Af orðskálkum

Kurr er mikill í landinu. Margt  ber til. Flestum dettur í hug hugtök og frasar sem voru óþekktir á landinu bláa þar til fyrir þremur árum. Það urðu kaflaskipti.

Eitt er það sem elur öðru fremur á ólgunni og kerskninni en það er tvísagan og þrísagan sem stjórnmálamenn og embættisaðallinn í landinu beita í upplýsingamiðlun sinni og samskiptum við fjölmiðla og almenning. Fjölmiðlar stíga sporin létt með viðmælendum, enda þarf að þurrmjólka hverja sögu. Annars verða menn að tala um kött uppi í tré eða mann sem beit hund. Gúrkusneiðar.

Öllu þessu er miðlað skilmerkilega til hæstvirtra kjósenda sem líka borga hinn margnefnda brúsa. Lygin er eitt form ofbeldis og valdbeitingar. Hún er það vegna þess að sá sem beitir henni er að reyna að afstýra óhjákvæmilegum atburðum sem fyrirsjáanlega hlytust af því að „sleppa“ sannleikanum út í tómið. Hann vill ekki missa „stjórn“ á atburðum.

Vel kann að vera að það þjóni almannahagsmunum að ljóstra ekki upp smáatriðum, td á tímum fyrirsjáanlegs ófriðar eða þegar fyrir dyrum standa flóknir samningar sem hafa víðtækt gildi fyrir almannahag; land og þjóð. Þessu fylgir skylda um upplýsingu þegar hlutirnir liggja fullgerðir fyrir. Trúnaður um viðkvæm mál er allt annað en undansláttur eða tvísögli.

En nú á dögum er tvíræðninni og hálfkveðnum  vísum beitt í óendanlegri refskák þar sem allt liggur undir og greind hins venjulega manns er gróflega misboðið með vísvitandi missögnum um hluti sem ætu að ósekju að liggja ljósir fyrir. Æran er sviðin af mönnum á heildsöluprís og engar varnir til.

Fullyrðingar, ásakanir, undansláttur, óræðar yrðingar, gagnásakanir og gagnyrðingar; allt verður hinum metorðasjúka og sjálfmiðaða skriftubaldri að stiklu í viðleitni sinni til að halda völdum og áhrifum með því að leyna viðmælendur sína upplýsingum.

Ein afleiðing þessa er gengisfall tungunnar. Hvað varð um hugtakið „fjölræði“ og mörg viðlíka sem slegin voru eins og túskildingar í látunum út af fjölmiðlafrumvarpinu? Almenningur er að drukkna í masi og útþynntum frösum og ambögum sem hver étur upp eftir öðrum.

Vilji einhver tala uppskátt og opinskátt um erfið mál, þá hlustum við.  Á meðan gengur hið innihaldslausa mas eins og gömul þvottvél. Við heyrum niðinn en hann hverfur inn í móðuna. Kemur aldrei aftur.

Það er búið að velja Íslandi ríkisarfa. Okkar sjálfskipuðu og æviráðnu hirðmeistarar hafa ekki ennþá talið okkur hollt að fá að vita hver hann er. Leikstjórinn í þeim farsa er enn að prjóna endann á trefilinn. Hélt um það blaðamannafund. Þar var mikið talað en ekkert sagt. Ekki orð.

Megum vér meira heyra?


Jaa, sko, nei sko, sjáiði til .....

Undandrátturinn er hafinn innan við sólarhring frá ákvörðun hæstaréttar í nýjasta málinu af mörgum sem þangað hefur verið áfrýjað vegna ríkisvarinnar rányrkju. Pamfílar ranglætisins eru taumléttir.

Starfsmenn bankanna á þingi og í ríkisstjórn SETTU lög nr. 151 -2010 TIL þess að hjálpa yfirboðurum sínum að sleppa undan réttaráhrifum áður genginna dóma réttarins í gjaldeyrislánamálum. Nýjasti dómurinn sýnir það ljóslega, þrátt fyrir skrautlegar yfirlýsingar um eitthvað allt annað. Þeir töldu sér heimilt vegna "sérstakra aðstæðna" að setja sértæk, afturvirk lög.

Almenna reglan í íslenskum kröfurétti er svona: Greidd krafa er DAUÐ krafa. En þeir héldu nú ekki. Dæmin skipta hundruðum, m.a.s. frá fólki sem hafði greitt upp lánasamninga að fullu og fengið þá senda kvittaða í pósti. Það fékk bakreikninga frá bönkunum. Kröfurnar skiptu hundruðum þúsunda og upp úr vegna steindauðra mála sem upp voru vakin vegna réttaráhrifa laganna, sem að sögn áttu að eyða allri réttaróvissu.

Orðbragðið er þannig að því VERÐUR að halda til haga um ókomin ár: Helgi Hjörvar kallaði sigur smælingjans og daglaunamannsins "tjón fyrir bankana" . Fjölmálaráðherrann hóf upp raust sína á þinginu og tók strax við að sá efasemdum um gildissvið dómsins frá í gær. Fleiri eru í startholunum.

Þið getið bókað að starfsmenn bankanna eru EKKI að vinna við reiknivélar, heldur ritvélarnar. Þar er verið að skrifa alveg glænýjar lögskýringar, skapandi lögskýringar þar sem efnt verður til nýrra málaferla. Á meðan berst svæfandi kliður úr reiknivélunum sem reikna hönd sinna herra dýpra ofan í vasa "viðsemjenda". 

Þið skuluð ekki halda niðri í ykkur andanum í bið eftir réttlætinu. Í undangengnum viðureignum smælingjans við kansellíið í tugtinu hefur það verið sótt til Strassbourg eða Haag. 

Hver er þá lexían?  Hún er sú, sem undirritaður hefur áður sett fram:

Hér þarf að stofna opinberan MÁLSVARNARSJÓÐ sem veiti fé til opinbers málarekstrar kúgaðra íslenskra ríkisborgara. Hinir fátæku og kúguðu eru nefnilega ævinlega settir í þá aðstöðu í viðureign sinni við sálarlaus skrímsli hins opinbera hervirkis  "að þeim sé ávallt fær sú leið að leita úrlausnar um sín mál fyrir dómstólum".

Þessi Klugheit des Kommissars sleppa því að það kostar 30.000 krónur á tímann + VSK að ráða sér lögmann. Þessari Gersku réttarríkiskenningu er otað að fólki sem situr í yfirveðsettum íbúðum, með útkeyrða, yfirveðsetta bíla, með tugþúsundir króna í skuld vegna "vanrækslugjalds"; í fatadruslum sem það hefur neyðst til að kaupa af sínum elskulega stórkaupmanni, sem líka á bankann og er hluthafi í ráðuneytinu OHF og þarf svo að hlusta og horfa á áróður um öll stærstu mál frá stofnun sem hefði vel sómt sér við hlið Pravda um 1960 - og BORGAR brúsann. ALLA brúsa.

Þessu er greinilega ekki lokið litli vin. Dómurinn tekur ekki til ÞÍNS lánasamnings vegna þess að þú varst í ósamstæðum sokkum þegar þú áritaðir hann.


Af raunum vísitöluþræla

Verðtryggð velferð, áhætta, peningar og íslenska fjármálaakademían. Allt þetta var er og verður áfram áberandi í þeirri upplausnarkenndu umræðu sem fram fer í öllum skúmaskotum sósíalísku gleðieyjunnar. Reynum aðeins að greina aðalatriðin frá aukaatriðum.

Byrjum á verðtryggingunni:

Það er rétt sem fram kemur í fjölda pistla, álitsgerðum hagfræðinga, uppgjafaráðherra og annarra sem komið hafa að innleiðingu hennar og úrvinnslu  - að innleiðing vísitölubindingarinnar var þrautalending eftir áratuga langa baráttu við óstjórnlega verðþenslu og óviðráðanlegt víxlgengi kaupgjalds og verðlags. Það tók  60 – 70 ár að fá forystu verkalýðshreyfingarinnar til þess að skilja að það væri betra að fá 2% taxtahækkun á almenn laun og fá að halda þeirri hækkun, heldur en að fá 10% hækkun og vera búinn að missa hana í verðlagshækkanir um næstu mánaðamót. Stétt með stétt er milku betra en stétt gegn stétt.

Atvinnurekendur og verslunin í landinu hafa aldrei gert neitt annað en að veita óraunhæfum launahækkunum beina leið út í verðlagið.  Sama gildir um vaxtaokrið. Þeir geta ekki neitt annað. Þjóðnýting atvinnuveganna er auðvitað lausn sósíalistanna og allir á framfæri ríkisins – það er lausnin sem nú er boðuð fyrir lífeyissjóðina.  Það fólk sem talar fyrir slíku er þar í hlutverki apans sem tók að sér að skipta ostinum.

Peningar:

Það er rétt að það er rangt að láta saklausa sparifjáreigendur, fermingarbörn og gamalmenni bera herkostnaðinn af gjaldþrota hagstjórn, óraunhæfum kjarasamningum og frelsi atvinnurekenda til þess að skola af sér sandkastala sem sífellt er reynt að reisa á þeirra kostnað út um alla bæi landsins.  Misgengi og tap er ekki gjaldmiðlinum að kenna heldur þeim sem á honum halda. Gjaldmiðillinn segir ljóta sögu og hún er þvi miður sönn. Menn standa í röðum og bíða eftir að fá að hengja á sig aðrar bjöllur, sem betur hljóma. Þetta er það sem Suður Evrópa trúði þegar hún gekk í Evrópusambandið.  Peningar, allsnægtir, brauð og leikir er það sem lofað var.

En HVAÐ var það sem gerðist í febrúar 1979? Í hverju felst  aðalbreytingin? Hún felst mest í tveimur þáttum, báðum jafn afdrifaríkum fyrir afkomu heimila landsins. Í fyrsta lagi er nauðsynlegt að minna menn á að áhætta af fjármálaviðskiptum, þar sem peningar skipta um hendur eins og hver önnur framleiðsluvara, var flutt óskipt frá sparifjáreigendum og fjármálastofnunum yfir á herðar lántaka.

Við þetta hvarf öll þörf á áhættumati hjá bönkunum út í veður og vind. Ein afleiðing þessa  er  þá í öðru lagi faraldurskennd hneiging til bóluhegðunar í hagkerfinu. Bankarnir gátu nú lánað út fé nokkurnveginn áhyggjulaust óháð til hvers það fé skyldi notað – ef aðeins tryggingar væru nægar. Bankarnir gátu í makindum leyst til sín eignir lántaka og ábyrgðarmanna þeirra.  Bankarnir BERA sína ábyrgð á ástandinu, þótt þeir hafi skipt um kennitölur og kannist ekki við þátt sinn í Íslandsbrunanum. Spyrjið þá um ástæður þess að fasteignaverð fer hækkandi í gjaldþrota hagkerfi.

Þá er það niðurfærslan á skuldum heimilanna:  

6. Október 2008 var EKKI venjubundinn dagur í íslensku fjármálastarfi og rekstri bankanna. Forystumenn í hinum íslenska fjármálaheimi halda því fram að stofnanir þær sem þeir þjóna eigi að njóta verðtryggingaráhrifanna af þeim ragnarökum sem þá áttu sér stað. Við það getur almenningur í landinu ekki sætt sig. Fjárhæðin skiptir máli, en hún kemur síðar í þessari röksemdafærslu. Hún snýst um fleira.

Aðalatriðið er það að þarna urðu til fjallháar öldur sem færðu allt í kaf. Hið alþjóðlega fjármálakerfi ber ábyrgð á þvi máli svo og spekúlantar, veðmálahaukar og siðlaus séní sem nú fara mikinn í málsvörninni fyrir svínaríinu.  Það hvernig verðtryggingin afskræmir alla starfsemi hagkerfisins er efni í sérstaka skoðun en vitað er að allur slíkur útreikningur er meira eða minna bólginn af fikti og falsi.

Hver er krafan? Hún er svona, svo allur vafi sé af tekinn í eitt skiptið fyrir öll: AFMÁIÐ af efnahagsreikningum íslenskra fjármálafyrirtækja þessa færslu sem búin er að standa í eignadálkum þeirra frá ársuppgjörum þeirra sem lokað var m.v. 31.12 2008. Svo skulum við semja um aðrar aðgerðir.  Það er ekki fé sem viðkomandi stofnanir hafa lánað út. Hinir ráðdeildarsömu og skuldlausu njóta þess líka.

Þá að framtíðarmúsík.

Afnám verðtryggingarinnar með einhliða aðgerð eða einhliða upptaka annars gjaldmiðils er óframkvæmanleg við núverandi aðstæður. Þrennt annað kemur á undan:

1.       Uppgjör við erlenda lánardrottna íslenska ríkisins: 1400 milljarðar c.a.

2.       Jafnvægi – jöfnuður eða rekstrarafgangur af ríkissjóði og sveitarsjóðum.

3.       Endurvakinn þjóðarsáttarsamningur þar sem tekið er fullt tillit til hagvaxtar í amk. 5 ár.

Listinn er auðvitað miklu lengri en byrjum á stærstu þáttunum. Náist árangur með höfuðþættina fylgja hinir smærri á eftir.

Það er ansi ísmeygilega hugsað og sagt hjá mörgum fylgjendum inngöngu Íslands í hið fallandi Evrópusamband, að halda því fram að með því að gerast þar aðilar leysum við flest þau vandamál sem hér eru gerð að umræðuefni.  Það er of einfalt og auðvelt svar.

Værum við þar nú, þá stæðum við í sömu sporum efnahagslega  og  Grikkland, Írland, Portugal, Spánn og Ítalía. Innilokuð í hlekkjum gjaldmiðils sem við hefðum ekkert yfir að ráða og sætum uppi með hráar afleiðingar efnahagshrunsins: 30% atvinnuleysi, landflótta og innanlandsóeirðir af hendi fólks sem ætti ekki til hnífs né skeiðar um fyrirsjáanlega framtíð. Hrunskuldirnar voru um 14.000 milljarðar. Við sætum uppi með þær og værum að reyna að semja okkur frá því máli með tilvísunum til þjóðréttar og fullveldis. Því fullveldi á nú að „deila“ með elskulegum nágrannaþjóðum sem hafa reynst okkur svo vel.

Á meðan matsfyrirtækin, stórbankarnir og hinn rótgróni Euro sósíalismi ráða öllum ríkjum er okkur betur borgið upp á eigin býtti.  Nýjasta fórnarlambið er Króatía. Nú er gamli sósíalista- og kommúnistaaðallinn búinn að pakka niður í koffortin og eimpípurnar blása til brottfarar.

Áfangastaður: Brussel og feitir tékkar!


Bestu vinir Sýrlands

Fátt sýnir eins skýrt hina vanhelgu skiptingu heimsbyggðarinnar í áhrifasvæði eins og það sem nú gerist í Sýrlandi. Vesturlönd vilja að sýrlendingar haldi sig í sínum vinahópi eins og honum hefur verið skipað. Góðir eru þeir vinir Sýrlands. Standa með sínum til síðasta manns.

Alda uppreisna og óróa hefur farið eins og eldur um Norður Afríku og er á leið austur og suður. Barist er við aldagamalt patríarkí og ættbálkastjórnir þar sem ótrúlegum auðævum hefur verið sólundað í hergögn og hallir.

Almenningur í flestum þessara ríkja býr við mjög mismunandi aðstæður, en flestar þjóðir þarna búa við fátækt og lélega félagslega uppbyggingu. Olíuauðurinn fer í að kaupa byssur, skriðdreka og plútóníum í ríkjum þar sem lagsbræður Eichmanns, Göbbels og Marx í bland og slíkra nóta ráða öllu sem ráðið verður. 

Hinn frjálsi heimur stendur hljóður hjá og snýr sér undan á meðan himneskir herskarar Sýrlandsforseta drepa allt kvikt. Meira að segja Ísraelar sýna fálæti .... þeir óttast að það sem komi í stað hans verði verra. Assad er menntaður í Bretlandi og því er talið að hann sé „hófsamur“ í ofstækinu. Hann er jú Baathisti eins og Saddam Hussein. Ísrael hefur ekki staðið önnur eins ógn af nokkrum her eins og þeim sýrlenska. Þess vegna vilja þeir halda í Golan hólana ... svo þeir sjái rykmökkinn þegar hinn sovésk smíðaði  skriðdrekaher Assadanna kemur arkandi yfir eyðimörkina til þess að reka þá í hafið.  Litlu munaði 1973. Nokkrir bandarískir herforingjar úr seinni heimsstyrjöldinni stöðvuðu leikinn í það skiptið. Nú sitja arftakar þeirra í hægindastólum og Richard Holbrooke er allur. Hann bjargaði því sem bjargað varð eftir að Evrópusambandið hélt kökukvöld á meðan 250.000 smælingjar voru myrtir í köldu blóði á Balkanskaganum.

Vesturveldin halda teboð þar sem fárast er yfir þessum ólátum og gefa í skyn að með þessu framhaldi endi með því því að einhver verði drepinn. Hvatt er til stillingar og hófs í viðbrögðum, en vikist er undan þeirri staðreynd að sýrlenskur almenningur gerði sér vonir um að fá aðstoð og hvatningu til þess að varpa af sér okinu.

Sú aðstoð kemur að vísu. Hún kemur frá vinum Sýrlands í Kína og Rússlandi. Vesturlönd og frjálsir lýðir horfa í hina áttina. Þau skulda. Assad fær fallbyssur. Hann er svo miklu betri einvaldur en Khadafy.

Tyrkir eru nú eina von þeirra sem mæna eftir björgun og hugsanlegt er að þeir aðhafist eitthvað þegar ástandið er farið að ógna þjóðarhagsmunum Tyrklands, t.d. þegar nokkrar milljónir manna steðja yfir landamærin í von um einhverskonar ölmusu. Afskipti Tyrkja myndu þvinga fram afstöðu á vesturlöndum. 

Post Scriptum eftir morgunfréttir RÚV i dag:

Ummælin sem höfð eru eftir varautanríkisráðherra Rússlands í fréttum dagsins eru nákvæmlega þau sömu og Göbbels hafði uppi eftir uprreisnina í Gyðingahvefinu í Varsjá, þar sem fámennur hópur dauðadæmdra manna reyndi í örvæntingu að sleppa úr umsátri nasista. Vitandi að þeirra beið ylheitt bað í sturtuklefunum í Birkenau og Bergen Belsen. Hann kenndi hinum fátæku og allslausu  um að vinurinn þeirra. Hafez al Assad í Damaskus skyldi neyðast til að stytta þeim aldur. Þarna er fórnarlambinu kennt um nauðgunina.

Ó, hvað nútíminn er nútímalegur.


Eigna"tilfærsla" - Eignaupptaka?

Ágætur þáttur hjá Agli í dag, frekar málefnalegt og jafnvel fræðilegt margt sem fram kom. Umræðan um verðtrygginguna, skuldir heimilanna og fleira eru í sama farvegi og áður og það mun mikið þurfa að ganga á áður en fjármálafyrirtækin viðurkenna eitt eða neitt um sín mál.


En allt er nú fært til í gegn um gjaldmiðilinn og ýmsar ráðstafanir sem þarf á hverjum tíma. Verðmæti sem nemur mörgum árlegum þjóðarframleiðslum Íslands hafa verið flutt til með ýmsum hætti allan lýðveldistímann og þar áður með verðstýringu krúnunnar og opinberri einokun. Öll þessi langa og ljóta saga greinir skilmerkilega frá því hver það er sem borgar þegar illa fer. Það er almúgamaðurinn sem borgar. Einu gildir hvort hann dregur fram lífið af vinnu suður við Miðjarðahaf eða við Faxaflóann.


Í máli Vilhjálms Bjarnasonar  í Silfri Egils í dag 29. Janúar 2012 kom margt rétt og skýrt fram. Skiljanlegt er að fjármálastofnanir og fjáreigendur vilji fá sitt af fjalli óskert.  En nú varð fjárfellir og stórbændurnir ætla að draga sér fé í almenningnum að þeirri tölu sem þeir ráku á fjall. Þeir telja sig eiga sitthvað inni hjá kotbændunum og ætla að taka af þeim það fé sem upp á vantar vegna fellisins. Þessar eru afleiðingar þess sem gerðist á Íslandi og víðar 6. október 2008. Íslenskir bankamenn líta á þann dag sem fremur venjubundinn dag .... að því frátöldu að bankakerfið varð gjaldþrota.


Fellirinn stafar af manngerðum hamförum í fjármálakerfi heimsins, svikum, þjófnaði, fölsunum; sem allt er sprottið af einni af grunnstoðum mannlegrar eigindar; óseðjandi græðgi eftir efnislegum verðmætum, völdum og öllu því sem fá má af hvoru tveggja.


Í febrúar 1979 var innleitt nýtt  fyrirkomulag í fjárskipum banka og ríkis við almenning. Sett var upp til bráðabirgða kerfi sem fylgist með almennu verðlagi í landinu. Einstaklingar sem skulda fé fá reikning verði hækkun á markaðsvörum sem notaðar eru til þess að mæla og segja fyrir um breytingar á vísitölu. Verði hækkun gengur hún út í gegn um fjármálakerfið sem nemur prósentustigi skv. útreikningum. Samtímis rýrna laun og greiðslugeta skuldaranna um nákvæmlega sömu prósentu


Einfalt, ekki satt? Vísitölutryggingin var skammtímaráðstöfun sem menn gerðu sér grein fyrir að gæti ekki staðið til frambúðar, sennilegast vegna þess að hún myndi óáreitt gera almenning eignalausan á nokkrum árum. Stærsti einstaki þátturinn í fjármálum einstaklinga sem eru svo grátt leiknir í þessari svikamyllu er fjárfesting þeirra í fasteignum. Með innleiðingu Húsbréfakerfisins komst nál. 70% alls íbúðarhúsnæðis í landinu í eigu ríkisins í gegn um Íbúðalánasjóð. Og vel að merkja, hann á enn eftir að segja frá skiptum sínum við bankana á árinu 2004. Verðtryggð lán til 40 ára og því ævintýralega snjalla bragði að leggja alltaf hluta verðbótanna aftur við höfuðstól, tryggir það án afbrigða að lang flestir sem taka slík lán munu aldrei eignast eitt eða neitt.


Ráðherrar og aðrir sem hafa aðgang að fjármálakerfinu hafa stundað þá íþrótt af miklu kappi að færa eignir frá almenningi til ríkis og banka í gegn um ýmsar hátt skattlagðar vörur eins og bensín og brennivín. Hvort tveggja er inni í vísitölugrunninum. Verðhækkanir á þessum vörum, vegna hækkaðrar skattheimtu eða beinna verðbreytinga hafa þekkt jaðaráhrif á alla vísitölutryggða fjármálagerninga, þeim til hækkunar. Þannig eru milljarðar færðir úr vösum almennra skuldara til fjármagnseigenda með bellibrögðum á meðan lántakar sofa á sitt græna eyra. 

Breytingar á vísitölunni eru þessu til viðbótar taldar meira eða minna upp skáldaðar. Flestar faglegar rannsóknir á þessu fyrirbæri benda eindregið til þess að það sé „bólgið“, þ.e. að breytingar séu ofreiknaðar. Þetta minnir á þá aðferð svikulla kaupmanna frá fyrri tíð að sverfa nokkur grömm úr lóðum sem notuð voru á reizluna við afgreiðslu sekkjavöru.  Þetta kerfi var reynt í Bandaríkjunum upp úr 1970, en frá því var snarlega horfið þegar menn gerðu sér ljósar afleiðingarnar gagnvart milljónum manna sem yrðu rændir aleigu sinni vegna þess hve fyrirsjáanlega ónákvæmur og hlutdrægur allur útreikningur yrði


Forsvarsmenn fjárfesta, eigendur fjármálafyrirtækja, bankastjórnendur og  yfirstjórn Seðlabanka Íslands þurfa að svara með haldbærum rökum einni spurningu. Á henni veltur allt þetta ferli:


Af hverju eiga lántakar einir að bera alla áhættu af skiptum sínum við fjármagnseigendur? Menn geta sleppt allri fræðilegri umræðu eða pexi um það hvernig vísitalan er notuð til að skattleggja alla, skulduga og skuldlausa. Málið snýst um áhættu eins og gildir í öllum viðskiptum.

Hver á að bera áhættuna af viðskiptunum og af hverju?


Hlegið við gjána milli þings og þjóðar

Það er rifist og skammast. Bölmóðurinn sem liggur eins og pestarfár á íslendingum nú um stundir á sínar skýringar. Mestu veldur atgangur nokkurra net og prentmiðla sem ala á illsku, ósætti og grunsemdum um misferli hjá öllum, frá kotungum til konunga. Enginn er hafinn yfir hinn heilaga grun sem nærir kjaftaganginn, öfundina og illkvittnina.


Þetta gengur á meðan stór verkefni bíða lausnar: Ráðstafanir í ríkisfjármálum Íslands; umræða og áætlanir um uppgreiðslu erlendra skulda þjóðarbúsins;  stefnumörkun í heilbrigðismálum, t.d. varðandi byggingu spítala sem svarar kröfum tímans; pólitísk ákvarðanataka og skýr fyrirmæli um að skera skuli þjóðina úr klafa verðtryggingarinnar og að afskriftir bólugróðans MUNI fara fram. Listinn er mun lengri.


Á meðan þessi mál krauma óleyst borgum við um 40 milljarða á ári fyrir gjaldeyrisvarasjóð í boði AGS og þjóðin sættir sig við að forsetinn sé að verða þungamiðja í afgreiðslu þingmála og hafi vegna aðgerða núverandi handhafa orðið að einskonar fórnaraltari í miðjum þingsal. Nú er verið að leita logandi ljósi að nýjum verðandi monopol til þess að setjast að á Bessastöðum og halda „uppbyggingarstarfinu“ áfram. Skv. gátlista upplausnarsinna þarf hann að vera fjölvirkur sósíalisti, öreigi og háskólaborgari sem á vel þæfða lopapeysu.  Einhver sem hefur eytt ævinni á framfæri ríkisins og fyrirlítur hagnað af rekstri eins og djöfsa sjálfan.


Það er ekki þingið sem er gengið af vitinu. Það er rangt. Hið rétta er að þingið er – samsetningar sinnar vegna – ekkert annað en þversnið af þjóðinni. Skammir á þingheim hitta því menn sjálfa fyrir. En það er verra að þurfa að horfa upp á heimskuna og hina andlegu flatneskju leggja hér allt í rúst. Endanlega.  Ástandið er eins og því sé fjarstýrt. Nýleg dellumál í fjölmiðlum benda til þess að verið sé vísvitandi að æra almenning með þvættingi um einskis verð mál á meðan húsið brennur.  Eflaust til þess að draga athyglina frá öðru sem meira skiptir.


Þetta ástand er kunnuglegt frá þjóðum þar sem sjálfstæði og fullveldi hefur fokið út í veður og vind. Uppreinsarseggirnir eru að bíða þess að maðurinn með stálhnefana birtist og „komi skikki“ á málin. Kannski við eigum von á íslenskum „IL Sung“ .


Þjóðin ber sjálf ábyrgð á þessu ástandi og ætti þess vegna að slaka aðeins á í æðinu og horfa frekar til eigin öryggis, frelsis og afkomu komandi kynslóða. Hún getur ekki horft framhjá því að sn. Búsáhaldabylting fleytti hér til valda hópi fólks sem ekki telur sig bundið af lögum nema á tyllidögum. Þingið er samkomustaður þjóðarinnar. Hún hefur sjálf komið á því ástandi sem þar ríkir og mun súpa seyðið af því.  


Hið eina sem hægt er að segja um Landsdóm og stefnu eins manns fyrir dóminn með pólitískt táknrænum hætti er að sú stofnun er  raunhæft dæmi um að þrískipting er besta lausnin. Landsdómur er hjáveita framhjá  dómsmálaúrvinnslu eins og henni er skipað í stjórnarskrá.  Hann ber að nema brott úr íslenskum lögum hið bráðasta og fella í stað inn í almenn hegningarlög.
Upphafið að Hrunadansinum sem þjóðfélagið gengur nú í gegnum er sú aðgerð forseta Íslands að beita neitunarvaldi gegn lagafrumvarpi um eignarhald á fjölmiðlum. Fjölmiðlafrumvarpinu.

Neitunarvald forsetaembættisins gildir um eitt tilvik:  Forseta er er skylt að synja lögum staðfestingar við þær aðstæður að um meint landráðamakk sé að ræða. Með synjun ákallar hann þjóðina sjálfa til varnar lýðræði hennar og frelsi. Takist ekki að ná fram alþingiskosningum í framhaldinu vita menn að fyrir dyrum séu  skálmöld og skeggöld og hafa þá ráðrúm til viðbragða.  
 Vald þjóðarinnar eins og hún ráðstafar því í þingkosningum streymir í gegn um forsetaembættið til stjórnarstofnana  og á eðli málsins samkvæmt að birtast í meirihlutaskipan og umboði til stjórnarmyndunar í samræmi við þann meirihluta eins og hann skipast á Þingi.

Skylda fosetaembættisins er þá sú að haga sér í samræmi við niðurstöðurnar og afhenda fulltrúum meirihlutans umboð til myndunar ríkisstjórnar. Þar líkur afskiptum forseta.
Fyrir hið fallna fjölmiðlafrumvarp situr þjóðin uppi með sn. „fjórða vald“ sem er hópur af ofstopamönnum, stjórnleysingjum, afdönkuðum sögukommum og ofbeldishyski sem í  flestum löndum væri búið að kveða í kútinn.

Einn fulltrúi þessara hópa hló heitt og innilega í beinni útsendingu sjónvarps nýlega.  Aðhlátursefnið var alþingiskosningar.


Íslenskur Marxismi og brottförin frá Músavík

Eftirfarandi skrif urðu til vegna  þess að íslenskir sósíalistar fara sem fyrr hamförum í árásum sínum á Sjálfstæðisflokkinn og forystumenn hans í bráð og lengd. Trúarbrögðin sem nú eru boðuð á bloggsíðum og í mis-vitlausum og mis-dónalegum tilskrifum eru úldið vín á nýjum belgjum. Nýja-ný-vinstrið hefur ekkert nýtt fram að færa, nema etv. getuna til þess að skapa hið fullkomna fasistaríki með allri þeirri rafeindatækni sem búið er að taka í notkun. Trúin á ríkisforsjána og hið alltumlykjandi ríkisvald er vaxandi og er vatn á myllu manna sem nú fara hamförum í æsingi og persónuníði.

Það sem bíður innleiðingar: Skipulags- og eignaráð ríkisins, endurvakið fjárhagsráð ríkisins, gjaldeyrisnefnd ríkisins, viðskiptanefnd ríkisins, skömmtun erlends gjaldeyris, skipuleg eignaupptaka allra eigna sem lúta ákvæðum 72. greinar stjórnarskrárinnar, aflagning alls einkaframtaks og upptaka opinberrar forsjár í nýsköpun; stöðvun nýframkvæmda í nafni ný-umhverfisfasísks þankagangs; almenn innleiðing neikvæðrar réttarheimspeki þar sem allt það sem ekki er sérstaklega leyft er bannað o.s. frv. Búið er að setja á laggirnar eftirlits- og gæslustofnanir til þess að varna tilurð hluta sem hurfu af kortinu fyrir 3 árum. Þær kosta milljarða og munu ekki leiða neitt annað en meiri fátækt yfir land og lýð. Búið er að semja nýja stjórnarskrá sem er svo gegnumsýrð af sértækum markmiðum og gildishlöðnum fyrirheitum að hún er ekki einu sinni umræðuefni á kaffistofum lögmanna eða annarra sem með réttu hefði mátt bjóða að taka þátt í samningu hennar. Meginefni hennar er: "Allir eiga að hafa það fínt" (Ríkið greiðir)

Ef á að halda áfram að kenna efnahagshrun og vandræði íslensks efnahagslífs við Sjálfstæðisflokkinn, þá ætti amk að koma með gagngerar tillögur um endurbætur. Þær er því miður ekki að finna í drögum að nýrri stjórnarskrá eða öðrum sviplíkum gjörningum sem siðvæðingin mikla hefur getið af sér. Íslendingar bjuggu við algert opinbert forræði á öllum sviðum frá 1930 og sumt af því var ekki afnumið fyrr en eftir 1990. Byrjað var á að gera innflutning fjaðraskúfa háðan sérstökum leyfum (1931) og íslenskir sendiherrar fengu ekki yfirfærslur vegna kaupa á bollastellum (1948) og bæjarsjóði Reykjavíkur var neitað af fjárhagsráði um kaup á rottueitri að upphæð 9.000 krónur.  Það var 1952. Áður hafði sn. Hagfræðinganefnd lagt til innleiðingu áætlunarbúskapar í frægri skýrslu sem lögð var fram vorið 1946. Þar voru á ferðinni menn sem flestir töldust síðar til hægri í stjórnmálum. Einn fárra manna sem hefði getað sagt eitthvað af viti um skipulag efnahagsmála þess tíma - og síðar - hafði fengið þau svör hjá íslenskum fyrirsvarsmönnum að á Íslandi giltu ekki hagfræðilögmál. Þetta var Benjamín H. J. Eiríksson. Honum þótti nóg um eins og fram kemur í ýmsum skrifum hans. Þar var þó á ferðinni maður sem hafði séð bæði Hitler og Stalín í eigin persónu, stundað nám í Moskvu og Berlín og síðar vestanhafs. Án efa reyndasti og menntaðasti hagfræðingur sinnar samtíðar, hugsanlega á heimsvísu. En á hann var ekki hlustað. Sérstaklega ekki þær ábendingar hans að atvinnutækin væru betur komin í höndum einstaklinga, frjálsra félagasamtaka eð þ.h., frekar en í höndum opinberra embættismanna. Ein afleiðing þessa var að hagstjórn á Íslandi næstu áratugina miðaðist við að halda opinberum útgerðarfyrirtækjum á floti. Og - núna snýst öll barátta íslenskra sameignarsinna um það að koma útgerðinni aftur í hendur ríkisins og endurverkja bæjarútgerðirnar. Hugsið það mál aðeins betur eða bíðið þess að fá reikninginn með skattseðlinum.

Ég fór mína fyrstu ferð til útlanda í september 1976. Ég var skyldaður til þess að leggja fram kvittaðan farseðil og var tvisvar neitað um yfirfærslu af gjaldeyrisnefnd, sem síðar rausnaðist til þess að selja mér 270 dollara.

Áður en menn missa sig í skömmum og svívirðingum og bænum um eitthvað sem þeir vita ekki hvað er ættu þeir að kynna sér söguna. Þeir sem ekki gera það munu endurtaka hana, mistökin líika. Verið er að gramsa á öskuhaugum sögunnar í von um að eitthvað nothæft hafi verið í áður hrundum heimspekikerfum og megi endurvekja.

Hver er sök ráðherrans sem nú situr á sakamannabekk? Í stórum dráttum sú að hafa treyst og trúað fram lögðum og viðteknum gögnum sem m.a. Seðlabankinn, Fjármálaeftirlitið og fleiri kölluðu eftir. Nú vita menn að megnið af þessum gögnum voru fölsuð. Hver ber ábyrgð á því?

Tugþúsundir íslenskra heimila eru á vonarvöl vegna aðgerða núverandi ríkisstjórnar, m.a. fyrir áhrif illa saminna laga um sértækar aðgerðir í skuldamálum.( L. nr. 107 frá 2009). Hver ber ábyrgðina á því? Lesið þessi lög og sjálft frumvarpið. Fingraför fjármálamanna eru eins og klístruð sulta á því. Með lögum þessum er fjármálastofnunum selt í hendur sjálfdæmi um meðferð viðskiptamanna sinna. Þetta er skilgetið afkvæmi búsáhaldabyltingarinnar. Eignasvifting og ærumissir án dóms og laga. Það gerist vart betra. Bylting þessi skilaði í ráðherrastóla og þingsæti stórum hópi fólks sem telur sér ekki skylt að fara að lögum eða Hæstaréttardómum. Kallar það allt pólitík. Þetta er þó fólkið sem að sögn er íslenskara og betur lesið en allir hinir.

Hinn íslenski Peppone, sem nú er búinn að skipta um hatt eina ferðina enn og er sestur í alveg nýtt ráðuneyti, tók sig til og afhenti erlendum kröfuhöfum tvo af bönkunum án þess að nokkur pólitísk umræða færi fram um það mál. Það var hægt, ekki vegna þess að til þess væru lagalegar heimildir, heldur vegna þess áfalls sem menn voru í eftir þjóðarbrunann. Það var snilldarlega gert og jafnframt hugsanlegt landsdómsmál. Það bíður síns tíma. Það verður hægt að fá þau réttarhöld með afslætti, 2 fyrir 1.

Ef menn biðja nógu heitt, þá gerist það. Enda ætlar nú sjálft átrúnaðargoðið að snarast í smiðjuna, brýna sverðið og skella sér í nýjan slag. Það var meira fjör á Bessastöðum þegar þar voru alvöru fallbyssur á fjörukambinum. Músavík er hinu megin á nesinu.


Samsetning og staða þjóðarskulda Írlands: Spegill fyrir frjálsa Evrópu.

Hér á eftir fylgja nokkrir punktar um stöðu þjóðarskulda íra og breytingar á þeim frá 2007. Þar á eftir er spurt hvort þeir eigi séns. Svarið gildir fyrir restina af Evrópu.
  • Skuldir fyrir hrunið (mælt 2007): Skuldir írska ríkisins 37.6 milljarðar evra – meðal lægstu ríkisskulda þjóðríkja í Evrópu, 19,5% af VLF.
  • Skuldir vegna halla á ríkissjóði Írlands, 94.9 milljarðar evra, til orðnar á árunum eftir 2008 vegna rýrnandi tekna ríkissjóðs af skattstofnum eins og tekjuskatti, fasteignagjöldum og virðisaukaskatti. Þessi aukning er reikningurinn fyrir kreppuna. 49.2% af VLF á tímabilinu.
  • Skuldir sem írska ríkið situr uppi með vegna falls írsku bankanna: 60.5 milljarðar evra. Írska ríkið tók bakslagið af bönkunum. Þessi hluti er 31.4% af VLF á árinu 2010. Þessi staða leiddi til met halla á rekstri írska ríkisins á árinu 2010 eða 32%.
  • Heildarskuldir Írlands 2011: 109 milljarðar evra, 105% af VLF
  • Skuldatryggingarálag írskra ríkisskuldabréfa: Janúar 2008: 4.2%.  Janúar 2011: 10.5%

Staða Írlands og Íslands er keimlík og tilurð hennar nokkurn vegin sú sama. Báðar þjóðirnar "duttu í það" með upptöku sameiginlegs gjaldmiðils (írar) og með innleiðingu ákvæða  EES samningsins um frjálst flæði fjármagns 2001 (Ísland). Allt fylltist af ódýru lánsfé sem endaði á að keyra allt í þrot þegar spilaborgin féll. Íslendingar felldu gjaldmiðil sinn um 100% og gátu haldið viðunandi atvinnustigi en Írar læstust inni í hanastélsveislunni sem með hverjum deginum lítur meir og meir út eins og samantekin svikráð við þjóðfrelsi gömlu Evrópu. Pólitíkusar voru snöggir að yfir- gefa klappliðið og söðla um. Þeir hafa sagt: Þetta er allt einkaframtakinu og frjálshyggjunni að kenna. Fimmeyringar.

Spurning: Eiga írar og allar aðrar þjóðir sem sitja eftir í brunarústum Brussel-hótelsins einhvern möguleika á að komast út?

Drög að svari er margþætt skv. þeim heimildum sem ritari hefur skoðað:

1. Yfirgefa evruna og endurvekja eigin gjaldmiðil (skammtíma lausn, en hluti þess sem gera þarf STRAX) Ná upp atvinnuþátttöku og auka framleiðslu og eftirspurn innan eigin hagkerfa.Þannig skapast greiðslugeta.

2. Skoða samsetningu vinnuafls landanna og meta framleiðslugetu hagkerfanna m.v mannfjölda og gera áætlanir í samræmi við það.

3. Meta framleiðni hagkerfanna og möguleika þeirra til vaxtar; nýsköpun, tæknibyltingar, hagræðing með innleiðingu nýrra framleiðsluaðferða og tækni. Sjálfbær, umhvefisvæn tækni sem dregur t.d. úr þörf á skaðlegum orkugjöfum og bruðli með gjafir jarðar. Aðlaga löggjöf og afnema heftandi lög og reglugerðiir. Fletja út skattprósentur og innleiða álögur sem bera í sér efnahagslegan hvata til frumkvöðlastarfsemi.

4. Endurskoða löggjöf um innri samkeppni, starfsemi fjármálamarkaða, aðskilnað viðskiptabankastarfsemi frá áhættusækinni fjármálastarfsemi.

5. Meta heildarumfang skattstofna út frá mannfjölda og fyrirsjáanlegum breytingum á honum og samsetningu hans. (við erum að eldast og vinnandi fólki fækkar í þróuðum ríkjum) Allt mat á framtíðargreiðslugetu hagkerfa verður að taka mið af þessum þáttum.

Samantekt:

Því fyrr sem stjórnmálamenn, verkalýðsforystan og aðrir sem ábyrgð bera á framhaldinu átta sig á að engar töfralausnir munu koma frá Frankfurt, Beijing eða Brussel - og taka niður hanskana, þeim mun betri eru líkurnar á bata en hugsa þarf til lengri tíma með liði 3, 4 og 5. 

Það geisar styrjöld. Enginn hefur verið skotinn ennþá ... amk fáir, en herrar heimsins sem sitja í viðarklæddum skrifstofum fjármálamiðstöðvanna eru að brytja þjóðirnar í spað án þess að  meirihluti stjórnmálamanna átti sig eða þori að rísa upp. Þeir eru að hirða tekjur barna og barnabarna - ófæddra kynslóða eins og enginn sé morgundagurinn. 10% forvextir, afföll eða okurálag á ríkisskuldabréfum segja allt sem segja þarf. Vextirnir eru þar fyrir utan.

Verið er að leggja helsi varanlegrar fátæktar á hundruðir milljóna manna með svikum og okri. Forystumenn Evrópusambandsins ættu kannski að athuga með landspildur t.d. í S-Ameríku svo þeir hafi grænan blett að tylla sér á. Það ku vera fallegt og gott að búa á Kyrrahafsströnd Nicaragua.

Peningana sína geta þeir þvegið í Panama.


Frá Lehman til MF Global: Eru endurhverf bankaviðskipti aðal ástæða krísunnar og viðbragðanna?

Endurhverf bankaviðskipti eru athyglisvert fyrirbrigði. Í þeim skiptum afhendir lánveitandinn lántakanum fé eða aðrar peningalegar eignir en þiggur í staðinn veðtryggingar, t.d. í hlutabréfum, verðbréfum, fasteignum eða öðru sem hann telur viðunandi. Lántakinn lofar á móti að endurkaupa hinar veðsettu eignir og greiða til baka lánsupphæðina með umsömdum vöxtum að umsömdum fresti liðnum.

Í flestum þróuðum ríkjum gilda nokkuð strangar reglur um þessa tegund bankaviðskipta, en mismunandi þó og þegar eitthvað fer úrskeiðis reynir á dómskerfið og rannsóknaraðila. Þeirra hlutverk er að tryggja að fé eða aðrar eignir sem t.d. vogunarsjóðir og fjárfestingarbankar eru að höndla með lúti reglum um áhættu, hagsmunaárekstra, innherjaviðskipti og fleira sem til álita kemur. Sagan sem hér fylgir á eftir sýnir hvílík nauðung liggur við að skilið verði á milli almennra viðskiptabanka og sparisjóða annarsvegar og fjárfestingarbanka og vogunarsjóða hins vegar.

Hræðslan sem einkennir viðbrögð og aðgerðir Evrópusambandsins og hina yfirgengilegu spillingu, samtryggingu, hagsmunaárekstra og innvortis bankahreinsanir beggja vegna Atlantshafsins bendir til þess að mikið sé á seyði.

Það hefði á rólegri tímum þótt lítil frétt ein og sér að fjárfestingarbanki eins og MF Global í miðborg Chicago rúllaði á hausinn á dögunum. En annað er nú að koma á daginn. Komið hefur í ljós að allt að tveir milljarðar dollara af peningalegum innistæðum í þessum banka eru TÝNDIR.  Forstjóri  MF Global er aldeilis hlessa og segist í blaðaviðtölum algerlega grunlaus um hvað hafi orðið af fénu. Hann er lygalaupur sem treystir á að samtryggingin milli bankahagsmuna, pressunnar, eftirlitsaðila og dómstóla - haldi gagnvart grunlausum innstæðueigendum hjá MF Global. Þess má geta að naglinn sem lokaði líkkistunni yfir MF Global var trú stjórnenda bankans á ríkisskuldabréf frá ýmsum gjaldþrota Evrópulöndum. Margt bendir til að MF Global hafi týnt þessu fé í endurhverfum viðskiptum í Bretlandi.

Margt bendir til að MF Global hafi nýtt sér afar rýmilegar reglur, aðallega í Bretlandi um reikningshald fyrir þeim verðmætum sem verið var að veðsetja í endurhverfum viðskiptum bankans með alþjóðlegar fjárskuldbindingar og hvernig hann fjármagnaði starfsemi sína þar í landi.

Það er t.d álit starfsmanna Alþjóða Gjaldeyrissjóðsins - þessu til nánari skýringar, að á árinu 2007 hafi bandarískir bankar grætt um 4.0 trilljarða  dollara (Ísl: billjónir) á endurhverfum viðskptum út á veðsetingar að nafnvirði um 1.0 trilljarð dollara, semsagt um 400% hagnaðarhlutfall. Á árinu 2009 var þessi hagnaður þeirra fallinn í um 2,9 trilljarða dollara skv. sömu heimildum.

En þetta er ekki allt. Margt bendir til að þessir hugsanlegu 2.0 milljarðar dollara af peningalegum innstæðum á sparisjóðsreikningum í eigu viðskiptavina MF Global hafi verið fluttir til Bretlands og víðar ÁN þess að eigendur fjárins vissu af því (já, við erum að tala um reiðufé, ekki verðbréf eða innlagnir í sameignar- / vogunrsjóði).  Skýringin á því að MF Global gat gert þessar ráðstafanir með reiðufé er m.a. sú að reikningsskilastaðlar krefjast þess ekki að viðkomandi banki sýni innstæðurnar á eignarhlið efnahagsreiknings. Það var því útilokað að utanaðkomandi gætu séð hvað þeir voru að gera. Greiðslufall evrópskra ríkja á skuldabréfum og verðfall þeirra bréfa er það sem lýsir upp þessi víðtæku umboðssvik sem MF Global gæti verið sekur um. Það sem er enn ískyggilegra er að bandarískir fjárfestingarbankar og fleiri slíkir virðast hafa gert svipaða hluti árum saman með vitund yfirvalda. Sé það rétt er það dauðadómur yfir bandaríska fjármálakerfinu í heild.

Vandræði stjórnenda MF Global eru þó rétt að byrja, því skv. heimildum reyndi Jon Corzine forstjóri MF Global að hafa áhrif á afstöðu og hugsanlegar aðgerðir bandaríska fjármálaeftirlitsins fyrir tveimur árum síðan. Þær aðgerðir áttu að sögn að hafa áhrif á starfsemi banka í endurhverfum viðskiptum.

Hversu stór er þá hlutur endurhverfra bankaviðskipta í gjaldþroti Evrópu? Sennilega mjög stór. Aðal vísbendingin kemur frá vorinu 2008. Á síðustu vikunum og mánuðunum fyrir fall Lehman bankans tóku stjórnendur hans að færa fé í afar miklu magni frá Bretlandi til Bandaríkjanna. Það var áreiðanlega ekki gert af þeirri ástæðu einni að þeir hafi óttast að Bretland væri komið að hruni. Breska fjármálakerfið nötraði  í áfalllinu en það er engu að síður rökrétt að álykta að Lehman hafi verið í sömu stöðu gagnvart sínum viðskiptavinum og MF Global er í dag. 

Íslenskir bankar vou með í þessum leik og það átti sinn þátt í því að breska stjórnin beitti nauðvörn gegn íslenskum bankamönnum sem stóðu í nákvæmlega því sama í ágúst 2008 og starfsmenn Lehman nokkrum mánuðum áður. Þeir voru að flytja fé frá Bretlandi án þess að gera grein fyrir því og lugu að íslenskum ráðamönnum um eðli þess sem þeir voru að gera.

Vitað er að franska og þýska bankakerfið riðar til falls vegna líkra ráðstafana í lánastarfsemi sinni. Flækjan sem Angela Merkel og Nikolas Sarkosy hafa nú tekið pólitíska ábyrgð á að greiða úr er margfalt stærri en nokkur getur ímyndað sér. En staðan í Evrópu er komin á það stig að hrökkvi upp úr þeim eitt raunsætt orð um hver hún er í raun, þá er ballið búið.  Evrusósíalisminn er eins og skrímsli á hælum þeirra. Ef þau nema staðar verða þau honum að bráð.


EU: Svona er fjárhagsstaðan (skuldastaðan)

Skv. upplýsingum frá einu af þekktari ráðgjafarfyrirtækjum um fjárfestingar í City of London eru skuldir nokkurra lykilríkja í Evrópu þessar, mældar í % - um af vergri landsframleiðslu. Röðin er svona:

1. Grikkland 157,7% af VLF

2.Italía 120

3. Portugal 101

4. Belgía 97

5. Frakkland 85

6. Þýskaland 82

7. Austurríki 74

8. Spánn 68.1

9. Malta 68

10. Holland 64

11. Finnland 50

12. Slóvakía 44

13. Slóvenía 43

14. Luxembourg 17

Nokkrar stuttar athugasemdir til að skapa umræður:

a) Skv. Maastricht sáttmálanum eru aðildarlönd Evrópusambandsins skuldbundin til að fara ekki yfir 60% skuldsetningu af VLF

b) MEÐALTAL skulda þessara ríkja er 87.7% af VLF

c) Hagvöxtur í flestum þessara ríkja er lítill eða neikvæður og horfur ekki góðar fyrir næstu 3 ár.

d) Viðskiptakjör þeirra hafa versnað á fjármálamörkuðum vegna ævintýralegrar skuldsetningar, stjornleysis, viljaleysis til að standa við gerða samninga og ríkrar tilhneigingar stjórnmálamanna til að hegða sér eins og Loðvík XVI. Það á við um svo til ÖLL ríkin.

e) Lítið sem ekkert svigrúm er til skattahækkana

f) Fyrir liggur að skera þarf niður alla samneyslu á svæðinu um verulegar fjárhæðir. Því er svarað með verkföllum. Nú þegar.  Opinberir starfsmenn í Bretlandi eru meira en 8.0 milljónir. Þeim verður trúlega fækkað um 20 ... hugsanlega 30%

g) ESB horfir vongóðum augum til ýmissa átta, m.a. til Ameríku. Skuldir Bandaríska ríkisins nema nú yfir 15.000 milljörðum dollara. Fyrirsjáanlegt er að innan skamms muni um 40% af tekjum ríkisins fara í vaxtagreiðslur af þessum skuldum. Tekjur ríkissjóðs Bandaríkjanna eru um 2.200 milljarðar dollara. Fastar greiðslur skv. fjárlögum þessa árs eru 3.800 milljarðar dollara. Eru þeir aflögufærir um fé? Hér með er óskað eftir upplýsingum um það (ekki tala um seðlaprentun, það trikk er orðið lúið, eða er að verða það ....)

h) Íslendingar eru á leið í Evrópusambandið, hvort sem þeim 65% sem eru því andvíg líkar það betur eða verr. Fyrir því standa nokkrir atvinnupólitíkusar sem ekki hafa opnað bók eða blað síðan 1973. Þeir eru á leið á eftirlaun og langar til að eyða þeim á ökrum Elúsíu....

PS: Við fáum gefins pening frá Evrópusamandinu ... 600 milljónir í síðustu viku. Það fé á að fara í að kenna okkur að hekla bláa fána.  Þetta verður allt í lagi. 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Guðmundur Kjartansson

Höfundur

Guðmundur Kjartansson
Guðmundur Kjartansson
Fæddur í Reykjavík, uppalinn í Borgarfirði. Hef lengst af starfað við verslun og viðskipti, landbúnað og ferðamál. Stúd. MR. Nám við H.í. og síðar í Bandaríkjunum. Lauk þaðan BA í Busin. Adm. Finance og síðar MBA af stjórnunarsviði. Endurmenntun og fjöldi námskeiða HÍ og HR. Hef ritað talsvert í blöð, m.a. um skatta- og tollamál, landbúnað ofl. Á blog.is síðan í feb. 2011. Meðlimur í Fél. Viðskiptafræðinga og Hagfræðinga frá 2000.
Feb. 2025
S M Þ M F F L
            1
2 3 4 5 6 7 8
9 10 11 12 13 14 15
16 17 18 19 20 21 22
23 24 25 26 27 28  

Nýjustu myndir

  • ...9794_3856_n

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (2.2.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband