Íslenskur Marxismi og brottförin frá Músavík

Eftirfarandi skrif urðu til vegna  þess að íslenskir sósíalistar fara sem fyrr hamförum í árásum sínum á Sjálfstæðisflokkinn og forystumenn hans í bráð og lengd. Trúarbrögðin sem nú eru boðuð á bloggsíðum og í mis-vitlausum og mis-dónalegum tilskrifum eru úldið vín á nýjum belgjum. Nýja-ný-vinstrið hefur ekkert nýtt fram að færa, nema etv. getuna til þess að skapa hið fullkomna fasistaríki með allri þeirri rafeindatækni sem búið er að taka í notkun. Trúin á ríkisforsjána og hið alltumlykjandi ríkisvald er vaxandi og er vatn á myllu manna sem nú fara hamförum í æsingi og persónuníði.

Það sem bíður innleiðingar: Skipulags- og eignaráð ríkisins, endurvakið fjárhagsráð ríkisins, gjaldeyrisnefnd ríkisins, viðskiptanefnd ríkisins, skömmtun erlends gjaldeyris, skipuleg eignaupptaka allra eigna sem lúta ákvæðum 72. greinar stjórnarskrárinnar, aflagning alls einkaframtaks og upptaka opinberrar forsjár í nýsköpun; stöðvun nýframkvæmda í nafni ný-umhverfisfasísks þankagangs; almenn innleiðing neikvæðrar réttarheimspeki þar sem allt það sem ekki er sérstaklega leyft er bannað o.s. frv. Búið er að setja á laggirnar eftirlits- og gæslustofnanir til þess að varna tilurð hluta sem hurfu af kortinu fyrir 3 árum. Þær kosta milljarða og munu ekki leiða neitt annað en meiri fátækt yfir land og lýð. Búið er að semja nýja stjórnarskrá sem er svo gegnumsýrð af sértækum markmiðum og gildishlöðnum fyrirheitum að hún er ekki einu sinni umræðuefni á kaffistofum lögmanna eða annarra sem með réttu hefði mátt bjóða að taka þátt í samningu hennar. Meginefni hennar er: "Allir eiga að hafa það fínt" (Ríkið greiðir)

Ef á að halda áfram að kenna efnahagshrun og vandræði íslensks efnahagslífs við Sjálfstæðisflokkinn, þá ætti amk að koma með gagngerar tillögur um endurbætur. Þær er því miður ekki að finna í drögum að nýrri stjórnarskrá eða öðrum sviplíkum gjörningum sem siðvæðingin mikla hefur getið af sér. Íslendingar bjuggu við algert opinbert forræði á öllum sviðum frá 1930 og sumt af því var ekki afnumið fyrr en eftir 1990. Byrjað var á að gera innflutning fjaðraskúfa háðan sérstökum leyfum (1931) og íslenskir sendiherrar fengu ekki yfirfærslur vegna kaupa á bollastellum (1948) og bæjarsjóði Reykjavíkur var neitað af fjárhagsráði um kaup á rottueitri að upphæð 9.000 krónur.  Það var 1952. Áður hafði sn. Hagfræðinganefnd lagt til innleiðingu áætlunarbúskapar í frægri skýrslu sem lögð var fram vorið 1946. Þar voru á ferðinni menn sem flestir töldust síðar til hægri í stjórnmálum. Einn fárra manna sem hefði getað sagt eitthvað af viti um skipulag efnahagsmála þess tíma - og síðar - hafði fengið þau svör hjá íslenskum fyrirsvarsmönnum að á Íslandi giltu ekki hagfræðilögmál. Þetta var Benjamín H. J. Eiríksson. Honum þótti nóg um eins og fram kemur í ýmsum skrifum hans. Þar var þó á ferðinni maður sem hafði séð bæði Hitler og Stalín í eigin persónu, stundað nám í Moskvu og Berlín og síðar vestanhafs. Án efa reyndasti og menntaðasti hagfræðingur sinnar samtíðar, hugsanlega á heimsvísu. En á hann var ekki hlustað. Sérstaklega ekki þær ábendingar hans að atvinnutækin væru betur komin í höndum einstaklinga, frjálsra félagasamtaka eð þ.h., frekar en í höndum opinberra embættismanna. Ein afleiðing þessa var að hagstjórn á Íslandi næstu áratugina miðaðist við að halda opinberum útgerðarfyrirtækjum á floti. Og - núna snýst öll barátta íslenskra sameignarsinna um það að koma útgerðinni aftur í hendur ríkisins og endurverkja bæjarútgerðirnar. Hugsið það mál aðeins betur eða bíðið þess að fá reikninginn með skattseðlinum.

Ég fór mína fyrstu ferð til útlanda í september 1976. Ég var skyldaður til þess að leggja fram kvittaðan farseðil og var tvisvar neitað um yfirfærslu af gjaldeyrisnefnd, sem síðar rausnaðist til þess að selja mér 270 dollara.

Áður en menn missa sig í skömmum og svívirðingum og bænum um eitthvað sem þeir vita ekki hvað er ættu þeir að kynna sér söguna. Þeir sem ekki gera það munu endurtaka hana, mistökin líika. Verið er að gramsa á öskuhaugum sögunnar í von um að eitthvað nothæft hafi verið í áður hrundum heimspekikerfum og megi endurvekja.

Hver er sök ráðherrans sem nú situr á sakamannabekk? Í stórum dráttum sú að hafa treyst og trúað fram lögðum og viðteknum gögnum sem m.a. Seðlabankinn, Fjármálaeftirlitið og fleiri kölluðu eftir. Nú vita menn að megnið af þessum gögnum voru fölsuð. Hver ber ábyrgð á því?

Tugþúsundir íslenskra heimila eru á vonarvöl vegna aðgerða núverandi ríkisstjórnar, m.a. fyrir áhrif illa saminna laga um sértækar aðgerðir í skuldamálum.( L. nr. 107 frá 2009). Hver ber ábyrgðina á því? Lesið þessi lög og sjálft frumvarpið. Fingraför fjármálamanna eru eins og klístruð sulta á því. Með lögum þessum er fjármálastofnunum selt í hendur sjálfdæmi um meðferð viðskiptamanna sinna. Þetta er skilgetið afkvæmi búsáhaldabyltingarinnar. Eignasvifting og ærumissir án dóms og laga. Það gerist vart betra. Bylting þessi skilaði í ráðherrastóla og þingsæti stórum hópi fólks sem telur sér ekki skylt að fara að lögum eða Hæstaréttardómum. Kallar það allt pólitík. Þetta er þó fólkið sem að sögn er íslenskara og betur lesið en allir hinir.

Hinn íslenski Peppone, sem nú er búinn að skipta um hatt eina ferðina enn og er sestur í alveg nýtt ráðuneyti, tók sig til og afhenti erlendum kröfuhöfum tvo af bönkunum án þess að nokkur pólitísk umræða færi fram um það mál. Það var hægt, ekki vegna þess að til þess væru lagalegar heimildir, heldur vegna þess áfalls sem menn voru í eftir þjóðarbrunann. Það var snilldarlega gert og jafnframt hugsanlegt landsdómsmál. Það bíður síns tíma. Það verður hægt að fá þau réttarhöld með afslætti, 2 fyrir 1.

Ef menn biðja nógu heitt, þá gerist það. Enda ætlar nú sjálft átrúnaðargoðið að snarast í smiðjuna, brýna sverðið og skella sér í nýjan slag. Það var meira fjör á Bessastöðum þegar þar voru alvöru fallbyssur á fjörukambinum. Músavík er hinu megin á nesinu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Alfreð Herlufsen

Hér er aldeilis mikil eldmessa á ferðinni!  Og því miður er mjög margt þarna sem maður kannast allt of vel við.

Bæjarútgerðirnar voru hér á árum áður reknar með miklu tapi. Voru stór baggi á bæjarsjóði.

Þegar aðrir fóru að reka þessi skip þá slapp þó bæjarsjóður við frekari fjárútlát og fékk í staðinn skatttekjur.

Þú átt þakkir skyldar fyrir að reka þessa sögu Guðmundur.

Ég fór til Danmerkur 1959 og hafði safnað frímerkjum til að geta eignast einhvern gjaldeyri þegar þangað kæmi. Enginn gjaldeyrir var í boði hjá bönkunum.

Hefði ég ekki átt ættingja þarna þá hefði verið glapræði að leggja af stað.

Þessir tímar koma aldrei aftur, myndi nú einhver segja. Ekki skulum við vera allt of viss um það. Eins og tískan fer í hringi þá getur stjórnmálamyndstrið einnig gert það.

Sigurður Alfreð Herlufsen, 5.1.2012 kl. 21:58

2 identicon

Mér hafa alltaf þótt merkilegar þessar draugasögur sjálfstæðismanna af gjaldeyrishöftum.  Látið er að því liggja að vondir kommar og kratar hafi komið þeim á af illum hvötum en syngjandi sjallahetjur hafi tekið þau af.

Hafa ekki sjálfstæðismenn verið við völd meira og minna allan lýðveldistímann?

Komu þeir ekki höftunum á á sínum tíma og viðhéldu þeim?

núman (IP-tala skráð) 6.1.2012 kl. 10:03

3 Smámynd: Anna Sigríður Guðmundsdóttir

Guðmundur. Góður pistill hjá þér og öðrum hér. Fróðlegt að heyra frá fólki sem þekkir söguna.

Það eru allir flokkar með í svika-leikritinu pólitíska.

Samfylkingin er komin efst á blað núna, vegna þess að sá flokkur er í forystu spillingarinnar núna. Það er enginn munur á hægri svikara og vinstri svikara.

M.b.kv.

Anna Sigríður Guðmundsdóttir, 6.1.2012 kl. 10:09

4 identicon

Greinargóð og raunsönn greining hér hjá Guðmundi. Hér eru vissulega menn í stjórnkerfinu núna og í ráðherrastólum sem rekja skoðanir sínar og lífssýn og jafnvel menntun til miðstýringarkerfis og kúgunar gömlu alþyðulýðvelda kommúnismans. Sögulega var það bara í gær sem þessar þjóðir brutust undan okinu með sleggjum og tólum og brutu niður múrana sem þessi mannfjaldlega stefna hafði lokað það inni í svo áratugum skipti.

Hafta og frelsisskerðingarstefnan er óðum að birtast á ný, boð og bönn eru á dagskránni þessa dagana. Gömlu lyga og áróðursmaskínurnar eru farnar að mala aftur og nú á að fórna eignum og heilsu sumra fyrir fjöldann sem er annað orð yfir völd einstakra manna.

Dæmigert er athugasemd "númans" hér að ofan "Hafa ekki sjálfstæðismenn verið við völd meira og minna allan lýðveldistímann". Enn og aftur er búið að finna stéttaróvininn og það nægir að láta að því liggja að allt íllt sé frá honum sprottið sama hver sannleikurinn er.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur alltaf barist gegn höftum og frelsisskerðingu einstaklingsins og hér hafa verið alls konar ríkisstjórnir frá lýðveldisstofnun nema sem betur fer hefur tekist að halda kommúnistum að mestu frá stjórn landsmála þ.e. þangað til núna að því er virððist.

Sveinn Úlfarsson (IP-tala skráð) 6.1.2012 kl. 11:04

5 Smámynd: Guðmundur Kjartansson

Ég þekki samtryggingarmenninguna innan embættismannakerfisins af eigin raun og get sagt það hér að hún gengur þvert á allar pólitískar brotalínur. Allt með góðu samþykki þeirra sem ráða á hverjum tíma. Pólitísk áhætta er seld út í verktöku. Fagleg ráðgjöf upp á nokkra milljarða á ári, til þess að hjálpa við ákvarðanatöku fólks sem sjálft gengur um með stafla af silkihúfum á hausnum; ja, hvað er það?

Júlíus Caesar gekk í það undir lok ferils síns sem valdamesti maður Rómar að þvinga rómversku bankana til þess að færa niður lán sín sem voru tryggð með veði í húsum almennings í borginni og víðar í ríkinu - eftir spekúlantabólu sem setti hálfa borgina í þrot.

Til þess að leysa verkið af hendi fékk hann nokkra færa  viðskiptajöfra sem treystandi var til verksins. Þeir endurmátu allar fasteignir sem til þurfti og síðan voru lánin færð niður með opinberri tilskipun. Bankastjórar og bankaráð helstu fjármálastofnana borgarinnar fengu menn í verktöku til þess að "leysa" Caesar frá störfum. 

Í gær fengu nokkrar milljónir húseigenda á austurströnd Bandaríkjanna endurmat frá fasteignamati ríkisins og bæjarstjórna á svæðinu. Þar var eigendum veðsettra fasteigna tilkynnt um opinbera niðurfærslu á verðmati eignanna en lánin standa óbreytt. 

Vitlaus og ranglát yfirvöld eru allsstaðar eins og vinna eins þegar á hólminn er komið. 

En við eigum kannski eftir að heyra af mönnum sem skeyttu engu um vegtyllur, embætti eða eftirsókn eftir vindi á kostnað almennings en unnu sín störf í heiðri og sóma. Sumir þeirra höfnuðu ítrekuðum tilnefningum til æðstu embætta og pólitískra korðalagninga.

Þessi þjóð þarf að heyra af því að slíkir menn hafi verið til vegna þess að það gæti gefið mönnum von um að í öllu svindlinu og makkinu geti leynst einn og einn maður sem hafði hlutina öðru vísi. Sjáum til.

Guðmundur Kjartansson, 6.1.2012 kl. 12:14

6 Smámynd: Ragnhildur Kolka

Gott nesti til að taka með sér inn í nýja árið.

Ragnhildur Kolka, 6.1.2012 kl. 14:29

Um bloggið

Guðmundur Kjartansson

Höfundur

Guðmundur Kjartansson
Guðmundur Kjartansson
Fæddur í Reykjavík, uppalinn í Borgarfirði. Hef lengst af starfað við verslun og viðskipti, landbúnað og ferðamál. Stúd. MR. Nám við H.í. og síðar í Bandaríkjunum. Lauk þaðan BA í Busin. Adm. Finance og síðar MBA af stjórnunarsviði. Endurmenntun og fjöldi námskeiða HÍ og HR. Hef ritað talsvert í blöð, m.a. um skatta- og tollamál, landbúnað ofl. Á blog.is síðan í feb. 2011. Meðlimur í Fél. Viðskiptafræðinga og Hagfræðinga frá 2000.
Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • ...9794_3856_n

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.5.): 2
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 19
  • Frá upphafi: 44840

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 19
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband