4.4.2012 | 09:45
OKUR.IS
Hún er skemmtilega óupplýst umræðan um okrið á landinu bláa. Bæði opinbert og einkavætt. Verðbólgan sem sífellt mælist hér langt umfram það sem gerist í öðrum löndum á sér skýringar í samfélagsgerðinni og mörgu fleiru. Það sem fyrst og fremst veldur er smæð markaðarins, einangrun og náttúruleg fákeppni á öllum sviðum.
Ekki var hún falleg reynslan sem ríksstjórnin hafði af einkavæðingu bankanna á sínum tíma. Íslensku stórbankarnir þrír, allir í eigu ríksins áttu að verða gáttin sem myndi opna á flæði erlends fjármagns, lækkun vaxta með varanlegum hætti og fullkomna samkeppni þegar erlendir fjármálamenn kæmu hér að borðinu til að njóta hins nýfrjálsa íslenska hagkerfis. En enginn hringdi .... fyrr en Björgólfur tók upp símann. Þá var það Halldór Ásgrímsson sem svaraði. Afleiðingarnar vörpuðu íslenskum verslunarháttum aftur til 1950. Höft og opinber yfirseta á öllum sviðum og nú er í landinu sérstakur alþýðuher sem marserar inn í fyrirtæki sem grunuð eru um að selja einn fisk fyrir hálft brauð.
Verslunin í landinu býr við samkeppnisaðstæður sem eru þannig að hún verðleggur sig eftir sínum hentugleikum. Öllum ytri breytingum er miskunnarlaust fleytt út á næsta mann.
Sama á við um opinbera þjónustu, hverju nafni sem nefnist. Allar breytingar á umhverfinu skila sér samdægurs á kassastrimilinn. Litla Gunna þarf að kaupa smáræði og sér ekkert athugavert, enda kerlingin orðin við aldur og illa læs á smátt letur úr bleksprautuprenturunum, þótt hún noti gleraugu.
Hin geigvænlega eignamyndun í versluninni í landinu sýnir að afkoma hennar hefur löngum verið langt um fram það sem í rekstrarhagfræði er kennt við jafnvægishagnað. Eitt einkennið er að margir af auðugustu kaupmönnum landsins hafa staðið í biðröð í 15 20 ár eftir því að fá að tapa fé á fjölmiðlasamsteypu sem var stofnuð þannig að tveir ungir ofurhugar sem nutu velvildar bankastjórnar gamla Verslunarbankans, báru út allt eigið fé hans á einum eftirmiðdegi. Þannig hófst það ævintýri.
Fjárhagur íslensks alþýðufólks er síðan ofurseldur stjórnlausri vítisvél sem er sérstakt gæludýr hagfræðiakademíunnar í landinu. Smyrjararnir í vélarrúmi verðtryggingarinnar sjá ekkert nema lygnan sjó, enda talið að ef þrælkuninni yrði aflétt, þá myndu Jón og Gunna leggjast í sukk og siglingar. Í staðinn fá þau hjón reikning frá ríkinu, Íbúðalánasjóði og viðskiptabanka sínum um hver mánaðamót þar sem þeim er tilkynnt að nauðsynlegt hafi verið að taka upp hluta eignar þeirra í litla húsinu. Tilkynningunni fylgir umvöndun um lúxusflakk á bílskrjóð þeirra hjóna og meintan drykkjuskap Jóns, sem hafi verið reynt að stemma stigu við með annars óforvarandi hækkun á benzíni og brennivíni sem ríkið álítur að þau hjón liggi í alla daga.
En þau eru auðvitað reglusamt og sparsamt fólk hjónin svo þau álita þetta neysluvandamál ekki koma sér við. En á meðan þau sofa sínum réttláta svefni læðast verðtryggingarpöddurnar fram í rökkrið og naga í sundur viðina sem bera uppi húsið.
Jón ku reyndar búinn að leysa allan sinn vanda þar eð hann hefur fundið upp aðferð til þess að vinna eldsneyti úr grasinu úr garðinum þeirra. Kostnaðarverð á lítra eru 66 krónur. Það er bara einn vandi: Olíumálaráðherrann, sem á frænda í stjórn félags sem flytur inn benzín, ætlar að leggja 300% toll á vélar til moltugerðar og eflaust sérstakan samkeppnisjöfnunarskatt á heimagert eldsneyti. Skatturinn nemur 200 krónum á lítra.
Þá er þess að geta að íslendingar hafa nú ákveðið að nota tækifærið og bjarga fjárhag sínum með þeim hætti að bora eftir olíu í norðurhöfum þegar meint hnattræn hlýnun af völdum brennslu jarðefnaeldsneytis hefur brætt ísinn af Norður Íshafinu og gert tempruð loftslagsbelti jarðar óbyggileg sökum hita og foksands.
Ef illa fer getum við sagt eins og Lási kokkur þegar togarinn sökk: "Guð minn góður! Skipið að sökkva og ég ekki búinn að vaska upp!"
Um bloggið
Guðmundur Kjartansson
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (2.2.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Alveg snilldar pistill herra Guðmundur Kjartansson!
Sigurður Alfreð Herlufsen, 4.4.2012 kl. 11:32
Kærar þakkir Sigurður og ég vildi segja þér að ég mun aldrei gleyma frímerkjasögunni og Danmerkurför þinni þarna um árið.
Aldarspegillinn birstist nú í því að í staðinn fyrir frímerki nota menn nýveiddan karfa og Rolex úr frá Michelsen til að komast framhjá sovétinu.
Takk aftur og gleðilega páska!
Guðmundur Kjartansson, 4.4.2012 kl. 11:56