Af orðskálkum

Kurr er mikill í landinu. Margt  ber til. Flestum dettur í hug hugtök og frasar sem voru óþekktir á landinu bláa þar til fyrir þremur árum. Það urðu kaflaskipti.

Eitt er það sem elur öðru fremur á ólgunni og kerskninni en það er tvísagan og þrísagan sem stjórnmálamenn og embættisaðallinn í landinu beita í upplýsingamiðlun sinni og samskiptum við fjölmiðla og almenning. Fjölmiðlar stíga sporin létt með viðmælendum, enda þarf að þurrmjólka hverja sögu. Annars verða menn að tala um kött uppi í tré eða mann sem beit hund. Gúrkusneiðar.

Öllu þessu er miðlað skilmerkilega til hæstvirtra kjósenda sem líka borga hinn margnefnda brúsa. Lygin er eitt form ofbeldis og valdbeitingar. Hún er það vegna þess að sá sem beitir henni er að reyna að afstýra óhjákvæmilegum atburðum sem fyrirsjáanlega hlytust af því að „sleppa“ sannleikanum út í tómið. Hann vill ekki missa „stjórn“ á atburðum.

Vel kann að vera að það þjóni almannahagsmunum að ljóstra ekki upp smáatriðum, td á tímum fyrirsjáanlegs ófriðar eða þegar fyrir dyrum standa flóknir samningar sem hafa víðtækt gildi fyrir almannahag; land og þjóð. Þessu fylgir skylda um upplýsingu þegar hlutirnir liggja fullgerðir fyrir. Trúnaður um viðkvæm mál er allt annað en undansláttur eða tvísögli.

En nú á dögum er tvíræðninni og hálfkveðnum  vísum beitt í óendanlegri refskák þar sem allt liggur undir og greind hins venjulega manns er gróflega misboðið með vísvitandi missögnum um hluti sem ætu að ósekju að liggja ljósir fyrir. Æran er sviðin af mönnum á heildsöluprís og engar varnir til.

Fullyrðingar, ásakanir, undansláttur, óræðar yrðingar, gagnásakanir og gagnyrðingar; allt verður hinum metorðasjúka og sjálfmiðaða skriftubaldri að stiklu í viðleitni sinni til að halda völdum og áhrifum með því að leyna viðmælendur sína upplýsingum.

Ein afleiðing þessa er gengisfall tungunnar. Hvað varð um hugtakið „fjölræði“ og mörg viðlíka sem slegin voru eins og túskildingar í látunum út af fjölmiðlafrumvarpinu? Almenningur er að drukkna í masi og útþynntum frösum og ambögum sem hver étur upp eftir öðrum.

Vilji einhver tala uppskátt og opinskátt um erfið mál, þá hlustum við.  Á meðan gengur hið innihaldslausa mas eins og gömul þvottvél. Við heyrum niðinn en hann hverfur inn í móðuna. Kemur aldrei aftur.

Það er búið að velja Íslandi ríkisarfa. Okkar sjálfskipuðu og æviráðnu hirðmeistarar hafa ekki ennþá talið okkur hollt að fá að vita hver hann er. Leikstjórinn í þeim farsa er enn að prjóna endann á trefilinn. Hélt um það blaðamannafund. Þar var mikið talað en ekkert sagt. Ekki orð.

Megum vér meira heyra?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Um bloggið

Guðmundur Kjartansson

Höfundur

Guðmundur Kjartansson
Guðmundur Kjartansson
Fæddur í Reykjavík, uppalinn í Borgarfirði. Hef lengst af starfað við verslun og viðskipti, landbúnað og ferðamál. Stúd. MR. Nám við H.í. og síðar í Bandaríkjunum. Lauk þaðan BA í Busin. Adm. Finance og síðar MBA af stjórnunarsviði. Endurmenntun og fjöldi námskeiða HÍ og HR. Hef ritað talsvert í blöð, m.a. um skatta- og tollamál, landbúnað ofl. Á blog.is síðan í feb. 2011. Meðlimur í Fél. Viðskiptafræðinga og Hagfræðinga frá 2000.
Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • ...9794_3856_n

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.5.): 1
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 18
  • Frá upphafi: 44844

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 18
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband