Hlegið við gjána milli þings og þjóðar

Það er rifist og skammast. Bölmóðurinn sem liggur eins og pestarfár á íslendingum nú um stundir á sínar skýringar. Mestu veldur atgangur nokkurra net og prentmiðla sem ala á illsku, ósætti og grunsemdum um misferli hjá öllum, frá kotungum til konunga. Enginn er hafinn yfir hinn heilaga grun sem nærir kjaftaganginn, öfundina og illkvittnina.


Þetta gengur á meðan stór verkefni bíða lausnar: Ráðstafanir í ríkisfjármálum Íslands; umræða og áætlanir um uppgreiðslu erlendra skulda þjóðarbúsins;  stefnumörkun í heilbrigðismálum, t.d. varðandi byggingu spítala sem svarar kröfum tímans; pólitísk ákvarðanataka og skýr fyrirmæli um að skera skuli þjóðina úr klafa verðtryggingarinnar og að afskriftir bólugróðans MUNI fara fram. Listinn er mun lengri.


Á meðan þessi mál krauma óleyst borgum við um 40 milljarða á ári fyrir gjaldeyrisvarasjóð í boði AGS og þjóðin sættir sig við að forsetinn sé að verða þungamiðja í afgreiðslu þingmála og hafi vegna aðgerða núverandi handhafa orðið að einskonar fórnaraltari í miðjum þingsal. Nú er verið að leita logandi ljósi að nýjum verðandi monopol til þess að setjast að á Bessastöðum og halda „uppbyggingarstarfinu“ áfram. Skv. gátlista upplausnarsinna þarf hann að vera fjölvirkur sósíalisti, öreigi og háskólaborgari sem á vel þæfða lopapeysu.  Einhver sem hefur eytt ævinni á framfæri ríkisins og fyrirlítur hagnað af rekstri eins og djöfsa sjálfan.


Það er ekki þingið sem er gengið af vitinu. Það er rangt. Hið rétta er að þingið er – samsetningar sinnar vegna – ekkert annað en þversnið af þjóðinni. Skammir á þingheim hitta því menn sjálfa fyrir. En það er verra að þurfa að horfa upp á heimskuna og hina andlegu flatneskju leggja hér allt í rúst. Endanlega.  Ástandið er eins og því sé fjarstýrt. Nýleg dellumál í fjölmiðlum benda til þess að verið sé vísvitandi að æra almenning með þvættingi um einskis verð mál á meðan húsið brennur.  Eflaust til þess að draga athyglina frá öðru sem meira skiptir.


Þetta ástand er kunnuglegt frá þjóðum þar sem sjálfstæði og fullveldi hefur fokið út í veður og vind. Uppreinsarseggirnir eru að bíða þess að maðurinn með stálhnefana birtist og „komi skikki“ á málin. Kannski við eigum von á íslenskum „IL Sung“ .


Þjóðin ber sjálf ábyrgð á þessu ástandi og ætti þess vegna að slaka aðeins á í æðinu og horfa frekar til eigin öryggis, frelsis og afkomu komandi kynslóða. Hún getur ekki horft framhjá því að sn. Búsáhaldabylting fleytti hér til valda hópi fólks sem ekki telur sig bundið af lögum nema á tyllidögum. Þingið er samkomustaður þjóðarinnar. Hún hefur sjálf komið á því ástandi sem þar ríkir og mun súpa seyðið af því.  


Hið eina sem hægt er að segja um Landsdóm og stefnu eins manns fyrir dóminn með pólitískt táknrænum hætti er að sú stofnun er  raunhæft dæmi um að þrískipting er besta lausnin. Landsdómur er hjáveita framhjá  dómsmálaúrvinnslu eins og henni er skipað í stjórnarskrá.  Hann ber að nema brott úr íslenskum lögum hið bráðasta og fella í stað inn í almenn hegningarlög.
Upphafið að Hrunadansinum sem þjóðfélagið gengur nú í gegnum er sú aðgerð forseta Íslands að beita neitunarvaldi gegn lagafrumvarpi um eignarhald á fjölmiðlum. Fjölmiðlafrumvarpinu.

Neitunarvald forsetaembættisins gildir um eitt tilvik:  Forseta er er skylt að synja lögum staðfestingar við þær aðstæður að um meint landráðamakk sé að ræða. Með synjun ákallar hann þjóðina sjálfa til varnar lýðræði hennar og frelsi. Takist ekki að ná fram alþingiskosningum í framhaldinu vita menn að fyrir dyrum séu  skálmöld og skeggöld og hafa þá ráðrúm til viðbragða.  
 Vald þjóðarinnar eins og hún ráðstafar því í þingkosningum streymir í gegn um forsetaembættið til stjórnarstofnana  og á eðli málsins samkvæmt að birtast í meirihlutaskipan og umboði til stjórnarmyndunar í samræmi við þann meirihluta eins og hann skipast á Þingi.

Skylda fosetaembættisins er þá sú að haga sér í samræmi við niðurstöðurnar og afhenda fulltrúum meirihlutans umboð til myndunar ríkisstjórnar. Þar líkur afskiptum forseta.
Fyrir hið fallna fjölmiðlafrumvarp situr þjóðin uppi með sn. „fjórða vald“ sem er hópur af ofstopamönnum, stjórnleysingjum, afdönkuðum sögukommum og ofbeldishyski sem í  flestum löndum væri búið að kveða í kútinn.

Einn fulltrúi þessara hópa hló heitt og innilega í beinni útsendingu sjónvarps nýlega.  Aðhlátursefnið var alþingiskosningar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Það er margt satt í þessum pistli þínum Guðmundur. Þó held ég að fáa hafi grunað þau stórkostlegu svik sem þessi ríkisstjórn hefur framið við þá kjósendur sem gáfu þeim brautargengi. Það er öruggt að þeir kjósendur áttu ekki von á þeim svikum og við hinir sem ekki kusum þetta fólk gerðum sennilega fæst ráð fyrir slíkum svikum. Við vissum þó hvað biði þjóðarinnar og það hefur vissulega ræst. Afturhaldið svíkur ekki hugsjón sína, hvað sem öllu öðru líður.

Nú hefur þjóðin tvisvar sýnt stjórnvöldum rauðaspjaldið og hæstiréttur einu sinni. Það ætti að duga til að fella hvaða ríkisstjórn sem er. En hún hangir enn, mestmegnis á hatrinu einu saman, hatrinu á pólitíska andstæðinga sína. Ekki hangir stjórnin saman á málefnum, það eru nánast engin málefni sem stjórnarflokkarnir eru sammála um, jafnvel ekki samstaða innan þeirra heldur um nein mál. Nei, það er hatrið sem heldur lífinu í ríkisstjórninni og á meðan blómstrar afturhaldið sem aldrei fyrr og dregur okkur sífellt dýpra niður í svaðið!

Gunnar Heiðarsson, 28.1.2012 kl. 00:35

2 Smámynd: Hjálmtýr V Heiðdal

„Upphafið að Hrunadansinum sem þjóðfélagið gengur nú í gegnum er sú aðgerð forseta Íslands að beita neitunarvaldi gegn lagafrumvarpi um eignarhald á fjölmiðlum. Fjölmiðlafrumvarpinu.“

„Búsáhaldabylting fleytti hér til valda hópi fólks sem ekki telur sig bundið af lögum nema á tyllidögum“

Ég sé að þú ert á Davíðs-Hannesar línunni Guðmundur. Það er ekki góður félagsskapur.

Hjálmtýr V Heiðdal, 28.1.2012 kl. 12:07

Um bloggið

Guðmundur Kjartansson

Höfundur

Guðmundur Kjartansson
Guðmundur Kjartansson
Fæddur í Reykjavík, uppalinn í Borgarfirði. Hef lengst af starfað við verslun og viðskipti, landbúnað og ferðamál. Stúd. MR. Nám við H.í. og síðar í Bandaríkjunum. Lauk þaðan BA í Busin. Adm. Finance og síðar MBA af stjórnunarsviði. Endurmenntun og fjöldi námskeiða HÍ og HR. Hef ritað talsvert í blöð, m.a. um skatta- og tollamál, landbúnað ofl. Á blog.is síðan í feb. 2011. Meðlimur í Fél. Viðskiptafræðinga og Hagfræðinga frá 2000.
Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • ...9794_3856_n

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (5.5.): 1
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 28
  • Frá upphafi: 44807

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 28
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband