Ég gafst upp í þúsund milljörðum.....

Þá er upp runninn hátíðisdagur lýðræðisins. Ég hef beðið þessa dags í fjögur ár. Þessi dapurlegi tími sem við tók eftir hrunið er vonandi á enda runninn. Athygli okkar beinist nú vonandi að því sem máli skiptir. Ríkisstjórnin sem nú kveður hefur gert sitt til að leysa þann vanda sem við hefur blasað alla daga. Það eiga ríkisstjórnir að gera. Hún átti ekki annars kost.

En einmitt vegna þess hve yfirgnæfandi vandinn hefur verið og hversu hátt hefur verið um hann haft hafa hugmyndafræðilegir stofnar sem að stjórninni standa ekki hlotið það kastljós sem þeir verðskulda.

Meirihluti þeirra einsatklinga sem mynduðu stjórnina og hennar þéttasta bakland eiga hugmyndafræðilegar rætur í öfgakenndri sameignarstefnu, ríkisforsjárhyggju og á köflum hreinum kommúnisma. En enginn virðist lengur vita hvað það er. Er kannski líka alveg sama. Nóg er um nafngiftir í þjóðmálum.

Forystumenn þessara meginstefna í þjóðfélagsmálum hafa komist upp með að snakka sig frá sínu pólitíska genamengi á öllum vígstöðvum; sjónvarpi, útvarpi, blöðum og netmiðlum. Allir ætla að vera frjálslyndir, góðir, huggulegir, jafnaðar - og jafnréttissinnaðir og svo er smá feminisma blandað samanvið ásamt þjóðlegum eigindum. Gamla góða lopapeysan er orðin sérstakt auglýsingaskilti fyrir þessa leiksýningu.

Svo tók ríkissjónvarpið sig til og smalaði öllu dótinu upp á svið, setti fyrir framan það myndavélar og starfsmenn stofnunarinnar fóru í alveg nýtt gerfi. Þarna stóðu þeir og yfirhöluðu alla vitleysuna úr tugum eða hundruðum manna sem spanna allt litrófið í pólitísku innihaldsleysi. Ekkert markvert komst að fyrir þessari meintu hlutleysisstefnu sem sett er á sviðið líka. Einstaklingar sem eitthvað vita og kunna komast ekki að fyrir þvælu. Þessi hryllingur er svo kallaður "kosningabarátta" Politbjúróið uppi í Efstaleiti hlýtur að geta gert þetta eitthvað betur. En kannski ekki. Það er ríkisstofnun.

Grunnstefið sem ÞARF að vera ráðandi í umræðum um stjórnmál á að snúast um hlutverk, umfang og stærð ríkisvaldsins. Þetta kom auðvitað fram .... án þess að nokkur hefði í raun vit á að greina það rétt og segja eitthvað um málið. Það sem hins vegar var gert segir allt um hvernig íslendingar almennt meta ríkisvaldið.

Ég sló í huganum böndum á krónur og aura sem felast í loforðunum sem á að efna á mánudaginn. Ég gafst upp í þúsund milljörðum. Skilningsleysi meirihluta þátttakenda í þessari fyrirgreiðsluflensu er algert og það sem verra er; fjölmiðlafólk bregst skyldu sinni á þessu sviði líka. Er það vegna vankunnáttu eða vegna þess að allt þetta fólk er að meirihluta ríkisstarfsmenn og hefur beinan hag af því að skútu þess sé ekki velt? Þorir virkilega enginn að fletta ofan af allri vitleysunni og órunum?

Skoðanakönnun um afstöðu íslendinga til rekstrarforms heilbrigðs- og tryggingamála er afgerandi: Allir vilja ríkisrekstur. Hver er eiginlega skýringin á því? Ætla hæstvirtir þátttakendur í þessum könnunum að halda því fram að ríkisrekstur taki fram einkarekstri? Og þá á þessu sviði sérstaklega? Sé þetta tilfellið, þá skulu menn líka búa sig undir að opna veskið til fulls og taka afleiðingunum. Þessi átrúnaður er svo rekinn og viðhaldið af mönnum sem margir hverjir vinna við háskólakennslu og kunna sín fög en eru óalandi bjánar og bullur að öllu öðru leyti. Ég nenni ekki að sýna þessum mönnum þá virðingu að nefna þá á nafn. Þeir sjá um að rýja sig ærunni sjálfir.

Íslendingar verða eins og aðrar vestrænar lýðræðisþjóðir að gera það upp við sig hvar þeir ætla á endanum að draga þessi mörk. Hér er verið að tala um heilbrigði þess samfélags sem áfram verður rekið hér sem annarsstaðar.

Ákall á stærra ríkisvald færir mönnum nefnilega ýmislegt fleira en "frían" mat í hádeginu. Homo Sapiens er svo kúnstug skepna að hann krefst matarins og neitar svo að borga eða sendir reikninginn á næsta mann. Fransk-Austurríski hagfræðingurinn Fréderic Bastiat (1801-1850) velti þessu vandamáli fyrir sér snemma á 19. öldinni og setti fram þá tilgátu að stór hluti samfélagsins eða jafnvel allir menn héldu að þeir gætu lifað góðu lífi í þjóðskipulagi sem byggðist á því að hver æti annars brauð. Þar var hann að lýsa samneysluþjóðfélagi löngu áður en Karl Marx og Friedrich Engels settu fram sína þjóðfélagskenningu í kommúnistaávarpinu.

Vill nú einhver málsmetandi maður eða kona standa upp úr þessari þvælu og gera hið minnsta tilraun til þess að útskýra fyrir öllum þorra almennings að þetta er ekki hægt. Það snýst um að fá menn til að skilja að hlandið i skónum kólnar eins og annað. Einhversstaðar VERÐA menn að taka ábyrgð á eigin örlögum ætli þeir í alvöru að búa í frjálsu samfélagi. Þessari kröfu um öxlun ábyrgðar er svarað með útúrsnúningum og farið að þvæla um frjálshyggju. Fyrir þau ykkar sem nennið að eyða laugardagsmorgni í að lesa þessi skrif þá snýst frjálshyggjan um þrennt að inntaki. Hún boðar að menn skuli eiga rétt á því að ráða sjálfsaflafé sínu, eignum og dvalarstað. Valkosturinn við þessa hugsun er 65% skattheimta eins og við höfum í dag og meiru lofað. Það er veislan á Gleiðieyjunni þar sem á menn vex höfuð af asna og tagl og fax í kaupbæti. Þeir missa líka röddina. Hvernig ætli sé að búa í raddlausu samfélagi? Það er Norður Kórea. Blindradalur. Marxsísk samneysla í sinni fullgerðu mynd. Þjóðskipulag sem milljarðar manna lúta og sumir tilbiðja en þrífst ekki nema innan fangelsismúra.

Einn daginn þegar búið er að loka þessum hring, þá læra menn þá lexíu að með 100% skattheimtu fá menn 100% alræði og fasisma. Ástæðan er sú að menn heimta alla skapaða hluti og þiggja loforð um brauð og leiki frá samviskulausum og fáfróðum mönnum sem langar að verða kóngar eða drottningar, en neita svo að borga. Ekki það nei? Gott og vel en hvað settir þú á skattaskýrsluna þína? Hvað finnst þér um bifreiðagjaldið og vanrækslugjaldið eða að afhenda einhverjum sem þú veist ekki hver er þriðjung af laununum þínum? Mánaðarlega! Skattheimtumaðurinn eða "Innheimtumaður Ríkissjóðs" sækir sjóðinn hvort sem mönnum líkar það betur eða verr. Allt er skattlagt í sæluríkinu: Tekjurnar; eignirnar; eyðslan ... OG skuldirnar. Það er verðtryggingin sem rennur til alræðisstofnana á fjármálasviði og ríkið skattleggur þær greiðslur líka í gegn um vaxandi upphæð fasteignagjalda. Hugvitssemi manna í skattheimtu eru engin takmörk sett. Það sáu menn í kjörbúðinni þegar sjálfur skattavesírinn á Íslandi gekk um og kíkti í innkaupakörfur manna.

En þetta verður allt í lagi, eins og Kiddi Cadillac segir í laginu hans Magnúsar Eiríkssonar. Ef ykkur þykir vondur maturinn heima þá er bara að skella sér á Grillið og fá sér nautasteik og Béarnaise sósu og njóta útsýnisins. Fylgjast með æstum múg vopnuðum kyndlum og heykvíslum hrópa niður skynsemina og hengja sína bestu menn í hæsta tré.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Þorsteinsson

Góður. Njóttu dagsins.

Sigurður Þorsteinsson, 27.4.2013 kl. 11:00

2 Smámynd: Hrólfur Þ Hraundal

Það á aldrei að tala í miljörðum, því að það skilur engin gagnlegur maður.  

Hrólfur Þ Hraundal, 27.4.2013 kl. 21:00

Um bloggið

Guðmundur Kjartansson

Höfundur

Guðmundur Kjartansson
Guðmundur Kjartansson
Fæddur í Reykjavík, uppalinn í Borgarfirði. Hef lengst af starfað við verslun og viðskipti, landbúnað og ferðamál. Stúd. MR. Nám við H.í. og síðar í Bandaríkjunum. Lauk þaðan BA í Busin. Adm. Finance og síðar MBA af stjórnunarsviði. Endurmenntun og fjöldi námskeiða HÍ og HR. Hef ritað talsvert í blöð, m.a. um skatta- og tollamál, landbúnað ofl. Á blog.is síðan í feb. 2011. Meðlimur í Fél. Viðskiptafræðinga og Hagfræðinga frá 2000.
Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • ...9794_3856_n

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.5.): 1
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 18
  • Frá upphafi: 44839

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 18
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband