Fáein orð um fasteignamarkaðinn og ábyrgðarlausar yfirlýsingar áhrifamanna

Undirritaður starfaði við fasteignaviðskipti frá 2003 til loka árs 2008, semsagt í gegn um hrunið. 

Það var daglegt brauð á þessum árum að viðskiptin tóku kipp eða stoppuðu allt eftir því hvað greiningarstjórar bankanna voru að kokka í fjölmiðlum, til þess að stýra hegðun fólks sem var að skuldbinda sig og hafði takmarkaðan aðgang að réttum, ólituðum upplýsingum um  markaðinn. Hitt var yfirlýsingagleði stjórnmálamanna sem sífellt voru að ræða mál eins og fasteignamarkaðinn og höfðu með mis-vitlausum yfirlýsingum afgerandi áhrif á gang mála. 

Steingrímur J. Sigfússon er ekki sá fyrsti og ekki sá síðasti sem leyfir sér að hafa uppi vitlaus eða vanhugsuð orð um markað sem veltir tugum milljarða á ári hverju. Minni í því sambandi á loforð eins frambjóðenda Framsóknarflokksins fyrir þingkosningarnar 2003. Það var loforðið um 90% lánin sem enginn fékk, en orsakaði 25% verðhækkun á næstu sex vikum.  (maí - júní 2003) Ég vísa að öðru leyti á fyrri skrif mín um þessi mál í vor þar sem farið var yfir helstu þætti fasteignaviðskipta og þróunar markaðarins frá 1990 - 2009. Fer ekki frekar út í það hér. Flest það sem þar kom fram er stutt tölfræðilegum gögnum m.a. frá Seðlabanka Íslands og Hagstofu Íslands.

En aðeins að frábærri grein Jóns Magnússonar hrl. á blogginu í gær. 

Bankarnir og Íbúðalánasjóður segjast "eiga" um 1400 íbúðir. Það er algerlega rangt. Menn verða að horfa framhjá afsölum en snúa sér frekar að veðbókarvottorðunum í þessu sambandi og skoða skuldastöðuna.

Íbúðalánasjóður fékk á dögunum 30 milljarða sporslu frá ykkur ágætu lesendur. Hvers vegna þurfti sjóðurinn svo á þessu fé að halda? Var það kannski vegna vanskila íslenskra ríkisborgara á lánum sem þeir tóku í góðri trú á sl. 4-6 árum? Lán sem hækkuðu um 35-40% í Íslandsbrunanum?

Nei, það er ekki málið kæru lesendur. Rifjum aðeins upp staðreyndir: Eftir mitt ár 2004 þegar bankarnir hófu virka samkeppni við Íbúðalánasjóð og gerðu tilraun til að knésetja, (það tókst - en er bara að koma fram núna) gerðist nokkuð sem enginn reiknaði með. Með lánafyrirgreiðslu bankanna til þúsunda viðskiptavina sem voru að endurfjármagna eldri ÍLS lán - tóku milljarðatugir að streyma inn í sjóðinn vegna uppgreiðslna þessara eldri lána. Allt þar til stabbinn var að nálgast - hugsanlega 150 milljarða sem engin leið var fyrir sjóðinn að ávaxta með ásættanlegum hætti.

Viðbrögð Íbúðalánasjóðs voru EKKI þau sem neytendur í heilbrigðu samfélagi hefðu mátt reikna með. Í stað þess að lækka vexti af íbúðalánum niður í það sem þá gerðist í nágrannaríkjum, afnema verðtrygginguna - sem þá var hægt - var sú ákvörðun tekin að hjálpa bönkunum við að leggja Íbúðalanasjóð niður. Heiður meðal skálka.

Það var gert með stórfelldri skuldabréfaútgáfu á vegum bankanna. Og hver haldið þið að hafi keypt þessi bréf? Það var rétt, Íbúðalánasjóður, þessi félagslega mikilvæga stofnun fór í kompaní með bönkunum og keypti bréf, sem féllu örend til jarðar í brunanum - á kjörum sem þið áttuð að njóta en fáið aldrei að vita hver voru. Ég hef áður sagt að þessi viðskipti varði við lög og ættu með réttu að vera til skoðunar hjá þar til bærum aðilum.

Afleiðing þessara drottinsvika við íslenska alþýðu, sem hefur álitið sig eiga öruggt skjól hjá þessari annars ágætu stofnun og hennar góða starfsfólki, er sú að téð alþýða sér nú á eftir blóðfé sínu í að greiða upp veisluna miklu. Þarna eins og annarsstaðar. Bankarnir hafa áfram allt sitt á þurru.

Víkjum þá aðeins að meintri íbúðaeign Íbúðalánasjóðs og bankanna. Vegna aðstæðna á íslenskum fjármálamarkaði og skorts á arðvænlegum fjárfestingum taka þessir aðilar glaðlega við hverri fullnustueign sem þeim er slegin af starfsmönnum sýslumannsembætta vítt og breytt um Ísland, á nauðungaruppboðum. Ekki gleyma tryggingafélögunum í þessu sambandi, sérstaklega einu þeirra sem var aðili að öllum þeim c.a. 450 nauðungaruppboðum sem fram fóru í Reykjavík á árinu 2009.

Sé horft framhjá efnisatriðum afsala um allan þorra fasteigna á landinu kemur allt önnur mynd í ljós en sú sem þessir markaðsstjórnendur vilja vera láta.

Þeir EIGA um 30.000 fasteignir, sé horft raunhæft á málin. Þeir hafa lýst því yfir að fullnustueignir verði ekki seldar nema í "miklum rólegheitum". Hvað þýðir þetta? Það þýðir að  þeir ætla áfram að beita valdi sínu til þess að stýra markaðinum og þið egið kost á því að taka hjá þeim verðtryggð lán á okurvöxtum til langs tíma. Verðið? 230 - 250.000 krónur á fermetrann.

Þessar sömu eignir hafa bankarnir og ÍLS "eignast " í gegn um eitt stærsta rán sem framið hefur verið á almenningshag á Íslandi og er þó miklu til að dreifa.

"Ránið" fer þannig fram að maður sem missir eign sína á nauðungaruppboði fær greiddar c.a. 100.000 krónur á fermetrann, tæplega fyrir láninu og öðrum hugsanlegum veðkröfum. Hann fær að sjálfsögðu ekkert af þessu fé. Kaupandinn greiðir sér það til þess að lækka veðskuldina.

Íbúðalanasjóður eða þinn elskulegi viskiptabanki tekur síðan eignina og selur hana á 230 - 250.000 fermetrann, TIL ÞESS AÐ HALDA VIÐ JAFNVÆGISVERÐI Á MARKAÐI. Ekki vilja þessir góðu herrar rugga bátnum. Þeir eru að verja eignir ykkar, ekki satt?

Hvað gerist svo? Bankinn eða sjóðurinn sendir hinum landlausa manni reikning fyrir mismuninum á framreiknaðri upphæð hins þrí-verðtryggða láns og þess sem "fékkst" upp í kröfuna á uppboðinu - kannski svona eins og 7,5 milljónir fyrir snyrtilegt 15.0 milljón króna lán á 3ja herbergja íbúð.Hinn húslausi skuldar semsagt 7,5 milljónir eftir að búið er að taka af honum eignina og henda honum út. Er þá ógetið þess eigin fjár sem skuldarinn hafði lagt fram við kaup sín á viðkomandi eign. Því er líka stolið.

Bókhaldsleg meðferð þessara talna er svo nokkurn veginn á þann veg að þessar 7,5 milljónir sem stofnunin telur sig hafa tapað (oftast c.a. vísitöluhækkunin frá okt. 2008) er færð á afskriftareikning. Að ákveðnum tíma liðnum er krafan færð í núll og eykst þá nettó staða á efnahagsreikningi sem nemur upphæðinni vegna þess að þá stendur bókfært verð eignarinnar eftir óskert. Þegar stofnunin selur svo eignina aftur á "frjálsum" markaði innleysir hún hagnað sem nemur mismuninum á innlausnarverði og markaðsverði. Hagnaðurinn er færður í sjóð og sýnir þar stöðugt batnandi stöðu stofnunarinnar og lausafjárgnótt.

Uppboðsþolinn fær þennan glaðning í pósti eftir að fullnustudeild hjá viðkomandi sýslumannsembætti hefur samþykkt frumvarp til úthlutunar söluverðs, c.a. 3. mánuðum eftir að eignin var gerð upptæk.

En það er ekki alveg allt. Húseigandanum fyrrverandi er jafnframt tilkynnt að hann skuli ekki reikna með lánafyrirgreiðslu til annarra íbúðakaupa næstu 4-5 árin.

Stofnanir þær sem hér er rætt um munu gera ALLT til þess að verja hagsmuni sína á ykkar kostnað á komandi árum.

Hversu vitlaust er þá þetta allt? Jú, þið sjáið hversu bilað það er að fasteignaverð hækki í landi þar sem hagkerfið og þjóðarframleiðsla skreppa saman um 3-5% á ári, vegið í rauntölum. Ef menn sjá hlutina í þessu samhengi, þá er skilningurinn flestum léttur. 

Þetta eru svik eins og svo margt annað, en fólk kærir sig kollótt. Það á fárra góðra kosta völ.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Haukur Gíslason

Hækkun fasteignaverðs má helst skýra með auknum kaupmætti, aukinn aðgangur að lánsfé og takmarkað framboð af húsnæði. Ekkert af þessu er til að dreifa núna.

Ég hef líka efasemdir um að fasteignaverð sé í raun á uppleið. Markaðurinn fraus algerlega haustið 2008 og þó svo að fasteignir seljist nú á hærra verði en í fyrra þá er sá viðmiðunarpunktur hálf marklaus.

Sigurður Haukur Gíslason, 14.8.2011 kl. 11:06

2 identicon

Mjög góð samantekt á einni ótrúlegustu svikamillu banka, tryggingafélaga og ríksivaldsins, þar sem íbúðakaupendur eru bókstaflega teknir upp á löppunum og hristir til að hirða örugglega allt sem fólkið á. Síðan er því hent á ruslahaug gjaldþrota og uppboða ef einhver innheimtufyrirtæki sjá möguleika á nokkrum aurum í viðbótar.

Þú skrælir fagurgalan og orðaflauminn utan af rotnandi kjarnanum og við blasir bankakerfi og ríkisvald sem hefur engan áhuga á hag fólkisins í landinu eða þá viðskiptavinum sínum.

Sveinn Úlfarsson (IP-tala skráð) 14.8.2011 kl. 12:03

3 Smámynd: Sumarliði Einar Daðason

Þetta er mjög góð samantekt hjá þér!

Íbúðalánasjóður á að starfa eftir lögum nr. 44/1998 um húsnæðismál en þar brýtur sjóðurinn gegn 1. gr. laganna.

Í raun þyrftu einhverjir að taka sig saman og kæra Íbúðalánasjóð. En það er auðvita ömurlegt að vera með svona stofnun upp á móti sér um ókomna tíð.

Sumarliði Einar Daðason, 14.8.2011 kl. 12:31

4 Smámynd: Guðmundur Kjartansson

Takk fyrir góð innlegg!

Sumarliði, við erum öll frjáls í þessu fallega landi. Ég veit af þöggunarþrælkuninni og er sama. 

Segjum það sem rétt er og sanngjarnt og þolum ekki neitt annað. Ætli einhverjir sér að stemma stigu við því, þá munum við láta sverfa til stáls. 

Þögnin hjá þolendum sannleikans staðfestir það sem sagt er.

Guðmundur Kjartansson, 14.8.2011 kl. 13:25

5 Smámynd: Ómar Gíslason

Góð samantekt.

Ég velti fyrir mér hvað mikið af þessum sölum er innan sama fyrirtækis eða fyrirtækishóps? Það hefur sýn sig síðustu 100 árin að það getur spilað stóra rullu.

Ómar Gíslason, 14.8.2011 kl. 14:00

6 Smámynd: Guðrún María Óskarsdóttir.

Kærir þakkir fyrir þennan góða pistil.

kv.Guðrún Maria.

Guðrún María Óskarsdóttir., 15.8.2011 kl. 01:37

7 Smámynd: Hörður Halldórsson

  Man loforð Framsóknarflokksins fyrir þingkosningarnar 2003 um l 90% lánin.

Held að margir  hagfræðingar og viðskiptafr..  hafi varað við því. Máttu  þó eiga það .

Hörður Halldórsson, 15.8.2011 kl. 12:06

8 Smámynd: Högni Jóhann Sigurjónsson

Þetta er frábær pistill, ég stalst til þess að setja hann á Facebookið mitt.

Það er eitt sem við erum að spegulera í hvert er tryggingafélagið ?

Högni Jóhann Sigurjónsson, 15.8.2011 kl. 18:50

9 identicon

Leyfi mér að taka þennan góða pistil og birta á svipan.is
Bestu þakkir.

Margrét Sigurðardóttir (IP-tala skráð) 16.8.2011 kl. 00:20

10 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Takið þátt í undirskriftasöfnun heimilanna: http://undirskrift.heimilin.is

Bestu þakkir.

Guðmundur Ásgeirsson, 16.8.2011 kl. 01:58

11 Smámynd: Guðmundur Kjartansson

Sæl öll og takk fyrir vinsamleg viðbrögð. Dreifið þessu sem lengst og víðast!

Hér er aðal greinin um þessi mál, skrifuð á bloggið 6. maí sl.  Notist að vild:

http://falconer.blog.is/blog/falconer/entry/1164878 

KV.

Guðmundur Kjartansson, 16.8.2011 kl. 08:46

12 Smámynd: Högni Jóhann Sigurjónsson

Takk fyrir það, en ég er að reyna að átta mig á því hvaða tryggingafélag þú talar um hér að ofan.

Högni Jóhann Sigurjónsson, 16.8.2011 kl. 13:38

Um bloggið

Guðmundur Kjartansson

Höfundur

Guðmundur Kjartansson
Guðmundur Kjartansson
Fæddur í Reykjavík, uppalinn í Borgarfirði. Hef lengst af starfað við verslun og viðskipti, landbúnað og ferðamál. Stúd. MR. Nám við H.í. og síðar í Bandaríkjunum. Lauk þaðan BA í Busin. Adm. Finance og síðar MBA af stjórnunarsviði. Endurmenntun og fjöldi námskeiða HÍ og HR. Hef ritað talsvert í blöð, m.a. um skatta- og tollamál, landbúnað ofl. Á blog.is síðan í feb. 2011. Meðlimur í Fél. Viðskiptafræðinga og Hagfræðinga frá 2000.
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • ...9794_3856_n

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (27.4.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 11
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 11
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband