24.1.2015 | 20:13
Það sem ykkur finnst .......
Við bjuggumst við siðbót og skilvikni. Það var 1993 þegar alnetið var tengt og gervallur heimurinn komst í sveitasímann eins og hann var í gamla daga. Reyndin var svo að allir geta nú hlerað eins og þá og allt fréttist, jafnvel áður en það gerist. Húðirnar rifnar af smælingjum í beinni útsendingu. Allt verður að vera uppi á borðinu í hinu nýja ríki heiðarleikans. Nóg er að "rökstuddur" og almennur grunur sé um eitthvað til þess að aftakan fari fram. Létta álaginu af dómskerfinu.
Kannski kemur eitthvað vitrænt út úr þessu öllu saman. Síðar. Þegar hið væntanlega allsherjar siðaráð hefur kennt okkur að skilja siðina eins og þeir horfa við siðatæknum á hverjum tíma. Enginn verður þá undanskilinn og allir munu gera "rétt": Dómstólar, löggjafinn og stjórnmálamenn sem taka línuna frá Siðbótanum. Allt mælt á altari afstæðishyggjunar og tækifærismennsku sem virðist hafa lagt undir sig allan opinberan vettvang. Það sem er rétt eða rangt fer eftir hver mælir og á hvaða degi.
Ekki skortir á tilsögnina. Álits- og skoðanastjórar hía á andstæðar skoðanir eins og bullur í skólaporti. Tala svo um nauðsyn gagnrýnnar hugsunar. Þegar kemur að kosningum er álitið og almannaviljinn meitlað til með skoðanakönnunum og mjög svo "fræðandi" viðtölum eins og einu sem tekið var við íslenskan heimspeking á úrvalstíma í einum af stóru miðlunum korteri í kosningar til þings vorið 2013. Spekingurinn með silkihúfuna sem þarna talaði fór á tíu mínútum yfir félagslegar hreyfingar og ráðandi stefnur sl. 200 ár. Lýsti þar sigurvegurum þessarar keppni um almannahylli. Það var félagshyggjan kryddlegin í sósu ófara og ófriðar. Still good! Aðdáendur frelsis og sjálfstæðis skilja ekki hina flóknu mynd. Helmingur Nóbelsverðlaunahafa í ýmsum greinum félagsvísinda á 20. öld skildi allt á skjön líka.
Svo er að velja sér forystumenn til að synda í þessu feni. Þeir eru einnnota, sérstaklega ef þeir hafa skoðanir á umdeildum málum. Aðsópsmiklir einstaklingar fá að kenna á straumkastinu sem myndast í kringum athafnamenn sem eiga fjölmiðla. Þeir tryggja sér réttarfarslegt "ónæmi" og koma því til leiðar að bannað er að segja allt um sumt. Skoðanafrelsið byrjar á "sko...". Fyrstu fórnardýrin eru menn sem trúa á ígrunduð gildi í ýmsum þjóðfélagsmálum.
Hinir "vísu" og "réttlátu" verða að fá vinnufrið og ábendingar um brotalamir í þankagangi og málflutningi þeirra fá á sig háð og spott, m.a. í árlegri paródíu sem sýnd er með ærnum tilkostnaði í sjónvarpsstöð Fraulein Andropovu. Á gamlárskvöld þegar sauðirnir sitja fullir við silfurlampann. Og borga fyrir með eingreiðslu til innheimtumanna ríkissjóðs. Hér þarf fátt að bæta.
Gamanið heldur áfram. Heimskan flæðir fram og á sér margar birtingarmyndir. Næsta afrek verður máske undirritað á útmánuðum þar sem taflið út af kjarasamningi læknanna verður væntanlega jafnað. Þer með skolar á haf út þeim árangri sem virðist vera að nást í rekstri efnahagsstarfseminnar. Þriðja kynslóðin endurtekur mistökin og skellir sér í stríð. Hér er ekki nema 70-80 ára reynsls af svona salibunum. Sjáum til. Vonin felst í því að nú er pólitískt hlaupár. Engar kosningar. Svo vitað sé.
Tekin var pólitísk ákvörðun snemma árs 2009 um að láta heimilin í landinu taka skellinn af vísitöluhækkun alls kröfusafns hinna föllnu banka. Enginn þarf að undrast það .... þetta er leiðin sem alltaf er farin. Pólitísk ákvörðun. Nú er búið að benda á þetta og spurt hvort ekki sé rétt að athuga málið. Það verður auðvitað ekki gert. Það er vegna þess að sendiboðinn ber hatt í vitlausum lit.
Í kvöldfréttum dagsins í dag var svo upplýst að mikil ólga sé í einu þingherbergi vegna leka. Þegar ólgan er búin og mönnum líður betur kemur í ljós að lætin snerust ekki um lekann, heldur pólitískan kúrs þess sem lak. Þannig verður eftirleikurinn og hann nær að mörkum þess næsta.
Þetta er nú frekar skorinort, sé mið tekið af mönnum sem vasast í þjóðmálum og svara aldrei neinu sem að þeim er beint öðru vísi en í óbeinni ræðu og í þriðju persónu.
Þannig gera þeir sínar skoðanir að ykkar.
Um bloggið
Guðmundur Kjartansson
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 4
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar