11.3.2011 | 22:53
Réttarsniðganga og þjóðnýting eignarréttinda á Íslandi öllu.
Í fyrri færslu undirritaðs er tilraun forsætisráðherra og sporgöngufólks hennar til þess að sniðganga stjórnvaldsákvörðun Hæstaréttar í máli kærenda gagnvart framkvæmd kosninga til stjórnlagaþings gerð nokkur skil. Óþarft ætti að vera að nefna málefnið sérstaklega vegna þess að það skiptir ekki máli. Það eru fordæmin og formreglurnar sem eiga að ráða för. Lítum á fleiri dæmi um framgöngu byltingarráðsins sem ætlar að endurskrifa íslenska lagasafnið í einum grænum.
Á þessari stundu liggur ekkert fyrir um það hvort löggjafinn ætlar að snúast á sveif með þessum handhafa framkæmdarvaldsins í viðleitninni til þess að sniðganga niðurstöðu Hæstaréttar í kærumáli vegna framkvæmdar kosninga til stjórnlagaþings. En víst er að hvernig sem þingið bregst við verður niðurstaðan fordæmisgefandi.
Það virðist vera nokkurskonar þjóðaríþrótt nú orðið að setja óframkvæmanleg lög, eða ólög eins og það hét í fornu máli - eða að sniðganga gildandi lög og reglur - af því að málefnið er svo bráð sniðugt.
Víkjum að grundvallaratriðum.
Skrumfrasinn "Auðlindir í þjóðareign" er eitt þessara ógreinanlegu fyrirheita sem alltaf njóta vinsælda og jafnvel kosningafylgis vegna þess að í inntaki þessa hugtaks felst fyrirheit, loforð um velsæld og "réttari" kúrs samanborið við það sem á undan er gengið - hvað sem það svo var: Jafnvel kjúkling í hvern pott og vindil upp í hvern rogginn karl. (sem vill)
Búið er að gera afturreka þjóðþrifamál sem er setning nýrra laga um réttindi til nýtingar vatnsfalla frá árinu 2007. Vatnalögin frá 1923 eru að ytra formi sósíalísk en að inntaki höll undir réttindi einkaréttarlegra sjónarmiða. Dómaframkvæmd laganna frá 1923 er almennt hliðholl sjónarmiðum einkaréttarins skv. þeim gögnum sem fyrir liggja frá Alþingi. Setning nýrra Vatnalaga var ekki annað en viðleitni til þess að færa í lagabókstaf það sem Hæstiréttur hafði skrifað í dómum sínum alla 20. öldina. Allt í fullu samræmi við gildandi ákvæði stjórnarskrár.
Sameignarsinnar á Íslandi eru stöðugt að reyna að komast framhjá gildandi lögum og reglum í landinu, m.a. ákvæðum stjórnarskrár um friðhelgi eignarréttar. Svo mikið gengur á í viðleitni þeirra til samyrkjuvæðingar Íslands að þeir nenna ekki einu sinni að lesa 72. grein stjórnarskrárinnar eða orkulögin. Sú grein stjórnarskrárinnar hefur reynst stjórnlyndum þingmönnum betri en engin þegar taka hefur átt þinglesin réttindi eða eignir af fólki í nafni "almannahagsmuna".
Þá er þess að geta að í orkulögum frá 1977 er ákvæði sem áskilur ríkisvaldinu skilyrðislausan forkaupsrétt að öllum fasteignum, bújörðum og landspildum þar sem von er nokkurra jarðargæða sem þyrfti að bora eða grafa eftir.
Ríkið eignast tugi jarða á ári hverju. Með lögum um þjóðlendur eignaðist ríkið nánast allt hálendi Íslands. Ríkið á hundruðir bújarða nú þegar og óheimilt er að selja þær nema með sérstakri heimild á fjárlögum. Þegar þessar fasteignir eru seldar, eru ÖLL námuréttindi, hverju nafni sem nefnast undanskilin. Nýr landeigandi má ekki taka möl eða vatn nema rétt til heimilisbrúks. Þetta þýðir m.v. reynslu síðustu 120 ára að ríkið mun í kyrrþey eignast öll þessi réttindi -á landinu öllu vegna andvaraleysis þeirra sem sömdu lögin eða sniðugheita þeirra sem verma ráðherrastólana á hverjum tíma. Það mun aðeins taka um 100 - 150 ár m.v. núverandi stöðu.
Þessar staðreyndir sýna það svart á hvítu að allt tal um þjóðareign á auðlindum er tómt skrum og blaður í fólki sem ekki hefur eytt stundarkorni í að kynna sér raunverulega stöðu mála í réttarfarslegum skilningi eða lætur sem það viti ekki stöðu mála. Fyrir þingmenn og ráðherra er það heldur þunnur þrettándi. Allt stefnir í fulla ríkiseign á öllum landins gæðum.
Prófessor emeritus Sigurður Líndal segir m.a. í blaðagrein í Fréttablaðinu 31. janúar 2011 um þessi væntanlegu ákvæði í stjórnarskrá um þjóðareign á auðlindum:
"Þessi orð "auðlindirnar verði þjóðareign" og önnur áþekk eru tískuorð stjórnmálaumræðunnar nú um stundir og er þar einkum átt við jarðhita, vatnsafl og nytjastofna á Íslandsmiðum. En um hvað er verið að tala; hvað merkir þetta orð "þjóðareign"?
Sigurður ræðir síðan í greininni hvernig ýmis jarðargæði lúta ákvæðum einkaréttarlegra lagasjónarmiða, jafnvel beinum eignarréttindum eða hefðuðum rétti til nýtingar, byggt t.d. á veiðireynslu og segir síðar í greininni:
"Merkingarlaus orð eða margræð einkenna mjög alla stjórnmálaumræðu á Íslandi og hafa lengi gert. Í skjóli merkingarleysisins þrífst óstjórn og spilling bæði í stjórnmálum og atvinnulífi - ekki síst í viðskiptum - og til hennar má rekja margvíslegan ófarnað."
Síðar bætir Sigurður við:
"Þegar hugað er að orðum forsætisráðherra um þjóðareign á auðlindum sem virðist helzta baráttumál hennar, verður ekki annað ályktað en að fella eigi hina merkingarlausu orðræðu stjórnmálanna inn í ákvæði stjórnarskrárinnar og síðan fylgi ámóta yfirlýsingar eftir" S.L. 31.01.11 - (tilvitnun lýkur).
Á Íslandi eru um 7.000 lögbýli með skráð nöfn og í skýrslum Fasteignamats Ríkisins. Stundaður er búskapur á um 4.500 býlum í einhverri mynd. Af þeim eru um 900 mjólkurbú, um 2.200 fjárbú og sum þeirra eru blönduð bú. Restin er með ýmsum hætti í nytjum; laxveiði, jarðarbætur, skógrækt sem vel að merkja á nú að banna; ferðamennska og fleira sem leggur milljarðatugi í heild sinni til þjóðarbúsins.
Þessi grein er skrifuð m.a. til þess að benda á hina eitruðu blöndu vanþekkingar og menntahroka sem einkennir málflutning margra stjórnmálamanna sem hafa tjáð sig opinberlega um stöðu eignarhalds og nýtingarréttar á landinu og vatnsföllum þess og þá skoðun þeirra að sérstaka nauðsyn beri til þess að færa þessi réttindi undir ríkisvaldið eða boðvald því þóknanlegt.
Þá er það og tilgangur þessara skrifa að benda á afstöðu margra bænda eða samtaka þeirra í þá veru að þeir, eða samtök þeirra eigi að hafa einhverskonar boðvald yfir öllu lögskraðu jarðnæði í landinu. Til þess njóta þeir nú fulltingis ráðherra landbúnaðarmála.
10.3.2011 | 19:01
Hættur sem að steðja: Landlæg upplausn og hentistefna.
Það er hreint út sagt kostulegt að fylgjast með framkomu svokallaðra ráðamanna í fjölda mála. Þeir skipta um hatt alveg eftir veðri. Skoðun og stefna gærdagsins er hneyksli dagsins í dag. Það sem á tungu ríkisforsjársinna hét sjálfsögð mannréttindi í gær og kallaði á bótaflokka af almannafé sem útdeilt skyldi með lögum - heitir í aðlöguninni "að skera burt fitu". Allt á mæli sama fólks.
Sömu aðilar eru alveg hoppandi yfir stjórnvaldsákvörðun Hæstaréttar um framkvæmd kosninga til stjórnlagaþings. Í byrjun sagði þessi söfnuður að virða bæri ákvarðanir Hæstaréttar. Svo komu undanbrögðin. Þessi hópur með sjálfan forsætisráðherrann fremstan í flokki hefur ákaft leitað leiða til þess að hunsa ákvörðun réttarins. Það er rökstutt með tómum útúrsnúningum þar sem því er m.a. haldið fram að niðurstaðan hafi eiginlega ekki verið Hæstaréttar heldur "hæstaréttar".... Þegar dómurinn sinnir sínni skyldu og kveður uppúr í erfiðum málum í samræmi við viðteknar réttarheimildir eru menn þar sakaðir um pólitíska spillingu og fyrir að kunna ekki neitt í lögfræði. Dæmi eru til um þetta úr frægum málum. Nú á að skipa þrjá nýja dómara við réttinn. Fróðlegt verður að fylgjast með því hvernig pólitíkin smeygir sér inn í það mál. Þá verður auðvitað allt í himnalagi ef ráðstjórnarsinnar og aðgerðarsinnar fá þar inn fulltrúa sína sem væntanlega hafa þann júristíska þankagang að það sé hlutverk réttarins að snikka til lagasafnið, sérstaklega stjórnarskrána - allt svona eftir tíðarandanum.
Almenn umræða er öll eftir þessu. Engin ábyrgð. Dónaskapurinn og persónulegt aurkast gengur yfir allt og alla. Hér hefur nákvæmlega ekkert breyst síðan á dögum Uppkastsins að Sambandslagasamningi Íslands og Danmerkur sem lagt var fyrir þingið 1908. Margir af öflugustu þingmönnum landsins lögðust gegn því af því að það var þeim illþolanlegt að það væri Hannes Hafstein sem myndi þá kannski njóta heiðurs og virðingar fyrir vel unnið verk.
Hér er ekki ráðrúm til að tiltaka alla þá vitleysu sem flæðir fram í opinni og ábyrgðarlausri umræðu á degi hverjum. Vilji menn ná árangri á hinum opinbera vettvangi og koma málum áfram, þá þurfa allir sem áhuga hafa á þjóðmálum að gera það upp við sig í eitt skiptið fyrir öll hvar þeir / þau / þær ætla að standa í hinu pólitíska litrófi.
Sú ákvörðun á með réttu að helgast af afstöðu manna til ríkisvaldsins; valddreifingar milli stofnana þess; lagasetningar, framkvæmdarvalds, stöðu dómstóla og embættis þjóðhöfðingja ef menn vilja vera svo rausnarlegir að hafa kóng. En aðal hættan sem almennir kjósendur átta sig ekki á fyrr en um seinan snýst m.a. um stjórnmálamenn sem sigla allan sinn feril undir fölsku flaggi. Þeir sitja nú margir í ríkisstjórn landsins.
Kommúnistar og sósíalistar hafa almennt svo mikla fyrirlitningu á venjulegu fólki að þeir sanka að sér völdum undir sinni alkunnu kenningu: "Vér einir vitum". Alltof margir standa í biðröðum við valdastofnanir og afhenda frelsi sitt í nafni óskilgreindra öryggishagsmuna; umhverfisverndar og jöfnuðar sem á vorum dögum er að gera flest öflugustu velferðarríki veraldar gjaldþrota. Þegar ósköpin dynja yfir kannast enginn við neitt og allir eru þá orðnir "frjálslyndir sósíaldemókratar". Búnir að skipta um hatt.
Almenning í landinu vantar vegvísi sem hann getur notað til þess að ákvarða á kjördegi hverjum á að afhenda stjórnarvölinn. En hann er ekki fyrir hendi í þessu landi. Fyrir bragðið veður allt uppi í smákóngum sem kljúfa flokka eftir veðri og vindum og sitjandi þingmenn leyfa sér að gefa bindandi yfirlýsingar um allt mögulegt sem - ef skráð yrði í lög - færi beina leið til dómstóla þar sem það væri líklegast slegið út af borðinu. Það er von að menn vilji að Hæstiréttur felli dóma eftir kröfuspjöldum og því sem telst á hverjum tíma "sanngjarnt".
Núverandi ríkisstjórn komst til valda fyrir atbeina þingmeirihluta sem myndaðist vegna kröfu frá almenningi um breytt og siðfræðilega betra stjórnarfar. Ástandið í landinu bendir ekki til þess að betri tímar séu í vændum. Fólks- og fyrirtækjaflótti, sérstaklega atgervisflóttinn staðfesta það. Flóttinn brast ekki á af fullum þunga fyrr en menn áttuðu sig á því að tilvist þessarar ríkisstjórnar snerist alls ekki um að reisa efnahag landsins úr rústum á skömmum tíma, heldur um að koma hér á sósíalísku þjóðskipulagi. Hrokafullar yfirlýsingar, lagafumvörp og fleira sem hljóðar eins og það hafi verið samið að beiðni Gomulka eða Ulbrichts staðfesta það.
Að þessari "menningarbyltingu" standa blómálfarnir á vinstri vængnum sem tala og skrifa alla daga eins og þeir hafi rétt verið að koma út af aðalfundinum í Hálsaskógi. Amk. einn þeirra er kominn í prívat stríð við Bandaríkin eftir að hafa fengið yfir sig verðskulduð viðbrögð fyrir að hafa átt þátt í tilraun til þess að stofna lífi bandarískra borgara og hermanna í hættu, skv. skilgreiningu ríkisstjórnar þar í landi.
Í snakkinu sem forsetinn hafði uppi sem rökstuðning fyrir því að senda samninginn við breta og hollendinga í þjóðaratkvæðagreiðslu kom fram sú einstæða skoðun hans að þingið sem nú situr sé einhvern veginn umboðslaust vegna þess að það hafi ekki verið endurnýjað með kosningum frá síðustu tilskipun hans hátignar.
Rétt er að við þurfum alþingiskosningar.
9.3.2011 | 09:55
Verðtrygging og fljótandi skattheimta.
Lagabókstafur segir skýrum orðum að skatta megi ekki leggja á nema með lögum.
Fjármálaráðuneytið (lesist Innheimtumaður Ríkissjóðs) hefur fundið leið framhjá þessu lagafyrirmæli í gegn um verðtrygginguna. Stanslausar hækkanir á benzíni og brennivíni vekja athygli. Þær skipta samt fremur litlu máli miðað við það sem gerist á öðrum stöðum í hagkerfinu í þráðbeina afleiðingu af hækkununum. Ríkissjóður fær nokkra milljarða út á verðhækkanir, en það er bara brot af því sem gerist.
Þessir tveir vöruflokkar vega þungt í útreikningi vísiitölu neysluverðs. Vísitalan tekur stökk upp á við með þessum hækkunum sem á benzíni nema um 100% síðan í október 2008. Hvernig snerta óbeinu afleiðingarnar ykkur lesendur góðir?
Lánin á íbúðunum ykkar hækkuðu á þessu tímabili um 2 - 5 milljónir á mann út af spileríinu með vísitöluna og fikti í þeirri vítisvél sem verðtryggingin er. Allt batteríið græðir; ríkið, olíufélögin, bankarnir, "fjárfestar" sem þið hafið tekið lán hjá til þess að fara út í atvinnurekstur o.s.frv. Þarna er lagður á ykkur skattur eða hækkun skatts sem engin heimild er fyrir í lögum. Hann hefur stundum verið kallaður verðbólguskattur. Þegar engin verðbolga er, þá er þetta leiðin til þess að framkalla hana. Hækka þær vörur sem hafa áhrif á vísitölugrunninn.
Hvað er til ráða? Afar fátt annað en kúppla sér út úr þessu kerfi og reyna að forða yngra fólkinu frá ævilangri vísitöluþrælkun. Það er ekki auðvelt, en það er hægt og tekur nokkurn tíma og kostar talsvert mikil óþægindi. Erfiðast eiga þeir sem þurfa að ala önn fyrir ungum börnum og verða að taka þetta á sig - eiga enga undankomuleið vegna þess að þeir eru bundnir bönkunum eða ríkinu í gegn um lánasamninga um húsnæði, bíla og heimilistæki.
Eitt grundvallarhugtak í rekstrarhagfræði er sambandið milli framboðs og eftirspurnar og áhrif verðs vöru á eftirspurn. Samband verðlagningar og eftirspurnar eftir benzíni og brennivíni er nánast ekkert. Þetta er mælt með svonefndri teygnivísiitölu, (the price elasticity of demand) og er mælt á skalanum 0 til 1,0 Þetta lögmál þekkja verðlagsspekúlantarnir hjá stofnunum ríkisins.
Þegar sagt er að sambandið á milli verðs og eftirspurnar eftir þessum vörum sé núll, þá er verið að segja að við séum innikróuð, höfum ekkert val. Hvernig? Jú, í hagfræði er líka talað um "substitute goods", AÐRAR vörur sem geta komið í staðinn og gera okkur sama gagn. Hvað gerðist? Jú, þeir hækkuðu verð á rúmmetra af Metangasi í 120 krónur. Það kann að líta sakleysislega út, en það sýnir hvað er í vændum. Skítt með alla umhverfisvernd segja þeir á borði þótt annað heyrist í orði. Áhrif verðlagningar á eftirspurn eftir brennivíni er auðvitað einhver. Menn hafa val: Brugg og smygl. En það á ekki við um benzínið. Við erum bundin ábenzínklafann. Annars leggst atvinnulífið og sjálft hagkerfið í dvala.
Þegar tekjur ríkissjóðs af skattheimtu á einhverju sviði fara að minnka, þá þarf að finna nýja skattstofna. Þegar bezínið er horfið sem skattstofn, þá verða peningarnir teknir af okkur með öðrum hætti. Dæmið um metangasið sýnir hvað kemur í staðinn.
Skattmann er blindur á allt nema peninga. Eðli þess starfs er slíkt að umhverfisvernd eða spekulasjónir um rættlæti eiga þar engan hljómgrunn. Honum er sama um benzín og brennivín og allt annað. Það eina sem hann veit er að hann þarf að skaffa ríkisféhirði hundruðir milljarða í kassann á ári til þess að hægt sé að reka stofnanir ríkisins, færa fé frá auðmönnum eins og ykkur til fátækra, senda forsetann með styttu handa pafanum og kaupa gullslegnar klósettsetur.
Sósíalistarnir sem stukku af dauðum blöðum samtímasögu inn í ráðuneytin og stjórna nú landinu voru spurðir að því hvernig þeir ætluðu að bæta hag þeirra sem verst væru settir. Spurningin var lögð fram á þeim forsendum að íslenskir sósíalistar höfnuðu hagvexti sem lausn á mörgum hagtengdum vandamálum. Svarið var að auka ætti tekjujöfnun. Þetta er fólkið sem laumast í stórmarkaðina og kíkir í innkaupakörfurnar ykkar. Stýrir svo neyslunni með sköttum og tollum í samræmi við pólitískar skoðanir þeirra á því hvað sé hæfilegt að þið borðið.
Nú birtist þessi skoðun í viðleitni til að lækka laun þeirra sem bera ábyrgðina á stjórnun stærstu stofnana landsins. Laun þeirra verða áreiðanlega lækkuð eða eignir þeirra gerðar upptækar í nafni félagslegs réttlætis. Af þvi hefst ekkert nema það að engir hæfir menn eða konur fást til að axla þá ábyrgð sem fylgir - nema viðkomandi lifi í einhverri hliðstæðuvídd.
Lítið bara á forsætisráðherrann.
25.2.2011 | 00:52
Aðgerðaræði.
Jæja, þá hafið þið það: Stærstu stjórnvaldsákvarðanir í landinu eru nú teknar af aðgerðarsinnum sem ganga um bæinn með undirskriftalista. Til varnar "ákvörðun sinni" um ríkisstjórnarfrumvörp notar forsetinn lögskýringar sem ekki eru nokkrum manni bjóðandi. Hvar er það skráð eða hefðað í fræðikerfi íslenskrar lögfræði að það séu tveir löggjafar í landinu? Þennan þvætting þarf auðvitað að taka upp á öðrum vettvangi, en það er þannig í reynd að handhafar kosningaréttar framselja vald sitt með þátttöku EÐA með hjásetu í kosningum til alþingis. Það er inntak fulltrúalýðræðisins sem stór hópur fólks telur rétt að ganga framhjá eftir hentugleikum hverju sinni nú um stundir. Alþingi tekur ákvarðanir um löggjafarmál í fullu umboði meirihluta þjóðarinnar. Seinni röksemdin sem Ólafur Ragnar notar til réttlætingar á afskiptum og íhlutun í störf alþingis byggir á því að ekki hafi verið búið að endurnýja umboð þingsins með öðrum þingkosningum frá fyrri afskiptum hans af þessu dæmalausa máli -er jafn vitlaus og staðlaus og hin fyrri. Hann heldur því m.ö.o. fram að alþingi sem nú situr sé að einhverju leyti í andstöðu við þjóðina og njóti ekki umboðs hennar. Má þá minna forsetann og hans ráðgjafa á þá staðreynd að skipt var um ríkisstjórn án kosninga í janúar 2009. Hvernig gekk þá hjá honum að staðfesta lög sem borin voru undir hans hátign fram að kosningunum í apríl það ár?
Ég vona að menn rakni nú við og sjái út í hverskonar fen er búið að leiða okkur og krefjist endurskoðunar á nokkrum grundvallaratriðum í stjórnskipuninni. Undir það fellur sú krafa að enginn fái að gegna embætti forseta Íslands nema hann hafi hlotið amk. 51% greiddra atkvæða. Ég minni á að 62% kjósenda á Íslandi höfnuðu núverandi forseta í kosningunum 1996. Búið er að pólitísera forseetaembættið og leggja undir það völd sem það á ekki að hafa. Það kallar á breytingar á embættinu og lögum um kosningar til þess. Málskotsréttur forsetaembættisins kemur þá aðeins til álita að rof hafi orðið milli þings og þjóðar. Það er rétt, en munurinn er sá að þarna er ekki verið að tala um útþvæld þrasmál heldur samblástur innan arma ríkisvaldsins eða milli þeirra um einhverskonar ráðstafanir sem stappa nærri eða teljast fullgerð landráð. Frumvörp tll laga um eignarhald á fjölmiðlum og samningar um innstæðutryggingar við breska og hollenska ríkið falla engan veginn undir slíkar skilgreiningar. Rétt er að taka stjórnarskrána til endurskoðunar. Fyrsti liðurinn í þeirri endurskoðun er forsetaembættið.
Hægt er að sætta sig við embættisfærslur réttkjörins forseta sem hefur skv því fullan meirihluta kjósenda á bak við sig. Ísland hefur skv. þessari skilgreiningu ekki haft réttkjörinn forseta síðan 1980, þegar embættisferli þriðja forseta lýðveldisins lauk. Undirritaður spáði því í Morgunblaðsgreinum í aðdraganda kosninganna 1996 að ef Ólafur Ragnar Grímsson næði kosningu þá fengi þjóðin meira en sæist í malnum þvi hann gæti ekki hætt. Pólitískir samherjar hans stjórna nú landinu og fara sínu fram á öllum vígstöðvum. Níu ráðherrrar stjórnarinnar eru gamlir Alþýðubandalagsmenn, sumir gamlir Moskvukommar og þeir eru að leiða sín pólitísku menningargildi yfir okkur.
Það sem er næst á aðgerðalistanum er að koma fólki með "réttan" skilning á lögfræði í Hæstarétt. Þannig munu skapast nýjar dómvenjur og réttarheimildir: Óskalög Hæstaréttar þar sem í dómum verður tekið tillit til óska snjáldrara og bloggara og áhugafólks sem hratar seyru í Alþingishúsið og yfir kjörna fulltrúa sína. Þrjú sæti eru nú laus til umsóknar hjá þessari mikilvægustu stofnun lýðræðisins.
Um bloggið
Guðmundur Kjartansson
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (3.2.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar