Kryddblanda dagsins

Íslenskur anarkismi hefur mörg andlit. Eitt þeirra er hin óþolandi og ofstækisfulla umræða sem á sér stað alla daga um flest landsmál. Þá ber svo skemmtilega til að þjóðin, sem virðist gersamlega við að örmagnast af öllum látunum sýnist ætla að halla sér að Skjöldu gömlu. 

Framsóknarfjósið er nú búið að undirgangast mikil þrif og spúl. Búið að innleiða alla nýjustu tæknina og mannskapurinn tilbúinn í þann slag sem framundan er. Sigmundur Davíð er greindur og hæfur maður en menn verða að spyrja sig hvort framsóknarflokkurinn hafi eitthvað breyst.

Þrasið um verðtrygginguna heldur áfram. Þar heldur hver sínu fram. Löglærðir gæslumenn vísa í meginreglur Samningalaga og krefjast þess að menn standi við gerða samninga. Á meðan halda menn áfram að klippa til tommustokkinn og sverfa af lóðunum sem notuð eru á reizluna þar sem skuldir almennings eru vegnar. Svarfið fer til baka í binginn og bíður næsta gjalddaga.

Hópur fólks heldur áfram að tala um eitthvað sem hann kallar "þjóðarvilja" í hinu sérkennlilega stjórnarskrármáli. En minnumst þess að það voru rúm 60% sem tóku þátt í þjóðaratkvæðagreiðslunni. Rúmur helmingur þátttakenda galt jáyrði sitt við spurningum um málefni sem þeir höfðu ekki lesið neitt um. Stjórnarskrárdrögin eru klúður sem best er að gleyma sem fyrst. Sumt af því sem þar var skrifað er ágætt og vel unnið af afbragðsfólki, en auðlindaákvæðið er lögfræðileg endaleysa sem skapar fleiri vandamál en það leysir. Mannréttindakaflinn er uppfullur af Hálsaskógarspeki sem á ekkert erindi í grundvallarlög. Tryggt skal að allir eigi fyrir læri í ofninn á sunnudögum.

Flestir sem eru að brasa í pólitík og langar að taka þátt í að leysa vandamál til lands og sjávar eru að tala um að það þurfi að koma hjólum atvinnulífsins í gang. Frábært! En hvernig? Hvað þarf að gerast svo hin frægu hjól fari að snúast? Hér eru nokkrar ábendingar til þess heiðursfólks: Eftirspurn er lítil, mest vegna skuldsetningar og eignaupptöku í gegn um vísitölu neysluverðs og gengdarlausrar skattpíningar. Hugmyndalausir ráðherrar leysa fjárhagsvanda ríkissjóðs til skammtíma með hækkunum á sköttum á vöruflokka sem vega þungt í vísitölugrunninum. Jaðaráhrifin sjá um að tæma veski almennings á meðan hann sefur á sitt græna eyra. Skattar á Íslandi eru í heildina tekið um 65% Menn eru að kafna undir þessu fargi. Samt eru allir að lofa meiri ríkisafskiptum.....  Samneyslan er um eða yfir 41-42% en þyrfti að fara niður i eða undir 30% svo einstaklingar og atvinnulífið geti fjárfest. 

Talað er út og suður um að krónan sé sjálfstætt hagfræðilegt vandamál. Það er auðvitað tóm della, en bágt heilsufar hennar er hinsvegar fínn mælikvarði og söguleg heimild um árangur af hagstjórn og almennt árferði. Sorglegt. Krónan ber með sér í genunum arfbera landlægrar framsóknarmennsku og útlendingafóbíu en á hinn bóginn munu boðaföll af hagsveiflum lenda á landsmönnum milliliðalaust þegar illa árar og búið verður að innleiða hér gjaldmiðil sem við höfum ekki útgáfurétt á. ÖLL fallin hagkerfi heimssögunnar hafa fallið á kné vegna stjórnlausrar seðlaútgáfu. Nútíminn ber það með sér að hálf heimsbyggðin virðist nú trúa því að tekist hafi að slökkva sinueldinn í seðlabönkum heimsins með því að kæfa hann með nýprentuðum seðlum. Þarna er verið að skrifa alveg nýjan kafla í hagstjórnarsögu heimsins. Þekktar undantekningar frá þessum hamförum eru m.a. Kanada, Noregur, Ástralía, Nýja Sjáland, Sviss og ...... Pólland. Gleymum ekki Póllandi.

Íslenska lífeyissjóðakerfið situr uppi með lögbundna ávöxtunarkröfu upp á 3,5% Þessi krafa er svo vitlaus og óraunsæ í sjálfri sér að það tekur ekki nokkru tali. Á hinn bóginn eru menn innikróaðir með fjárhóp sem beitt er á efnahagslega hagleysu. Allt vegna þess að gjaldmiðlilinn getur ekki staðið hjálparlaust. Það eru höftin. Spurningin í dag  er semsagt hvort verður fyrra til að éta upp lífeyrissjóðina, gjöreytt beitiland eða tómar hlöður ríkisins. Reynslan frá 2001 er vísbending en sjóðirnir þurfa að fá heimild til að reka fé sitt í afrétt þar sem von er um grösugt land. Án þess að geta svo hlaupið heim og étið þar er illa árar á heiðinni, eins og gerðist á því herrans ári sem áður er getið.

Seðlabankinn er í rólegheitum að kjörna niður snjóhengjuna. Hún er ekki nema svipur hjá sjón blessunin. En hún lifir hins vegar góðu lífi í ræðum fólks á opinberum vettvangi, sem ekkert veit og fær ekkert að vita. Lausnin er að setja lög sem skylda þrotabú hinna föllnu banka til þess að gera upp sín bú í íslenskum krónum. Þetta væri þjóðþrifaverk .... að leggja frumvarp um þetta mál fyrir þingið og klára það fyrir þinglok. Steingrímur Ottawafari gæti hrist þetta fram úr erminni og bjargað flokki Katrínar frá því að þurrkast út. Afleiðingin af slíkri lagasetningu yrði m.a. sú að slitastjórnirnar þyrftu að reka allt sitt fé úr seljunum og heim á búgarðinn. Það eru um það bil IKR 700.000.000.000,00 í erlendum gjaldmiðlum- nóg til að gera upp við þá sem þarf að borga og setja hinum afarkosti og segja þeim að hypja sig. Þetta er fullveldið. Það þýðir að við megum "gera svona", eins og krakkarnir segja.

Sagt hefur það verið um Suðurnesjamenn ..... Ó íslenskur sjávarútvegur með þína 440 milljarða í skuldir, helmingaðar á 10 árum vegna rekstrarumhverfis sem enginn virðist skilja .... og gjaldeyrisöflun upp á um IKR 220.000.000.000,00 á ári ... nú skaltu þjóðnýttur vegna þess að þú græðir of mikið. En var það ekki skrítin tilviljun að á sömu mínútunni og frumvarpið um þjóðnýtinguna var flutt af sakleysinu var höfundurinn á fundi með ríkisstjórn Kanada ... og grástakkar Seðlabankans réðust inn í höfuðstöðvar þess félags sem helst var að vænta verðugrar andstöðu frá? "Elementary dear Watson, elementary" Endurreisum bæjarútgerðirnar! Við viljum tapa almennilega, þannig að menn geti fundið það beint á eigin skinni og unnið líka hjá fyrirtækinu sem allir elska að hata. Grenjað á daginn og grillað á kvöldin.

 

Jæja, um hvað snýst þá opinber umræða í ríki Jörundar og hvað er eiginlega í gangi með öll fínu framboðin? Yifirgnæfandi meirihluta þeirra langar að vera með eða gerast veislustjórar hjá ríkinu. Góða veislu gjöra skal, með annarra manna fé. Menn trúa því að hið opinbera sé betur fært um að ráðstafa peningum en þeir sem afla þeirra með svita og tárum. Hópur af fólki sem er svo hjartahlýtt að því vöknar um auga við að frétta af opinberum sjóði þar sem eitthvað er af silfri eftir. Snarlega lagfært. En afstaða alls þessa fólks er sósíalistísk að inntaki. Þá er stutt yfir í kommúnismann, alræðið og örbirgðina. Allt vel meint.

Búið er að snúa sannleikanum svo hressilega á haus að menn trúa því í dag að frelsið sé hættulegt ef það slyppi út úr möppunum ráðuneytisins þar sem það er geymt.  

Frjáshyggjan snýst um það aðallega að menn ráði sjálfsaflafé sínu, eignum og  dvalarstað. Þessu vilja íslendingar tugþúsundum saman hafna. Þetta var það sem Jörgen sá í Reykjavík haustið 1809 er hann sneri aftur eftir að hafa bjargað kvölurum sínum af brenndand skipsflaki við mörk efnahagslögsögunnar.

Þeir höfðu sest að brennivínsdrykkju með þrælapískurum sínum eftir að hann lét úr höfn. Sjálfur í járnum.

Hláturinn bergmálar enn.

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnlaugur I.

Sæll Guðmundur.

Ágæt grein hjá þér. Þó vil ég aðeins leyfa mér að leiðrétta þig. Þú segir að 60% hafi tekið þátt í þjóðararatkvæðagreiðslunni um stjórnarskrárdrögin. Svo var nú ekki því að þátttakan þar var aðeins 49% ef ég man rétt.

Það er innan við helmingur þjóðarinnar tók þátt í þessari könnun.

Af þeim var 1/3 á móti þannig að það voru því í raun einungis ca 32% þjóðarinnar sem vildi að stjórnarskránni yrði breytt eins og þessar 5 spurningar voru sem spurt var um.

Ekkert liggur fyrir með aðrar tillögur stjórnlagaráðs, því að um þær var ekkert spurt.

Þannig var þetta allt eitt klúður !

Gunnlaugur I., 16.3.2013 kl. 13:10

2 Smámynd: Guðmundur Kjartansson

Sæll Gunnlaugur: Þakka málefnalegt innlegg og takk fyrir ábendinguna. Við erum algerlega sammála um það að réttur þriðjungur kosningabærra einstaklinga í landinu eigi ekki að setja því stjórnarskrá. Um það snýst málið. Það er samt sorglegt hvernig þetta annars ágæta fyrirtæki er farið á hausinn (stjórnlaga hreyfingin) en við þessu er ekkert að gera. Ég er marg búinn að lesa þessi drög að stjórnarskrá. Sumt er þar ágætt en innanum eru greinar og gildishlaðnar yfirlýsingar sem eru svo vitlausar að mann sundlar við tilhugsunina um afleiðingarnar.

Er þá ótalin sú Heraklesarþraut sem bíður Hæstaréttar við það að vinda ofan af og gera afturreka alla þvæluna, sumt vegna þess að það stangast á við gervallt fræðikerfi íslenskrar lögfræði eða vegna þess að það brýtur á grundvallarmanréttindum sem íslendingar hafa seint og um síðir verið að drattast til að staðfesta.

Guðmundur Kjartansson, 16.3.2013 kl. 13:59

3 Smámynd: Samstaða þjóðar

Í þeirri stöðu sem þjóðin er í núna, er mikilvægast að vanhæfur meirihluti á Alþingi komi sér straks heim. Samstundis verður að rjúfa Alþingi og ekki að setja fleirri gölluð lög.

Á þessu kjörtímabili hefur meirihluti Alþingis gert verri mistök en gerð hafa verið í allri fyrri sögu Lýðveldisins. Ef meirihlutinn skilur ekki, að við viljum að nú verði látið staðar numið, verður að hjálpa þeim út úr Alþingishúsinu.

Loftur Altice Þorsteinsson.

Samstaða þjóðar, 16.3.2013 kl. 14:51

4 identicon

Íslenskur anarkismi? Hvað anarkismi? Hér er löghlýðni meiri en í flestum löndum Evrópu, og í flestum löndum heims. Hér ríkir líka meiri friður og samhyggð, enda minni stéttarskipting, en víðast hvar. Afhverju velurðu þetta orðalag? Afþví meirihluti þjóðarinnar hugsar öðruvísi en þú sjálfur og því finnst mér það þyrfti að berja þessa anarkista til hlýðni? Skortur á fasisma er ekki jafngildi anarkisma. Kannski liði þér betur í Þýskalandi þar sem nágrannar geta bankað upp á hjá hver öðrum og verið með hótanir og leiðindi afþví þvotturinn var ekki hengdur nógu fallega upp á snúrurnar, þegar hver heilvita maður veit hann ætti að vera í beinni línu? Þetta land byggðu frjálsir andar, fáni okkar er blár/hvítur/rauður eins og Frakklands byltingarinnar og BNA stjórnarskrárinnar miklu, og hér skal frelsi ríkja. Þú ættir að drífa þig burt á vit svarta-hvíta-og glópagyllta.

SS (IP-tala skráð) 17.3.2013 kl. 03:42

5 identicon

*svarta-rauða-og glópagyllta. Hvítur var hann eigi. Þú virðist heltekinn ófrelsis Brussel anda og boða regluverk, blinda hlýðni við yfirvöld og Eurocentríska nýlendu þrælslund, sem knýr þig til að kalla alla aðra menn "anarkista". Þú ættir bara að drífa þig af landi brott, eitthver þar sem þér liði betur.

SS (IP-tala skráð) 17.3.2013 kl. 03:45

6 Smámynd: Guðmundur Kjartansson

Góðan daginn ágæti .... "ESS ESS"

Ég sé að þú hefur misst vitið eftir að hafa lesið fyrstu málsgreinina. Lestu nú restina þegar þér er runnin reiðin.

"SS" var skammstöfun sem notuð var um sérsveitir Hitlers, "Schutzstaffeln" Veltu því aðeins fyrir þér áður en þú úðrar meira um fallin hugmyndakerfi.

Skrifaðu undir nafni, dóninn þinn!

Guðmundur Kjartansson, 17.3.2013 kl. 09:28

Um bloggið

Guðmundur Kjartansson

Höfundur

Guðmundur Kjartansson
Guðmundur Kjartansson
Fæddur í Reykjavík, uppalinn í Borgarfirði. Hef lengst af starfað við verslun og viðskipti, landbúnað og ferðamál. Stúd. MR. Nám við H.í. og síðar í Bandaríkjunum. Lauk þaðan BA í Busin. Adm. Finance og síðar MBA af stjórnunarsviði. Endurmenntun og fjöldi námskeiða HÍ og HR. Hef ritað talsvert í blöð, m.a. um skatta- og tollamál, landbúnað ofl. Á blog.is síðan í feb. 2011. Meðlimur í Fél. Viðskiptafræðinga og Hagfræðinga frá 2000.
Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • ...9794_3856_n

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.5.): 1
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 18
  • Frá upphafi: 44839

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 18
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband