P.T. Barnum forseti Bandaríkjanna

P.T. Barnum stofnandi Barnum & Baily´s sirkussins varð á sínum tíma einn þekktasti sirkusstjóri Bandaríkjanna. Mikill sjónhverfingamaður, bragðarefur, pólitíkus og snillingur í að selja hverjum sem var hvað sem var. Menn fengu eftirkaupaheilkennið of seint í skiptum við þennan sleipa og hraðmælta sýningarstjóra. Sjá The New Yorker, Elizabeth Colbert. 29.07 2019: "The “Prince of Humbugs” was a liar, a racist, and an entertainer who would do anything for a crowd. He even considered running for President".

Bandaríski blaðamaðurinn David Cay Johnston, margverðlaunaður rannsóknarblaðamaður, skattasérfræðingur, rithöfundur og prófessor er búinn að þekkja fráfarandi Bandaríkjaforseta í 40 ár. Hann er búinn að vera að skrifa um Trump af og til síðan um 1970.

Hann lýsir fyrsta fundi sínum og viðbrögðum við Trump þannig: "He´s our P.T. Barnum" Johnston bætti því við að nánast í hvert skipti sem þeir ræddust við hafi Trump hótað sér lögsókn ef honum líkaði ekki eitthvað sem Johnston var að skrifa um hann. Johnston hefur gefið út bækur um Trump og eftir 1990 (The Making of Donald Trump) þegar farið var að ræða um Trump sem hugsanlegan forsetaframbjóðanda hafi hann gefið út eina bókina enn án þess að almenningur hafi áttað sig á því að Trump væri stórkostlegur gallagripur, eins og nú er komið á daginn. Aðrir sem hafa tjáð sig um samskipti sín við Trump segja að þeir hafi aldrei talað við Trump án þess að hann hafi reynt að selja þeim eitthvað. Johnston lýsir Trump sem ómerkilegum loddara, skrumara, svindlara og þjófi. Hann hafi lagt lag sitt við allskyns undirheimahyski, eiturlyfjasmyglara og mafíósa frá Austur Evrópu og víðar. Hann sé gersamlega sneiddur tilfinningum gagnvart þeim sem minna mega sín og að hann álíti heiminn eiga að þjóna sér. Hann kallar Trump sjúklegan lygara og sjálfsdýrkanda og allar sögur af auðævum hans og afrekum í viðskiptum séu uppspuni einn.

New York Times gaf út bók um Trump á árinu 2015, þar sem margir af færustu blaðamönnum þess koma við sögu. Þar var viðskiptasiðferði, persónueiginleikum og kvennafari hans lýst með sannferðugum hætti. Ritstjóri blaðsins hafði samband við skrifstofu Trumps til þess að óska eftir viðræðum um efni og staðreyndir. Blaðafulltrúi Trumps hreytti ónotum í samtalinu og sagði að forstjórinn myndi lögsækja blaðið og ekki þýddi að vera með dylgjur. Daginn eftir hringir síminn hjá ritstsjóra NYT og þar er blaðafulltrúinn á línunni með nýjar upplýsingar; Trump sé mjög áhugasamur um bókina og vilji sem mest fá að taka þátt í gerð hennar. Ritstjórinn segir að þar hafi komið til uppáhaldsumræðuefni Trumps; hann sjálfur.

Blaðamaðurinn Tony Schwartz ritaði bókina "Art of the Deal" sem gefin var út á árinu 1987 undir nafni Donalds Tumps. Schwarz bjóst við því að ritun bókarinnar færi fram með hefðbundnum hætti, byggt á samtölum sínum við Trump og staðreyndum sem hægt væri að staðfæra. Schwarz lýsir samskiptum sínum við Trump þannig að ekki hafi verið hægt að ná 30 sekúndna samtali við hann í heilu lagi. Trump hafi ætt inn og út af skrifstofum sinum, stanslaust í símanum og jafnvel þótt hann væri í persónulegri nánd var ekki hægt að draga eitt orð af viti upp úr honum. Schwarz hefur í öllum látunum sem umlykja forsetann og lygablæti hans um alla hluti, beðist afsökunar á skrifunum. Hann hafi verið blankur og ekki vitað hvaðan næsta máltíð handa börnum sínum kæmi. Schwarz byggði því bókina á því sem hann sá og heyrði á skrifstofum Trumps.

Ljóst var þegar á fyrsta ári af forsetatíð Trumps að af honum stafaði hætta, meiri en nokkurn grunaði. Margt það versta sem frá honum stafaði var flökt og ósamkvæmni í yfirlýsingum hans og uppátækjum í utanríkismálum. Hann deilir með forvera sínum í forsetaembætti fullri ábyrgð á dauða hundruða þúsunda manna í mið austurlöndum með því að hafa dregið herinn frá átakasvæðum í Írak, Sýrlandi og Afghanistan áður en ný skipan var komin á. ISIS veldið reis upp úr öskustónni um leið og her Bandaríkjanna var á brott. James Mattis sem gegndi starfi varnarmálaráðherra átti stærstan þátt í að afstýra frekara blóðbaði þar sem almennir borgarar voru drepnir tugþúsundum saman, börnum, bæði stúlkum og drengjum nauðgað að foreldrum ásjáandi, m.a. í íröksku borginni Ramadi. Þegar Trump fannst nóg að gert ákvað hann upp á sitt einsdæmi að kalla heim þann her sem eftir var frá Sýrlandi 2017-18. Það var nokkru eftir að Kúrdískum her tókst að vinna fullnaðarsigur á ISIS i Sýrlandi og N-Írak. Kúrdarnir misstu hátt í 20.000 menn og konur í þessum átökum og nú átti að skilja þá eftir varnarlausa mitt á milli tyrkneska hersins og stjórnarhers Sýrlands sem báðir biðu færis á að murka lífið úr Kúrdunum.

Rex Tillerson var á þessum tíma utanríkisráðherra Bandaríkjanna, maður með áratuga reynslu af alþjóðaviðskiptum og fyrrverandi forstjóri EXXON. Hann reyndi ásamt Jim Mattis að uppfræða Trump um ákveðinn veruleika og prótokol í utanríkismálum. Því var efnt til málstefnu með færasta fólki landsins um utanríkis- og varnarmál þar sem reynt skyldi að koma því inn hjá forsetanum að hentugra væri að berjast við skrælingjaherinn í eyðimörkum austurlanda en á Fimmta Breiðstræti og Broadway í New York. Eftir c.a. 10 mínútna forsögu spratt Trump upp úr stóli sínum, kolóður og æpti á þessa samstarfmsenn sína að hann þyrfti ekki á þessu kjaftæði að halda og hann myndi gera það sem sér dytti í hug. Báðir þessir menn Tillerson og Mattis hrökkluðust úr embættum og sama má segja um flesta samstarfsmenn þeirra. Enginn venjulegur maður með vott af sjálfsvirðingu hefur getað unnið með honum og flestir þeir / þau sem héldu út virðast hafa gert það af tryggð við land og þjóð og til þess að reyna að minnka skaðann af viðveru hins óða kóngs í höllinni.

Eftir árásina á þinghúsið nú í janúar 2021 þar sem óðir stuðningsmenn Trumps réðust til atlögu - að hans áeggjan, tók sjónvarpsstöðin CBS viðtal í þættinum "60 Minutes" við Nancy Pelosi forseta fulltrúadeildarinnar þar sem farið var yfir stöðuna. Eitt af því sem Pelosi gerir að umtalsefni í viðtalinu er netárás á öll stærstu tölvukerfi bandaríska ríkisins fyrstu dagana í janúar 2021. Netárás þessi er talin stafa frá Rússlandi. Yfirmenn öryggismála í bandaríska stjórnkerfinu höfðu þrábeðið Trump um að bregðast við með afgerandi hætti. Hann er sagður hafa neitað þessum umleitunum. Pelosi spyr hvað rússneska stjórnin hafi á Trump sem bindi hendur hans svo að hann fyrirgeri hagsmunum þess sem hann er eiðsvarinn til að gæta skv. skilmálum bandarísku stjórnarskrárinnarinnar. Ein kjaftasagan er að Putin eigi myndband frá tíma Miss Universe sem Trump hélt í Moskvu á sínum tíma þar sem fjórar rússneskar hórur eru sagðar kasta af sér vatni yfir forsetaefnið tilvonandi, liggjandi í stóru rúmi í  einu af fínni hótelum borgarinnar. 

Þeir sem minnast blaðamannafundar forsetans með Vladimir Putin eftir fund þeirra í Helsinki í júlí 2018 og sáu látbragð forsetans, vita að eitthvað er þar ekki í lagi. Tímaritið New Yorker gerir fundinum ágæt skil í grein blaðamannsins Joshua Jaffa þann 18. júlí 2018. Jaffa segist hafa verið í áfalli eftir að hafa horft á fundinn, en ekki undrandi. Hann hafi vitað að Trump tilbæði harðhausatilburði Putins og þá væntanlega þá staðreynd að hann hafi aldrei þurft að axla ábyrgð á neinu sem hann hafi gert. Á blaðamannafundinum sem haldinn var í beinni útsendingu mátti sjá látbragð forsetans sem best verður lýst eins og þrælsótta og óttablandinni virðingu, boginn háls, kýttar herðar, fálm og undansláttur sem allir sem á horfðu gátu séð.

Helsti kennari og fyrirmynd Trumps var Roy Cohn mafíulögmaður og prívat senditík J. Edgars Hoovers forstöðumanns bandarísku alríkislögrglunnar FBI. Hann var jafnframt aðal aðstoðarmaður og málefnasmiður Josephs MacCarthys öldungardeildarþingmanns frá Wisconsin við svívirðilegar og fantalegar yfirheyrslur yfir fólki sem þeir félagar grunuðu um að vera hallt undir kommúnisma, á árunum 1952 - 62. Þessar galdrabrennur fóru fram í þingsölum byggingarinnar sem Trump skríllinn ruddist inn í á dögunum.  Snemma árs 1962 sat Cohn á áheyrendabekkjum þinghússins þegar dómsmálanefnd þingsins var að slægja um 700 mafíubófa skv. tilmælum nýskipaðs dómsmálaráðherra landsins, Roberts F. Kennedys, en sumir þessara manna höfðu átt sinn þátt í að gera bróður hans að forseta í kosningunum 1960. Það var Cohn sem innrætti Trump þá kennisetningu að ef einhver legði til hans ætti hann að slá tífalt fastar til baka.

Í áðurnefndum CBS þætti "60 Minutes" er vikið að bók bróðurdóttur Trumps, Mary Trump um hættulegasta mann heims. (Too Much and Never Enough: How my Family Created the World´s Most Dangerous Man, 2020) CBS stöðin tók stutt viðtal við Mary Trump þ. 10. janúar. Umræðuefnið var ástandið eftir árásina á þinghúsið. Mary Trump er kliniskur sálfræðingur að mennt og hennar umfjöllun er ekki neitt efni fyrir glanstímarit. Hún segir einn aðal vandann vera að allan sinn uppvöxt hafi "Donald", eins og hún kallar hann, aldrei þurft að taka tapi. Faðir hans Fred hafi verið skrímsli sem öll fjölskyldan þjáðist í návist við vegna þess að þeir sem ekki sigruðu í öllu sem þeir tóku sér fyir hendur hafi verið lítt á vetur setjandi. Smælki. Aumingjar. Þjóðin sé nú að fást við hlutgervingu þessarar eigindar forsetans. Faðir Mary Trump, Fred C. Trump Jr., var mun eldri en Donald og það var ekki í hans persónu að fást við óþverrann sem faðir þeirra var búinn að róta upp á fimmtíu ára viðskiptaferli sínum, þar sem hann dró sér fé sem nemur tugum eða hundruðum milljóna dollara úr fjárreiðum félagslegra samhjálpar ráðstafana sem bandaríska ríkið og New York borg lögðu honum í hendur, m.a. til að byggja fjölbýlishús yfir fátæklinga. Fred C. Trump Jr., faðir Mary vann fyrstu árin hjá föður þeirra, en gafst upp á því samstarfi og gerðist í staðinn atvinnuflugmaður. Hann hafði mýkra geð og hefur sennilega verið stórgreindur maður, en hann drakk sig til dauða á árinu 1981, þá aðeins 43ja ára gamall. Faðir hans hefði væntanlega kallað hann "loser".

David Cay Johnston hefur sagt á fleiri en einum af mörgum fyrirlestrum sem hann hefur flutt um Donald Trump, ma. eftir að hann var kjörinn forseti að það væri enginn góður endir á þessari sögu: "There´s just no good ending to this story" DCJ 2015 (David Cay Johnston: Living in Trump´s America, 2018) og https://www.youtube.com/watch?v=19KI_2X2Sfs

Þegar þetta greinarkorn er ritað eru stuðningsmenn forsetans að vígbúast, búið er að kalla út tugþúsunda manna varalið landhersins og lögreglan er að þétta raðir sínar. Vinstri pressan sem þagði þunnu hljóði allt s.l. ár á meðan tugir bandarískra borga brunnu í hreinum skrílslátum hamast á forsetanum og þingið ætlar að lögsækja hann og dæma hann frá embætti áður en forsetatíð hans er formlega á enda.

Við embætti Trumps tekur maður sem virðist við elliglöp. Hann er hugsanlega aðili að eða njótandi ávinnings af peningaþvætti, skattsvikum og fjárdrætti sem sonur hans stundaði í hans skjóli og návist eftir að hann tók við varaforsetaembætti í Obama stjórninni í janúar 2009.

Aðilarnir sem keyptu forsetaembættið handa honum, stóru hátæknifyrirtækin í Kísildal í Californiu og eigendur stóru fjármálafyritækjanna á Wall Street eru búnir að loka samfélagsmiðlum pólitískra andstæðinga sinna. Þar eru glóðirnar skaraðar.

Það er meira eftir af þessari drápu en níu dagar. Því miður. 

 

 

 

 


Af sértækri lagasetningu

"Hlutverk Alþingis er að setja almenn lög".

Svo mælti Próf. Sigurður Líndal fyrir nokkrum árum. Fleiri fræðimenn á sviði lögfræðinnar hafa áreiðanlega sett fram svipaða lýsingu á því hvert hlutverk löggjafans er.

Eitt hið versta afkvæmi fyrirgreiðslumennsku og skyndimennsku í starfsemi þingsins og í stjórnmálum almennt er sértæk lagasetning sem gripið er til vegna "háværrar kröfu" um lagasetningu við ýmis tækifæri. Þessi afstæðishyggja og tækifærismennska birtist einnig á degi hverjum í kröfum um valkvæð vinnubrögð í starfsemi dómstóla.

Eitt slíkt tilvik kom upp nú síðla vetrar þegar á fjörurnar rak vírus sem ættaður er úr leðurblökum sem yfirstéttin í fjölmennasta ríki jarðar leggur sér til munns við hátíðleg tækifæri.

Viðbrögð alþingis voru kannski fyrirsjáanleg og etv afleiðingarnar líka. Sett voru lög sem fólu í sér fyrirheit um fjárhagslega aðstoð við fyrirtæki sem lentu í eða myndu fyrirsjáanlega lenda í rekstrarerfiðleikum vegna viðskiptahrunsins sem fylgdi veirunni.

Svo hófst söngurinn og pexið um framkvæmdina. Mikill hiti gaus upp í fjölmiðlum í garð fyrirtækja sem ekki voru talin eiga "siðferðilegan" rétt til að fá styrkinn skv. sérstakri skoðun álitsgjafa helstu fjölmiðlanna. Ástæðan er semsagt að fyrirtækin sem um ræðir voru vel stæð, áttu fyrningar. 

Það virðist alveg hafa gleymst að gera ráð fyrir því að gildi laganna tæki jafnt til allra, óháð félagslegum aðstæðum eða matskenndum túlkunum á efnahagsstöðu manna eða lögaðila. 

Væri ekki tilvalið að einhver málsmetandi aðili sem kom að þessu máli upplýsi almenning um þessa lagasetningu?

 


Hliðstæður við 1929 - 1934

Leiða má rök að því að efnahagskreppan sem nú er skollin á eigi sér hliðstæðu við það sem gerðist víða um heim í framhaldi af verðbréfahruninu í september 1929. Einn grundvallarmunur er þó á.

Hrunið á verðbréfamörkuðum og eftirfarandi efnahagskreppa á árunum 1929 - 1934 varð að keðjuverkandi heimsfaraldri vegna vankunnáttu, fyrirhyggjuleysis og undirferlis stjórnenda stærstu seðlabanka heimsins. 

Það sem gerðist var í sem stystu máli, að í stað þess að mæta áhlaupinu á banka og sparisjóði eftir verðbréfahrunið með nægu framboði af lausafé, stigu seðlabankarnir á bremsurnar og annars stöndugir bankar fóru á hausinn þúsundum saman. Dregið var úr peningamagni í umferð þegar hið gagnstæða hefði afstýrt miklu af þeim hörmungum sem á eftir fylgdu. Lausafjárkreppan sem úttekt sparifjár milljóna manna hafði í för með sér leiddi yfir allan heiminn efnahagshrun og félagslega upplausn og undir lokin heimsstyrjöld. 

Hliðstæða nútímans við þessa atburði sem lítt hefur verið bent á er að nú eru það lýðkjörnir stjórnmálamenn og löggjafarsamkundur sem standa á bremsunum. Sagan mun leiða í ljós hvort öll þau höft og helsi sem beitt hefur verið í viðureigninni við leðurblökuvírusinn standast grundvallarlög og alþjóðlega samninga um mannréttindi. Engin leiðandi umræða hefur farið fram um það við hvaða aðstæður er heimilt að víkja til hliðar ákvæðum stjórnlaga og eftir atvikum ákvæðum alþjóðlegra mannréttindasáttmála frammi fyrir ögurástandi eins og nú hefur skapast. 

Allt er rólegt enn sem komið er en það mun ekki standa lengi eftir að hinar efnahagslegu afleiðingar hafta og innikróunar hundruða milljóna manna fara að bíta fyrir alvöru.

Ekkert ríki, enginn sjóður, engin auðlind hefur fjárhagslegt bolmagn til að standa straum af þeim aðgerðum sem ráðist hefur verið í nema í mjög stuttan tíma.

Ýmsir tala um mánuði eða misseri. Það stenst ekki.

Tíminn sem við höfum til að setja efnahagslífið af stað á nýjan leik hleypur á vikum. 


Ránstæki og raunvextir

Talsverður hiti er nú að myndast í kring um hugsanlega neikvæða hagsveiflu í íslenska hagkerfinu. Deilt er um vísitöluna, verðtryggingu, vaxtastig og launahækkanir sem ýmsir áberandi hópar í samfélaginu hafa fengið eða tekið sér. Bent er á að þetta gerist á meðan ekki er hægt að greiða t.d. ljósmæðrum laun sem þær eru verðar.

 

Þá er uppi hávær krafa um að húsnæðisliðurinn verði tekinn út úr verðlagsgrunninum svo að sakleysingjar í veðsettum húsum þurfi ekki að sæta því að aleigu þeirra sé rænt í gegn um vístöluránstækið vegna hagsveiflna sem þeir bera etv. enga ábyrgð á.

Allt er þetta kunnuglegt. Íslendingar hafa kollsiglt eigin hag endurtekið ýmist í gegn um óraunhæfa kjarasamninga eða óráðsíu sem fjármálastofnanir eða ríkið hafa stutt, t.d. með offramboði á lánsfé .... til m.a. íbúðakaupa. Opinber afskipti af húsnæðismarkaðnum í landinu hafa leitt stórfelldar hörmungar yfir land og þjóð. Fyrst þegar húsbréfakerfið var innleitt, síðar með loforðum um 90% lán. (sem enginn fékk, en loforðin orsökuðu tuga prósenta hækkanir á húsnæðisverði t.d. vorið 2003) 

Á árunum eftir hrunið greip Seðlabanki Íslands til þess ráðs að bjóða hópi íslendinga sérkjör á verði gjaldeyris sem þeir áttu á erlendum bankareikningum. Valkosturinn var tugthúsvist. Milljarðar sem fluttir voru til landsins í gegn um þessa gátt SÍ fóru víða og höfðu umtalsverð áhrif í hinu agnarsmáa hagkerfi Íslands. Alvarlegustu áhrifin birtust í víðtækum fjárfestingum þessara aðila í fasteignum, m.a. í og í kring um miðborg Reykjavíkur. Fermetraverð rauk upp úr öllu valdi. Rætt er um hækkun úr 250 þúsund krónum á fermetrann 2010 í 1.0 milljón á fermetrann á árunum 2015 - 16. Öllu venjulegu fólki og félögum var með þessu rutt út af markaðnum.

Byggingaraðilar - þeir sem áttu eitthvað af húsnæði í byggingu nutu framlegðar sem ekki hefur sést. Fyrr eða síðar. Nýtt afl kom til leiks á markaðnum litla. Fasteignafélög með milljarða í vösunum. Þegar raunvirði fjárfestinganna sem þessi félög lögðu í er metið til fulls sést að þau sættu sig við 50% kaupmáttarrýrnun amk. á þeim krónum sem þau fengu hjá SÍ í gegn um skiptagáttina.

 

Leiðréttingin á sveiflum eins og þeim sem hér er lýst kemur oftast í gegn um rýrnun gjaldmiðilsins í næstu niðursveiflu og verbólguholskeflu. Þessa er nú beðið og jafnvel vænst víða. En almenningur í landinu sat uppi með óstjórnlega hækkun og tilheyrandi aukna greiðslubyrði. Það er veruleikinn sem þjóðin situr uppi með.

Ráðherrar, þingmenn, fjármálamenn og aðrir sem oftast njóta trausts og tiltrúar almennings láta oft út úr sér vitleysur og staðlausa stafi um ýmsar greinar atvinnulífsins - sem í sjálfu sér skipta ekki öllu máli ... þangað til almenningur fer að haga sér eftir spádómunum sem felast í spekinni.

 

Reykvíkingar hafa nú nýlokið við að kjósa yfir sig einn aðal sökudólginn í þessum darraðardansi. Þeir taka greinilega fullt mark á spádómnnum sem Borgarlínan byggir á. Ein aðal forsenda Borgarlínunnar er að 30% samgangna í Reykjavík á árinu 2040 fari fram á reiðhjólum. Þessi draumkennda og óraunsæja hugsun eða óskhyggja hefur loðað við borgarmálin alveg síðan lofað var að Austurstræti skyldi lokað fyrir akandi umferð eftir borgarstjórnarkosningarnar 1974. Þróunin síðan hefur leitt til þess að atvinnulíf í miðborginni eins og það hafði þróast frá í upphafi 18. aldar - er horfið. Menn létu ljúga því að sér að Borgarlínan myndi kosta 70 milljarða. Kostnaðurinn verður nær 300 milljörðum þegar allt er um garð gengið. En það er léttvægt í meðförum borgarstjórnarinnar. Peningarnir eiga m.a. að koma fyrir sölu verðmætasta lands á Íslandi: Flugvallarstæðisins í Vatnsmýri. 

Að frátöldum afskiptum Seðlabankans af málum sem höfðu áhrif á húsnæðismarkaðinn eins og að framan er lýst vega þyngst afglöp borgarstjórnarinnar í málum sem tengjast hækkunum á húsnæði í borginni með beinum hætti.

Það felst aðallega í eftirtöldu:

Á árunum 1994 - 2008 jókst veltuhraði á fasteignamarkaði úr c.a. 4.400 eignum á ári (94)í hámarkið sem varð á árinu 2006 þegar um 16.700 íbúðir skiptu um hendur. Hrunið 2008 stöðvaði þessa þróun og sneri henni við um tíma. Á árinu 2006 voru byggðar um 3.700 íbúðir í Reykjavík. Þessi byggingarhraði í prósentum er uþb. þreföld prósenta fólksfjölgunar.

Bankarnir eiga sinn þátt í þessari þenslu m.a. með inngöngu inn á húsnæðislánamarkaðinn í ársbyrjun 2004 og þá ber Íbúðalánasjóður verulega ábyrgð á hvellinum 2008 með sérkennilegum skuldabréfaviðskiptum sínum við bankana á þessum árum. Þar týndust stórkostlegar fjárhæðir sem enginn hefur enn axlað ábyrgð á.

Þrátt fyrir fjálglegar yfirlýsingar sjóðsins og stjónrmálamanna um hið "félagslega" hlutverk hans berast nú fréttir af því að hann hafi á sl. árum fjármagnað fasteignakaup leigufélgs sem er umsvifamikill þátttakandi í þeirri vogun sem nú er stunduð á þessum markaði. Ríkisstyrkt okur og einokun.

 

Frá árinu 2010 var séð að þjóðarbúið myndi rétta úr kútnum miklu hraðar en gert hafði verið ráð fyrir. Þessu olli stórkostleg aukning á fjölda ferðamanna auk bestu gæfta til lands og sjávar að öðru leyti. 

Borgarstjórn Reykjavíkur sat á höndum sér allan þennan tíma frá hruninu 2008 þar til hún sá að ástandið gæti fellt hana í nýafstöðnum kosningum. Borgarstjórnin þráaðist við að gera þær ráðstafanir sem gera þurfti og átti til þess að tryggja fyrir sitt leyti nægjanlegt framboð á húsnæði og um leið til að gera sitt til að afstýra holskeflu hækkana. 

Bæjarstjórnir fara með allt vald í skipulagsmálum og leyfi til verklegra framkvæmda innan sinna umdæma. Stjórn borgarinnar spyrnti við öllum hugmyndum um ný borgarhverfi og deiliskipulagningu byggingarsvæða vítt og breytt. 

Okrið á húsnæði bæði í kaupum og leigu eru eins og nú stendur algerlega á ábyrgð þeirra sem stjórnuðu á þeim tíma sem Ísland reis úr rústunum. Ástandið á húsnæðismarkaðnum er því að mestu leyti opinberum embættismönnum og kjörnum fulltrúum að kenna. 

Þetta þurfa menn að hafa í huga þegar rætt er um víðtækar breytingar á skipulagi stórra mála sem hafa áhrif á líf og afkomu alls þorra manna í landinu.

 

Vilji einhver mennta sig um þessi mál er af nægu efni að taka. Allt á netinu. Mjög ítarlegar skýrslur hafa verið teknar saman um íslenska hagstjórn og hagsmunamál síðastiðna áratugi. Ein þessar skýrslna var unnin af Seðlabanka Íslands að beiðni ríkisstjórnarinnar á árinu 1998. Þar eru reifuð all ítarlega helstu sjónarmið varðandi framtíðarskipan gjaldmiðilsmála okkar. 

Niðurstöður skýrslunnar eru sláandi og gildi þeirra hefur lítið breyst. Þar eru raktar ýmsar þær leiðir sem tiltækar voru og eru varðandi framtíðarskipulag gjaldmiðilsmála, eins og áður segir. Vísast um það til skýrslunnar sjálfrar.

Almenningur í landinu hefur ítrekað þurft að axla byrðar upp á tugi eða hundruðir milljarða eftir ófarir í efnahgagsmálum. Þær byrðar hafa verið lagðar á okkur í gegn um verðtrygginguna og rýrnun gjaldmiðilsins. Þetta skipulag amk. varðandi verðtrygginguna er best nefnt sértæk bankaréttvísi. Í þeirri staðhæfingu felst árétting um ábyrgð á efnahagsþrengingum; hver á að bera hana og af hverju.

Þegar menn ræða um og krefjast einhliða afnáms verðtryggingar eða einhliða upptöku annars (erlends) gjaldmiðils verða þeir um leið að koma með trúverðugar hugmyndir um nýtt fyrirkomulag.

Það fyrirkomulag þarf að innihalda skýr fyrirheit og áþreifanleg áhöld fyrir yfirstjórn efnahagsmála í landinu. Áhöld sem gera yfirvöldum kleift að fást með árangursríkum hætti við þrengingar í efnahagsmálum.

Afleiðingar slíkra þrenginga hafa allt íslenska hagstjórnartímbilið einkennst m.m. af eftirfarandi:

Rýrnun verðgildis afurða - verðlækkanir á erlendum mörkuðum

Samdráttur í útflutningstekjum að raungildi verðlags á hverjum tíma

Verðbólga vegna ósamræmis í hagvexti og ýmsum beinum kostnaði við rekstur í landinu

Verðbólga vegna þenslu í eftirspurn eftir fjármagni, vörum og þjónustu eða slíku

Viðvarandi halli á vöruskiptum og eftirfarandi halli á greiðslujöfnuði við erlend ríki

Ófyrirséður háski t.d. náttúruhamfarir

Margt fleira kemur til, en látum þesaa upptalningu duga að sinni.

 

Spurningin sem talsmenn örlagaríkra skipulagsbreytinga í íslenska hagkerfinu þurfa að svara er  hvaða aðferðum þeir vilja beita við einhverjar eða allar ofangreindra aðstæðna þegar þær skella á okkur í þeirri stöðu að við erum með í notkun gjáldmiðil sem önnur þjóð eða þjóðir hafa öll umráð yfir.

Svo að spurningunni að ofan sé að nokkru svarað skal bent á að oftast hefja menn upp miklar skammir á hagstjórnina í landinu frammi fyrir slíkum spurningum. Slíkt á oft rétt á sér en hagsmunirnir sem um er teflt eru stærri en sem nemur einni góðviðrisspá.

 

Eitt af frumskilyrðum fyrir inngöngu ríkja inn í ESB hagkerfið er greint í sn. Maastricht sáttmála. Þar er skilgreint hver helstu skilyrðin eru fyrir upptöku Evrunnar. Þar má m.a. greina lága verðbólgu og lágmarks hagvöxt í tiltekinn árafjölda áður en gengið sé í fjárhirslu sambandsins. Samheitið yfir þetta ástand er: "Stöðugleiki"

Evrópusambandið braut þessi meginskilyrði með stórfelldum afleiðingum, í tengslum við inngöngu fjölda ríkja inn í sambandið eftir 1998. Flest þessara ríkja sem um ræðir hafa ekki enn náð sér eftir hrunið 2008, m.a. vegna þess að þau voru engan veginn í stakk búin til að fást við slíkar aðstæður. Tryggingasjóðir voru tómir eða aðeins til málamynda. Svo mikið lá undir við inntöku þessara ríkja að sambandið sjálft vék til hliðar undirstöðuskilyrðum fyrir inngöngu nýrra ríkja. Íslendingar fengu að smakka á herlegheitunum: Skellur íslands var um 14 þúsund milljarðar króna. Tíföld þjóðarframleiðsla landsins á þeim tíma. 

 

Hér á landi veigra menn sér við að klára þessa flóknu umræðu um m.a. gjaldmiðlamál þannig að eitthvað megi á henni byggja. Hverju er um að kenna? 

Svarið við þessari spurningu fer eftir því hver mælir: Innflutningsverslunin, útflutningsverslunin, bankamenn, pólíkusar á atkvæðaveiðum eða ábyrgðarlausir og fákunnandi spekúlantar sem margir hverjir sitja á þingi eða í bæjarstjórnum. 

Hættulegast við viðbrögð síðasttalda hópsins eru viðbrögð þeirra sem hann mynda við stöðu sem þeir stundum lenda í í umræðum og geta ekki skýrt eða afgreitt með endanlegum hætti þegar til koma jafn flókin viðfangsefni og hagfræðileg álitaefni eru. Viðbrögð margra sem lenda í þessum aðstæðum eru m.a. haftahugsun og valdboð. Ísland er reyndar sérlega gott dæmi um hvort tveggja. Tilhneigingin til að breiða yfir vanþekkingu með yfirgangi er þekkt.

 

Bandaríski hagfræðingurinn og nóbelsverðlaunhafinn Milton Fríedman, (d.2006) var boðinn til Íslands fyrir margt löngu. Hann sat spjallþátt í sjónvarpssal RÚV með þremur hámenntuðum íslendingum sem allir eru miklir aðdáendur ríkisforsjár. Hreintrúa sósíalistar. Eftir nokkur orðaskipti var undrun nóbelsverlaunahafans orðin sjáanleg frammi fyrir tölfræðistagli og marxískum klisjum viðmælendanna sem hömuðust hver í kapp við annan við að gera tortryggilegt og hæpið allt sem hann stóð fyrir fræðilega.

Viðbrögð Friedmans voru einföld í bland við mikinn undrunarsvip. Hann sagði: "Economics is a cooperative science".

Þetta mættu íslendingar gjarnan skoða og efna til hlutlægrar opinberrar umræðu um efnahagsmál og gefin lögmál á sviði hagfræði. 

 

Ísland var rekið eftir marxískum hagfræðikenningum að mestu frá Heimskreppunni sem skall á 1929 og allt til 1992. Af sárri reynslu eru margir hræddir við frelsið sem tók við eftir að fjórfrelsinu var komið á, síðasta þættinum 2001. 

Argentína, eitt auðugasta land á jörðinni er í þroti eina ferðina enn. Alþjóða gjaldeyrisvarajóðurinn ætlar að bjarga. Eina ferðina enn. Flest hagkerfi Suður Ameríku eru í sífelldum þrengingum vegna ríkisafskipta, ríkisábyrgða á öllu milli himins og jarðar auk landlægrar spillingar og viðtekinnar trúar almennings í þessari stóru og auðugu álfu á miðstýrðar lausnir á öllum hans vandamálum.

Slíkt ástand fer á endanum út í öfgar þar sem ríkið í viðleitni sinni til að bera ábyrgð á öllu neyðist til að innleiða fasíska stjórnarhætti í góðum tilgangi. Nýtt dæmi um slíkt er auðvitað Venezuela.

 

 

 


Hagstjórn og vaxtamunarviðskipti

Það eru röskir og hugmyndaríkir menn sem banka í vegginn á Svörtuloftum. Þeir eru að krefjast aukins frelsis í viðskiptum með gjaldeyri og flóknar fjármálaafurðir nú í góðærinu.

40% bindiskylda á innfluttan gjaldeyri á núll prósent vöxtum er nauðvörn gegn endutekinni kollsteypu frá 2008.

SÍ sat uppi með kröfur erlendra kröfueigenda upp á 1500 milljarða eða meira vegna jöklabréfanna og vaxtarmunaveislunnar sem lauk með þjóðargjaldþroti í október 2008.

Veitum mönnum frelsi til að versla eins og þeir vilja, en að þessu sinni er nauðsynlegt að gera varúðarráðstafanir. Þar eru efst á baugi gjaldmiðlaskipti eða aðrar varanlegar ráðstafanir sem verja þjóðarbúið gegn áföllum sem verða rakin til spilavítismennsku með pappír og peninga.

Skilyrðin fyrir þessum raðstöfunum kunna að vera fyrir hendi - í bili.

Kröfur um að bankinn láti laust sýna að margir virkir aðilar á fjármálamarkaði hafa ekkert lært - eða hitt sem er verra - er slétt sama um afleiðingarnar eins og þær birtust okkur í október 2008.

En kannski er einfaldasta svarið það að enginn hafi lært neitt af ósköpunum.


Lögmætir leiðtogar?

Í skrifum og fréttaflutningi af óróa í einræðis- og alræðisríkjum ber mjög á því að valdaræningjar og alræðishrottar séu kallaðir "leiðtogar" Eru þeir það?

Ekki samkvæmt viðteknum skilningi sem sjá má í opinberri umræðu um stjórnarvöld í lýðfrjálsum ríkjum. Hinn vestræni skilningur á valdafólki og uppruna valds er að verulegu leyti byggður á kenningum gríska heimspekingsins Aristotelesar sem á sinni tíð sendi lærisveina sína út af örkinni til þess að kanna uppruna valds.

Niðurstaða þeirra rannsókna fyrir eins og 2500 árum síðan var að uppsrpetta valdsins væri ekki af guðlegum toga, heldur lægi uppsprettan hjá hinum stjórnuðu. Almenningi.

Grísk stjórnvöld í sumum hinna fornu borgríkja töldu þessar hugmyndir snilld vegna þess að með því að innleiða þessar hugmyndir í orði kveðnu væri hægt að sefa lýðinn og fá hann til að ganga í herinn með góðu. Efna átti til stríðs og auðvitað var miklu betra að fá menn sjálfviljuga í eigin slátrun í viðureign við forherta andstæðinga en að neyða þá með hótunum. Svo urðu auðvitað allir að berjast fyrir hina "miklu leiðtoga".

Víkur þá sögunni til Persíu, hins forna stórveldis sem nú liggur undir oki sjálfskipaðra "leiðtoga" sem ekki njóta nokkurs lögmætis skv. skilningi vestrænnar réttarheimspeki, en eru samt meðhöndlaðir af hinni vestrænu pressu sem slíkir. Þeir eru það ekki. Þeir eru flestir valdaræningjar sem enginn hefur kosið til eins né neins.

Minnumst þjáninganna sem franska þjóðin þurfti að þola á 19. öldinni. Bylting eftir byltingu og alltaf skyldi taðið fljóta ofan á. Robespierre var ekki settur undir öxina fyrr en eftir að hann var búinn að láta þurrka út gullið af menntastéttinni frönsku. Ca.a 40.000 manns og hann flutti innblásnar ræður um frelsi, jafnrétti og bræðralag allan tímann.

Herra Khameini, "Irans Supreme Leader" kallar núverandi óeirðir árás á "Guð" Í þessum skilningi svarar "Guð" óróanum með því að senda hóp af 130 kílóa karlhrottum á stórum mótorhjólum til þess að berja konur í höfuðið með trékylfum. 44% íranskra kvenna eru atvinnulausar. Stór hluti þeirra með háskólapróf. Þær byrjuðu á að mótmæla okri á eggjum og brauði en nú eru þær farnar að rífa í sundur myndir af Khameini og kveikja í styttum af honum. Vestrænn réttrúnaður um lögmæti alræðishrotta fyrirmunar kynsystrum þeirra á vesturlöndum að segja eitt né neitt.

Það rekur heim sanninn um kenningu ágæts manns sem greinarhöfundur starfaði fyrir um nokkurra ára skeið, manns sem lokaður var inni í 100 daga, ákærður um glæp sem hann ekki framdi - að sjálgefið réttlæti sé ekki til. Aðeins það sem menn séu tilbúnir til að sækja með hörðu.

Valdastéttin og sögublindir stjórnmálaforingjar eru allsstaðar eins og allsstaðar jafn hættulegir, en það er efni í aðra grein.

 

 

 


Orwell og Umráðataka.

Íslendingar hafa flestir mikla skömm á gullgerðarfólki og gullgröfurum ... svona a.m.k. séu þeir aðkomumenn.

Nú ber það til í sveit Þjóðskáldsins sem dýrast kvað að þar eru væntanlegir til aðgerða menn sem hafa það að atvinnu og kannski athvarfi að leita að verðmætum á landi sem aðrir eiga.

Maður hefði haldið að stjórnarskráin íslenska væri þá haldreipið sem lengst og best dygði sem brjóstvörn gegn ásælni af slíkum toga, en svo er ekki.

Kemur þá til skjalanna hreint Orwellskt hugtak: „Umráðataka“

Svo lágt hefur þá virðing alþingis íslendinga verið lögð að hugtak eins og þetta skuli tekið upp í lög þar sem það er notað til að skilgreina ástand sem skapast við þær aðstæður að bóndinn eða annar „eigandi“ landspildu gerir athugasemdir og hefur uppi andstöðu við áform annarra um að gera sig heimakomna á eign hans.

Við þessar aðstæður reynist 72. Grein íslensku stjórnarskrárinnar haldlaus:

  1. gr. [Eignarrétturinn er friðhelgur. Engan má skylda til að láta af hendi eign sína nema almenningsþörf krefji. Þarf til þess lagafyrirmæli og komi fullt verð fyrir.
    Með lögum má takmarka rétt erlendra aðila til að eiga fasteignaréttindi eða hlut í atvinnufyrirtæki hér á landi. (l. 33 – 1944; Stjórnarskrá)

Við skoðun á hugtakinu „Umráðataka“ á Google kemur upp langur listi af málum gegn einstaklingum sem eiga fasteignir á Íslandi. Amk. 20 fyrstu krækjurnar bera það með sér að þar er Landsnet málshefjandi. Og vinnur alltaf.

Fáir taka til varna á fræðilegum forsendum gegn þessari sjálfsafgreiðslu á opinberri valdbeitingu til að koma áfram einhverju sem ótiltekinn hópur forsjárhyggjuliðs telur vera þjóðinni fyrir bestu. Þannig er 72. Grein Stjórnarskrárinnar gerð dauð og ómerk.

Stjórnlagaþingið sáluga reyndi að festa þetta afnám einstaklingsbundinna eignarréttinda í drögum að nýrri stjórnarskrá. Söngvararnir þar vissu ekki að þetta var löngu afgert með þeim hætti sem hér er lýst.

Heimild einhverra stimpilhafa í kansellíinu suður í Reykjavík til handa vildarmönnum sínum er brot á meðalhófsreglu stjórnsýslulaganna, stjórnarskránni og meginreglum ýmissa annrra ákvæða í íslenskum lögum, m.a. skattalögum.

Leyfið til rasksins í eignarlöndum er bundið ýmsum skilyrðum, en það er ekki fremst þeirra atriða sem þarf að skilgreina. Allir landsetarnir, þetta fólk jarðarinnar sem situr uppi með þessa marxisku innrás á eigur sínar á það allt sameiginlegt að vera þremur afborgunum frá nauðungarsölu á eigum sínum. Þar er ávallt gerðarbeiðandi ríkið, sveitarfélagið eða aðrir sem teljast lögveðsréttarhafar og njóta sérstakrar velvildar löggjafans.

Allur atvinnurekstur sem tengist hefðbundinni landnýtingu svo sem akuryrkja og kvikfjárrækt er stýrt í þrot af stofnunum ríkisins, sem hvetur menn til dáða út um annað munnvikið en hótar svo yfirvaldinu fullmektugu út um hitt ef menn ekki makka með hugmyndum um miðstýringu og áætlanabúskap.

Hinn „friðhelgi“ eignarréttur er hér svona „medium rare“ í ofninum hjá ráðuneytinu, amk hvað varðar almannaheill eins og hún er skilgreind í núgildandi stjórnarskrá 72. gr.

Fáum við hin kannski eins og eina Spesíu þegar sjóðurinn sem Umráðatakan nær til er fundinn?

 


Krónublús

Þetta er allt í góðu með krónuna, en BJ og aðrir sem tjá sig um íslensk lögeyrismál sleppa alveg að lýsa bakhliðinni á þessu máli.

Flestir íslenskir hagfræðingar og margir erlendir kollegar þeirra sem eitthvað hafa haft um þessi mál að segja sl. 70 árin hafa komist að eftirfarandi niðurstöðu: Við sitjum uppi með krónuna þangað til innlend hagstjórn hefur staðist sveiflur, fyrirsjáanlegar eða ekki - OG afstýrt óbærilegu atvinnuleysi, verðbólguholskeflum og fleiru slíku sem hefur drekkt öllu hér að meðaltali á 10 ára fresti.

Að öllu þessu frágengnu verða þessir gjaldmiðlaskiptamenn að segja þjóðinni OPINBERLEGA til hvaða ráðstafana þeir ætla að grípa með hagstjórnina hrunda til grunna - þegar gjaldeyrisvarasjóðurinn er uppurinn, greiðslujöfnuður við útlönd neikvæður til langframa, vöruskiptajöfnuður óhagstæður, óraunhæfir kjarasamningar sem enn og aftur hleypa öllu í bál og brand ... Lát oss heyra hvernig sá vandi verður leystur. Um það snýst þetta mál.

Krónan hefur því miður verið eina leiðin til þess að dreifa háskanum, oftast óréttlátlega - en almannahagur hefur verið metinn þannig að til lengri tíma litið væri betra að halda uppi atvinnustiginu og sætta sig við að minna kæmi til skiptanna. Svo kemur batinn, eins og þjóðin lifir núna. Þá á almenningur að njóta hans í gegn um kaupmáttaraukningu og lægri vexti.

Hlutverk fjármálaráðuneytis, alþingis og seðlabankans er að stýra þjóðhagsumhverfinu að svo miklu leyti sem það er hægt, þannig að hagkerfið standi af sér háskann. Við fáum að sjá það á komandi árum hvort eitthvað hafi breyst.

Það mætti t.d. byrja á að slaka aðeins á í yfirlýsingum um ferðamannaiðnaðinn í landinu og hætta að skapa neikvæðar væntingar um hann, vegna þess að fréttirnar af þessu rausi berast líka til erlendra eyrna.


Reykjavíkurþing: Betur má, ef duga skal

Renndi snöggt yfir helstu samþykktir Reykjavíkurþings Sjálfstæðisflokks í  Valhöll sl. laugardag. Samþykktir þingsins eru vel samdar og snyrtilega skrifaðar; margar í samræmi við og í anda svipaðra samþykkta á landsfundum. Þetta lítur allt friðsamlega út og kannski svona eins og 27,5%

Einn liður stendur upp úr hvað varðar komandi kosningabaráttu og tilraunir til að fella núverandi borgarstjórnarmeirihluta. Yfirlýsing þingsins um húsnæðis- og lóðamál nær engan veginn að hengja bjöllurnar á borgarstjórann og hans hyski og reka að þeim stærstu afglöpin sem þeir bera pólitíska ábyrgð á.

Hér er um að ræða mál sem Gnarristastjórnir Dags Eggertssonar, sú fyrri og síðari bera alfarið pólitíska og hugmyndafræðilega ábyrð á. Ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur ber hér mikla ábyrgð. Húsnæðismálin lúta fræðilegum forsendum sem hafa verður í huga þegar litið er til hagsmuna almennings. Umræddir aðilar hafa kerfisbundið og af ásetningi eyðilagt möguleika heillar kynslóðar borgarbúa til að eignast húsnæði án þess að þurfa um leið að segja sig til sveitar.

Stendur virkilega til að láta sósíalistahyskið sem myndar meirihluta borgarstjórnar í Reykjavík sleppa svona billega? Skilja menn ekki að torfhúsa- og hestvagnadýrkun íslenskra sósíalista er með meiru langt komin með að tryggja áframhaldandi vaxta- og okurþrælkun íslensks almennings um ófyrirsjáanlega framtíð? Íbúðarholur í niðurníddum fjölbýlishúsum á 600 þúsund krónur fermetrinn. Og þaðan af verra. Kaldhæðnin við þetta manngerða ástand er svo að allt spilar þetta upp í hendur bankanna, sem nefndir sósíalistar hata meira en sjálfan belsebub.

Hvað sem draumum manna líður nú á komandi kosninga aðventu, verður ekki undan því vikist að taka á þessu máli á opinberum vettvangi.

Nauðsynlegt er að leggja ábyrgðina á þessu ástandi á þær axlir sem ber, með skýrum og skiljanlegum hætti.

Einhver?


Snjóflyksur falla við Efstaleiti

Fóðurstöðin við Efstaleiti hefur nú miðlað moðskilningi sínum á brottrekstri forstjóra bandarísku alríkislögreglunnar, James Comey. Notalegur jórturkliður berst nú víða að, sérstaklega frá félagsvísindasauðum í landinu og fullmektugum álitsgjöfum þeirra.

Enn á ný berst úr þessum fimm þúsund fermetra torfkofa í miðri Reykjavík fréttaskýring og umfjöllun sem er svo kauðaleg og óupplýst að ekki verður undan vikist að handfjatla hana dulítið.

James Comey var rekinn úr embætti forstjóra Federal Bureau of Investigation (FBI) í gær. Comey var af jafningjum og þeim sem til þekktu talinn afburða löggæslumaður, réttsýnn og heiðarlegur.

Af hverju var hann þá rekinn úr þessari stöðu sem áður fyrr var skipuð mönnum sem gátu fellt heilu ríkisstjórnirnar, forseta, embættismenn, innan lands og utan?

James Comey gerðist sekur um alvarlegustu afglöp sem hugsast geta hjá embættismanni í hans stöðu. Hann tilkynnti í júlí 2016 að þrátt fyrir fjallháan stafla af skriflegum og munnlegum vitnisburði um saknæmt athæfi fyrrverandi utanríkisráðherra Bandaríkjanna og nánustu samstarfsmanna í meðförum þeirra á ríkisleyndarmálum, teldi hann ekki ástæðu til frekari opinberrar rannsóknar né saksóknar á hendur þeim sem í hlut áttu.

Þrem mánuðum síðar, eða c.a. 27 október 2016, gaf Comey út opinbera yfirlýsingu um að ákveðið hefði verið að hefja að nýju rannsókn á hneykslinu sem meðferð Hillarys Clintons á bandarískum ríkisleyndarmálum var og er talin hafa verið. Hann staðfesti þessa afstöðu bæði bréflega og í yfirheyrslu hjá eftirlitsnefndum bandaríkjaþings. Viku fyrir forsetakosningar.

Nokkrum dögum síðar var kosinn nýr forseti Bandaríkjanna. Clinton tapaði. Comey var kennt um, m.a. af Charles Schumer, forystumanni demókrata í öldungadeild bandaríkjaþings. Margt annað hefur verið sagt um það tap. Clinton tapaði aðallega vegna ákvæða stjórnarskrár um vægi atkvæða milli fylkja og borga. Það sem velti kosningunni voru nokkrar milljónir atkvæða í Michigan, Wisconsin, Colorado, Florida og öðrum sveitafylkjum sem landsfeðurnir vildu tryggja jafnræði við stórborgirnar. Ef þeir hefðu ekki gert það, þá hefðu íbúar New York og Los Angeles ráðið forsetaembættinu frá tíma Theodores Roosevelts.

Við yfirheyrslu í þinginu í fyrri viku lýsti Comey því yfir að sig flökraði við tilhugsunina um að sín afskipti hafi hugsanlega ráðið úrslitum kosninganna í nóvember.

Comey var rekinn að tillögu dómsmálaráðherra Bandaríkjanna og nánustu aðstoðarmanna vegna þess að hann gerðist brotlegur við  grundvallarreglur í stjórnskipan landsins. Hann gekk þvert á lögskipaða þrískiptingu valds og tók sér bæði rannsóknar-  og dómsvald; gaf fullkomlega óeðlilegar og ótilhlýðilegar yfirlýsingar um stórmál á sviði löggæslu og beit svo höfuðið að skömminni með því að gefa frekari yfirlýsingar um persónulegar tilfinningar sínar um þessi mál í opinberri yfirheyrslu frammi fyrir þingnefnd fyrir viku síðan.

Ýmsir kunna að sleppa með kjánaskap, jafnvel opinberan, þótt þeir sitji í háum sætum, en ekki menn í stöðu eins og Comey gegndi.

Comey gekk þvert á opinberar stjórnsýslureglur þegar hann tók sér vald langt út fyrir þann ramma sem embætti hans er sniðinn skv. bandarískum lögum. Ætla mætti að hann nyti þess skv. skilgreiningum helstu fylgismanna Clintons að hann hafi tryggt Trump kjör til forseta með yfirlýsingum sínum frá 27. október um að rannsóknin á hendur Clinton væri hafin að nýju. Þá vildu þeir krossfesta hann en nú vilja þeir hefja hann í dýrðlinga tölu. Tölum um hræsni og tvískinnung.

Brottrekstur Comeys sýnir að staðhæfingin um forsetakjörið  er röng. Trump skuldar honum ekki eitt hár úr hunds skotti. 

Hinn lummulegi og viðvaningslegi fréttaflutningur RÚV, studdur af álíka viðvaningslegum og valkvæðum skilgreiningum fastráðinna álitsgjafa breytir hér engu um.

Comey var rekinn vegna þess að hann braut grundvallarreglur í bandarísku réttarfari og stjórnskipan.

Bollaleggingar viðvaninga á íslenskum fréttamiðlum og í hinum fornu véum sósíalista í félagsvísindadeildum íslenskra háskóla breyta engu þar um.

Jafnvel þessar snjóflyksur bráðna eins og aðrar hér í vorsólinni.


Næsta síða »

Um bloggið

Guðmundur Kjartansson

Höfundur

Guðmundur Kjartansson
Guðmundur Kjartansson
Fæddur í Reykjavík, uppalinn í Borgarfirði. Hef lengst af starfað við verslun og viðskipti, landbúnað og ferðamál. Stúd. MR. Nám við H.í. og síðar í Bandaríkjunum. Lauk þaðan BA í Busin. Adm. Finance og síðar MBA af stjórnunarsviði. Endurmenntun og fjöldi námskeiða HÍ og HR. Hef ritað talsvert í blöð, m.a. um skatta- og tollamál, landbúnað ofl. Á blog.is síðan í feb. 2011. Meðlimur í Fél. Viðskiptafræðinga og Hagfræðinga frá 2000.
Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • ...9794_3856_n

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.3.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband