Af raunum vísitöluþræla

Verðtryggð velferð, áhætta, peningar og íslenska fjármálaakademían. Allt þetta var er og verður áfram áberandi í þeirri upplausnarkenndu umræðu sem fram fer í öllum skúmaskotum sósíalísku gleðieyjunnar. Reynum aðeins að greina aðalatriðin frá aukaatriðum.

Byrjum á verðtryggingunni:

Það er rétt sem fram kemur í fjölda pistla, álitsgerðum hagfræðinga, uppgjafaráðherra og annarra sem komið hafa að innleiðingu hennar og úrvinnslu  - að innleiðing vísitölubindingarinnar var þrautalending eftir áratuga langa baráttu við óstjórnlega verðþenslu og óviðráðanlegt víxlgengi kaupgjalds og verðlags. Það tók  60 – 70 ár að fá forystu verkalýðshreyfingarinnar til þess að skilja að það væri betra að fá 2% taxtahækkun á almenn laun og fá að halda þeirri hækkun, heldur en að fá 10% hækkun og vera búinn að missa hana í verðlagshækkanir um næstu mánaðamót. Stétt með stétt er milku betra en stétt gegn stétt.

Atvinnurekendur og verslunin í landinu hafa aldrei gert neitt annað en að veita óraunhæfum launahækkunum beina leið út í verðlagið.  Sama gildir um vaxtaokrið. Þeir geta ekki neitt annað. Þjóðnýting atvinnuveganna er auðvitað lausn sósíalistanna og allir á framfæri ríkisins – það er lausnin sem nú er boðuð fyrir lífeyissjóðina.  Það fólk sem talar fyrir slíku er þar í hlutverki apans sem tók að sér að skipta ostinum.

Peningar:

Það er rétt að það er rangt að láta saklausa sparifjáreigendur, fermingarbörn og gamalmenni bera herkostnaðinn af gjaldþrota hagstjórn, óraunhæfum kjarasamningum og frelsi atvinnurekenda til þess að skola af sér sandkastala sem sífellt er reynt að reisa á þeirra kostnað út um alla bæi landsins.  Misgengi og tap er ekki gjaldmiðlinum að kenna heldur þeim sem á honum halda. Gjaldmiðillinn segir ljóta sögu og hún er þvi miður sönn. Menn standa í röðum og bíða eftir að fá að hengja á sig aðrar bjöllur, sem betur hljóma. Þetta er það sem Suður Evrópa trúði þegar hún gekk í Evrópusambandið.  Peningar, allsnægtir, brauð og leikir er það sem lofað var.

En HVAÐ var það sem gerðist í febrúar 1979? Í hverju felst  aðalbreytingin? Hún felst mest í tveimur þáttum, báðum jafn afdrifaríkum fyrir afkomu heimila landsins. Í fyrsta lagi er nauðsynlegt að minna menn á að áhætta af fjármálaviðskiptum, þar sem peningar skipta um hendur eins og hver önnur framleiðsluvara, var flutt óskipt frá sparifjáreigendum og fjármálastofnunum yfir á herðar lántaka.

Við þetta hvarf öll þörf á áhættumati hjá bönkunum út í veður og vind. Ein afleiðing þessa  er  þá í öðru lagi faraldurskennd hneiging til bóluhegðunar í hagkerfinu. Bankarnir gátu nú lánað út fé nokkurnveginn áhyggjulaust óháð til hvers það fé skyldi notað – ef aðeins tryggingar væru nægar. Bankarnir gátu í makindum leyst til sín eignir lántaka og ábyrgðarmanna þeirra.  Bankarnir BERA sína ábyrgð á ástandinu, þótt þeir hafi skipt um kennitölur og kannist ekki við þátt sinn í Íslandsbrunanum. Spyrjið þá um ástæður þess að fasteignaverð fer hækkandi í gjaldþrota hagkerfi.

Þá er það niðurfærslan á skuldum heimilanna:  

6. Október 2008 var EKKI venjubundinn dagur í íslensku fjármálastarfi og rekstri bankanna. Forystumenn í hinum íslenska fjármálaheimi halda því fram að stofnanir þær sem þeir þjóna eigi að njóta verðtryggingaráhrifanna af þeim ragnarökum sem þá áttu sér stað. Við það getur almenningur í landinu ekki sætt sig. Fjárhæðin skiptir máli, en hún kemur síðar í þessari röksemdafærslu. Hún snýst um fleira.

Aðalatriðið er það að þarna urðu til fjallháar öldur sem færðu allt í kaf. Hið alþjóðlega fjármálakerfi ber ábyrgð á þvi máli svo og spekúlantar, veðmálahaukar og siðlaus séní sem nú fara mikinn í málsvörninni fyrir svínaríinu.  Það hvernig verðtryggingin afskræmir alla starfsemi hagkerfisins er efni í sérstaka skoðun en vitað er að allur slíkur útreikningur er meira eða minna bólginn af fikti og falsi.

Hver er krafan? Hún er svona, svo allur vafi sé af tekinn í eitt skiptið fyrir öll: AFMÁIÐ af efnahagsreikningum íslenskra fjármálafyrirtækja þessa færslu sem búin er að standa í eignadálkum þeirra frá ársuppgjörum þeirra sem lokað var m.v. 31.12 2008. Svo skulum við semja um aðrar aðgerðir.  Það er ekki fé sem viðkomandi stofnanir hafa lánað út. Hinir ráðdeildarsömu og skuldlausu njóta þess líka.

Þá að framtíðarmúsík.

Afnám verðtryggingarinnar með einhliða aðgerð eða einhliða upptaka annars gjaldmiðils er óframkvæmanleg við núverandi aðstæður. Þrennt annað kemur á undan:

1.       Uppgjör við erlenda lánardrottna íslenska ríkisins: 1400 milljarðar c.a.

2.       Jafnvægi – jöfnuður eða rekstrarafgangur af ríkissjóði og sveitarsjóðum.

3.       Endurvakinn þjóðarsáttarsamningur þar sem tekið er fullt tillit til hagvaxtar í amk. 5 ár.

Listinn er auðvitað miklu lengri en byrjum á stærstu þáttunum. Náist árangur með höfuðþættina fylgja hinir smærri á eftir.

Það er ansi ísmeygilega hugsað og sagt hjá mörgum fylgjendum inngöngu Íslands í hið fallandi Evrópusamband, að halda því fram að með því að gerast þar aðilar leysum við flest þau vandamál sem hér eru gerð að umræðuefni.  Það er of einfalt og auðvelt svar.

Værum við þar nú, þá stæðum við í sömu sporum efnahagslega  og  Grikkland, Írland, Portugal, Spánn og Ítalía. Innilokuð í hlekkjum gjaldmiðils sem við hefðum ekkert yfir að ráða og sætum uppi með hráar afleiðingar efnahagshrunsins: 30% atvinnuleysi, landflótta og innanlandsóeirðir af hendi fólks sem ætti ekki til hnífs né skeiðar um fyrirsjáanlega framtíð. Hrunskuldirnar voru um 14.000 milljarðar. Við sætum uppi með þær og værum að reyna að semja okkur frá því máli með tilvísunum til þjóðréttar og fullveldis. Því fullveldi á nú að „deila“ með elskulegum nágrannaþjóðum sem hafa reynst okkur svo vel.

Á meðan matsfyrirtækin, stórbankarnir og hinn rótgróni Euro sósíalismi ráða öllum ríkjum er okkur betur borgið upp á eigin býtti.  Nýjasta fórnarlambið er Króatía. Nú er gamli sósíalista- og kommúnistaaðallinn búinn að pakka niður í koffortin og eimpípurnar blása til brottfarar.

Áfangastaður: Brussel og feitir tékkar!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Takk fyrir þennan pistil Guðmundur Kjartansson. Hann er skýr og skorinorður. Þú hefðir betur fengið að flytja hann í Silfri-Egils 12. jan. sl. Það var ömurlegt að heyra og sjá Sighvat Björvinsson (S) koma eins og kvisling inn í stofur landamanna og hrópa niður þá sem reyndu að ljá heimilunum rödd sína. Guðmundur "hætti" Gunnarsson (S) og  Styrmir "steinhætti" (D) krunkuðu með. Þeir lugu ekki öllu. En hálfsannleikurinn er tilberi lyginnar. Þetta finnur almenningur á eigin skinni, sbr. skoðanakannanir!

Hrúturinn (IP-tala skráð) 15.2.2012 kl. 12:00

2 identicon

Les: 12. feb. sl.

Hrúturinn (IP-tala skráð) 15.2.2012 kl. 16:30

Um bloggið

Guðmundur Kjartansson

Höfundur

Guðmundur Kjartansson
Guðmundur Kjartansson
Fæddur í Reykjavík, uppalinn í Borgarfirði. Hef lengst af starfað við verslun og viðskipti, landbúnað og ferðamál. Stúd. MR. Nám við H.í. og síðar í Bandaríkjunum. Lauk þaðan BA í Busin. Adm. Finance og síðar MBA af stjórnunarsviði. Endurmenntun og fjöldi námskeiða HÍ og HR. Hef ritað talsvert í blöð, m.a. um skatta- og tollamál, landbúnað ofl. Á blog.is síðan í feb. 2011. Meðlimur í Fél. Viðskiptafræðinga og Hagfræðinga frá 2000.
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • ...9794_3856_n

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (27.4.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 11
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 11
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband