Hvað eru verðmæti? Peningar?

Hagfræðin er ein af undirstöðugreinum félagsvísinda og aðal viðfangsefni hennar er maðurinn og auðlindir jarðar.  Skipting gæðanna og leit að hagkvæmni sem tryggir hámarks afköst og afrakstur. Ekki gengur það nú skv. forskriftinni í öllum tilvikum og þá dynja skammirnar á þeim sem spá og spekulera og gefa góð ráð í nafni þessa fræðikerfis sem hinir fornu grikkir nefndu Oikos Nomos. Hússtjórnarfræði á góðri íslensku. Hagfræði er seinni tíma hugtak og miklu fínna orð að margra dómi. Kannski vegna þess að það er óljósara.

Gjaldmiðlar heimsins eru flestir ónýtir eftir fallið mikla sem kom til mest vegna óheftrar spákaupmennsku og yfirspenntra arðsemishugmynda um allt milli himins og jarðar. Íslenska krónan er aðeins lítið brot af þessari stórkostlegu sögu sem nú er skrifuð í mörgum megabitum á degi hverjum. Stjórnlaust.

Stærstu seðlabankar heimsins standa nú undir nafni fremur en áður. Þeir hafa aldrei verið eins duglegir við að prenta peningaseðla eins og nú og verðgildi þeirra „peninga“ fellur jafn hratt og þeir renna út af færibandinu eða í rafrænum útgáfum. Allir eru að búa til peninga. Framleiðsla og efnisleg gæði sem birtingarmynd í peningum er fallin og ekkert nema tóm komið í staðinn. Þýskaland anno 1923 kemur óþægilega oft upp í hugann af þessu tilefni. Nú eru það Bandaríkin sem eru að keyra allar sínar lestir út af sporinu. Heimurinn fylgir þeim fjálglega, enda álíta menn dollarann traustan sem fyrr.

Einu verðmætin sem útgefendur þessa pappírs sjá eru vextirnir sem lánaþrælarnir borga. Vextirnir eru virðisaukinn og um leið arðurinn af vinnu þeirra sem mynda sjálft hagkerfið. Þess vegna ber að gjalda varhug við yfirlýsingum íslenska seðlabankans um að hann „eigi“ svo og svo mikla peninga í varasjóðum. Hann á ekki krónu .... eða cent.

Umræðan um gjaldmiðil íslendinga í bráð og lengd hlýtur á endanum að mótast af kröfum um stöðugleika og raungildi. Íslenska krónan hefur fallið um 2.200% síðan hún var tekin upp. Hún hefur samt sína kosti eins og flestum mun nú ljóst orðið og hún er í reynd hluti þess kerfis sem myndar sjálft fullveldið, burtséð frá hversu vel eða illa tekist hefur að hafa stjórn á málum.

Viðfangsefni hagfræðinnar er aðallega ótakmarkaðar kröfur mannsins og takmarkaðar auðlindir. Mönnum hættir til að trúa um of á skyndilausnir, patent lausnir og trúboð á þessu fræðasviði. Staðreyndin er sú að tilteknar ráðstafanir duga við tilteknar aðstæður í takmarkaðan tíma. Menn þurfa að læra á takmörkin og það að allt er í heiminum hverfult, sérstaklega allt sem snýr að mannlegu atferli. Það er hið mest óútreiknanlega fyrirbæri í heiminum eins og Isaac Newton komst að hér um árið. Hann tapaði aleigunni í skuldabréfabraski.

Maður nokkur labbaði sér inn í svissneskan banka með tvær milljónir franka sem hann hafði fengið fyrir landspildu. Hann spurði bankastjórann hvað hann ætti að gera við peningana. Svar bankastjórans var: „Kauptu þér landspildu“

Hagfræðin getur í besta falli verið áhald til þess að hjálpa okkur að skilja flókin viðfangsefni – ef menn hafa vit á að spyrja réttu spurninganna. En það virðist vera vandamál líka!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sumarliði Einar Daðason

Mjög góð grein hjá þér.

Sumarliði Einar Daðason, 21.6.2011 kl. 10:57

2 Smámynd: Hörður B Hjartarson

  Já Gummi "Allt er í heiminum hverfult ,sérstakleg það sem snýr að mannlegu atferli" segir þú , enda er það mín skoðun að enga banka sé að fynna á Íslandi í dag , einvörðungu    blanka   , allir komnir á gnýpinn af "sénía" völdum .

 En getur þú sagt mér hvenær við tókum upp krónuna - hættum við þá með spesíurnar , eða var eitthvað þar á milli - jú var ekki danska krónan ?

Hörður B Hjartarson, 21.6.2011 kl. 16:27

3 Smámynd: Guðmundur Kjartansson

Ísland fékk sjálfstæða mynt með breytingu sem varð á stöðu lands og þjóðar við setningu Stöðulaganna frá 1871, en frá um 1770 hafði myntin verið hálfsameiginleg með Danmörku. Við notuðum ríkisdali til 1871. Innlend seðlaútgáfa fór fljótlega í gang og má heita alfarið í höndum íslendinga eftir að heimastjórnin komst á.

Íslenska krónan var tekin upp 1871 en hún var á pari við þá dönsku við setningu sambandslaganna 1918. 

Það sem hefur gerst eftir þann tíma sýnir hvernig gjaldmiðillinn er þynntur út til þess að viðhalda atvinnustigi og í tengslum við viðleitni stjórnvalda til þess að mæta ytri áföllum eins og aflabresti eða stórstyrjöldum þar sem allt peningakefi heimsins gengur úr skorðum. Eins og það er nú.

Skipt var um gjaldmiðil 1981, þótt nýja myntin hafi heitað króna eins og sú gamla. Margir blinduðust af þessu og þjóðin fór á eyðslufyllerí sem endaði með algeru hruni seinni part árs 1988. Sú kreppa stóð til 1996 og svo er heilmikil saga eftir það.

Guðmundur Kjartansson, 21.6.2011 kl. 18:56

Um bloggið

Guðmundur Kjartansson

Höfundur

Guðmundur Kjartansson
Guðmundur Kjartansson
Fæddur í Reykjavík, uppalinn í Borgarfirði. Hef lengst af starfað við verslun og viðskipti, landbúnað og ferðamál. Stúd. MR. Nám við H.í. og síðar í Bandaríkjunum. Lauk þaðan BA í Busin. Adm. Finance og síðar MBA af stjórnunarsviði. Endurmenntun og fjöldi námskeiða HÍ og HR. Hef ritað talsvert í blöð, m.a. um skatta- og tollamál, landbúnað ofl. Á blog.is síðan í feb. 2011. Meðlimur í Fél. Viðskiptafræðinga og Hagfræðinga frá 2000.
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • ...9794_3856_n

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (28.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband