5.4.2016 | 11:49
Byltingarsporið
Sólarhring eftir fárið í ráðherrabústaðnum er hafin ný mótmælahreyfing. Aðsóknin að mótmælunum ku hafa slegið öll met.
En þá gerist margt skrítið. Eins og í öllum góðum byltingum og vondum. Fjölmiðlar hafa eðlilega haft áhuga á þessum hasar og hafa í þvi sambandi tekið ýmsa einstaklinga tali og spurt hvernig gangi.
Svörin eru flest afar athyglisverð. Það er vegna þess að rauði þráðurinn í þessum hasar er strax farinn út í aðra sálma en þá sem snúast um meint afglöp og klúður æðstu manna.
"Það eru til nógir peningar í landinu, til þess að allir geti haft það gott" sagði einn ... og "Útgerðin situr að öllum auðnum" ... og annar sem ávarpaði þjóðina frá Kaupmannahöfn í útvarpsfréttum Ríkisútvarpsins 4. apríl á meðan 10-15 þúsund manns stóðu og börðu tunnur á Austurvelli.
Þessi ágæti maður var heyranlega mjög æstur og reiður. Taldi hann að við blasti hrun í ferðamennsku og að Ísland væri orðið að alþjóðlegu athlægi vegna fréttanna af matarholum forsætisráðherrans. Svo kom ógurlegur reiðilestur um að íslenska krónan væri þjóðarböl og við yrðum að losa okkur við hana.
Þarna fór semsagt byltingin út af sporinu og við tók hefðbundið pólitískt argaþras þar sem gömlu sögukommarnir og miðstýringarsinnarnir - og nokkrir nýir líka settu sig í sínar kunnuglegu stellingar sem eru í eðli sínar byggðar á ónýtum og úreltum kenningum samfélagshugsuða frá 19. öld.
Það sem framundan er eru þá hefðbundin átök um þjóðskipulag og hagstjórn. Al-íslenskt þras um sósíalisma og miðstýringu eins og maður upplifði í menntaskóla. Æstir krakkar sem lásu bara Þjóðviljann.
Þá er alveg upplagt fyrir t.d. fréttamenn Ríkisútvarpsins að biðja viðmælendur sína, eins og manninn sem talaði frá Kaupmannahöfn með svona sterkar skoðanir að útskýra eftirfarandi:
Að krónunni genginni taka við ný vandamál og viðfangsefni í opinberri hagstjórn og varða m.a. greiðslujöfnuð við útlönd við aðstæður sem skapast þegar gæftir til lands og sjávar versna ásamt erfiðleikum á erlendum mörkuðum. Netto útstreymi gjaldeyris og þurrð í varasjóðum af þeim sökum.
Hvaða tillögur hafa þessir sérfræðingar, viðmælendur Ríkisútvarpsins og aðrir um ráðstafanir í fjármálum landsins við slíkar aðstæður?
Um bloggið
Guðmundur Kjartansson
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 4
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar