P.T. Barnum forseti Bandaríkjanna

P.T. Barnum stofnandi Barnum & Baily´s sirkussins varð á sínum tíma einn þekktasti sirkusstjóri Bandaríkjanna. Mikill sjónhverfingamaður, bragðarefur, pólitíkus og snillingur í að selja hverjum sem var hvað sem var. Menn fengu eftirkaupaheilkennið of seint í skiptum við þennan sleipa og hraðmælta sýningarstjóra. Sjá The New Yorker, Elizabeth Colbert. 29.07 2019: "The “Prince of Humbugs” was a liar, a racist, and an entertainer who would do anything for a crowd. He even considered running for President".

Bandaríski blaðamaðurinn David Cay Johnston, margverðlaunaður rannsóknarblaðamaður, skattasérfræðingur, rithöfundur og prófessor er búinn að þekkja fráfarandi Bandaríkjaforseta í 40 ár. Hann er búinn að vera að skrifa um Trump af og til síðan um 1970.

Hann lýsir fyrsta fundi sínum og viðbrögðum við Trump þannig: "He´s our P.T. Barnum" Johnston bætti því við að nánast í hvert skipti sem þeir ræddust við hafi Trump hótað sér lögsókn ef honum líkaði ekki eitthvað sem Johnston var að skrifa um hann. Johnston hefur gefið út bækur um Trump og eftir 1990 (The Making of Donald Trump) þegar farið var að ræða um Trump sem hugsanlegan forsetaframbjóðanda hafi hann gefið út eina bókina enn án þess að almenningur hafi áttað sig á því að Trump væri stórkostlegur gallagripur, eins og nú er komið á daginn. Aðrir sem hafa tjáð sig um samskipti sín við Trump segja að þeir hafi aldrei talað við Trump án þess að hann hafi reynt að selja þeim eitthvað. Johnston lýsir Trump sem ómerkilegum loddara, skrumara, svindlara og þjófi. Hann hafi lagt lag sitt við allskyns undirheimahyski, eiturlyfjasmyglara og mafíósa frá Austur Evrópu og víðar. Hann sé gersamlega sneiddur tilfinningum gagnvart þeim sem minna mega sín og að hann álíti heiminn eiga að þjóna sér. Hann kallar Trump sjúklegan lygara og sjálfsdýrkanda og allar sögur af auðævum hans og afrekum í viðskiptum séu uppspuni einn.

New York Times gaf út bók um Trump á árinu 2015, þar sem margir af færustu blaðamönnum þess koma við sögu. Þar var viðskiptasiðferði, persónueiginleikum og kvennafari hans lýst með sannferðugum hætti. Ritstjóri blaðsins hafði samband við skrifstofu Trumps til þess að óska eftir viðræðum um efni og staðreyndir. Blaðafulltrúi Trumps hreytti ónotum í samtalinu og sagði að forstjórinn myndi lögsækja blaðið og ekki þýddi að vera með dylgjur. Daginn eftir hringir síminn hjá ritstsjóra NYT og þar er blaðafulltrúinn á línunni með nýjar upplýsingar; Trump sé mjög áhugasamur um bókina og vilji sem mest fá að taka þátt í gerð hennar. Ritstjórinn segir að þar hafi komið til uppáhaldsumræðuefni Trumps; hann sjálfur.

Blaðamaðurinn Tony Schwartz ritaði bókina "Art of the Deal" sem gefin var út á árinu 1987 undir nafni Donalds Tumps. Schwarz bjóst við því að ritun bókarinnar færi fram með hefðbundnum hætti, byggt á samtölum sínum við Trump og staðreyndum sem hægt væri að staðfæra. Schwarz lýsir samskiptum sínum við Trump þannig að ekki hafi verið hægt að ná 30 sekúndna samtali við hann í heilu lagi. Trump hafi ætt inn og út af skrifstofum sinum, stanslaust í símanum og jafnvel þótt hann væri í persónulegri nánd var ekki hægt að draga eitt orð af viti upp úr honum. Schwarz hefur í öllum látunum sem umlykja forsetann og lygablæti hans um alla hluti, beðist afsökunar á skrifunum. Hann hafi verið blankur og ekki vitað hvaðan næsta máltíð handa börnum sínum kæmi. Schwarz byggði því bókina á því sem hann sá og heyrði á skrifstofum Trumps.

Ljóst var þegar á fyrsta ári af forsetatíð Trumps að af honum stafaði hætta, meiri en nokkurn grunaði. Margt það versta sem frá honum stafaði var flökt og ósamkvæmni í yfirlýsingum hans og uppátækjum í utanríkismálum. Hann deilir með forvera sínum í forsetaembætti fullri ábyrgð á dauða hundruða þúsunda manna í mið austurlöndum með því að hafa dregið herinn frá átakasvæðum í Írak, Sýrlandi og Afghanistan áður en ný skipan var komin á. ISIS veldið reis upp úr öskustónni um leið og her Bandaríkjanna var á brott. James Mattis sem gegndi starfi varnarmálaráðherra átti stærstan þátt í að afstýra frekara blóðbaði þar sem almennir borgarar voru drepnir tugþúsundum saman, börnum, bæði stúlkum og drengjum nauðgað að foreldrum ásjáandi, m.a. í íröksku borginni Ramadi. Þegar Trump fannst nóg að gert ákvað hann upp á sitt einsdæmi að kalla heim þann her sem eftir var frá Sýrlandi 2017-18. Það var nokkru eftir að Kúrdískum her tókst að vinna fullnaðarsigur á ISIS i Sýrlandi og N-Írak. Kúrdarnir misstu hátt í 20.000 menn og konur í þessum átökum og nú átti að skilja þá eftir varnarlausa mitt á milli tyrkneska hersins og stjórnarhers Sýrlands sem báðir biðu færis á að murka lífið úr Kúrdunum.

Rex Tillerson var á þessum tíma utanríkisráðherra Bandaríkjanna, maður með áratuga reynslu af alþjóðaviðskiptum og fyrrverandi forstjóri EXXON. Hann reyndi ásamt Jim Mattis að uppfræða Trump um ákveðinn veruleika og prótokol í utanríkismálum. Því var efnt til málstefnu með færasta fólki landsins um utanríkis- og varnarmál þar sem reynt skyldi að koma því inn hjá forsetanum að hentugra væri að berjast við skrælingjaherinn í eyðimörkum austurlanda en á Fimmta Breiðstræti og Broadway í New York. Eftir c.a. 10 mínútna forsögu spratt Trump upp úr stóli sínum, kolóður og æpti á þessa samstarfmsenn sína að hann þyrfti ekki á þessu kjaftæði að halda og hann myndi gera það sem sér dytti í hug. Báðir þessir menn Tillerson og Mattis hrökkluðust úr embættum og sama má segja um flesta samstarfsmenn þeirra. Enginn venjulegur maður með vott af sjálfsvirðingu hefur getað unnið með honum og flestir þeir / þau sem héldu út virðast hafa gert það af tryggð við land og þjóð og til þess að reyna að minnka skaðann af viðveru hins óða kóngs í höllinni.

Eftir árásina á þinghúsið nú í janúar 2021 þar sem óðir stuðningsmenn Trumps réðust til atlögu - að hans áeggjan, tók sjónvarpsstöðin CBS viðtal í þættinum "60 Minutes" við Nancy Pelosi forseta fulltrúadeildarinnar þar sem farið var yfir stöðuna. Eitt af því sem Pelosi gerir að umtalsefni í viðtalinu er netárás á öll stærstu tölvukerfi bandaríska ríkisins fyrstu dagana í janúar 2021. Netárás þessi er talin stafa frá Rússlandi. Yfirmenn öryggismála í bandaríska stjórnkerfinu höfðu þrábeðið Trump um að bregðast við með afgerandi hætti. Hann er sagður hafa neitað þessum umleitunum. Pelosi spyr hvað rússneska stjórnin hafi á Trump sem bindi hendur hans svo að hann fyrirgeri hagsmunum þess sem hann er eiðsvarinn til að gæta skv. skilmálum bandarísku stjórnarskrárinnarinnar. Ein kjaftasagan er að Putin eigi myndband frá tíma Miss Universe sem Trump hélt í Moskvu á sínum tíma þar sem fjórar rússneskar hórur eru sagðar kasta af sér vatni yfir forsetaefnið tilvonandi, liggjandi í stóru rúmi í  einu af fínni hótelum borgarinnar. 

Þeir sem minnast blaðamannafundar forsetans með Vladimir Putin eftir fund þeirra í Helsinki í júlí 2018 og sáu látbragð forsetans, vita að eitthvað er þar ekki í lagi. Tímaritið New Yorker gerir fundinum ágæt skil í grein blaðamannsins Joshua Jaffa þann 18. júlí 2018. Jaffa segist hafa verið í áfalli eftir að hafa horft á fundinn, en ekki undrandi. Hann hafi vitað að Trump tilbæði harðhausatilburði Putins og þá væntanlega þá staðreynd að hann hafi aldrei þurft að axla ábyrgð á neinu sem hann hafi gert. Á blaðamannafundinum sem haldinn var í beinni útsendingu mátti sjá látbragð forsetans sem best verður lýst eins og þrælsótta og óttablandinni virðingu, boginn háls, kýttar herðar, fálm og undansláttur sem allir sem á horfðu gátu séð.

Helsti kennari og fyrirmynd Trumps var Roy Cohn mafíulögmaður og prívat senditík J. Edgars Hoovers forstöðumanns bandarísku alríkislögrglunnar FBI. Hann var jafnframt aðal aðstoðarmaður og málefnasmiður Josephs MacCarthys öldungardeildarþingmanns frá Wisconsin við svívirðilegar og fantalegar yfirheyrslur yfir fólki sem þeir félagar grunuðu um að vera hallt undir kommúnisma, á árunum 1952 - 62. Þessar galdrabrennur fóru fram í þingsölum byggingarinnar sem Trump skríllinn ruddist inn í á dögunum.  Snemma árs 1962 sat Cohn á áheyrendabekkjum þinghússins þegar dómsmálanefnd þingsins var að slægja um 700 mafíubófa skv. tilmælum nýskipaðs dómsmálaráðherra landsins, Roberts F. Kennedys, en sumir þessara manna höfðu átt sinn þátt í að gera bróður hans að forseta í kosningunum 1960. Það var Cohn sem innrætti Trump þá kennisetningu að ef einhver legði til hans ætti hann að slá tífalt fastar til baka.

Í áðurnefndum CBS þætti "60 Minutes" er vikið að bók bróðurdóttur Trumps, Mary Trump um hættulegasta mann heims. (Too Much and Never Enough: How my Family Created the World´s Most Dangerous Man, 2020) CBS stöðin tók stutt viðtal við Mary Trump þ. 10. janúar. Umræðuefnið var ástandið eftir árásina á þinghúsið. Mary Trump er kliniskur sálfræðingur að mennt og hennar umfjöllun er ekki neitt efni fyrir glanstímarit. Hún segir einn aðal vandann vera að allan sinn uppvöxt hafi "Donald", eins og hún kallar hann, aldrei þurft að taka tapi. Faðir hans Fred hafi verið skrímsli sem öll fjölskyldan þjáðist í návist við vegna þess að þeir sem ekki sigruðu í öllu sem þeir tóku sér fyir hendur hafi verið lítt á vetur setjandi. Smælki. Aumingjar. Þjóðin sé nú að fást við hlutgervingu þessarar eigindar forsetans. Faðir Mary Trump, Fred C. Trump Jr., var mun eldri en Donald og það var ekki í hans persónu að fást við óþverrann sem faðir þeirra var búinn að róta upp á fimmtíu ára viðskiptaferli sínum, þar sem hann dró sér fé sem nemur tugum eða hundruðum milljóna dollara úr fjárreiðum félagslegra samhjálpar ráðstafana sem bandaríska ríkið og New York borg lögðu honum í hendur, m.a. til að byggja fjölbýlishús yfir fátæklinga. Fred C. Trump Jr., faðir Mary vann fyrstu árin hjá föður þeirra, en gafst upp á því samstarfi og gerðist í staðinn atvinnuflugmaður. Hann hafði mýkra geð og hefur sennilega verið stórgreindur maður, en hann drakk sig til dauða á árinu 1981, þá aðeins 43ja ára gamall. Faðir hans hefði væntanlega kallað hann "loser".

David Cay Johnston hefur sagt á fleiri en einum af mörgum fyrirlestrum sem hann hefur flutt um Donald Trump, ma. eftir að hann var kjörinn forseti að það væri enginn góður endir á þessari sögu: "There´s just no good ending to this story" DCJ 2015 (David Cay Johnston: Living in Trump´s America, 2018) og https://www.youtube.com/watch?v=19KI_2X2Sfs

Þegar þetta greinarkorn er ritað eru stuðningsmenn forsetans að vígbúast, búið er að kalla út tugþúsunda manna varalið landhersins og lögreglan er að þétta raðir sínar. Vinstri pressan sem þagði þunnu hljóði allt s.l. ár á meðan tugir bandarískra borga brunnu í hreinum skrílslátum hamast á forsetanum og þingið ætlar að lögsækja hann og dæma hann frá embætti áður en forsetatíð hans er formlega á enda.

Við embætti Trumps tekur maður sem virðist við elliglöp. Hann er hugsanlega aðili að eða njótandi ávinnings af peningaþvætti, skattsvikum og fjárdrætti sem sonur hans stundaði í hans skjóli og návist eftir að hann tók við varaforsetaembætti í Obama stjórninni í janúar 2009.

Aðilarnir sem keyptu forsetaembættið handa honum, stóru hátæknifyrirtækin í Kísildal í Californiu og eigendur stóru fjármálafyritækjanna á Wall Street eru búnir að loka samfélagsmiðlum pólitískra andstæðinga sinna. Þar eru glóðirnar skaraðar.

Það er meira eftir af þessari drápu en níu dagar. Því miður. 

 

 

 

 


« Síðasta færsla

Um bloggið

Guðmundur Kjartansson

Höfundur

Guðmundur Kjartansson
Guðmundur Kjartansson
Fæddur í Reykjavík, uppalinn í Borgarfirði. Hef lengst af starfað við verslun og viðskipti, landbúnað og ferðamál. Stúd. MR. Nám við H.í. og síðar í Bandaríkjunum. Lauk þaðan BA í Busin. Adm. Finance og síðar MBA af stjórnunarsviði. Endurmenntun og fjöldi námskeiða HÍ og HR. Hef ritað talsvert í blöð, m.a. um skatta- og tollamál, landbúnað ofl. Á blog.is síðan í feb. 2011. Meðlimur í Fél. Viðskiptafræðinga og Hagfræðinga frá 2000.
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • ...9794_3856_n

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 4
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband