Kaflar úr hagstjórnarsögu

Hagstjórnarsögu heimsins bætast nú nýir kaflar á hverjum degi. Þeir eru athyglisverðir .... þó ekki alveg nýir af nálinni. Listin að búa til peninga úr engu hefur nú náð áður óþekktum hæðum. Þeir sem á að ræna láta sér vel líka.

Endalok flestra stærstu velda og hagkerfa sögunnar eru skráð í sama mynstur og á jafn mörgum tungumálum og menningarheildirnar sem þau byggðu tilvist sína á: Róm AD 271; Bysanz AD 1094; Bretland 1794; Þýskaland 1918-33 og hagkerfi nútímans allt frá Japan í austri til vesturstrandar Bandaríkjanna.

Öll þessi föllnu hagkerfi og hrundar þjóðaheildir eiga það sameiginlegt að hafa étið undan sér lappirnar með stjórnlausri myntsláttu og taprekstri á sjóðum ríkisins. Engu skiptir lengur hvort menn notuðu gull eða aðra góðmálma sem gjaldmiðil eða baktryggingu hans; óprúttnir kommissarar hjá myntsláttum og seðlabönkum hafa fundið leiðir til að lifa lygina vel og lengi. Allt gert í dyggri þjónustu við furstana, sjálfskipaða eða kosna í miklum lýðræðisbjarma.

Japan skiptir um fjármálaráðherra tvisvar á ári og eyðir helmngi tekna ríkissjóðs í vexti og afborganir af ríkisskuldabréfum og hinn hrokafulli Bernanke telur sig vita dulítið meira um hagfræði myntsláttunnar en Aurelianus keisari í Róm á árinu 271. Aurelíanus lét hálshöggva yfirmenn rómversku myntsláttunnar og fékk sínu framgengt við að koma skikki á fjármál ríkisins. Það dugði í tvær aldir eða þar til ríkið klofnaði í tvennt. Allt í verðbólgubáli og upplausn í stjórn á fjármálum ríkisins, sukki og svínaríi. Kannast nokkur við slíkt? Nei, auðvitað enginn. Nútímamaðurinn er sá fyrsti af öllum kynslóðum til að hugsa alveg skýrt. Hann skilur vandann!

Ef telja ætti upp í þá tölu sem skuldir japanska ríkisins standa í á vorum dögum tæki það um 33 milljónir ára. Talan sem þá stæði er með 15 núll á eftir sér.

Skuldastaða ríkja heimsins er sú hæsta sem menn hafa séð á friðartímum. Sagan kennir að hingað til hafi ríki eða ríkjaheildir brotist út úr slíku annaðhvort með stríðsátökum við lánardrottna sína þar sem þeir hafa annaðhvort orðið undir og breyst í þræla eigin glópsku eða sigrað og getað haldið áfram helreiðinni. Um stund.

Fjöldi manna víða um heim hagnast á þessu stjórnlausa og brjálaða ástandi. Ísland er eitt þeirra ríkja sem sökk og var kannski heppið að hafa verið með þeim fyrstu sem fóru á hausinn. Langt er þó í að Ísland sjái fyrir endann á sínum skuldamálum þótt landið hafi hugsanlega sloppið frá 14 þúsund milljarða króna skellinum. En gjaldþrot Íslands er þriðja stærsta gjaldþrot gervallrar bankasögunnar. Það er afrek.

Japan er ýktast og vitlausast allra þeirra dæma sem hægt er að benda á. Kannski er það víti til að varast. Þjóðinni fækkar, tekjur dragast saman, skuldir ríksins eru 2,5 sinnum þjóðartekjur ársins; tíu sinnum skattekjur ríkissjóðs á ári, helmingur þjóðarinnar er kominn á eftirlaun, þeir eru mestu kynþáttahatarar veraldar .... aðeins um ein milljón manna búsett í Japan er af erlendu bergi brotin. Þarna er aðeins eitt svar til úrlausnar .... eins og allsstaðar annarsstaðar.

Afskriftir, niðurfelling skulda, vaxtaafsláttur, afnám verðtryggðra lánskjara, nýir gjaldmiðlar og stjórnarskrárbundin ákvæði um rekstur ríkissjóðs. En öllu þessu fylgir herkostnaður sem enginn mun sjálfviljugur taka á sig.

Pólitíska umhverfið er hins vegar þannig að í stað frumkvæðis í þessa átt - sem krefst gífurlegs pólitísks hugrekkis er haldið áfram að eyða peningum sem ekki eru til. Viðvarandi hallarekstur ríkissjóða um víða veröld er orðinn ógn við frelsi og sjáfstæði einstaklinga og ríkja. En almenningur virðist kæra sig kollóttan. Öllum tilraunum lýðkjörinna ráðamanna til að skera niður og koma skikki á málin er mætt með uppþotum.

Fólk æðir út á göturnar með bæturnar í veskinu og heimtar meiri opinbera velferð. Það fær hana áfram um stund allt þar til byggingin sem verið er að reisa úr leirnum fellur undir eigin þyngd. Frakkar sýndu þessa stefnu í verki með því að kjósa sósíalistann Francois Hollande í embætti forseta. Hann var kosinn út á loforð um meiri hagstjórn í anda Keynes. Það inniifelur meiri opinberan rekstur fyrir skattfé, auknar álögur á auðmenn og aukna opinbera skuldasöfnun. Auðmennirnir eru flúnir.

Á Spáni er staðan þannig að búið er að flytja í burtu, út úr spænska hagkerfinu hátt í 20% auðæva landsins. 6000 bankar á samlagssvæði evrópska seðlabankans bíða við dyr hans með hattinn í hendinni og vonast eftir ölmusu. Svo þeir geti haldið áfram að kaupa ríkisskuldabréf frá Grikklandi, Ítalíu, Portúgal og fleiri gjaldþota ríkjum. Með 10-20% afföllum. "Ávöxtunarkrafa" hét það þegar verðtryggða kynslóðin á Íslandi var að hnoða á sig fótakeflið.

Heilir herskarar embættismanna og sérfræðinga hafa þann starfa með höndum að matreiða fréttir af hgfræði ofan í almenning þannig að þegar fallið kemur eigi menn sér einskis ills von. Nútíma Potemkin tjöld. Það sem gerist sýnist ekki sérlega fallegt. Heimshagkefið er orðið að einu risavöxnu færibandi. Allt í nafni hagræðingar sem kennir að enginn skuli halda birgðir. JIT - "Just-in-time inventory system" heitir það á ensku. Einmitt þegar síðasti hveitipokinn er tekinn úr hillunni, er trukkurinn að bakka að vörudyrunum með næstu sendingu. Hvað ef hann kemur ekki?

Það sem blasir við þegar hundruðir milljóna manna sem hafa í nokkrar kynslóðir búið við allsnægtir geta ekki lengur fengið afgreidd matvæli í stórmörkuðum eða bensín á bílana sína er neyð, uppþot, upplausn og hungur. Vörur fást ekki vegna þess að birgðastaða helstu stórmarkaða dugir aðeins fyrir þriggja daga sölu og í síðara tilvikinu af því að þegar gjaldmiðlakerfið hrynur og alþjóðleg greiðslumiðlun bræðir úr sér dugar ekkert nema gullmynt eða seðlar í tryggðri mynt. Margt bendir til að það verði gjaldmiðill með raunverulega gulltryggingu. Amk. til bráðabirgða. Gullfóturinn er ekki nein lausn til lengdar. Reynsla er fyrir því en hann gæti verið nauðsyn á meðan ný skipan kemst á eftir hvellinn.

Það er því kannski sniðugt að fjárfesta í skuldalúkningu, rúsínum, hveiti, hnetum eða kaffi, þurrmjólk og öðru sem þolir geymslu í amk eitt ár. Íslenskur matur; slátur, skyr og mysa. Gott að hafa í huga.

Menn munu þurfa að þreyja þorrann á meðan ný skipan kemst á. Hver sú skipan verður og hversu langan tíma tekur að koma henni á fer eftir því hversu lengi firringin heldur áfram og hvort henni lýkur með meiri eða minni háttar átökum - innan þjóða eða millum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Um margt ágætur og fókuseraður pistill. Þú virðist samt aðeins fastur í þeirri gömlu klisju að það sé ríkið sem vandanum valdi með því að prenta peninga og þora ekki að taka á lýðnum með niðurskurði. Sjálfsagt er það undirliggjandi vandamál en frumorsökin er nú líklegar afreglun alþjóðlega fjármálageirans sem lagði af gullfótinn en tók ekki upp neina skynsemi í staðin heldur tók sjálfur til við að prenta peninga.      

    Sjáum bara hvað gerðist hér á Íslandi hjá "kanarífuglinum í námunni".  Auðmennirnir settu landið í risagjaldþrot og þó almenningur spilaði með þá er það bara svo lítið í samhenginu að niðurskurður í menta-  og heilbriggðiskerfi og hvað við köllum nú samneysluna, mun vera eins og dropi  hafið. Aðhald í opinbera kerfinu er sjálfsagt og á alltaf að vera á dagskrá en það er epli í samanburði við appelsínur uppdiktaða nýfrjálshyggju pappírshagkerfisins sem er verið með öllum ráður að reyna að láta sjúga verðmætin úr raunhagkerfinu (eins og þú bendir á í pistli) m.a. með því að krefjast niðurskurðar í almannakerfi svo hægt sé að greiða meira niður af meintum skuldum ríkisins (sem það var látið taka á sig frá bönkunum).

Bjarni Gunnlaugur (IP-tala skráð) 11.1.2013 kl. 13:27

2 identicon

Kanski að alþjóðahagkerfið ætti að taka upp platínufót eða jafnvel  thorium fót?

Hugsanlega væri eðlilegast fyrir Íslendinga að miða sitt peningakerfi næstu áratugi við vetrarfóðraða kind (sauðslegg frekar en gullfót).    Minnir okkur á hver okkar grunnur er og vegna hlýnunar þá mun hægfara fjölgun sauðfjár haldast í hendur við hagvöxt. ;-)

Bjarni Gunnlaugur (IP-tala skráð) 11.1.2013 kl. 13:37

3 Smámynd: Guðmundur Kjartansson

Takk Bjarni Gunnlaugur, fyrir málefnalegt innlegg.

Hið vitfirrta viðskiptamódel með ríkisskuldabréfin er circa svona: Tökum eitthvað dæmigert, iðnvætt velferðarríki. Búið er að reka ríkissjóð með 2-4% halla meira eða minna í 30-50 ár. Stundum gekk það, sérskaklega á tímum þegar hagvöxtur var rúmur og að ekki sé minnst á hækkun gengis gjaldmiðilsins vegna hagstæðra viðskiptakjara. En svo koma niðursveiflur og þá vill enginn taka í taumana. Hin pólitíska loftvog fellur og það er bara svo notalegt að ganga að embættinu glóðvolgu á næsta degi. Frestun.

Nú er staðan hjá þessu ímyndaða ríki þannig að það skuldar 10 ára skattekjur eða alla þjóðarframleiðslu til nokkurra ára. Stjórnmálaforingjar lofa betri tíð og tala um tímabundna erfiðleika. Það er það sem menn vilja heyra. En veruleikinn er sá að viððkomandi þjóðfélag er búið að eyða öllu sínu og meira til.

Svo fær fjármálaráðherra ríkisins það hlutverk að undirrita nýjan flokk skuldabréfa sem nota á til að fjármagna áframhaldandi hallarekstur og til að greiða niður eitthvað af eldri lánum. Kaupandi bréfanna er seðlabanki landsins sem er svo vel settur að hann hefur rétt til að prenta peninga skv. lögbundnu einkaleyfi. Ríkisskuldabréfin tekur svo seðlabankinn og selur á frjálsum markaði innan lands og utan. Kannski í bland við slatta af undirmálslánum, tryggðum með veði í verðlausum eignum fólks sem lifir á ríkisstyrkjum greidum af þeim fáu sem enn hafa tekjur af arði af atvinnurekstri. Við erum að tala um dæmigert vestrænt velferðarríki með slatta af sósíaldemókratískum stjórnarhefðum.

Í sumum tilvikum selur fjármálaráðherrann skuldabréfin beint til viðskiptabankanna og annarra fjármálastofnana sem líka búa til peninga úr loftinu einu saman. Svo er talað um að hafa þurfi hemil á verðbólgunni. Það gerir seðlabankinn með stýrivaxtatækinu.

Einu sinni dugði það til einhvers, en ekki í dag.

Skýringin á því er sú að við lok sjöunda áratugarins sáu menn fyrir sér endalok neysluhyggjunnar. Neytendur sem drifið höfðu áfram hagvöxtinn á heimsvísu frá 1945 sýndu nú merki fjárþurrðar og kannski vaxandi aðgæslu í eyðslu sinni. Viðbrögð hagkerfanna voru að opna fyrir rýmileg lánsviðskipti. Kreditvæðingin mikla hófst með útgáfu kreditkorta til almennra neytenda um 1970. Afleiðingin birtist okkur í dag, þar sem þetta er ýktast í gerð að heilu þjóðirnar skulda heilar þjóðarframleiðslur á plastkortum, margir með 15-22% vöxtum. Þarna er ekkert svigrúm. Sama hversu mikið stýrivextir eru lækkaðir.

Platið heldur áfram eitthvað enn. Engin merki eru um að tekið verði á vandanum með afgerandi hætti áður en það er of seint.

Hvenær er það of seint?

Það verður of seint þegar ríkissjóðir margra skuldugustu ríkjanna lenda í greiðslufalli. Heilir herir embættismanna hafa það hlutverk með höndum að ljúga til um ástandið svo almenningur átti sig ekki á veruleikanum. Búið er að gera þjóðirnar gjaldþrota og sama er hversu mikil afföll verða boðin af ríkisskuldabréfum - enginn vill kaupa eftir að fyrsti víxillinn felur. Það sem gerist næst er félagsleg upplausn og neyð sem enginn sér fyrir endann á.

Guðmundur Kjartansson, 11.1.2013 kl. 16:29

Um bloggið

Guðmundur Kjartansson

Höfundur

Guðmundur Kjartansson
Guðmundur Kjartansson
Fæddur í Reykjavík, uppalinn í Borgarfirði. Hef lengst af starfað við verslun og viðskipti, landbúnað og ferðamál. Stúd. MR. Nám við H.í. og síðar í Bandaríkjunum. Lauk þaðan BA í Busin. Adm. Finance og síðar MBA af stjórnunarsviði. Endurmenntun og fjöldi námskeiða HÍ og HR. Hef ritað talsvert í blöð, m.a. um skatta- og tollamál, landbúnað ofl. Á blog.is síðan í feb. 2011. Meðlimur í Fél. Viðskiptafræðinga og Hagfræðinga frá 2000.
Feb. 2025
S M Þ M F F L
            1
2 3 4 5 6 7 8
9 10 11 12 13 14 15
16 17 18 19 20 21 22
23 24 25 26 27 28  

Nýjustu myndir

  • ...9794_3856_n

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (2.2.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband