30.11.2011 | 11:26
Íslandsstjórinn og Madam Mao
Tugmilljónir fátækra rússa og fólk af fjölda annarra þjóðarbrota lét lífið við innleiðingu sósíalísks (lesist: félagslegs) réttlætis í Sovétríkjunum sálugu. Á Íslandi var og er til aðdáendaklúbbur þessarar helfararstefnu. Hann hefur gengið undir fjölda nafna sl. 60-70 árin.
Sóðaskapurinn hefur flotið upp af alveg sérstaklega abstrakt tilefni. Sendipeð og innanbúðarmaður kínverska kómmúnistaflokksins vildi fá keypt land á Íslandi þar sem hann kvaðst ætla að dúlla við veski vestrænna kapítalista. Skoðanabræður hans og pólitískir samherjar sem nú stjórna Íslandi fengu þetta steinbarn í fangið og sögðu: Spasiba, NJET.
Þegar Nei-ið hafði bergmálað um heimsbyggðina og menn voru farnir að hugsa um að varpa öndinni léttar ..... þá kom þetta goðsagnakennda samt sem áður frá landstjóranum. Hann hélt áfram að tala og kjaftaði af sér eins og þeirra er von og vísa. Þegar áhangendur miðstýringar, sósíalisma, flokksstýringar, opinberrar forsjár- og forræðishyggju opna munninn og hefja lesturinn .... ja, þá er eins gott að vera vel byrgur af snakki, eins og þeir, og búa sig undir langt og heitt sumar.
Orðaflaumurinn sem streymir upp úr Íslandsstjóranum þegar hann nær að króa af hljóðnema er slíkur að slökkva verður á Búrfellsvirkjun til þess að stöðva hann. Við erum að tala um heilt Skeiðarárhlaup af sósíalistaþvættingi sem upp vellur. Já, og hvað sagði hann annars? Óskiljanlegt! Fyrst var sagt að kínverska Trójuhestinum yrði meinað landtöku í goðorði allherjargoðans í fjármálaráðuneytinu. Þar var vísað í landslög. Svo brast flaumurinn á: Ekki yrði þolað að einkaaðilar (jú, hann var kommissar í systurflokki VG í Kína) færu að kaupa upp heilagt íslenskt land.
Þá spratt upp hin Íslenska Madam Mao og tilkynnti að öll einstaklingsbundin réttindi, hverju nafni sem nefndust, skyldu afnumin og krækiber, heitt og kalt vatn, laxinn í gljúfrinu, sandur og möl skyldu lögð undir hið félagslega réttlæti sem nú ríkti á Íslandi. Látum lýsingunni hér lokið þið eruð öll læs og upplýst og þurfið enga aðstoð við að setja saman dæmisögur um þessa tröllslegu heimsku og ofstæki.
Það sem bíður eru drög að frumvarpi til breytinga á Jarða- og Ábúðarlögum þar sem öll eignarréttarviðmið skulu færð aftur til einokunarstaðals eins og hann var kynntur íslendingum af dönsku krúnunni 1602. Búið er að vera að sullast með þessi drög að svartnætti sl. 2 ár og félagi Bjarnason ætlar að hlýða kalli hinnar íslensku Madam Maó og þjóðnýta það sem ekki féll til sósíalistaríkisins með Þjóflendulögunum. Svona áður en hann er útlægur ger úr landstjórninni, væntanlega fyrir brot gegn hinum pólitíska réttrúnaði sem eru hin nýju trúarbrögð á landinu bláa.
Studdur söngflokki Stjórnlagaráðsins ætlar þessi réttláti söfnuður að afhenda réttmætum eigendum landið og ævistarf fólks semi framleiðir 125 þúsund tonn af mjólkurvörum á ári ásamt c.a. 10.000 tonnum af lambakjöti og nokkur þúsund tonn af eggjum; hænsna- og svínakjöti og öðrum matvælum af því að viðkomandi eigendur mega ekki eiga vatn -heitt eða kalt, lax, möl eða eitthvað annað sem krossfarar félagslegs réttlætis hyggjast sölsa undir ofstæki sitt eftir pólitískum hentugleikum.
Forystumenn bændasamtakanna og margra annarra hagsmunasamtaka í íslenskum landbúnaði virðast þessari eyðingarstefnu sammála. Það er vegna þess að þeir vilja aftur komast í aðstöðu til þess að ákveða hverjum á að afhenda eignir nágranna fyrir hrakvirði.
Nágrannarnir geta þá kannski fengið sig metna til einhverskonar félagslegrar örorku sem er hið tilvísaða úrræði hennar hátignar Madam Maó og skoðanasystkina hennar í íslenskum kommúnistasellum. Þau njóta gallanna á eina nothæfa stjórnarfyrirkomulagi samtímans; lýðræðinu.
17.11.2011 | 08:57
Fjármagn eða frelsi?
Það er sérkennilegt að skoða umhverfið sem er að skapast á pólitíska sviðinu nú þar sem dregur til úrslitastundarinnar með fjármál hins frjálsa heims. Spurningin kann á lokasprettinum að snúast um það hvort menn vilja frelsi sitt eða peninga. Enn sem komið er hafa peningarnir vinninginn. Það sést af því að verið er að koma á sérfræðingastjórnum án pólitískrar undirvinnu í einu Evrópuríkinu af öðru. Skuldakreppan er óviðráðanleg og fjármagnseigendur kæra sig kollótta um afleiðingarnar af gerðum sínum. Hvað er hálf heimsálfa milli vina? Syndafallið kemur að þeirra áliti eftir þeirra daga.
Fyrirkomulag bankamála er lang erfiðast viðureignar allra þeirra viðfangsefna sem við blasa. Ástæða þess er sú að það eru stórbankarnir og stórfjárfestar sem í raun stjórna heiminum í dag. Almenningur virðist ótrúlega grunlaus um þessa stöðu og afleiðingin er pólitískur glundroði. Fulltrúar almennings í stjórnum landa eru þess vanmegnugir að fást við vandann, m.a. vegna algerrar vanþekkingar á hinu geysi flókna fjármála og viðskiptakerfi sem við lýði er. Stóru fjárfestingabankarnir eru sálarlaus skrímsli sem hrein nauðung liggur við að komið verði böndum á. Frjálsum þjóðum stafar meiri hætta af þeim stofnunum en marserandi herjum, gráum fyrir járnum. Íslendingar eru nú fastir í klóm nokkurra þeirra í gegn um eignarhald þeirra á tveimur af stærstu fjármálafyrirtækjum landsins. ÞAÐ er Landsdómsmál.
Almenningur, óafvitandi um hversu alvarlegt þetta mál er, kennir fulltrúum sínum á þjóðþingum, í ríkisstjórnum og sveitarstjórnum um það hvernig komið er og heimtar breytingar. En enginn veit í hverju þessar breytingar eiga að felast. Endalaust er komið á eftirlitsstofnunum sem eiga að tryggja almennan aðgang að upplýsingum um stjórnkerfin og hamast er á stjórnmálamönnum að skila árangri.
Hreint anarkí, stjórnleysi blasir við í fjölda ríkja, m.a. á Íslandi þar sem 10-15% aðspurðra kveðjast ánægðir með störf löggjafans, svo dæmi sé tekið. Það sem þessi fáviska og óþolinmæði mun leiða yfir grunlausar þjóðir er ný útgáfa af einræði og ríkisfasisma. Einkennin eru öll fyrir hendi t.d. í umhverfismálum og orkumálum og fyrirliggjandi hugmyndum um afnám einstaklingsbundins réttar á fjölda sviða í nafni jöfnuðar, réttlætis og umhverfisverndar. Nóg framboð er af stjórnlyndum, grunnlesnum kandídötum sem eru að skríða út úr háskólum og öðrum menntastofnunum sem telja sig hafa fundið alveg nýja slóð á vit réttlætis og samfélagslegrar hamingju. Stærstu mistökin sem gerð hafa verið og orsök margs þess sem miður hefur farið er hin skrumkennda hreyfing á löggjafarþingum, sem byggist á sértækri lagasetningu um allt milli himins og jarðar eftir sérpöntun sérhagsmuna. Allt í samræmi við keypt áhrif þeirra sem fjárfesta í stjórnmálaflokkum.
Gallinn við framtíðina er sá m.a. að hún hefur óþægilega tilhneigingu til að verða eins og fortíðin, sérstaklega þar sem enginn nennir að lesa neitt um söguna lengur.
14.11.2011 | 21:16
Bankarnir taka við föllnum ríkjum, eins og fallítt fyrirtækjum
Þá eru bankastjórarnir stignir út af viðarklæddum skrifstofum sínum í mörgum borgum Evrópu og teknir við stjórnartaumum gjaldþrota ríkja, svona eins og þegar Landsbankinn tók við Húsasmiðjunni. Enginn þekkti þá áður ... þeir voru eins og Van Rompoy sem enginn kannaðist við fyrr en allt í einu að hann var orðinn Evrópukeisari, einn af völdum hópi andlitslausra möppudýra sem nú eru að taka við.
Af hverju eiga þeir að taka við, menn eins og Monti eða Pappademos og hvað þeir heita nú allir þessir heiðursmenn sem Evrópusambandið tilnefnir til þess að taka við stjórnartaumum áður lýðfrjálsra ríkja? Þeir taka við af því að menntað einveldi, sérfræðingaræði er það sem koma skal. Enginn hefur málfrelsi um opinber mál nema vera með gæðastimpil frá einhverri viðurkenndri stofnun sem framleiðir tannhjól í hið mikla sigurverk hinnar nýju stjórnsýslu.
Bankaræðið á Ítalíu leysir af hólmi vídeóræðið, sem svallarinn Berlusconi hált þjóðinni við á meðan hann spilaði rassinn úr buxunum á flestum sviðum. Aðrir munu verða eftir þessu.
Þetta eru stórsögulegir tímar sem við lifum, m.a. vegna þess að einræðið sem fjármálaveldið er að koma á fót er komið til að vera. Kosningum er frestað út í veður og vind, af því að það er svo mikið að gera, svona eins og þegar Castro frestaði jólunum hérna um árið.
Og hvað halda menn að gerist? Dettur einhverjum í hug að Ítalía nái sér á strik á nokkrum dögum? Halda menn að ástandið muni lagast við innleiðingu menntaðs einveldis? Svarið við því er að ekki eru allir einvaldar Friðrik II af Prússlandi.
Sagan segir að flestir einvaldar séu skrímsli af mismunandi stærðum og gerðum. Við eigum nokkra kandídata á Íslandi, ráðherra og þingmenn sem fara ekki að lögum, þ.m.t. dómum Hæstaréttar af þvi þeir eru svo uppteknir við að bjarga og geta ekki verið að eltast við formsatriði eins og sett lög og reglur. Það tefur fyrir.
Sósíalistar, eins og George Papandreo eru búnir að eyðileggja þjóðríkin, hagkerfi þeirra og það sem er lang alvarlegast: Sjálf stjórnkerfin. Hvernig vitum við það? Jú, það sést af því að almenningur er hættur að teysta kerfinu og fyrirlítur þá sem hafa látið kjósa sig yfir það með ómældu skrumi og loforðum um brauð og leiki, endalausa ríkisfjorsjá án þess að segja hver borgar og hvenær.
Allt snýst um traust. Traustið er farið út í veður og vind bæði í stjórnmálum og fjármálum heimsins. Viðbrögð nokkurra stjórnmálamanna á vesturlöndum felast í því að leita að hentugum stað til að efna til stríðsátaka.
Það er hægt. Kinverjar borga.
11.11.2011 | 09:03
Vegvísar í villtum heimi
Þegar heimurinn nær sér á strik eftir eyðilegginguna sem við höfum nú velt upp sl. tvö og hálft árið, kemur að því að taka verður ákvarðanir um framtíðarskipan fjölda mála. Valdabarátta stórveldanna heldur áfram og blöðrurnar sem blásnar verða upp munu halda áfram að springa hér eftir sem hingað til.
Eitt hið fyrsta og þýðingarmesta sem taka verður á eru alþjóðafjármál, fyrirkomulag gjaldmiðla, verðlagning þeirra og fjöldi. Nú liggur fyrir að sú alhæfing um fjölda ólíkra hagkerfa, sem felst í einum gjaldmiðli eins og Evrunni, gengur ekki. Grikkland er á útleið og fjöldi annarra gjaldþrota ríkja mun fylgja. Frelsi þessara ríkja og sjálfsákvörðunarréttur nær lika til þess að fá að halda áfram að sukka og stjórna með lausung. Það er frelsið og sjálfsákvörðunarrétturinn. Pólitísk sameining Evrópu eru risavaxin mistök, þau stærstu sem gerð hafa verið í alþjóðamálum sl. 200 árin ef undan er skilinn sofandaháttur vesturveldanna á uppgangstíma nasismans og fasismans.
Vesturveldin komu sér saman um skipulag gjaldmiðilsmála og alþjóðlegra viðskipta eftir seinna stríðið. Það samkomulag var kennt við Bretton Woods, borgina í New Hampshire þar sem leiðtogar landanna komu saman. Það samkomulag ásamt hinni leiftursnöggu viðreisn Vestur Þýskalands var vegvísirinn í villtum heimi á þeim tíma, 1947. Aðgerðirnar sem hinn snjalli fjármálaráðherra Vestur Þýskalands, Dr. Ludwig Erhard stóð fyrir komu hagkerfi landsins á hjólin svo að segja á einni nóttu. Erhard hafði líka kjark til þess að gera ráðstafanir sínar snöggt og án þess að eyða mörgum mánuðum í þras við hernámsliðið. Í stuttu máli lét Erhard fletja út skattkerfið og allar skattprósentur og gaf öll viðskipti frjáls. Skipt var um gjaldmiðil um leið og verðlagseftirlit og framleiðslustjórnun var afnumin. Kannski íslenskir stjórnmálamenn ættu að kynna sér þessa sögu. Þessum tíma hagvaxtar og glæstra sigra lauk 1971 þegar fljótandi gengi stærstu gjaldmiðlanna var tekið upp. Afnám okurlaganna í Bandaríkjunum 1980, þar sem sagt að að vaxtakrafa hærri 10% í venjulegum viðskiptum væri glæpur, tryggði það ástand okurs og svika sem nú hefur keyrt hagkerfi heimsins í þrot.
Fyrirkomulag alþjóðaviðskipta er stórmál sem hefur auðvitað stórskaðast af bramboltinu sem nú er í gangi. En ljóst er að miklar breytingar eru framundan á þeim vettvangi. Óvíst er um hvernig það landslag mun líta út, en víst er að það mun að miklu leyti mótast af viðureigninni við stærsta og fjölmennasta einræðisríki veraldarsögunnar. Fjöldi vestrænna ríkja gengur í dag bónarveg til Kína í þeim erindum að sníkja fé svo hægt verði að reka áfram gjaldþrota velferðarríki og fjármagna hallarekstur. Eru þau ríki tilbúin að greiða það verð sem upp verður sett? Gera menn sér grein fyrir því sem bíður kínverska hagkerfisins grípi menn ekki í taumana þar í landi án tafar? Halda menn að það geti gengið áfallalaust að halda uppi fölsku gengi árum og áratugum saman í algerum blóra við restina af heiminum? Gæti það verið að þessir 3.000 milljarðar dollara sem þeir hafa sankað að sér gætu orðið verðlausir á einni nóttu? Kínverjar eiga eftir að kynnast því sama og evrópumenn og aðrir á undan þeim sem er hvað hugtakið raungjaldmiðill þýðir í reynd.
29.10.2011 | 08:41
"Björgun" Evrunnar tryggð og skýrð - 10. skipti
Fundafarsinn á meginlandi Evrópu er að verða vandræðalegur. Forystumenn Evruríkjanna hafa hist einu sinni í viku með slökkvitæki í hönd þar sem reynt hefur verið að koma málum sameiginlegs gjaldmiðils þeirra í höfn með einhverjum hætti. Þeir eru að slökkva elda eftir smásprengingar. Enn sem komið er. Fundafarsinn er að verða að vikulegum framhaldsþætti á helstu fréttarásum álfunnar.
En á síðasta fundinum kom fram að þessir forystumenn Evrusvæðisins hefðu komist að samkomulagi um að láta nýja lánardrottna leggja fram fé í björgunarsjóðina. Reikningurinn þessa viku er samtals eitt þúsund milljarðar Evra.
Ekki er vitað hvaðan þessir peningar eiga að koma, en þarna er um rúmlega helmings stækkun björgunarsjóðsins að ræða, úr 440 milljörðum Evra.
En það er ekki nóg með að peningarnir sem Þarna var lofað séu hvergi handbærir, heldur er þessi fjárhæð aðeins þriðjungur þess sem þarf til þess að innleysa ógjaldfærar kröfur á önnur ríki sem samtals skulda tífalda fjárhæð þess sem grikkir eru að basla með.
Martin Wolf hélt því fram í sjónvarpsviðtali á RÚV að þessar skuldir séu til komnar vegna aðgerða einkageirans. Það er ekki alllskostar rétt og það skiptir heldur engu máli. Pólitíkusar hafa vermt klappstýrubekkina á þessum leikum og bera sína ábyrgð. Hún birtist í því að þeir hverfa nú einn af öðrum á vit gullinna eftirlauna. Syndafallið kemur eftir þeirra daga. Þýskalandskanzlari segir að friðurinn í Evrópu kunni að vera úti ef ekki takist að bjarga Evrunni. Það er heldur nöturleg og lágkúruleg yfirlýsing.
Breska blaðið The Guardian er með stutta teiknimynd á síðunni í dag þar sem fjáröflunin er skýrð í þaula, en sá sem leggur til textann er Tom Meltzer:
http://www.xtranormal.com/watch/12611732/the-european-bailout-explained
http://www.guardian.co.uk/business/blog/2011/oct/28/euro-debt-crisis-animated-explanation
27.10.2011 | 01:21
Stórsvigrúm, pólitík og bankastarfsemi
Hasarinn í kring um íslensku bankana ætlar engan endi að taka. Vonandi gerist það ekki fyrr en þeir hósta upp hluta af októberfengnum og deila með fátækum lýðnum. En það ku skorta þessa nýju tegund af rúmum sem allir vilja en enginn fær: Svigrúm.
En svona af því að nú eru allir að tala um íslensku bankana er rétt að benda á eitt atriði sem ekki kemst að í öllum látunum: Hvort eru þeir viðskiptabankar eða fjárfestingabankar? Hvað EIGA þeir að vera, sé litið til hagsmuna þeirra sem leggja þeim til féð? Hver leggur þeim til féð sem þeir eru að lána, m.a. í fallítt fyrirtæki sem þeir eiga sjálfir? Samkeppniseftirlitið hefur lúmskan grun um að bankarnir eigi mun fleiri fyrirtæki en þeir hafa sagt frá. Vér erum svo aldeilis hlessa!
Í afreglunarreiðinni sem hófst í Bandaríkjunum upp úr 1980 var skilunum milli þessara tveggja tegunda banka nánast eytt. Á Íslandi hurfu öll mörk með og eftir einkavæðingu bankanna upp úr 2000. Þegar blaðran sprakk lenti slitran í fangi almennings og þá var ríki frændinn svo góðgjarn og rausnarlegur að tryggja allar innstæður í bönkunum. Svo kom verðtryggingin og þá vitum við til hvers björgunin var gerð. Maturinn á eyðieyjunni var sýndarfæða. Elsku fáið ykkur, það er nóg til frammi, sagði landshöfðingjafrúin.
En hver er annars munurinn á þessum stofnunum? Hvað eiga stjórnendur áhættusækinna fjárfestingabanka með það að geta seilst í fjárhirslur viðskiptabankanna og lánað út sparifé í allskyns verkefni sem geta reynst áhættusamari en nokkur vill viðurkenna? Og það sem verra er, eigendur fjár á almennum sparifjárreikningum vita oftast ekkert hvað er verið að kokka með sjóði þeirra. Íslendingar hafa nú nokkrum sinnum fengið yfir sig úr eins og einni skolpfötu eftir áhættusæknina og velferðarbras bankanna sem geyma sjóði þeirra. Landsbanki Íslands, sem flestir hafa litið á sem viðskiptabanka var í raun gjaldþrota haustið 1985 eftir refa- og laxaveisluna miklu þar sem nánast öllu eigin fé bankans var sólundað í atvinnurekstur og ævintýri sem döguðu uppi í gjaldþrotum víða um land.
Útvegsbanki Íslands var lagður inn í hinn nýja banka sem í dag heitir Íslandsbanki, eftir nokkra kollhnísa, nafna- og kennitöluskipti, eftir að hann var tæmdur í lánastarfsemi til útgerðarfyrirtækja.
Verslunarbankinn var settur á hausinn eftir að nánast allt eigið fé bankans var lánað til að stofna sjónvarpsstöð. Verslunarbankinn var menningarbanki. Viðskiptavinirnir vissu bara ekki af þvi.
Ríkið axlaði ábyrgðina á þessum óförum og milljarðar af skattfé, blóðpeningum sem teknir eru af vinnandi fólki að viðlagðri aðför að lögum, voru settir í baukana hjá þessum gömlu og nýjum bönkum svo þeir gætu haldið áfram að varðveita sparifé viðskiptavina sinna.
Viðskiptabankar þurfa að ávaxta það fé sem þeim er trúað fyrir. Þeirra viðfangsefni eru skv. þeim skilgreiningum sem finnast í viðteknum heimildum, minni í sniðum og áhættu en það sem fjárfestingabankar fást almennt við. Þeir fást við almenna greiðslumiðlun, innanlands og utan, innheimtuþjónustu, greiðsluþjónustu osfrv. Þeir geta dreift áhættu sinni með minni og fleiri lánasamningum, t.d. til húsnæðiskaupa, bílakaupa eða almennra neytendalána. Viðfangsefnin eru auðvitað miklu fleiri, en þessi dæmi ættu að gefa dálitla hugmynd um hvert viðfangssvið viðskiptabankanna eru talin eiga að vera. Stærri viðskiptabankar eru þekktir fyrir að fjárfesta í arðvænlegum atvinnurekstri og nota til þess eignarhaldsfélög eða aðrar leiðir sem tengja þá ekki beint við sýnilega áhættu.
Viðfangsefni fjárfestingabankanna ná yfir svið atvinnulífsins skv. skilgreiningunni og undir það fellur t.d. skuldabréfaútboð, sala á skuldaviðurkenningum og allskyns rekstrarfjáröflun, stærri verkefni þar sem sótt er beint inn á fyrirtækjamarkaði og til stærri fjáreigenda sem þurfa snögga ávöxtun. Þeirra starfsemi er eðli sínu samkvæmt áhættusöm og á þess vegna ekki heima með venjubundinni viðskiptabankastarfsemi, sparisjóðarekstri eða öðru slíku.
Fræðileg úttekt og greining á eðli og umfangi bankarekstrar er efni í sérstaka grein -margar greinar, en bankastarfsemi greinist í miklu fleiri svið en þessi tvö sem hér eru nefnd. Nauðsyn er á að taka fræðilega umræðu um hver á að gera hvað í þeirri framtíð sem nú blasir við þar sem búið er að eyðileggja flesta gjaldmiðla, rústa viðteknu verðmætamati, verðskyni og því sem verst er alþjóðleg fjármálaviðskipti eru rúin öllu trausti.
Stjórnmálamenn, burtséð frá góðum vilja og öllu því geta ekki leyst þann vanda sem þeir eru að fást við. Afleiðingin er miklu alvarlegri veruleiki en bankakreppan, en það er hrun sjálfs stjórnmálaferlisins. Það sem bíður er einhverskonar blanda af sósíalisma og einræði. Frekar en orðið er. Nútíma stjórnmálamenning er algerlega ófær um að eyða einum eyri af sínu pólitíska kapítali í að takast á við veruleikann og lýsa því sem við blasir.
Sá veruleiki er að skera þarf niður umsvif ríkisins í flestum vestrænum ríkjum um c.a. 30%. Vestrænir sósíalistar og félagshyggjumiðstöðvarnar í háskólunum fá flog við tilhugsunina. Öll þeirra pólitíska tilvist hefur byggst á loforðum um eyðslu fjár í almannaþágu og þeir hafa komist upp með það áratugum saman án þess að segja frá því hver borgar.
Þeirra bíður kannski það sem forsetafrúin sagði af öðru tilefni sem er að þeir munu verða að hætta að læra og fara að vinna.
3.10.2011 | 22:38
Gamlir frasar
Það er næstum notalegt að fá að hlusta á alla gömlu frasana um ástandið í landinu í umræðum á alþingi í kvöld, 3. október þar sem tekin var til skoðunar stefnuræða forsætisráðherra.
Margir þingmenn stóðu sig vel þrátt fyrir hávaðann úti fyrir og nokkra spennu .... sem þó virðist vera að fjara út. Mál er til komið.
Upp úr stendur sú staðreynd sem margir gerðu að umræðuefni, að heimilin í landinu hafa verið sett í kælinn á meðan bankarnir og ríkissjóður sleikja sín sár. Almenningur á að bera allt þetta uppi og fara svo út og hefja einkaneysluna svo veltuskattarnir fari að skila sér í kassann, af einhverju fleiru en etanóli og methanóli sem er svo þægilegt að skattleggja á sölustað.
En nú er kominn tími til að snúa sér að þeirri vinnu sem fram undan er og þingið þarf að fá frið til að koma góðum málum áfram. Síðasti séns.
Hæst ber krafan um fréttina sem allir bíða eftir - að ákveðið hafi verið að hjálpa heimilunum með afskriftum á veðskuldum í sama hlutfalli og valdir viðskiptavinir fjármálastofnana hafa verið að fá.
Forsætisráðherra talaði um 200 milljarða. Það er ekki nóg. Talan er nær 350 milljörðum.
Stjórnarskrárdrögin, Bessastaðablúsinn og önnur viðlíka mál verða að bíða. Verðtryggingin er að verða heitasta málið og menn tala um gjaldmiðilinn af fullkomnu ábyrgðarleysi.
Alger nauðsyn er að færustu hagfræðingar landsins útskýri fyrir okkur hverjar afleiðingar einhliða afnáms verðtryggingarinnar verða. Þær gætu orðið verri til lengri tíma litið en menn gera sér grein fyrir. Eitthvað verður að koma í staðinn. Það hafa menn haft meira en 30 ár til að skoða án þess að komast að ásættanlegri niðurstöðu.
Við verðum að horfast í augu við þá staðreynd að Ísland er örríki með örmynt í ólgusjó alþjóðamála sem sýnast ætla að verða flókin og hættuleg í framtíð sem í fortíð.
Hvað sem öllu því líður, þá er það staðreynd að án krónunnar værum við í nákvæmlega í sömu stöðu og írar og grikkir. Algerlega á hausnum og með enga von um björgun nema þá sem felst í að éta úr lófa evrukratanna.
24.9.2011 | 09:12
Verðtrygging, gjaldmiðlaskipti og ríkisfjármál.
Íslenskur almenningur er að sligast undir álögum ríkisins og fjármálastofnana vegna eins stærsta þáttar Íslandsbrunans. Við fall krónunnar í október 2008 kom mikið högg á fjárhag heimilanna í landinu. Ríkið og bankarnir fengu á silfurfati a.m.k. 300 milljarða sem urðu til vegna sjálfvirkrar upptöku eigna í gegn um vísitölutrygginguna. Eðli málsins samkvæmt hafa menn risið upp og mótmælt. Ríkisvaldið og bankarnir kannast ekkert við það að október 2008 hafi verið neitt óvenjulegur mánuður í fjárhag landsmanna. Í þessu felst staðhæfing um að íslenskur almenningur hafi með framferði sínu orsakað eða átt einhvern þátt í hruninu. Hrunvaldarnir rændu þúsundum milljarða og halda ótrauðir áfram. Hverri ábendingu um hugsanlega sekt þeirra er svarað með hótun um lögsókn. En almenningur kann þó að bera nokkra pólitíska ábyrgð á því sem hér hefur gerst.
Réttlætiskennd okkar er særð vegna þess að nú er vitað að það lá beint við að afskrifa þá hækkun sem hrunið olli á skuldum heimilanna í landinu vegna sjálfvirkrar afgreiðslu á fé þeirra í gegn um vísitölu neysluverðs. Tekin var pólitísk ákvörðun um að láta almenning borga, þvert á ráð gefin að bestu manna yfirsýn. Hagsmunasamtök heimilanna eru í réttmætri uppreisn gegn þessum álögum sem eru ekkert annað en svik við þann fjölda sem taldi sig eiga von í réttlæti með því að skapa núverandi ríkisstjórn brautargengi í alþingiskosningunum í apríl 2009.
Krónan hefur hrunið áður. Í ársbyrjun 2001 hrundi krónan um tugi prósenta þegar frjálst flæði fjármagns var innleitt í landinu. Flestir héldu að sú aðgerð hefði verið framkvæmd vegna skilmála í EES samningnum, sem íslendingar efna eftir sínum hentugleikum. En það er ekki alveg rétt. Aðal ástæðan var að bjarga þurfti erlendum fjárfestingum lífeyrissjóðanna sem þarna urðu fyrir leiðréttingu á erlendum hlutabréfamörkuðum. Björgunin fólst í því að láta gengið gossa svo sjóðirnir gætu selt sitt góss erlendis og flutt það heim í krónum sem hægt var að kaupa með verulegum afslætti. Þannig var milljarða tapi snúið í milljarða gróða.
Við umræður um afnám verðtryggingar verða menn að hugsa málin út í gegn. Ef afnema á verðstrygginguna, verða menn að sjá fyrir sér annað og betra fyrirkomulag. Hagsmunasamtökin hafa rétt fyrir sér um verðtrygginguna að því leytinu að staða hennar sýnir ekki vísindalega túlkun á hagfræðilegu vandamáli, heldur hverjir það eru sem skrifa lögin í landinu. Eltið slóð peninganna. Bankarnir hafa haft alla möguleika og frelsi til þess að segja viðskiptavinum sínum frá því hvað það kostar í raun að taka þúsundkall að láni, en hafa valið þá leið að fela raunveruleikann í viðjum verðtryggingarinnar þar sem menn fá reikninginn margfalt í bakið. Þegar kemur að síðustu greiðslu eru menn að skila krónu sem búið er að verðbæta mörg hundruð sinnum. Vaxtavextir var það einu sinni kallað.
Rætt hefur verið um gjaldmiðlaskipti. Með því að taka upp annan gjaldmiðil flyst yfirstjórn peningamála út úr landinu. Afleiðingin er sú, svo nærtæk dæmi séu tekin, að ekki verður hægt að þynna blönduna með aukinni seðlaútgáfu þegar að kreppir. Seðlaútgáfa getur stuðlað að hagvexti ef stýrivextir eru í lágmarki. En seðlaútgáfunni verður að fylgja slaki í útlánastefnu. Mistakist þessi tilraun er hætta á verðhjöðnun og samdrætti frekar en orðið er, en einnig er hætta á ofþenslu, verðbólgu og þrýstingi á launakerfi, sé þessu ráði beitt um of. Þannig er einmitt staðan nú í flestum iðnvæddum ríkjum. Mistekist hefur að skapa eftirspurn eftir vörum og þjónustu með neikvæðum raunstýrisvöxtum og hvatningarpökkum frá ríkissjóðum þjóða sem eru að reyna að skapa hagvöxt.
Ríkisfjármálin eru órjúfanlegur hluti þessarar myndar. Taumlaus eyðsla hins opinbera á skattfé er einn hluti þess vandamáls. Annar er sú aðferð ríkisvaldsins að afla sér fjár á hinum frjálsa markaði. Spyrja verður til hvers fénu sé eytt. Sé ríkið að afla sér fjár á mörkuðum til daglegs rekstrar stofnana og kerfa er voðinn vís. Sé fénu varið til framkvæmda með varanlega arðsemi er allt í lagi. En hvoru tveggja setur vaxtaþrýsting á markaðina þar eð ríkið er í beinni samkeppni við frjáls samtök eða einstaklinga sem leita fjár til að byggja upp atvinnurekstur með hámarkshagnað sem markmið. Þetta síðasttalda á ekki alltaf við um ríkið. Farið er í atvinnubótaverkefni sem engu skila, nema stundarhvíld frá veruleikanum. Þegar rikissjóður tekur fé að láni erlendis skapast ytri áhætta vegna gengismunar. Við hrunið féll krónan um 100% gagnvart flestum gjaldmiðlum sem Ísland var skuldsett í. Afleiðingin er nú öllum kunn. Erlendar skuldir Íslands hækkuðu sem fallinu nam.
Eigi að afnema verðtryggingu sparifjár og lánsfjárskuldbindinga verða tilteknar aðstæður að vera fyrir hendi. Í fyrsta lagi verður að vera fullkomið jafnvægi í rekstri ríksins. Svo kann að fara að hallarekstur ríkissjóðs verði að banna með beinni lagasetningu. Á það við um bæði ríkisvaldið og sveitarfélög sem hafa verið að fjármagna daglegan rekstur með lántökum. Þessi aðgerð kallar á niðurskurð í þjónustu á báðum stöðum. Það verða menn að sætta sig við. Tugir sveitarfélaga eru gjaldþrota vegna þeirrar skuldsetningar sem til er komin vegna rekstrarfjárþurrðar sem leyst var með lántökum. En þeim er vorkunn vís vegna þess að þau voru í mörgum tilvikum að reyna að leysa lögbundin verkerfni.
Í öðru lagi verður almennt verðlag í landinu að vera í jafnvægi. Það þýðir að stöðva verður víxlgengi kaupgjalds og verðlags. Einhvejir halda að það hafi tekist með Þjóðarsáttinni, en það er ekki alls kostar rétt. Ríksvaldið undanskildi tiltekin hlunnindi frá því sem þar var gert. Þau hlunnindi felast í uppskrúfun verðlags almennt með sífelldri hækkun á neysluvörum sem hafa bein áhrif á vísitölur. T.d. benzíni og brennivíni. Ef verðbólga, búin til af fjármálaráðherra á að skattleggjast, þá skal Alþingi hið minnsta setja stimpil sinn á það mál. Vísitöluskatturinn er ólögmæt skattlagning sem skilar milljörðum í fjárhirslu ríkisins í hvert sinn sem þessar vörur eru hækkaðar með auknu álagi frá ríkinu.
Í þriðja lagi þarf að vera jafnvægi í greiðslujöfnuði af utanríkisversluninni. Það þýðir að ekki verður hægt að stunda gengdarlausan innflutning án tillits til útflutnings yfir lengri tímabil. Jöfnuður verður að vera til lengri tíma litið. Hagsveiflur geta orsakað tímabundið ójafnvægi og það kann að reynast nauðsynlegt að afla lánsfjár til þess að sinna nauðsynlegum innflutningi. En reglan hlýtur að verða jöfnuður. Eftir hrunið sjá menn að sjálfstæður gjaldmiðill með föllnu gengi stuðlar að þessu jafnvægi. Því er að sjálfsögðu haldið fram að gengið sé rangt skráð með Evruna í 175 Krónum, en niðurstaðan er samt sem áður stórfellt innflæði erlends gjaldeyris sem við þurfum á að halda til þess að geta greitt niður erlendar skuldir Íslands.
Vandinn sem verst er að leysa er að stjórnmálamenn skortir þrek til þess að taka á málum um leið og upplýsingar berast um aðsteðjandi erfiðleika. Þetta pólitíska kjarkleysi margra hefur kostað okkur ævintýralegar fjárhæðir en þeir hafa í staðinn lafað í sætum sínum eitt til tvö kjörtímabil umfram það sem annars hefði orðið.
Rót okkar vanda liggur semsagt að mestu í stjórnmálunum frekar en að þekkingu skorti til þess að gera réttar ráðstafanir þegar þess þarf. Skapast hefur óheilbrigt samband milli kjósenda og stjórnmálamanna þar sem hver lýgur upp í annan. Veðurspáin er alltaf góð í þeim samskiptum.
Á öllum þjóðþingum er að finna fólk sem segir sannleikann umbúðalaust. Það á oft erfitt með að halda sætum sínum. Það stafar af því að kjósendur vilja ekki heyra vonda veðurspá og refsa því hinum sannsöglu fyrir raunsæið. Almenningur ber fyrir sitt leyti stóran hluta ábyrgðarinnar á ástandinu líka.
Þetta síðasttalda er m.a. ástæða þess að gervallt hagkerfi vesturlanda er á leið fram af hengiflugi sem hefur blasað við árum saman. Sósíalistarnir sem stjórna flestum hinna föllnu ríkja eru komnir með annan fótinn fram af og æpa að svona hafi frjálshyggjan tælt þá. En þeir gleyma að geta þess að hvergi í hennar fræðikerfi er hvatt til hallarekstrar, sérstaklega ekki á tímum hagvaxtar. En það er aðal ástæða þeirra efhagslegu Ragnaraka sem þegar eru hafin.
Ekkert svigrúm er til að bjarga einu eða neinu nema biðja kommúníska alræðisstjórn fjölmennasta ríkis jarðarinnar um lán .... oggulitla brjóstbirtu því enn sé von um að rétta megi sig af.
15.9.2011 | 14:21
Einstefna. Útakstur bannaður!
Blaðrið um pan-evróskt lýðræði er alveg sérstaklega skemmtilegt fyrirbrigði.
Lönd sem glyttan vill soga inn í hringiðuna í Brussel .... "fá" að halda þjóðaratkvæðagreiðslu einu sinni í viku um "eingang" ... eins og í Sviss þar sem þjóðin var þvinguð í fimm þjóðaratkvæðagreiðslur um aðild og alltaf var svarið "NEI" ..... eða lönd eins og .....
Írland, Frakkland, Holland og fleiri sem sögðu "Nei" við Lissabon - sáttmálanum, sem saminn var af Frakklandskonungi, Monsignor D'Estaing .... eða Bretland þar sem forsætisráðherrar tveggja síðustu stjórna hafa lofað þjóðaratkvæðagreiðslu um áframhaldandi aðild og svikið það áður en blekið var þornað á plaökötunum.
Á Íslandi verður þetta kosning "a la Belarus" með tilheyrandi þvættingi um kökur og kaffi síðar. Froðan flæðir út úr ...
Sviss var að enda við að festa gengi frankans við 1.20 á móti evrunni. Það er vegna þess að svisslendingar ætlla ekki að fjármagna útflutning á meiru af evrópskum imperialisma. Þeir sitja uppi með tvær milljónir manna án atvinnu eða ríkisfangs, vegna Schengen sáttmálans. Á landssvæði sem er á stærð við Árnes- og Rangárvallasýslur.
Lausnin frá Brussel: Meiri samvinna og sameining.
Þegar við erum "komin inn" munum við fá að greiða "þjóðaratkvæði" um lengd á agúrkum.
8.9.2011 | 09:43
Samsærið og Suðurnesjamenn
Vek sérstaka athygli á greinargóðri lýsingu Morgunblaðsins í dag á samsærinu sem fjármaður Íslands og hljómsveitin Stasimenn hafa staðið fyrir gegn vinnandi fólki á Suðurnesjum.
Þessir dándimenn komu viljandi í veg fyrir að 700 - 800 manna fyrirtæki sem er í byggingu á Reykjanesi fengi raforku til þess að geta hafið starfsemi sína. Fyrirsjánlegar gjaldeyristekjur þess hlaupa á milljarðatugum ár hvert. Er þá ótalinn annar fjárhagslegur ávinningur þar sem um 300 íslensk fyrirtæki munu fá verkefni fyrir sitt góða starfsfólk við allt mögulegt. Það bíður síns tíma.
"Heiðursmanna - samkomulag" var gert við einn smjörvaðasta íslandsvin i sögu "latter day saints" Mr. Beaty - um það að fyrirtækið sem var svo skemmtilega stolið handa honum skyldi snúa sér í allar aðrar áttir en að 3000 atvinnulausum Suðurnesjamönnum þegar kæmi að því að trekkja í gang túrbínurnar í Svartsengi.Enskumælandi menn segja: "War makes strange bedfellows".
Eru þá ótaldar ölkeldurnar sem umhverfisráðherrann eða ráðskonan hafa sett málið í með misbeitingu á ýmsum vel meintum lagabálkum eins og Skipulags - og Byggingarlögum; Lögum um Mat á Umhverfisáhrifum og mörgum fleiri slíkum.
En nú vitið þið að þessi lúðraþytur á heiðinni mun áfram hljóma næstu 2 árin. Á þeim tíma munu um 60 milljarðar til viðbótar verða teknir af vinnuveitendum ykkar sem enn hafið vinnu - til þess að greiða öllum hinum sem eiga ekki fyir mat. En fyrir hina orthodox kommúnista sem hér stjórna "loksins" eru þjáningar hinna saklausu óhjákvæmileg aukaverkun við innleiðingu fyrirmyndarríkisins. Fórnarlömb alræðisins geta ekki sagt ykkur neitt meira um það. Þau eru látin.
Fjármaðurinn hefur sér það til málsbóta að hann kann ekki neitt, hann veit ekki neitt um neitt, nema að brúka munn í stjórarandstöðu. Flestar ákvarðanir hans eru byggðar á dómum manna sem eru jafnvel meiri bjánar en hann, ef það er þá hægt.
Þess vegna verðum við og eigum við að sitja uppi með þetta "Björne Band" til loka kjörtímabilsins, þegar um 75% kjósenda munu reka þetta dót út úr stofnunum ríkisins og inn á kaffihúsin - þar sem það á heima.
Þangað til sú lexía er líka gleymd og við fáum "endurflutt efni" með nýjum þverhausum og öfundsjúkum sósíalistum með byltingardrauma.
Áfram Andropov!
Um bloggið
Guðmundur Kjartansson
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (2.2.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar