn og nóbelsverðlaunhafinn Milton Fríedman, (d.2006) var boðinn til Íslands fyrir margt löngu. Hann sat spjallþátt í sjónvarpssal RÚV með þremur hámenntuðum íslendingum sem allir eru miklir aðdáendur ríkisforsjár. Hreintrúa sósíalistar. Eftir nokkur orðaskipti var undrun nóbelsverlaunahafans orðin sjáanleg frammi fyrir tölfræðistagli og marxískum klisjum viðmælendanna sem hömuðust hver í kapp við annan við að gera tortryggilegt og hæpið allt sem hann stóð fyrir fræðilega.
Viðbrögð Friedmans voru einföld í bland við mikinn undrunarsvip. Hann sagði: "Economics is a cooperative science".
Þetta mættu íslendingar gjarnan skoða og efna til hlutlægrar opinberrar umræðu um efnahagsmál og gefin lögmál á sviði hagfræði.
Ísland var rekið eftir marxískum hagfræðikenningum að mestu frá Heimskreppunni sem skall á 1929 og allt til 1992. Af sárri reynslu eru margir hræddir við frelsið sem tók við eftir að fjórfrelsinu var komið á, síðasta þættinum 2001.
Argentína, eitt auðugasta land á jörðinni er í þroti eina ferðina enn. Alþjóða gjaldeyrisvarajóðurinn ætlar að bjarga. Eina ferðina enn. Flest hagkerfi Suður Ameríku eru í sífelldum þrengingum vegna ríkisafskipta, ríkisábyrgða á öllu milli himins og jarðar auk landlægrar spillingar og viðtekinnar trúar almennings í þessari stóru og auðugu álfu á miðstýrðar lausnir á öllum hans vandamálum.
Slíkt ástand fer á endanum út í öfgar þar sem ríkið í viðleitni sinni til að bera ábyrgð á öllu neyðist til að innleiða fasíska stjórnarhætti í góðum tilgangi. Nýtt dæmi um slíkt er auðvitað Venezuela.
Um bloggið
Guðmundur Kjartansson
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar