18.8.2011 | 12:09
Samfélag silkihálsklúta
Þeir eru alveg ærðir þessir "Country Club" félagar innan og utan Sjálfstæðisflokksins út af því að formaður flokksins hafi ákveðið að nýta sér stjórnarskrárvarinn rétt sinn til þess að hafa sjálfstæðar skoðanir á ýmsum málum. Í þetta sinn er það Evrópusambandið.
Evrópusambandið er útrætt mál hér á landi. Aðeins er eftir að setja kosningastimpilinn á þessa dellu. Ótrúlega margir virðast halda að keisaradæmið í Brussel muni bæta kerfislægan stjórnmálavanda á Íslandi. Það böl verðum við að bæta á eigin spýtur.
En af hverju er þetta útrætt mál? Vegna þess að Delors, Barroso, Van Rompoy, Prodi, D´Estaing, Merkel og öll hin eru nákvæmlega jafn úrræðalaus og veruleikafirrt og íslenskir kollegar þeirra. Skoðið meðferð skulda Evruríkjanna þegar Evran var innleidd og þá sjáið þið hvernig þúsund ára gömul þjóðríki og stoltar menningarheildir voru sett í niðursuðudós.
Þeir eru með öðrum orðum .... jafn vitlausir og hinn glámskyggni íslenski stjórnmálaþurs. Hverri nýrri krísu er svarað með auknum kröfum um miðtsýringu og samþjöppun valds.
Evrópuklúbburinn er draumalandið fyrir fagpólitíkusa og froðusnakka eins og þá sem stjórna Íslandi í dag. Megi dagur þeirra að kveldi renna sem fyrst.
Bjarni tók ákvörðun og sagði frá því. Hún er byggð á athugun á staðreyndum.
Undirritaður starfaði við fasteignaviðskipti frá 2003 til loka árs 2008, semsagt í gegn um hrunið.
Það var daglegt brauð á þessum árum að viðskiptin tóku kipp eða stoppuðu allt eftir því hvað greiningarstjórar bankanna voru að kokka í fjölmiðlum, til þess að stýra hegðun fólks sem var að skuldbinda sig og hafði takmarkaðan aðgang að réttum, ólituðum upplýsingum um markaðinn. Hitt var yfirlýsingagleði stjórnmálamanna sem sífellt voru að ræða mál eins og fasteignamarkaðinn og höfðu með mis-vitlausum yfirlýsingum afgerandi áhrif á gang mála.
Steingrímur J. Sigfússon er ekki sá fyrsti og ekki sá síðasti sem leyfir sér að hafa uppi vitlaus eða vanhugsuð orð um markað sem veltir tugum milljarða á ári hverju. Minni í því sambandi á loforð eins frambjóðenda Framsóknarflokksins fyrir þingkosningarnar 2003. Það var loforðið um 90% lánin sem enginn fékk, en orsakaði 25% verðhækkun á næstu sex vikum. (maí - júní 2003) Ég vísa að öðru leyti á fyrri skrif mín um þessi mál í vor þar sem farið var yfir helstu þætti fasteignaviðskipta og þróunar markaðarins frá 1990 - 2009. Fer ekki frekar út í það hér. Flest það sem þar kom fram er stutt tölfræðilegum gögnum m.a. frá Seðlabanka Íslands og Hagstofu Íslands.
En aðeins að frábærri grein Jóns Magnússonar hrl. á blogginu í gær.
Bankarnir og Íbúðalánasjóður segjast "eiga" um 1400 íbúðir. Það er algerlega rangt. Menn verða að horfa framhjá afsölum en snúa sér frekar að veðbókarvottorðunum í þessu sambandi og skoða skuldastöðuna.
Íbúðalánasjóður fékk á dögunum 30 milljarða sporslu frá ykkur ágætu lesendur. Hvers vegna þurfti sjóðurinn svo á þessu fé að halda? Var það kannski vegna vanskila íslenskra ríkisborgara á lánum sem þeir tóku í góðri trú á sl. 4-6 árum? Lán sem hækkuðu um 35-40% í Íslandsbrunanum?
Nei, það er ekki málið kæru lesendur. Rifjum aðeins upp staðreyndir: Eftir mitt ár 2004 þegar bankarnir hófu virka samkeppni við Íbúðalánasjóð og gerðu tilraun til að knésetja, (það tókst - en er bara að koma fram núna) gerðist nokkuð sem enginn reiknaði með. Með lánafyrirgreiðslu bankanna til þúsunda viðskiptavina sem voru að endurfjármagna eldri ÍLS lán - tóku milljarðatugir að streyma inn í sjóðinn vegna uppgreiðslna þessara eldri lána. Allt þar til stabbinn var að nálgast - hugsanlega 150 milljarða sem engin leið var fyrir sjóðinn að ávaxta með ásættanlegum hætti.
Viðbrögð Íbúðalánasjóðs voru EKKI þau sem neytendur í heilbrigðu samfélagi hefðu mátt reikna með. Í stað þess að lækka vexti af íbúðalánum niður í það sem þá gerðist í nágrannaríkjum, afnema verðtrygginguna - sem þá var hægt - var sú ákvörðun tekin að hjálpa bönkunum við að leggja Íbúðalanasjóð niður. Heiður meðal skálka.
Það var gert með stórfelldri skuldabréfaútgáfu á vegum bankanna. Og hver haldið þið að hafi keypt þessi bréf? Það var rétt, Íbúðalánasjóður, þessi félagslega mikilvæga stofnun fór í kompaní með bönkunum og keypti bréf, sem féllu örend til jarðar í brunanum - á kjörum sem þið áttuð að njóta en fáið aldrei að vita hver voru. Ég hef áður sagt að þessi viðskipti varði við lög og ættu með réttu að vera til skoðunar hjá þar til bærum aðilum.
Afleiðing þessara drottinsvika við íslenska alþýðu, sem hefur álitið sig eiga öruggt skjól hjá þessari annars ágætu stofnun og hennar góða starfsfólki, er sú að téð alþýða sér nú á eftir blóðfé sínu í að greiða upp veisluna miklu. Þarna eins og annarsstaðar. Bankarnir hafa áfram allt sitt á þurru.
Víkjum þá aðeins að meintri íbúðaeign Íbúðalánasjóðs og bankanna. Vegna aðstæðna á íslenskum fjármálamarkaði og skorts á arðvænlegum fjárfestingum taka þessir aðilar glaðlega við hverri fullnustueign sem þeim er slegin af starfsmönnum sýslumannsembætta vítt og breytt um Ísland, á nauðungaruppboðum. Ekki gleyma tryggingafélögunum í þessu sambandi, sérstaklega einu þeirra sem var aðili að öllum þeim c.a. 450 nauðungaruppboðum sem fram fóru í Reykjavík á árinu 2009.
Sé horft framhjá efnisatriðum afsala um allan þorra fasteigna á landinu kemur allt önnur mynd í ljós en sú sem þessir markaðsstjórnendur vilja vera láta.
Þeir EIGA um 30.000 fasteignir, sé horft raunhæft á málin. Þeir hafa lýst því yfir að fullnustueignir verði ekki seldar nema í "miklum rólegheitum". Hvað þýðir þetta? Það þýðir að þeir ætla áfram að beita valdi sínu til þess að stýra markaðinum og þið egið kost á því að taka hjá þeim verðtryggð lán á okurvöxtum til langs tíma. Verðið? 230 - 250.000 krónur á fermetrann.
Þessar sömu eignir hafa bankarnir og ÍLS "eignast " í gegn um eitt stærsta rán sem framið hefur verið á almenningshag á Íslandi og er þó miklu til að dreifa.
"Ránið" fer þannig fram að maður sem missir eign sína á nauðungaruppboði fær greiddar c.a. 100.000 krónur á fermetrann, tæplega fyrir láninu og öðrum hugsanlegum veðkröfum. Hann fær að sjálfsögðu ekkert af þessu fé. Kaupandinn greiðir sér það til þess að lækka veðskuldina.
Íbúðalanasjóður eða þinn elskulegi viskiptabanki tekur síðan eignina og selur hana á 230 - 250.000 fermetrann, TIL ÞESS AÐ HALDA VIÐ JAFNVÆGISVERÐI Á MARKAÐI. Ekki vilja þessir góðu herrar rugga bátnum. Þeir eru að verja eignir ykkar, ekki satt?
Hvað gerist svo? Bankinn eða sjóðurinn sendir hinum landlausa manni reikning fyrir mismuninum á framreiknaðri upphæð hins þrí-verðtryggða láns og þess sem "fékkst" upp í kröfuna á uppboðinu - kannski svona eins og 7,5 milljónir fyrir snyrtilegt 15.0 milljón króna lán á 3ja herbergja íbúð.Hinn húslausi skuldar semsagt 7,5 milljónir eftir að búið er að taka af honum eignina og henda honum út. Er þá ógetið þess eigin fjár sem skuldarinn hafði lagt fram við kaup sín á viðkomandi eign. Því er líka stolið.
Bókhaldsleg meðferð þessara talna er svo nokkurn veginn á þann veg að þessar 7,5 milljónir sem stofnunin telur sig hafa tapað (oftast c.a. vísitöluhækkunin frá okt. 2008) er færð á afskriftareikning. Að ákveðnum tíma liðnum er krafan færð í núll og eykst þá nettó staða á efnahagsreikningi sem nemur upphæðinni vegna þess að þá stendur bókfært verð eignarinnar eftir óskert. Þegar stofnunin selur svo eignina aftur á "frjálsum" markaði innleysir hún hagnað sem nemur mismuninum á innlausnarverði og markaðsverði. Hagnaðurinn er færður í sjóð og sýnir þar stöðugt batnandi stöðu stofnunarinnar og lausafjárgnótt.
Uppboðsþolinn fær þennan glaðning í pósti eftir að fullnustudeild hjá viðkomandi sýslumannsembætti hefur samþykkt frumvarp til úthlutunar söluverðs, c.a. 3. mánuðum eftir að eignin var gerð upptæk.
En það er ekki alveg allt. Húseigandanum fyrrverandi er jafnframt tilkynnt að hann skuli ekki reikna með lánafyrirgreiðslu til annarra íbúðakaupa næstu 4-5 árin.
Stofnanir þær sem hér er rætt um munu gera ALLT til þess að verja hagsmuni sína á ykkar kostnað á komandi árum.
Hversu vitlaust er þá þetta allt? Jú, þið sjáið hversu bilað það er að fasteignaverð hækki í landi þar sem hagkerfið og þjóðarframleiðsla skreppa saman um 3-5% á ári, vegið í rauntölum. Ef menn sjá hlutina í þessu samhengi, þá er skilningurinn flestum léttur.
Þetta eru svik eins og svo margt annað, en fólk kærir sig kollótt. Það á fárra góðra kosta völ.
5.8.2011 | 20:20
"Því miður sem betur fer"
Óborganlegt viðtal RÚV við fjármálaráðherrann, Steingrím J. Sigfússon í kvöld, 5. ágúst. Það var með því eftirminnilegasta sem lengi hefur sést á skjánum. Þar kom að ráðherrann var spurður um ástandið á fjármálamörkuðum og svarið var þetta, með öðru .....
Þessi óborganlegu skemmtilegheit minna okkur á að ekki er allt hávísindalegt í tilverunni, jafnvel þegar allt heila klabbið er á leið í hundsmagann. Þarna var okkar hæstvirti Chancellor, eins og nágrannar og bandamenn okkar á Bretlandseyjum kalla fjármálaráðherrann sinn að ræða um endurfjármögnun og lántökur erlendis og þessi græskulausa gagnsögn hraut af vörum hans þegar hann var að ræða endurfjármögnun íslenskra banka á erlendum mörkuðum. Hann var semsag allt í senn, sorgmæddur og glaður að þeir skyldu ekki vera að reisa sér hurðarása í viðskiptum við erlenda banka á frjálsum mörkuðum. Heima er best. En, Mr. Chancellor, hvað með músina í gildrunni?
Skrallið í evruvík heldur áfram. Ólli Rehn var sýndur í nýju Lagerfeld fötunum sínum í beinni útsendingu frá Stressborg þar sem hann lýsti því yfir að yfirsovétið hefði ýmislegt uppi í erminni til að takast á við skellinn sem evran og Evrópu-Sovétið urðu fyrir í glímunni við vindmylluna sem er þyturinn í seðlaprentvélunum og hrossastóði evrukeisarans. Stóðið er allt á spretti að leita nýrra haga. Gott er að vita og munu allir sparifjáreigendur og öreigar Evrópu sofa rótt í nótt af því að vita að Evrópa á svo trausta og úrræðagóða menn sem munu síðar visitera að hætti biskupa og preláta og dásama hin nýju föt keisarans af Bruxellium. Skyldu þeir vilja snæða signa grásleppu með oss?
Ríkiskassar vesturlanda eru tómir. Búið er að ræna sparifé almennings. Börsen-hagkerfið er eins og tilberasmjör sem búið er að stökkva vígðu vatni á. Búið er að veðsetja tekjur tveggja ófæddra kynslóða velferðarríkjanna til að borga fyrir jöfnuðinn. Gjaldmiðlar heimsins eru ónýtir bæði í raun og lygi. Stjórnmálamenn heimsins eru ráðþrota en eru samt mjög fínir og fall-legir í fallinu. Þú færð hirð fyrir hross litli minn, ef þú ert snöggur að taka við. Eigum við að öfunda bjána?
Svonefndir fag- fjárfestar eru allir á harðaspretti hver í sína áttina. Áttin er út á akrana. Uppskerutíminn fer í hönd. Þeir munu þar reyna að bjarga þvi sem eftir er af Matadorpeningum sínum með því að kaupa sem mest af uppskeru jarðar af hveiti, maís, sojabaunum, kartöflum, ólívum, hnetum.... botnið vísuna. Svo verða herlegheitin boðin okkur til sölu eins og bófarnir í Sómalíu gera í dag við soltinn lýðinn - með mat sem nytsamir sakleysingjar hafa safnað saman til að gefa börnum almættisins. Þeir geta í sandbylnum hrópað eins og Castro: Socialismus o muerte! Við gefumst aldrei upp þó ´móti blási. Þeir geta þá gert eins og Eþíópíustjórnin um árið og keypt sér Viskí fyrir sjóðinn.
Heimsku og sjálfmiðun Homo Sapiens eru lítil takmörk sett önnur en þau sem náttúruöflin setja okkur ... en annars... það er víst vatn á Mars svo hver veit nema okkur sé borgið eftir allt saman? Allir þangað! Það er áreiðanlega hægt að finna vogunarsjóði sem vilja selja hlutabréf í þá ferð. Munið að hafa með ykkur farsíma og gulrótafræ.
3.8.2011 | 21:19
Bergmál þess sem að steðjar
Þá er hafið þetta leiðréttingarferli í heimshagkerfinu sem tókst að fresta með samtilltu átaki fjármálastofnana á heimsvísu haustið 2008.
Tilraunir til að framkalla hagvöxt með lánveitingum drifnum áfram af neikvæðum raunstýrivöxtum, seðlaprentun, skuldabréfaútgáfu og alls kyns öðrum ráðstöfunum hafa aðeins frestað því ferli sem nú er hafið.
Björgunaraðgerðir ríksstjórna, ríkjasamtaka og stórra fyrirtækjasamsteypa voru ekki settar í gang til að hjálpa almenningi í löndum sem nú eru á barmi gjaldþrots og félagslegs hruns, heldur var tilgangurinn sá að bjarga fjármunum nokkurra auðugustu manna jarðarinnar. Fáir vita hverjir þeir eru og þeir sjást ekki opinberlega. Nú eru að koma fram afleiðingarnar af því. Á Íslandi var sú leið farin að taka pólitíska ákvörðun um að láta skuldugan almenning taka skellinn í stað þrotabúa bankanna. Þar var að verki fjármálaráðherra landsins studdur ráðgjöfum sem hann trúði og treysti.
En það eru fleiri sem tapa. Milljónir manna um víða veröld hafa lagt fé í fjárfestingar á vegum traustra fjármálafyrirtækja og ríkisstofnana eins og ríkissjóðs Bandaríkjanna. Þarna er um raunverulega peninga að ræða, öfugt við það sem alþjóðlegar fjármálastofnanir hafa margar lagt undir. Þeirra fé er búið til með því að skipta á nýprentuðum seðlum og skuldaviðurkenningum. Farið hefur fé betra. Starfsmenn J.P. Morgan munu hafa nóg að gera á næstu msserum við að henda út um gluggana ónýtum afleiðusamningum. Bankinn situr á slíku að upphæð $80.000.000.000.000,00
Rót vandans? Offramboð af peningum og ofvaxin skrifræðisbákn sem lifa á framleiðslugeira sem varla er lengur neitt nema nafnið. Of margir dollarar að elta of fá tækifæri til ávöxtunar. Enda voru það stóru fjárfestingabankarnir eins og Goldman Sachs sem hönnuðu lausnirnar: Meira af því sama og áður. Ný bóla var blásin upp.
Úrræðin? Þau eru nú í gangi, fyrir eigin afli. Massívt gengisfall á gjaldmiðlum, sérstaklega dollara og evru og þeim billjónum í ríkisskuldabréfum sem lánveitendur í þessum gjáldmiðlum hafa keypt. Hlutabréfamarkaðir eru við það að springa. Björgunarsjóðirnir eru tómir skv. fréttum, en það er ekki alveg rétt. Stjórnendur þeirra þora ekki að prenta meira af verðlausum peningum. Kaupgeta dollars, mæld í gullúnsum hefur fallið úr 35 dollurum í um 1.650 fyrir utan verðlagsbreytingar. (frá 1971)
Evrusvæðið á um tvo kosti að velja:
a) fella gengi evrunnar um 40-50% og afskrifa tilsvarandi skuldir aðildarríkjanna eða:
b) sleppa föllnum ríkjum S-Evrópu úr fangelsinu og taka skellinn og afleiðingarnar af rangri meðferð erlendra skulda þeirra þegar evran var tekin upp með beinni tilskipun frá Brussel - eða:
c) gera ekki neitt og bíða þess að byrjað verði að rífa múrsteinana upp af gangstéttum stærstu borga Evrópu. Þá fáum við líka að vita til hvers átti að nota her Evrópusambandsins.
Í Bandaríkjunum búast menn við almennum óróa eftir fyrstu helgina í september.
Þeir sem þarf að skamma og grýta eru flestir enn í sumarfríi.
28.7.2011 | 17:49
Pallbíladellan í Ómari og íslenskum stjórnvöldum
Ómar Ragnarsson hefur áhuga og þekkingu á bílum og tjáir sig stundum um bílamál, eins og flest annað. Hann er eins og margir innan og utan ríkisstjórnar, mjög áhugasamur um bandaríska bíla. Sérstakelga pallbíla. Tilefni þessara skrifa eru fullyrðingar hans og annarra íslenskra vinstrimanna um tæknileg atriði í bílaframleiðslu heimsins og sú andúð sem þau hafa á öllu sem kemur vestan yfir hafið. Þau eru ekki hin fyrstu til að klæða pólitískar skoðanir sínar í vísindabúning.
F-150 Ford pallbíllinn með 4600 CC vél eyðir að meðaltali 11-14 lítrum af benzíni á hundraðið í langkeyrslu. Vélin er nákvæmlega sú sama og notuð er í fólksbíla. Hann stenst alla EPA staðla sem gilda um þann flokk bíla. Sama á við um samskonar bíla frá GM, Chrysler, Toyota, Nissan og fleiri. Eyðslan er mismikil á þessum tegundum en að þeir séu almennt bensínhákar er vinsæl og eftirsótt lygasaga. Þeir eru í hópi öruggustu bíla sem seldir hafa verið hér sem annarsstaðar. Er þá víðtæks notagildis þeirra ógetið. Munurinn á mengunarstöðlum fyrir þennan flokk bíla og fólksbíla er ekki marktækur.
Jarðefnaeldsneytið er á útleið á methraða en hvorki af umhverfis- né efnahagsástæðum heldur af pólitískum ástæðum.
Allar tilraunir til þess að gera benzín að umhverfisvænum orkugjafa hafa mistekist. Hvarfakútar voru lögleiddir í Bandaríkjunum 1976. Tveimur árum síðar kom í ljós að mengunin sem þeir sköpuðu var verri en blýmengunin frá fyrri tíð. Þeir framleiða formaldehýð við hvörfun hinna mengandi efna. Það er baneitruð lofttegund, fyrir utan að önnur efni sem þeir framleiða umbreytast í ozone vegna áhrifa sólarljóss. Það er einnig eitruð lofttegund sem liggur yfir stórborgum í sumarhitum.
Af þeirri mengun sem bílar framleiddu um 1970 þegar US Clean Air Act var lögleidd eru aðeins um 2% eftir í útblæstinum. En það dugir skammt þar sem bílunum hefur fjölgað svo mikið að mengunin er að verða jafn mikil og áður. Hún er bara öðruvísi samsett.
Notkun benzíns til lengri tíma litið er tapað spil. Spurningin er bara til hvaða háskaaðgerða stjórnvöld grípa sem geta keyrt bílaiðnaðinn í Bandaríkjunum og víðar í endanlegt þrot. Þar í landi hafa um 25 milljónir manna lifibrauð sitt af þeim iðnaði, beint og óbeint.
Afskipti íslenskra stjórnvalda af bílamálum íslendinga hafa of lengi einkennst af pólitískum fánahillingum, markaðsvernd og hræsniskenndum yfirlýsingum um mengunarmál. Þau afskipti og sú afstaða að refsa bæri fólki fyrir að velja sér stærri bíla en neyslueftirlit ríkisins telur hæfilegt, hefur verið beinlínis mannfjandsamleg og andstæð hagsmunum þúsunda íslenskra barnafjölskyldna sem eru neyddar til þess að troða börnum sínum inn í bílskeljar til langferðalaga til þess að ráðamenn og besserwisserar geti hrósað sér af að vera "miljövenlig".
Ef yfirmenn á bráðadeildum íslensku spítalanna mættu tjá sig um þessi mál þá gætu þeir sagt hvað virkar. Sama á við um tjónadeildir íslensku tryggingafélaganna. Ef á að tala um peninga, þá þarf að skoða mannlega þáttinn. Hér hafa mannslíf verið sett skör lægra í pólitísku slagorðagjálfri með milljarða útgjöldum fyrir samfélagið í heild.
Ef einhver á að njóta vafans, þá er það maðurinn. Lækkum gjöldin á bílainnflutningnum, sérstaklega þeim bílum sem rúma hóp af börnum í öryggi.
Er einhver á móti því?
21.7.2011 | 13:17
Laugavegurinn - eina ferðina enn!
Fyrir borgarstjórnarkosningarnar 1974 var því lofað að Austurstræti skyldi lokað og gert að göngugötu. Varanlega. Sýndar voru teikningar í blöðum þar sem glaðvært fólk var á gangi innan um suðrænan runnagróður eða sat undir sólhlífum og drakk kaffi í huggulegheitum á fínum kaffihúsum. Þetta var skemmtileg og vinsæl hugmynd. En hún brást. Reykjavík er norðlægasta höfuðborg heims. Það vilja menn ekki horfast í augu við.
Nokrum árum síðar, svona um það leyti þegar verið var að leggja lokahönd á smíði fornminjanna í bakarabrekkunni, var talið ráðlegt að leyfa takmarkaða umferð um Austurstræti að nýju. Forverar núverandi aðgerðarsinna / stjórnleysingja sem nú stjórna borginni urðu að sjálfsögðu alveg vitlausir og í sínum marxíska anda töldu þeir opnunina sérlegt kapítalistaplott og mammonsþjónkun. Opnunin var gerð vegna þess að lokunin hafði gefist illa og verslunin var komin á vonarvöl.
Þegar litið er yfir sl. 30 ár má sjá hvernig þessi della sem stöðugt er í gangi með göturnar í gamla miðbæ Reykjavíkur rís í sífellu upp á afturlappirnar og grettir sig framan í borgarbúa. Nú er það Laugavegurinn eina ferðina enn. Áður var það Ingólfstorgið sem var leikvangur skipuleggjenda. Búið var til torg sem stíflar alla umferð um Austurstræti og Aðalstrætið að mestu. Ekki er auðvelt að sjá tilganginn með þessu og öðru viðlíka brölti sem hefur kostað skattgeiðendur í Reykjavík ótalda milljarða. Þeir peningar eru farnir fyrir fullt og allt.
Úr því minnst er á peninga, þá mætti minna mannskapinn sem situr við palisanderborðið í bragganum í tjörninni á að það eru peningarnir sem gera þeim kleyft að stunda sína vinnu og láta eins og bjánar. Stór hluti þess fjár kemur frá atvinnurekstri sem á að knésetja af tómri heimsku og skepnuskap á sama tíma og verið er að ræða hvernig megi blása nýju lífi í hina deyjandi miðborg. Með einhverju öðru en meira brennivíni.
Búið er að eyða milljörðum í að endurbyggja ónýt og ómerkileg hús. Það er gert á kostnað almennings án þess að nokkur krítísk umræða hafi farið fram um málefnið. Á sama tíma standa ábyrgðarlausir áhugamenn um framkvæmdir fyrir annarra manna fé og meina eigendum ónýtra kumbalda og húsarústa að nýta eignir sínar. Af þessu hlýst tjón upp á gífurlegar fjárhæðir og þessir handhafar valdsins hafa ekki áhyggjur af málarekstri hinna nauðbeygðu. Það kostar sitt líka og tekur mikinn tíma. Tími er peningar í þessu eins og öðru. Þess njóta þeir í yfirgangi sínum og brotum á grundvallarreglum réttaríkisins eins og 72. grein stjórnarskrárinnar. Allt gengur út á að sniðganga eignarrétt einstaklinga. Það er tíska.
Menning og listir, skólar og stofnanir eru hluti af byggðakjörnum sama hvar í heiminum er, en það eru fyrirtækin; bankarnir, verslanir og þjónusta sem leggja til það fé sem streymir í kassann hjá borginni, fé sem notað er með misvitrum hætti af fólki sem er að reyna að reisa sér pólitíska bautasteina. Það eru til fleiri aðferðir til að fegra umhverfið og mannlífið í miðborginni en að raða niður grænmáluðum járnstaurum þvers og kruss.
Hættið dellunni og drattist til að hreinsa borgarlandið. Ástand þess er til skammar og það sér hálf milljón ferðamanna sem hafa greitt stórfé fyrir að heimsækja landið. Þeir borga sitt og vel það og eiga líka heimtingu á að hlutirnir séu í lagi.
Greið umferð og óheftur aðgangur að verslun og þjónustu er undirstaða velgengni. Allra.
9.7.2011 | 09:48
Kveðja til Íslendinga
Þessi maður er rödd hrópandans í eyðimörkinni. Hann stendur einn að þeirri gagnrýni sem allir aðrir eru að hugsa, en þora ekki að segja.
Á góðum degi nýlega beindi hann orðum sínum til íslendinga. Þeirra sem nenna að hlusta. Stutt stund og það getur breytt tilveru margra.
http://www.youtube.com/watch?v=QAeA4wdD_7o&feature=related
Meira á Mbl.síðar.
29.6.2011 | 00:27
Bjánaskapur eða bíræfni?
Óháð öllum þeim skoðunum sem nú eru uppi um hugsanlega aðild Íslands að ESB -hljóta tímasetningin og allt tilstandið í kring um aðildarviðræðurnar að virka hálf einkennilegar.... jafnvel hringlandi vitlausar.
Forystumenn Íslands á alþjóðavettvangi haga sér eins og þeir hafi dottið niður úr skýjunum í gær. Eða jafnvel bara í morgun. Vita þeir ekki að öll suður Evrópa er á kúpunni og vita þeir ekki að hún heldur að Þýskaland ætli að borga reikningana fyrir sig? Vita þeir ekki heldur að Þýskaland mun ekki greiða fyrir aumingjaskapinn í stjórnmálamönnum nágranna sinna? Ef Frau Merkel er jafnvel að velta því fyrir sér að bjóða landsmönnum sínum að greiða fyrir alla spillinguna, ístöðuleysið og kjarkleysið í öðrum evrópskum stjórnmálamönnum, þá ætti hún að fara að skoða ferilsskrána sína og jafnvel senda hana á eins og eina eða tvær vinnumiðlanir. Það væri ráð í tíma tekið að gera það strax vegna þess að milljónir þjóðverja ganga um götur landsins atvinnulausir. Það gæti tekið hana smá tíma að fá vinnu.
Frakkland er enn verr statt og mun ekki komast hjá því að laga til í sínu ranni. Þeir sem efast um þá fullyrðingu ættu að kynna sér frönsk velferðarmál og vinnulöggjöf.
Já og á meðan ég man .... Evrópa er í stríði við geðveikan böðul á norðurströnd Afríku. Hann sefur í tjaldi. Það mál er nokkru lævi blandið. Evrópa er uppiskroppa með tjöru og fiður. Hvað á að gera? Þeir ætla að semja frið við hann og gefa honum hálft ríkið strax. Restina síðar. Ef hann er stilltur.
Jú, lausnin er í augsýn. Ísland, þetta Casino Du Nord ætlar að skerast í leikinn. OG svona af því að þjóðin er nýbúin að þerra tárin eftir 200 ára afmælisdægur síns mætasta sonar ...... hvað ætli honum hefði fundist um að deila fullveldi Íslands með þjóðum sem kúguðu og rændu hálfan heiminn á þeim tíma sem hann vildi senda dönsku krúnunni reikning vegna þess sem hún hafði tekið hér ófrjálsri hendi?
Þetta með fullveldið er svo agaleg samlíking að maður verður eiginlega að biðja formælendur að taka sér eitthvað minna ógleðisvaldandi í munn.
Getur ekki einhver sagt þeim að nýtt afl hefur tekið völdin í Evrópu eins og annarsstaðar. Það er afl efnahagsböðlanna. Þessara manna sem éta krít og ganga stimamjúkir um sali alþjóðlegra lýðræðisstofnana. Í töskum sínum varðveita þeir fullveldi hálfs heimsins. Og enginn veit hverjir þeir eru.
Kannski Aþena og Sparta sameinist að þessu sinni og veiti þessum sameignlega óvíni verðuga ráðningu. Aðrir sýnast þess ekki megnugir eins og komið er.
21.6.2011 | 10:03
Hvað eru verðmæti? Peningar?
Hagfræðin er ein af undirstöðugreinum félagsvísinda og aðal viðfangsefni hennar er maðurinn og auðlindir jarðar. Skipting gæðanna og leit að hagkvæmni sem tryggir hámarks afköst og afrakstur. Ekki gengur það nú skv. forskriftinni í öllum tilvikum og þá dynja skammirnar á þeim sem spá og spekulera og gefa góð ráð í nafni þessa fræðikerfis sem hinir fornu grikkir nefndu Oikos Nomos. Hússtjórnarfræði á góðri íslensku. Hagfræði er seinni tíma hugtak og miklu fínna orð að margra dómi. Kannski vegna þess að það er óljósara.
Gjaldmiðlar heimsins eru flestir ónýtir eftir fallið mikla sem kom til mest vegna óheftrar spákaupmennsku og yfirspenntra arðsemishugmynda um allt milli himins og jarðar. Íslenska krónan er aðeins lítið brot af þessari stórkostlegu sögu sem nú er skrifuð í mörgum megabitum á degi hverjum. Stjórnlaust.
Stærstu seðlabankar heimsins standa nú undir nafni fremur en áður. Þeir hafa aldrei verið eins duglegir við að prenta peningaseðla eins og nú og verðgildi þeirra peninga fellur jafn hratt og þeir renna út af færibandinu eða í rafrænum útgáfum. Allir eru að búa til peninga. Framleiðsla og efnisleg gæði sem birtingarmynd í peningum er fallin og ekkert nema tóm komið í staðinn. Þýskaland anno 1923 kemur óþægilega oft upp í hugann af þessu tilefni. Nú eru það Bandaríkin sem eru að keyra allar sínar lestir út af sporinu. Heimurinn fylgir þeim fjálglega, enda álíta menn dollarann traustan sem fyrr.
Einu verðmætin sem útgefendur þessa pappírs sjá eru vextirnir sem lánaþrælarnir borga. Vextirnir eru virðisaukinn og um leið arðurinn af vinnu þeirra sem mynda sjálft hagkerfið. Þess vegna ber að gjalda varhug við yfirlýsingum íslenska seðlabankans um að hann eigi svo og svo mikla peninga í varasjóðum. Hann á ekki krónu .... eða cent.
Umræðan um gjaldmiðil íslendinga í bráð og lengd hlýtur á endanum að mótast af kröfum um stöðugleika og raungildi. Íslenska krónan hefur fallið um 2.200% síðan hún var tekin upp. Hún hefur samt sína kosti eins og flestum mun nú ljóst orðið og hún er í reynd hluti þess kerfis sem myndar sjálft fullveldið, burtséð frá hversu vel eða illa tekist hefur að hafa stjórn á málum.
Viðfangsefni hagfræðinnar er aðallega ótakmarkaðar kröfur mannsins og takmarkaðar auðlindir. Mönnum hættir til að trúa um of á skyndilausnir, patent lausnir og trúboð á þessu fræðasviði. Staðreyndin er sú að tilteknar ráðstafanir duga við tilteknar aðstæður í takmarkaðan tíma. Menn þurfa að læra á takmörkin og það að allt er í heiminum hverfult, sérstaklega allt sem snýr að mannlegu atferli. Það er hið mest óútreiknanlega fyrirbæri í heiminum eins og Isaac Newton komst að hér um árið. Hann tapaði aleigunni í skuldabréfabraski.
Maður nokkur labbaði sér inn í svissneskan banka með tvær milljónir franka sem hann hafði fengið fyrir landspildu. Hann spurði bankastjórann hvað hann ætti að gera við peningana. Svar bankastjórans var: Kauptu þér landspildu
Hagfræðin getur í besta falli verið áhald til þess að hjálpa okkur að skilja flókin viðfangsefni ef menn hafa vit á að spyrja réttu spurninganna. En það virðist vera vandamál líka!
3.6.2011 | 20:55
Veðbókarvottorð fyrir þorsk.
Þá er Hrunadansinn í kring um útgerðina og fiskveiðarnar kominn á fullt eina ferðina enn. Ritari hefur ekki treyst sér til að taka mikinn þátt í þeirri umræðu vegna þess hversu flókin, frasakennd og torskilin hún er orðin. Er hann einn um það?
Reyndur stýrimaður sagði við ritara fyrir nokkrum árum að hyggnir skipstjórar hætti að toga þegar afraksturinn væri kominn undir 800 kíló á togtímann. Nema þeir gætu haldið áfram á yfirdrætti sem almenningur borgaði. Það var gamla kerfið og bæjarútgerðirnar. Sakna menn þess?
Það var að sögn þarna sem nýja stjórnkerfið kom til skjalanna. Megnið af útgerðinni var rekin með bullandi tapi, sérstaklega landvinnslan. Allt lagaðist þetta með meiri stjórn á veiðum og útgerð og meiri ábyrgð í rekstri sem leiddi af þeim arðsemiskröfum sem spretta af ótakmarkaðri ábyrgð manna á gerðum sínum. Það er höfuðeinkenni einkareksturs.
Útgerðin er verulega skuldsett, reyndar meira en eðlilegt getur talist. En arðsemin hefur verið í lagi og ávöxtun eigin fjár hjá mörgum all góð.
Út af hverju er þá allur hávaðinn? Þjóðareign á auðlindum er arfavitlaust og óútskýranlegt fyrirbæri. Stendur virkilega til að endurreisa útgerðarfyrirtæki í almannaeigu; bæjarútgerðirnar? Ætlar ríkið að setja fulltrúa eigendanna um borð í hvert skip? Og í stjórn útgerðarfyrirtækjanna? Liggur það ekki nokkuð ljóst fyrir að það verði að fylgja þjóðareigninni?
Er almenningur tilbúinn til að taka á sig boðaföllin af veðsetningum einkaaðila upp á nokkur hundruð milljarða vegna aðilaskipta á veðbókarvottorðinu fyrir þorskinn? Við erum að tala um þjóðnýtingu útgerðarinnar skv. orðfæri forystumanna íslenskra sósíalista. Með aðilaskiptum að eign færist arðurinn af fyrri eiganda á hinn nýja og skattar og skyldur einnig. Enginn misskilningur með það.
Á endanum snýr aðeins eitt hagsmunamál að almenningi í landinu: Peningar. Á meðan þessi atvinnugrein skilar arði í sameiginlega sjóði landsmanna er allt eins og það á að vera. Sér ekki Seðlabankinn um það að allur gjaldeyririnn skili sér í koffortin í Svörtuloftum?
Frægt er af meðförum þingsins málið um Bátaábyrgðina frá 1942. Ingólfur Jónsson alþingismaður og síðar farsæll ráðherra segir í riti að Pétur Magnússon hrl varaformaður Sjálfstæðisflokksins hafi kallað marga af þingmönnum flokksins til viðræðna um þetta mál þegar það var til umræðu í þinginu. Hann sagði að ef frumvarpið um bátaábyrgðina yrði að lögum, þá yrði eftir það engin útgerð á Íslandi - nema á ríkissjóð.
Hið eina sem ástæða er til að breyta eins og með allar kvótasettar atvinnugreinar er að tryggja betur aðgang nýrra aðila og möguleika þeirra til að hasla sér völl í greininni.
Allt tal um eignarhald á auðlindum eins og það er nú ástundað er hreint og klárt blaður. Þeir sem hæst hafa verða allir komnir á eftirlaun þegar reikningarnir fyrir barattu þeirra taka að berast almenningi.
Um bloggið
Guðmundur Kjartansson
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (2.2.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar