29.5.2011 | 12:05
Fánaberar níðfrelsisins.
Til eru menn í íslenskum fjölmiðlaheimi sem nota frelsi sitt og ítarlega varinn rétt til opinberrar umfjöllunar um hvað sem er til þess að ráðast að nafngreindum einstaklingum með mjög svo óþrifalegum málflutningi og jafnvel hreinum og beinum lygum. Þeir eru að húðstrýkja smælingja og saklaust fólk af alveg einstökum blóðþorsta og skepnuskap. Alla daga og oft undir flaggi samkenndar við fólk sem á um sárt að binda.
Einn íslenskra prentmiðla sker sig úr á þessu sviði. Greinilegt er að ritbullurnar sem þar ráða eru mjög bitrar út í líf sitt og umhverfi. Síst ber almenningi skylda né þörf til þess að taka þátt í þeirri þerapíu sem þeir eru í -af sjálfsdáðum í beinni útsendingu alla daga. Þeir lifa í skolpræsum borgarinnar.
Þarna eru menn teknir miskunnarlausum tökum og myndbirtingar eru alveg með ólíkindum.
En það besta sem þeir fá á öngulinn er ef einhver landskunnur dóni er til í að taka svona eins og eitt dansspor með þeim og kasta fyrir þá svona eins og einni reku af skít. Einn alþingismaður sker sig verulega úr í þessu taðkasti í allt og alla sem fyrir honum verða í daglegu amstri hans við að hjálpa óskaplegustu ríkisstjórn sem setið hefur á Íslandi frá upphafi - til þess að tóra eitthvað lengur.
Vilji hann hjálpa almenningi frá því sem hann kallar aula og bjána þá ætti hann sjálfur að hefja máls á ráninu mikla og segja þjóðinni það sem hann nú veit um hin íslenska fimmtuherdeildarmann sem nú situr í einu valdamesta embætti landsins.
Fyrir það gæti hann kannski uppskorið kaffiboð hjá hirðstjóra og læriföður íslenskra kommúnista og ef til vill svona eins og eina orðu.
26.5.2011 | 09:55
Lögformleg stofnun Skuldarasamtaka Íslands og uppgjör við fallna banka.
Undirritaður hvatti til þess í viðtalsþætti á Útvarpi Sögu í janúar sl. að gengið yrði til formlegrar stofnunar Skuldarasamtaka Íslands. Tilgangur slíkra samtaka almennings væri að setjast að samningaborðinu gegnt fulltrúum bankakerfisins þar sem tekist yrði á um vísitöluránið og forsendubrestinn sem varð í Íslandshruninu. Ég hafði bent á þessa staðreynd alveg frá því í október 2008 að til stæði að láta íslenskan almenning borga veisluna.
Staðfesting þessa lá fyrir í nóvember 2010 með yfirlýsingum stjórnvalda um að ekki yrði gengið lengra í að aðstoða heimilin í landinu en Sigurðarnefndin lagði til. Tillögur nefndarinnar sem Sigurður Snævarr hagfræðingur var fenginn til að stýra eru ekki pappírsins virði þegar litið er til kröfuréttarlegra sjónarmiða þeirra fjárskuldbindinga sem lagðar hafa verið á íslenskan almenning að honum forspurðum og án beinna lagaheimilda. Íslenska embættismannakerfið og bankarnir láta alveg eins og að 6. október 2008 hafi verið fremur venjulegur dagur í lífi landsmana. Ekkert óvenjulegt hafi gerst.
Samtök þessi myndu svo í framhaldinu setja allsherjarumboð í hendur nokkurra lögmanna. Með slíkt umboð í farteskinu gætu þeir fulltrúar sest að samningaborðinu með umboð frá c.a 100-130.000 einstaklingum sem settu sínar kröfur fram með afgerandi hætti. Að viðlögðu endanlegu greiðslufalli og eftirfarandi ófriði ef ekki næðist saman.
Bankarnir standa í stórfelldum lögbrotum á degi hverjum og þeir eru í beinni uppreisn gegn æðsta dómsstigi landsins: Hæstarétti. Þeir mis- og rangtúlka dóma hans til þess að komast hjá að gera það sem fyrir þá er lagt sem er að fara að almennum lögum í landinu. Þeim er og gert að hætta ránsmennskunni sem einkennt hefur reiknikúnstir þeirra árum saman.Þessu ætla þeir að óhlýðnast og gera ráð fyrir að komast upp með það.
Nái bankarnir að innheimta kröfusöfn föllnu bankanna að fullu erum við að tala um ávöxtun núverandi kröfuhafa upp á um 1650% mv. yfirtöku á 6% í upphafi. Sé það rétt sem haldið er fram að nokkrir nafngreindir útrásarvíkingar eigi þessi kröfusöfn, þ.m.t. hugsanlega fyrrum stjórnendur bankannna, þá er þar komin ástæða til harkalegra uppgjörs en menn hafa áður látið sér tiil hugar koma.
Að ríkisstjórnin skuli hafa afhent erlendum veðmálabröskurum tvo af bönkunum án tiltakanlegrar reifunar á opinberum vettvangi bendir til þess að henni hafi verið sýnd myndin af skrattanum þannig að hún lét hræðast til þessa afleiks.
Almenningur í landinu á þá ekki nema eitt úrræði eftir frammi fyrir slíkri uppgjöf og svikum við málstað hans.
Gleymið því ekki að ríkið, það eruð þið.
25.5.2011 | 09:36
Auðlegð er afrakstur verslunar- og samningsfrelsis.
Auðugustu og öflugustu ríki sögunnar síðastliðin 5000 árin eiga það öll sameiginlegt að hafa auðgast á verslun. En ekki bara einhvernveginn verslun, heldur frjálsri verslun.
Fróðlegt hefði verið að ræða við skipherra á kaupskipum sem sigldu um Miðjarðarhafið og fluttu vörur milli mestu hervelda og verslunarstórvelda fornaldar. Grikkir, fönikíumenn, spartverjar, karþagómenn, rómverjar og allir aðrir sem einhvers voru megandi á sínum mektarárum urðu allir ríkir á verslun, frjálsri verslun.
Íslendingar supu þunnt seyði af verslun sinni við útlendinga frá siðaskiptunum 1551 og allt til þess að verslun var gefin frjáls, að nafninu til snemma á 19. Öldinni. Við erum að tala um 350 ár, tólf kynslóðir íslendinga sem urðu að sætta sig við verðlagseftirlit og tilskipun að ofan um verðlag á öllu sem framleitt var í landinu. Fátæktin var tryggð með opinberum tilskipunum.
En, hvað er frjáls verslun? Hver er þýðing þess að geta stundað frjálsa verslun alla daga?
Með frjálsri verslun má ná fram réttlátri verðlagningu á því sem selt er vegna þess að um viðskiptin ríkir samningsfrelsi. Enginn þarf að láta af hendi vöru þannig að hann greiði með verði hennar nema til komi einhverskonar íhlutun ríkisvaldsins, oftast þannig að viðkomandi er þvingaður til þess að tapa á viðskiptunum, t.d. þegar ríkið flytur fé milli atvinnugreina með því að skrá gengi gjaldmiðilsins rangt. Kannast nokkur við það? Við eðlilegar aðstæður ræðst niðurstaða viðskiptanna á grundvelli frjálsra samninga frjálsra einstaklinga eða félaga.
Samningsfrelsið er eitt mikilvægasta aflið, grundvallarstef í uppbyggingu og verðmætasköpun frjálsra samfélaga sem byggja vilja vegferð og afkomu sína á þeirri auðlegð sem skapast í viðskiptum. Þessi hugtök eru algerlega samofin og verða aldrei sundur skilin - sama hvað einræðis og einokunarseggir rembast við. Samningsfrelsið tryggir okkur rétt til þess að velja okkur viðsemjendur og samningsefni: Kaup og kjör o.s.frv.
Hvort tveggja er í stöðugri hættu vegna pólitískra afskipta og takmarkalausrar peningagræðgi einstaklinga og hirðsveina sem þeir einatt koma sér upp í stjórnkerfum frjálsra ríkja eða ríkjasambanda. Það er einokunarhneigðin sem víða sýnir sitt krumpaða fés. Oftast í nafni hagræðingar og stærðarhagfræði.
Þegar ríki hefur komið sér upp frjálsu viðskiptaumhverfi blasir við næsta vandamál: Hvernig á að tryggja afkomu þeirra sem framleiða og selja vöruna gagnvart brölti þeirra sem starfa hjá ríkisvaldinu í þá átt að hirða allan ágóða af vinnu þeirra og snilli? Allt í nafni félagslegs réttlætis og jöfnuðar. Skattheimtan og félagsleg ábyrgð er komin á það stig víða í frjálsum ríkjum að í mánuði hverjum sem telur 22 -24 virka daga, hefur rekstrareiningin einn til tvo daga til þess að kapitalisera og endurnýja sig. Restin fer í að afla og standa skil á opinberum fjármunum.
Sjálfs er höndin hollust segir einhversstaðar. Að ágóðavoninni frágenginni eru menn komnir í Gulagið. En einstaklingurinn lætur ekki hlunnfara sig til lengdar.
Á árum Sovétsins og samyrkjunnar á hinu risavaxna flatlendi Rússlands og annarra Sovétlýðvelda máttu einstaklingar eiga 2% landsins sem annars tilheyrði samyrkjubúunum. 90% af garðyrkjuframleiðslu Sovétríkjanna komu af þessum 2%-um ræktanlegs lands sem lutu einkaréttarlegum reglum. Úrval þessarar framleiðslu var selt gegn staðgreiðslu í bandaríkjadollurum og bestu viðskiptavinirnir voru að sjálfsögðu opinberir embættismenn.
23.5.2011 | 08:50
Sameinuð Evrópa: Til hvers? (seinni grein af tveimur)
Evrópusambandið var stofnað sem enn ein tilraunin til þess að afstýra meiri blóðsúthellingum vegna innansveitarkryts milli ættbálkanna sem búa á stærstu býlunum í Evrópuhreppnum; germönum og göllum. Kunnugleg sú saga. Júlíus Caesar hafði farið nokkrar könnunarferðir norður yfir Rín með rómverska herflokka og ofboðið menningin. Það var nokkrum árum eftir að Krossfestinguna. Hann sagði þessa skrælingja úða í sig kjöti af búfé, steiktu upp úr smjörfeiti og að þeir skoluðu þessu niður með ógeðslegum miði sem þeir létu súrna í pækli af brenndu byggi. Bygg var skepnufóður í augum þessa rómverska hersnillings og keisara. Hinum rómversku legíónum bauð við þrárri fitulyktinni sem lagði undan norðangolunni af hinum germönsku skrælingjum. En fleira kom til.
Með Rómarsáttmálanum frá 1957 er grunnurinn lagður að ríkjasambandi sem átti að byggja á friði og samvinnu sögulegra fjenda. Vandinn var, er og verður hvernig á að gera Þýskaland að evrópsku ríki. Frekar en að gera Evrópu að Þýsku ríki. Það er nú vandinn og hefur lítið breyst.
Vandinn sem nú blasir við snýst um ólíkar þjóðir. Suður evrópumenn vilja sitt siesta og rauðvín í hádeginu, en Þýskumælandi menn, allar 130 milljónirnar fara á fætur klukkan fimm og vinna látlaust allan daginn. Þýskaland flutti út vörur fyrir 1.000 milljarða bandaríkjadala á árinu 2009. Kínverjar með sínar 1200 milljónir manna rétt höfðu það fram úr. Þjóðverjar eru yfir sig hneykslaðir yfir öllum þessum aumingjaskap og nágrönnum þeirra í suðri finnst þessi nirfill í austurbæ Evrópuhreppsins ekkert of góður til að borga reikningana fyrir sig. Þjóðverjar vilja ekki taka á sig það forystuhlutverk sem sagan virðist ætla þeim í sameinaðri Evrópu. Þeir spegla sig í eigin sögu og segja: Nein, danke!
Þeir sem hafa í flimtingum ástandið sem nú hefur skapast með Evruna ættu aðeins að hugsa sinn gang. Það sem við blasir með falli Evrópusambandsins, sem þeir virðast óska sér, er óhugnanlegt bergmál frá liðnum tíma og getur haft heimssögulegar afleiðingar. Menn ættu að minnast þess að flestar þjóðirnar á meginlandinu eru þungvopnaðar og ef uppúr sýður verður það síst minna sjónarspil og óhugnaður en oft við svipaðar aðstæður á liðnum öldum. Það væri afar óskynsamlegt að halda því fram að slíkt gæti ekki gerst. Peace in our time sagði Chamberlain eftir fundinn með Herr Hitler sumarið ´39. Það var um svipað leyti og verið var að strekkja beltin á skriðdrekunum sem óku svo yfir pólsku landamærin.
Þetta er sagan sem íslendingar þurfa að þekkja þegar þeir spyrja sig hvort þeir eigi erindi inn í Evrópusambandið. Sjónarmiðin snerta peningamál, hermál, menningarmál, verslun og viðskipti og aðgang að stærsta nálæga markaði fyrir allt sem við framleiðum. Breski sjóherinn var aðeins nokkrum dögum á undan þeim þýska þegar hann gekk hér á land í maí 1940. Þeir sem halda að við getum dregið upp segl og siglt í burtu frá vandamálum nágrannaþjóða okkar ættu að athuga sinn gang. Við munum finna fyrir þeim með áþreifanlegum hætti á komandi mánuðum og misserum.
Það er sérstaklega athugunarvert mál fyrir þá íslendinga sem bera ábyrgð á því að leggja niður verslun okkar og viðskipti við Bandaríkin og Kanada. Allt í nafni pólitísks rétttrúnaðar sem teygir anga sína inn í verslunarmenningu okkar.
Pexið um Evrópusambandið ber á sér einkenni trúarhita og ofstækis. Íslendingar lokuðu vesturglugganum og sitja nú uppi með afleiðingarnar.
Enn er þó von: Kanada er með fríverslunarsamning við EFTA ríkin. Hann tók gildi 1. Janúar 2009, en hér virðist enginn vita neitt um það mál.
20.5.2011 | 21:38
Evrópusameining: Af hverju? (Fyrri grein af tveimur).
Af hverju var Evrópusambandið stofnað?
Evrópuskaginn sem hluti Evrasíu landmassans er hlutfallslega eins og Seltjarnarnesið sem prósenta af Íslandi. Samlíkingin lýsir mikilvæginu í nokkuð réttum hlutföllum, landfræðilega. Í þessum nýsameinaða hreppi búa í dag um 400 500 milljónir manna, eða innan við 10% íbúa jarðarinnar. Samt hefur Evrópusagan mótað hálfan heiminn sl. 1000 árin eða svo.
Fátt óttast Evrópmenn meira en risana í austri. Sagan af Gengis Khan lifir og síðar af afrekum Atila Húnakonungs sem fór með heri sína eins og eldur yfir evrópska akra. Margir Evrópumenn ættu og að minnast Karls V., Þess sem lauk við að reka márana suður úr álfunni. Herskáir múslimar hafa krafist þess að Evrópa skili þeim Spáni.
En erjurnar voru miklu meiri innan sveitar en utan þótt það hafi orðið að sérstöku kóngasporti í Evrópu langt fram eftir öldum að ráðast á Rússland. Sumar heimildir herma að það hafi þeir gert 254 sinnum á meðan Rússar hafi aðeins svarað fyrir sig einu sinni eða tvisvar. Tvær síðustu tilraunirnar urðu frægar. Napoleon missti 570.000 hermenn á sléttum Rússlands og tapaði þótt hann hafi getað heyrt kirkjuklukkum Moskvuborgar hringt áður en flótti brast í liðið. Herlið þýska skriðdrekaforingjans Heinz Guderians var á svipuðum slóðum með heri Hitlers 1943 og þeir misstu mun fleiri menn í eðjuna og snjóinn. Hann var þar aðeins um hundrað árum á eftir Napoleon.
Evrópumenn hafa samt verið miklu duglegri við að drepa hverjir aðra á liðnum öldum en utansveitarmenn. Lítum aðeins á söguna.
Árið 1618 réðust sameinaðir herir fimm hinna trúuðu og réttlátu nágrannaríkja á þýska landsvæðið norðan Rínar. Stríðið sem nefnt hefur verið þrjátíu ára stríðið leiddi til algerrar tortímingar. Meira en helmingur þeirra manna sem landið byggðu var drepinn. Með frægu samkomulagi, friðarsamningum sem undirritaðir voru í borginni Westphalia árið 1648 var bundinn endi á ósköpin. En Evrópumenn héldu þó áfram að drepa hverjir aðra, oftast með Guðs orð á vör næstu 350 árin.
Með Westphalia sáttmálanum var lagður grunnurinn að þvi sem síðar varð Evrópsk þjóðernishyggja, þótt það hafi ekki verið tilgangurinn með samningnum að koma slíku að í hugarheimi íbúanna. Með samningnum var reynt að fá það staðfest að virða bæri landamæri ríkja og þjóðaheilda, byggt á tungumálum og menningu.
Að Napóleon gengnum, eftir lok stríðs hans við nágranna sína árið 1812 var enn litið um öxl og spurt hvað væri hægt að gera. Gestgjafi friðarrástefnunnar sem haldin var í Vínarborg 1815 var Klaus von Metternich fursti og einn áhrifamesti stjórnmálamaður síns tíma. Árangur Vínarfundarins tryggði Evrópskan frið, að mestu í 100 ár eða til 1914, þegar ríkisarfi austurríska keisaradæmisins var myrtur á götu í landi sem síðar fékk nafnið Yugo-Slavía. Það var Sarajevo. Afleiðingin var helstríð sem kostaði tugi milljóna mannslífa og skildi eftir fleiri spurningar og vandamál en hún leysti. Frægasta og langlífasta afleiðing þess stríðs er landakort sem evrópskir stjórnmálaforingjar teiknuðu upp þegar þeir skiptu á milli sín hreytunum af Ottoman veldi tyrkja og tryggðu þar með stríðsátök í mið austurlöndum sem enn standa og eru óútkljáð. Evrópa steypti heiminum í tvær stórstyrjaldir á 20. Öld.
Við lok seinna striðsins lá fyrir að eitthvað yrði að gera. Búið var að drepa tugmilljónir manna um víða veröld, aðallega vegna skaðabóta sem hið ósigraða Þýskaland var látið taka á sig í friðarsamningum kenndum við sumarbústað Loðvíks 14. í Versölum og undirritaðir voru í frægum járnbrautarvagni þar sumarið 1918.
Næst: Rómarsáttmálinn.
17.5.2011 | 00:16
Seðlaprentun og lánastarfsemi: Afskriftir eða þrot.
Kreditvæðingin mikla hófst um 1970. Síðan þá hefur nánast öll þensla í vestrænum hagkerfum verið framkölluð með útlánaþenslu, vaxtalækkun, lengingu lánstíma og stærstu fyrirtækjasamsteypur veraldar gerðu fjámálastarfsemi að sínu aðal viðfangsefni.
Öllu var hrært saman; viðskiptabönkum, fjárfestingabönkum, vogunarsjóðum, tryggingafyrirtækjum og annarri fjármálastarfsemi sem lýtur að öðrum þáttum hagkerfisins en framleiðslu. Með því er átt við að tekið sé hráefni og búin til úr því fullunnin vara. Það er raunhagkerfið sem peningar áttu í upphafi að vera traust ávísun á.
Verslun með peninga, seðla og annan pappír er orðin að risavaxinni atvinnugrein sem er vaxandi þáttur í efnahagsstarfsemi heimsins. Engu er líkara en allir ætli að auðgast á að versla með peninga. Sömu aðilum þykir gott að gleyma því að peningar eru ávísun á efnisleg verðmæti sem framleidd eru með mannafli og véltækni. Tekist hefur, illu heilli að rjíúfa orsakasambandið þarna á milli. Með heimssögulegum afleiðingum.
Seðlabanki Bandaríkjanna er orðinn stærsti framleiðandi þessarar vöru. Stórfelld seðlaprentun og neikvæðir raunstýrivextir bankans eiga að efla atvinnulíf í landinu og í stærstu viðskiptalöndum Bandaríkjanna, væntanlega með auknum innflutningi frá þeim.
Áhættan sem bankinn tekur er geigvænleg, vægt til orða tekið. Í fyrsta lagi er hið mikla seðlamagn ávísun á verðbólgu síðar og versnandi kjör í erlendum viðskiptum. Í öðru lagi stafar efnahagskerfinu hætta af Þeirri háttsemi erlendra viðskiptamanna að stinga dollaraseðlum í koddann. Þeir ættu að hugsa sinn gang. Stjórn seðlabanka Bandaríkjanna hefur vitað árum saman að meira en 30% af dollaramagni í umferð er í notkun utan Bandaríkjanna og að hann hefur enga stjórn á þeim fjármunum; hverjir höndla með þá og hvenær þeir gætu birst í bandaríska hagkerfinu fyrirvaralaust og með ófyrirsjáanlegum afleiðingum. Tilvist pappírspeninga byggist alfarið á trausti. Þegar það þverr er fjandinn laus og rúmlega það.
Margt bendir til þess að tímabil hagvaxtar drifnum áfram af einkaneyslu, fjármagnaðri með lánum sé að ljúka, eða að því sé þegar lokið. Þó er til ein leið út úr þeim vanda og hundruðir bandarískra banka geta nú farið þessa leið með dyggum stuðningi seðlabankans: Afskriftir!
Svo er að sjá sem að þær hundruðir milljarða dollara sem búnir hafa verið til úr engu á liðnum árum hafi verið notaðir til þess að skola út ruslinu ónýtum skuldaviðurkenningum frá milljónum einstaklinga og fyrrirtækja. Það gæti verið að það sé þá þjóðhagslega ódýrara að henda gömlu spilunum, gefa upp á nýtt og endurtaka leikinn við næsta hrun.
Er þetta þá svarið fyrir íslendinga? Íslensku bankarnir eru fullir upp í rjáfur af rusli sem Þeir ýmist bjuggu til fyrir hrunið eða með verðtryggingarsveiflunni eftir það. Kannski þetta sé svarið; að láta þessa fjármuni gossa, gefa upp á nýtt og skapa sér nýjan rekstrargrundvöll með viðskiptavinum sem nú er verið að gera upp einn af öðrum og dæma til langrar fjarveru frá þátttöku í hagkerfinu.
Svo er auðvitað annað ráð sem ekki dugir síður: Hækka laun og innlánsvexti; auka ráðstöfunartekjur og hvetja fólk til kerfisbundins sparnaðar, þannig að af þeim sparnaði væri raunverulegur ágóði. Hverfa frá lánadrifinni neyslu sem leyst yrði af hólmi með eiginfjármyndun hjá almenningi í stað skuldasöfnunar og vaxtaánauðar. Bankarnir gætu þá notað innlánasöfn til útlána til fjárfestinga í arðbærum rekstri frekar en að vera sjálfir að vasast í óskyldum rekstri út og suður.
Hversu mikið sem menn bollaleggja um að koma hagkerfinu af stað, þá byggist sú þróun og væntanlegur hagvöxtur á einkaneyslu öllu öðru fremur. Þessu virðast flestir gleyma í loftkenndum ræðuhöldum um hvað þurfi að gerast svo hjól atvinnulífsins fari að snúast af alvöru.
8.5.2011 | 11:43
Að töpuðu máli er maðurinn næstur.
Fréttaflutningur af opinberum og persónulegum dónaskap nokkurra nafntogaðra manna er mikilvægur vegna þess að hann dregur fram vatnaskilin í skoðanaskiptum á netinu og annarsstaðar.
Þegar rökin þrýtur tekur dónaskapurinn við. Argumentum ad hominem kölluðu menntaðir Rómverjar þetta fyrirbæri. Hér á landi var eitt sinn gefið það ráð af reyndum stjórnmálamanni að persónulegu áreiti ættu menn ekki að svara - nema með málssókn. Það var 1907 og sóðaskapurinn í málflutningi innan þings og utan kominn í áður óþekktar hæðir.
Hæstiréttur er löngu hættur að dæma menn til fébóta fyrir meiðandi ummæli og annað slíkt áreiti. Til þess er tjáningarfrelsið talið of dýrmætt og ekkert má gera til að skerða það. Rétt er það. Menn verða samt að sæta ábyrgð fyrir meiðandi og óþolandi persónuníð. Ummæli dæmd dauð og ómerk er réttarúrræðið sem margt slíkt mætir og dugir ágætlega.
Af framferði þeirra sem nú hafa dregið að sér þjóðarathygli fyrir dónaskap er það að segja að sumir þeirra hafa vart getað látið frá sér fara málsgrein á prenti án þess að hún lyktaði af öfund, rætni og smeðju. Aðrir hafa verið að færast í aukana á liðnum árum með þeim hætti að fjöldi manna hefur þurft að þola athugasemdir sem snerta málefni líðandi stundar nánast ekki neitt, en hafa snúist upp í persónulegan dólgshátt. Á þessu verða þolendur nú að taka, sjálfum sér til verndar og öðrum til varnaðar. Spurning um að nefna ofstækið líka.
Það er list að þekkja sinn vitjunartíma.
6.5.2011 | 11:27
Áhrifavaldar og eyðilegging íslensks fasteignamarkaðar: 1990 -2010
Apríl 2003: Kosningar í nánd. Ungur stjórnmálamaður á uppleið lofar 90% lánum í öll fasteignaviðskipti. Viðbrögð markaðarins eru snögg: Á tímabilinu frá 30.apríl til 30. Júní 2003 hækkar fasteignaverð á landinu um 25%. Mest á Reykjavíkursvæðinu. Veislan er að hefjast. Aðalrétturinn er kominn á borðið.
Ársveltan hafði verið í hröðum vexti. En við þessar aðstæður tók salan einn kipp enn og fór úr rúmlega 10.000 seldum eignum á árinu 2002 í um 12.000 eignir 2003. En toppnum var ekki nærri náð. Vitleysan var drfin áfram af yfirlýsingum lukkuriddara í pólitík og í bönkunum sem léku sér, vitandi eða óafvitandi að umkomulausum neytendum. Verðið var talað upp og niður, út og suður. Síminn á fasteignasölunum hringdi eða ekki í takt við mis gáfulegar yfirlýsingar þeirra í fjölmiðlum.
Svona var staðan í miðri fasteignabólunni á Íslandi. Ekki þeirri einu. Allt nú gleymt nema þeim sem sitja uppi með stökkbreytt lán, innlend sem erlend. Viðskiptin voru lífleg. En margir ráku upp stór augu þegar þeir áttuðu sig á því að 90% lán var reyndar ekki 90% lán, heldur .... c.a. 65% lán og þá EKKI af kaupverði, heldur af brunabótamati sem þá var notað sem viðmið um veðhæfni fasteigna. Allt tómt plat. 90% þýddi því í raun kannski 55% af því sem skipti máli: Kaupverðinu.
Bankarnir sleiktu út um þegarþeir horfðu á Íbúðalánasjóð sem í þeirra augum var ekki annað en feitur göltur sem einungis átti eftir að flá. Þá bættist við skyndilegur áhugi erlendra aðila á að kaupa húsbréf. Frjálst flæði fjármagns. Hvergi á byggðu bóli bauðst annar eins pappír: 6.1% vextir, verðtrygging og 100% baktrygging frá ríkissjóði. Embættismenn ríkisins komust á snoðir um þennan gullgröft útlendinga nokkru síðar og þá var húsbréfakerfið lagt niður í kyrrþey. Betur að þeir hefðu beitt kutanum víðar á meðan hann beit. En þegar stigið var á bremsurnar höfðu erlendir fjárfestar eignast c.a. 150 milljarða króna kröfur á íslenska ríkið. Erlent fé streymdi inn í landið. Að veði: c.a. 50-60.000 fasteignir sem skiptu um hendur á þensluskeiðinu. Tæplega 16.000 fasteignir á árinu 2006 einu og sér. Restin af eignum landsmanna sogaðist svo inn í hringiðuna óháð því hvort þær voru veðsettar með þessum hætti eða öðrum.
Enn hækkaði verðið. Þegar leið að lokum árs 2003 voru bankarnir orðnir verulega spenntir. Meðalverð á fermetrann var komið í um 125.000 krónur. Svo var það í febrúar 2004 að Landsbanki Íslands boðaði aðila fasteignamarkaðarins á fund á Hótel Loftleiðum. Tilgangur fundarins var að kynna starfandi fasteignasölum áætlanir bankans um innkomu hans á fasteignamarkaðinn með formlegum hætti. Æðstu yfirmenn bankans héldu þar kraftmiklar ræður þar sem meðal annars kom fram sú skoðun bankans að Íbúðalánasjóð bæri að leggja niður og þeir álitu að það myndi kosta Landsbankann c.a. 175 milljarða króna að taka sjóðinn yfir. Þá var því jafnframt lýst yfir að með hinni nýju húsnæðislánastarfsemi bankans yrði eignamyndun. Lánin yrðu nánast alfarið í erlendri mynt. Fram til þess tíma hafði eignamyndun á gengistryggðum lánum eða lánum í erlendri mynt verið talsvert meiri en í samningum þar sem lánað var í verðtryggðum íslenskum krónum. En þeir slepptu því að segja frá mörg hundruð íbúðum sem þeir áttu i Grafarholtinu, bankarnir eftir að hafa látið dugandi byggingaraðila ljúga út úr sér peninga til að halda áfram að byggja hús sem enginn markaður var fyrir.
Ekki stóð á íbúðalánasjóði sem þarna var kominn í tilvistarkreppu. Forsvarsmenn hans héldu mjög fram þeirri skoðun að ÍLS ætti að vera heildsölubanki. ÍLS átti semsagt að annast innflutning erlends fjár, svona til að spara Seðlabankanum ómakið og greiða það út til viðskiptabankanna í skuldabréfaviðskiptum. Sem og varð. En bara ekki með gjaldeyrisinnflutningi. Þess þurfti ekki. Um það sá seðlabankinn með fáránlegum stýrivöxtum sem með frjálsu flæði fjármagns skv. ákvæði þar um í EES samningnum gerði Ísland að frjósömum akri erlendra og innlendra spekúlanta sem litu á þessa stöðu sem beina áskorun um að setjast að veisluborðinu sem íslenskur peningamarkaður varð. Íslensku bankarnir tóku stöðu gegn íslensku krónunni í örvæntingarfullri tilraun til þess að verja sig gegn fáránleikanum sem jafnan ríkir í kringum örmyntir. Kaupþing var í raun erlendur banki á þessum árum en var neitað um heimild til að gera upp í evrum. Þar með voru örlög Kaupþings ráðin.
Eftir að bankarnir voru búnir að veita erlend og innlend lán til kaupa á 10-15.000 fasteignum varð þess vart að mikil óvarin og óarðbær lausafjárgnótt skapaðist hjá ÍLS. Fé flæddi inn í sjóðinn vegna uppgreiðslna lána frá viðskiptavinum sem nú vildu taka sín íbúðalán hjá sínum viðskiptabanka. Þetta var um mitt ár 2005. Við þær aðstæður tóku forsvarsmenn sjóðsins að velta fyrir sér hvernig væri hægt að koma þessum 130-150 milljörðum eða þar um bil í arðbæra vinnu. Lækka vexti og lengja lánstímann kannski? Mæta samkeppninni og styðja viðskiptavinina? Nei, reyndar ekki. Heldur skyldi skila fénu aftur til bankanna sem voru að reyna að leggja Íbúðalánasjóð niður. Sérkennilegt samband þarna. Þetta var gert á kjörum sem almenningur í landinu átti með réttu að vita og njóta en fékk hvorugt. Þarna er á ferðinni rannsókarefni fyrir fjármálaeftirlit, sérstakan saksóknara og etv. fleiri aðila.
Nú hófst talsverður hávaði á markaðnum og almennar kvartanir um að þessir aðilar hefðu sameinast um að keyra fasteignaverð út fyrir öll velsæmismörk. Fermetraverðið í lok 2005 var um 200.000 krónur. Enginn kannaðist við það og um mitt ár 2005 og fram eftir árinu 2006 rigndi yfir almenning flóknum útskýringum frá greiningardeildum bankanna þar sem reynt var að þvo af þeim okrarastimpilinn. Hækkunin úr 60.000 krónur á fermetrann 1990 í 280.000kr á fermetrann árið 2007 var öllu öðru um að kenna. Það var veðrið; karlinn í tunglinu; páfinn; karlinn með hattinn og Davíð, já Davíð! Meðalverð á samning frá 2000 rauk úr c.a. 11.0 milljónum í 27.5 millj.króna á árinu 2008.
Fasteignamarkaðurinn hikstaði nokkrum sinnum á þessum tíma. Smá veruleiki komst að seinni hluta árs 2001 eftir að vefmiðlabólan sprakk, en aðilum tókst að koma boltanum af stað aftur. Aftur kom bakslag 2006 þegar út spurðist að íslensku bankarnir stæðu í björtu báli. Þeir voru hvattir til að hætta lántökum á milibankamarkaði og fara í staðinn í innlánasókn. Það varð Edge og Icesave.
Enn frestaðist veruleikinn. Á meðan þandist íslenski byggingariðnaðurinn út eins og Eyjafjallajökull síðustu misserin fyrir gos. Aldrei í sögu íslensks byggingariðnaðar hafa viðgengist önnur eins uppgrip. Yfir 100% framlegð af flestum byggingum og nóg framboð af erlendu vinnuafli. Öll þök flöt og fangabúðastíllinn hlýtur að fá gengna arkitekta Gulagsins til að snúa sér í gröfum sínum. Dómstólar munu þurfa að bæta við mannskap þegar afleiðingarnar af þeirri praktík fara að koma fram.
Svo kom 2007, árslok. Öll viðskipti nánast stopp og öll lánafyrirgreiðsla komin í frost. Endirinn er öllum kunnur: Yfirveðsettir bæir og borgir. Heilu hverfin í frosti. Fimmþúsundkallinn klipptur í tvennt og breytt í tíuþúsundkall. Svo komu kosningar vorið 2009. Frambjóðandi í prófkjöri fyrir stærsta flokkinn mættur á hraðstefnufund. Gengur milli borða og svarar spurningum áhugasamra kjósenda. Sest svo þar sem fyrir eru þrír forstjórar stórra byggingafyirtækja. Þeir spyrja með þunga: Hvað ætlar þú að gera til að koma byggingariðnaðinum af stað? Svarið var lengra en tíminn rúmaði, en það besta sem hægt er að gera fyrir íslenskan byggingariðnað er að koma í veg fyrir að hann fái að stinga sér í annað eins glópskufen eins og þarna gerðist.
Veltan jókst úr um 5.500 íbúðum seldum 1990 í um 16.000 íbúðir 2006. Jafnvægiseftirspurn eftir nýju húsnæði á stór-Reykjavíkursvæðinu er á milli 600 og 1.400 íbúðir á ári. Það er fyrir utan viðskipti með eldra húsnæði. Á lokaárum bólunnar voru byggðar 2.500 3.500 nýjar íbúðir ár hvert. Semsagt 2 3falt magn miðað við sögulega meðalþörf sl. 30 ára. Allt gert fyrir innflutt lánsfé. Höfundur spurði bankamann á árinu 2005 hvort lausnin væri þá að flytja inn útlent fólk til að kaupa þessa ofgnótt. Svarið var hiklaust já! Þenslan á fasteignamarkaðinum orsakaði helmingi meiri veltu en meðaleftirspurn gat annað. Bankarnir bera alla ábyrgð á eyðileggingunni og Íbúðalánasjóður gerði sitt til að viðhalda geggjuninni. Byggingariðnaðurinn fékk peninga í bönkunum til þess að byggja meira en helmingi fleiri íbúðir en markaðurinn þoldi á árunum 2003 -2008. Byggðar voru meira en 30.000 íbúðir á árunum 1990-2009. Á árunum 2004-2009 fór byggingahraðinn um 50% fram úr mannfjöldaaukningu í landinu.
Við hrunið var spáð mikilli krónutöluverðlækkun á fasteignum. Það hefur ekki gengið eftir. Eina verðlækkunin er sú sama og alltaf hefur orðið: Lækkunin er alltaf tekin í gegn um veikingu gjaldmiðilsins. Flestar þær eignir sem Íbúðalánasjóður hefur selt á árinu 2011 eru verðlagðar á meira en 230.000 krónur hver fermetri. Hvernig skyldi standa á því að engin raunlækkun á sér stað umfram veikingu krónunnar?
Enn eru bankarnir og ÍLS undir einni sæng. Áhugavert hvernig fjandmenn sameinast frammi fyrir sameiginlegum óvinum; viðskiptavinum beggja. Íbúðalánasjóður situr á gufukatli sem búið er að sjóða fyrir öryggislokann á. Sjóðurinn og bankarnir segjast eiga eitthvað um 2.000 íbúðir. Hið rétta er að þeir eiga til samans á milli 20 30.000 eignir á landsvísu. Daginn sem landsetar þeirra sem eru með nöfnin sín rituð á afsöl þeirra þúsunda eigna sem veðsettar eru í 130-160% af verðgildi, komast að því að sjóðurinn eða bankarnir eru farnir að lækka verðið á fullnustueignum, þá hætta þeir að borga af lánunum og fara annað.
Íbúðalánasjóður á eftir að biðja um og fá milljarðatugi af almannafé til þess að geta sinnt "félagslegu hlutverki sínu Gott er það. En féð verður notað til þess að halda uppi fölsku verði á fasteignum í landinu þar til næsta bóla rís og gerir allt gott og glatt á ný. Erlendir eigendur hinna tveggja einkavæddu banka hafa hótað ríkisvaldinu málaferlum og skaðabótakröfum ef verðtryggingin er afnumin. Þeim er öllum sama þótt þetta sé samsæri gegn borgurum landsins sem eru hvort eð er vanir að vera látnir borga brúsann. Alla brúsa.
Krónan og verðtryggingin sjá um að nauðungin sem almenningur er beittur haldi áfram. Það er sko kosturinn við að nota sjálfstæðan gjaldmiðil.
23.4.2011 | 12:19
Mátt þú eiga Ísland? Afnám frelsis í viðskiptum með jarðeignir.
Með einokunartilskipuninni sem gefin var út árið 1602 var komið á opinberri verðstýringu bæði á landi og afurðum. Landverð féll með þeirri skipan sem fólst í þeirri aðgerð að knýja íslenska bændur og útvegsmenn til þess að selja framleiðslu sína á verði sem hinni nýju yfirstétt einokunarkaupmanna fannst réttlátt. Þar með hvarf út úr landinu sú auðlegð sem sagt er að oft hafi myndast hér á 16. öldinni. Velsældin sem sagt er að hafi ríkt oft á tíðum frá þjóðveldisöldinni og fram undir siðaskiptin byggðist á einu atriði umfram allt annað: Frjálsri verslun.
Páll Vídalín lögmaður vann stórvirki með ritum sínum og störfum öllum fyrir íslenska alþýðu. Hann var fæddur árið 1667. Hann var því aðeins barn að aldri þegar íslenska valdastéttin var leidd undir danskan korða . Reyndar voru margir meðlimir hennar búnir að sverja krúnunni hollustueiða áður en hann sá þennan heim í fyrsta sinn. Það gerðu þeir, til neyddir á Kópavogsfundinum 1661.
Með Jarðabókinni sem Páll vann ásamt Árna Magnússyni árið 1703 er í fyrsta sinn tekið á ásælni dönsku krúnunnar í íslensk verðmæti; laust fé og fast. Tilgangur þess verks var að meta með faglegum hætti allar þær eignir á Íslandi sem mættu í reynd vera nokkurt fé í þúfu konungs. Flestar jarðalýsingar þeirra enda á orðunum ...og lækur grandar túni Þannig færðu þeir niður skattstofninn til þess að reyna að stemma stigu við ásælninni og færa fyrir því haldbær rök.
Í bók sinni Deo, Regie, Patrie sem gefin er út um eða eftir 1710 og fjallar um endurreisn Íslands, leggur Páll grunninn að þjóðskipulagi byggðu á hagfræðilegum lögmálum og hugmyndum. Um það rit leika vindar frelsis og upplýsingar eins og best gerðist á þeim tíma. Niðurstaða þess merka rits er í sem allra stystu máli að til þess að nokkur velsæld geti skapast á Íslandi þufi að bæta hér verkkunnáttu, auka við sérhæfingu í handverki og koma hér á frjálsri verslun. Þá ræðir hann um nauðsyn þess að til þess þurfi stað sem bjóði upp á íslausa höfn allt árið og að þar þurfi að koma upp skólum og öðrum stofnunum sem þjóni landinu. Staðinn telur Páll sig þekkja og nefnir hann Mýrar, sakir bleytu á vissum árstímum. Þessi staður var við svonefnda Reykjarvík við Faxaflóa austanverðan. Páll hafði hvílt í gröf sinni í tæp sextíu ár þegar Reykjavík fékk löggildingu sem kaupstaður.
Með fasteignamati sem gefið er út um miðja 19. öld er farið yfir allt eldra mat og verðgidli jarðnæðis á landinu metið til hundraða eftir væntum arði. Jörð sem metin var 40 hundruð gat borið fjörutíu kýr eða sexfalda þá tölu fullvaxta áa "lembdar og hærðar". Þetta var grunnurinn sem notaður var í jarðaviðskiptum eða við ákvörðun landskuldar, landafgjalds leiguliða sem þá voru margir og fátækir.
Með yfirtöku ríkisins á kirkjujörðunum skv. samningum þar um í byrjun 20. aldarinnar var hundruðum landseta á kirkju- og ríkisjörðum gert kleyft að gerast sjálfseignarbændur. En mikil miðstýring á viðskiptum með jarðnæði og lögbýli var samt við lýði alla 20. Öldina. Það eru leyfar átthagafjötra, vistarbands og þrælkunar sem stórbændur vildu sem ákafast hafa við lýði og vilja margir enn. Þetta ferli, umbreytingin tók meira eða minna fjórar aldir að afnema og koma á frjálsara skipulagi.
Það var tímamótaákvörðun landbúnarðarráðherra Íslands undir lok 20. aldarinnar að rifta ákvörðun hreppsnefndar Stafholtstungnahrepps í Mýrasýslu um inngöngu hennar í kaupsamning um jörðina Efra Nes þar í sveit. Ákvörðun um inngöngu hreppsins í kaupsamninginn var byggð á ákvæði í jarðalögunum, hinum eldri sem gaf hreppsnefndum rétt til þess að ganga inn í kaupsamninga ef sýnt þótti að eignin sem versla átti með færi úr ábúð eða með öðrum hætti til nota sem hreppsnefndarmönnum þótti ekki hæfa. Halldór Blöndal taldi ákvörðunina tilhæfulausa og rifti gerningnum og setti til kaupanna þann er fyrr vildi kaupa.
Jarðalögunum var síðan breytt á árinu 2004 og með þvi var forkaupsrétti sveitarfélaga aflétt og að öðru leyti gert frjálst að versla með jarðnæði eins og aðrar fasteignir á landinu. Þetta fyrirkomulag og verslunarfrelsi með þessa tegund fasteigna er alveg sérstakur þyrnir í augum íslenskra samyrkju- og sameignarsinna sem telja sig þess umkomna að fá að ráðskast með eignir nágranna sinna.
Á sama tíma og stór hluti alþýðu í sveitum landsins situr undir ásælni ríkisvaldsins í land á hálendi Íslands; hina fornu almenninga í gegn um svonefnd þjóðlendulög, er gervöll forysta bænda eða hagsmunasamtaka þeirra að bauka við það að ná til sín valdinu til þess að geta verðfellt og ráðstafað jörðum nágranna sinna. Til þess njóta þeir fulltingis landbúnaðarráðherrans sem nú situr.
Hundruðir fátæks bændafólks geta þakkað lagabreytingunni frá 2004 það að geta átt til hnífs og skeiðar eftir áratuga strit við efiðar aðstæður á jörðum sínum. Með frelsinu varð eðlileg verðmyndun og þeir sem vildu selja gátu nú loks selt við verði sem gerði þeim kleyft að koma sér fyrir sem frjálsir menn í kaupstað eða annarsstaðar þar sem bauð án afskipta eða þóttunar frá hreppsnefndum eða nágrönnum sem vildu ráða því hverjum var selt og á hvaða verði.
Nú hefur þessi söfnuður dustað moðið úr vösunum og blásið til nýrrar sóknar. Taka á samningsfrelsið af sjálfseignarbændum til þess að nágrannar þeirra geti ráðstafað jörðum þeirra; tekið þær leigunámi, skyldað þá til að vera á landi sínu og bera skarn á hóla eða annað, nánar eftir þessari tyftun sem felst í framkomnum tillögum til breytinga á jarða- og ábúðarlögum. Þá er gott fyrir menn að minnast þess eftir að vistarbandið hefur verið endurvakið að á þessu stutta vori sem Halldór Blöndal innleiddi með skynsamlegri og eðlilegri ákvörðun gátu hundruðir fátæks bændafólks selt eignir sínar og innleyst lífeyri sinn með sanngjörnum hætti, þannig að nemur amk. 30 milljörðum króna. Bara svo allur vafi sé af tekinn, þá er það þetta sem bændaforystan þolir ekki, hún vill fá gæðin gefins. Ekki bara ráða hver og hvenær og hvernig, heldur sjálfu verðinu.
Á Íslandi eru um 7.000 lögbýli. Flestir forystumenn í samtökum bænda búa rausnarbúum á jörðum sem þeir eiga, m.a. vegna þess frelsis sem gildandi löggjöf hefur fært þeim. Skortir þá land? Er skortur á góðum jörðum til búrekstrar á Íslandi? Nei, ekki svo, en menn verða að draga upp veskið og borga. Sá er nú vandinn.
Búskapur er rekinn með ýmsum hætti á um eða innan við helmingi lögbýla í landinu. Eftir áratuga offramleiðslu á flestum landbúnaðarvörum var komið á framleiðslustýringu með kvótafyrirkomulagi í kjöti og mjólk. Það hefur gefist ágætlega og skapast hefur nokkur sátt um niðurgreiðslur og styrki í landbúnaði. Það snerist um ráðstöfun á opinberu skattfé sem mörgum hefur þótt riflega út lagt í samningum ríkisins við framleiðslusamtök í landbúnaðinum
En það er ekki bara að brjóta eigi grundavllarmannréttindi í viðskiptum með þessa tegund fasteigna, sem taka á ut fyrir sviga í almennnum fasteignaviðskiptum af órökstyðjanlegum fullyrðingum um fæðuöryggi og fleira. Búið er að afnema samningafrelsið sem áður gilti t.d. í viðskiptum með fullvirðisrétt í mjólk.
Það var gert eftir slag sem einn af bönkunum tók við að fullnusta jörð sem hann hafði eignast uppi í Borgarfirði. Þegar það spurðist út að bankanum hefði mistekist að ráðstafa um hálfri milljón lítra af fullvirðisrétti í mjólk til aðila sem var honum sérstaklega þóknanlegur, var komið á nýjum reglum sem fela í sér fullkomna miðstýringu og höft á viðskiptum með þessi gæði. Frjáls verðmyndun var afnumin, alveg eins og nú á að gera með sjálfar fasteignirnar. Verslunarfrelsið er því vel geymt í möppum ráðherrans sem innleiddi helsið með rökum sem innifela að aðrir séu nú vitlausari en við og hafi jafnan gefist vel.
Hver eru verðlaun heimskunnar og sögublindunnar? Líður þeim best sem lítið veit eða skilur? Þá aðila sem þyrstir í svar við því ættu af öllu framansögðu að bregða sér í bíltúr upp í Hálsasveit og skoða þar með eigin augum afleiðingu svona handstýringar á gæðum íslensks landbúnaðar; landi, ræktun, byggingum og kvóta. Á Refsstöðum í Borgarfjarðarsveit stendur eitt stærsta fjós byggðarinnar, nýtt og tómt og um 130 hektarar nýræktaðra túna og visna í þessu kuli aftan úr grárri forneskju. Og enn skal um bæta.
21.4.2011 | 15:12
Reikninginn takk!
Mestu lagaþrætur samtímans snúast um peninga. Eðlilega. Nokkrir hraðmæltir sölumenn í þröngum jökkum og alltof stórum skóm fengu að veðsetja fjölskyldusilfrið. Það tapaðist. Engu munaði að þeir hefðu fengið að veðsetja húsið líka. Það vantaði bara herslumun að þeir næðu að vinna tapið upp.
Svo kom reikningurinn. Á einni nóttu fór ríkissjóður Íslands úr þeirri stöðu að vera skuldlaus í að skulda 14 þúsund milljarða króna. Tíu ára þjóðarframleiðslu. Mest af þessum stabba reis eins og klettur úr hafi vegna þess að við höfum talið það þjóðernis- og sjálfstæðisspursmál að nota eigin .... sjálfstæðan gjaldmiðil.
Þetta lítur ekki vel út. En er þó ekki alslæmt að sögn. Kosturinn við að reka eigin gjaldmiðil og sjálfstæða peningamálastefnu er sá að hægt er að láta almenning greiða reikninginn fyrir kollsteypur. Orsakavaldurinn í því máli er íslenska krónan og fyrirstöðulaust fall hennar í bráðum eina öld. Aðeins 2000% fall og hún rúllar áfram öllum landsmönnum til gæfu og gleði. Svona verjum við sjálfstæðið og hagsældina. Og verjum okkur fyrir atvinnuleysi. Ekki gleyma því!
Reikningurinn fyrir afglöp í hagstjórn er sendur almenningi í gegn um vísitölu neysluverðs eða önnur álíka tæki sem sett eru upp til þess að skattleggja grunlausan almenning vegna atburða sem að ofan greinir án þess að leitað sé lagaheimilda. Enda má ekki leggja skatta á nema með lögum frá alþingi. Við hrunið urðu til um 350 milljarðar í reiknivélum bankanna sem leggjast beint á allar fjárskuldbindingar landsmanna sem bundnar eru af þessu ránstæki sem fer í gang um leið og gengið fellur. Ríkið bætir svo í um leið og það gortar af því að svonefnd verðbólgumarkmið hafi náðst. Ríkið skapar sér tekjur með hækkunum á vörum sem vega þungt í verðlagsgrunninum. Benzíni og brennivíni. Það ræsir þessa sjálfvirku (eigna)upptökuvél. Einhverjir hafa mótmælt þessum aðförum en þeim er svarað með því að þeir hafi fengið lánaðan einn kaffipakka og ekki sé verið að biðja þá um annað en að skila honum aftur fullum.
Siðrof, þjóðargjaldþrot, gjaldþrota bankar, vísvitandi falsanir á verðlagi og verðlaus gjaldmiðill virka ekki sem lagarök gegn ásælninni sem ríkið og bankarnir ætla að beita hér eftir sem hingað til. Látið er eins og 6. Október 2008 hafi verið fremur venjulegur dagur í íslenskum fjármálaheimi og fjármálahefðum. Handhafar ríkisvaldsins og sérstakir skjólstæðingar þeirra í bönkunum kannast ekkert við það að neitt óvenjulegt hafi gerst sem sé svo alvarlegt að það víki til hliðar öllum samningsforsendum í fjármálagerningum á þjóðarvísu.
Þetta er mál fyrir mannréttindadómstól Evrópu til að skera úr um. Íslensk stjórnvöld telja sig hafa efni á að voga einni flengingu þar til viðbótar við þær sem á undan eru gengnar.
Um bloggið
Guðmundur Kjartansson
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (3.2.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar